Sveinn Óskar Sigurðsson

Sjálfstæðisflokkurinn og fólkið í landinu

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir kjörorðinu stétt með stétt. Við þurfum nú að skerpa þessar línur á ný og tryggja bakland flokksins.
Baklandið er bjartsýnt en með bakþanka og vil ég taka upp kjörorðin kynslóð með kynslóð samhliða því að leggja áherslu á að tryggja beri velferð í þessu landi. Velferðin skal mótast af hógværð í skattheimtu, sókn í atvinnulífinu, virðingu fyrir lögum og styrkum grunnstoðum til handa ungu fólki sem og öldruðum.

Sem frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sækist ég eftir að þú, lesandi góður, styðjir mig í 3. – 4. sæti. Ég er sprottin úr jarðvegi verkalýðshreyfingar. Að vera alinn upp innan um menn eins og Pétur Sigurðsson er byggði upp Hrafnistu, Guðmund J. Guðmundsson (Guðmund Jaka) og aðra sem bentu mér á gæskuna óháð stjórnmálum og argaþrasi dagslegs lífs. Vil ég byggja brýr vinskapar við pólitíska félaga sem og andstæðinga til að tryggja velferð á Íslandi, umhyggju og sterkt efnahaglíf. Foreldrar mínir eru mín fyrirmynd hvað þetta varðar. Má benda á baráttu föður míns sem Sjálfstæðismanns, fyrrum varaþingmanns og formanns Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Þessi kynslóð er sú sem byggði upp sjóði okkar hinna yngri, lánasjóði fyrir námsmenn, lánasjóði til íbúðarkaupa og umgjörð alla svo að þjóðin næði langt.

Tilfinning mín er sú að þegar við höfum nú gert vel hvað kaupmátt almennings varðar sé það ætlunarverk þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem sest næst á þing, að leiðrétta kjör eldri kynslóðann. Það verður að stagbæta öryggisnet þessa hóps sem byggði upp þetta land. Einnig ber að gæta að barnafólki og hlúa að ungu fólki sem á að geta fjárfest í íbúð eða byggt þak yfir fjölskyldu sína.
Þörf er á að löggjöf varðandi eldri borgara verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að skerðingar verði lágmarkaðar og lífsgæðin hámörkuð. Þar spilar einnig inn öll meðferð öldrunarmála. Umönnunarþyngd aldraða mun aukast á næstu árum þegar eldri borgurum fjölgar. Samhliða eykst krafan um aukinn sveigjanleika og minni skerðingar vegna vinnuframlags duglmikilla einstaklinga. Lífeyriskerfið ber að einfalda og auka á sveigjanleika þess til að taka þátt í uppbyggingu innviða samfélagsins með beinum hætti svo ávaxta megi til lengri framtíðar.

Markmið mín eru fleiri og fjölmörg. Legg ég hér þó sérstaka áherslu á málefni aldraða og ungs fólks. Til að við getum náð árangri á því sviði skiptir miklu máli að eiga fyrir þessu, borga niður skuldir hins opinbera svo að breytingar til batnaðar verði varanlegar en ekki teknar að láni. Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel í að greiða niður skuldir og hefur það nú komið ríkissjóði vel sem stendur betur með hverju árinu sem líður. Höldum þessum kúrs og stefnum áfram að því að bæta hag Íslendinga. Skiptum svo rétt þegar við höfum ráð á slíku og deilum til þeirra sem lögðu til fyrir okkur hin. Við verðum að lækka skatta á eldri borgara og draga úr skerðingum. Framkvæmum þetta með trúverðugum og varanlegum hætti og gætum þess að allir hafi borð fyrir báru í lífsins ólgusjó.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Jón Gunnarsson

Forgangsmál að atvinnulífinu og einstaklingunum séu skapaðar aðstæður til sóknar og framfara

Jón Gunnarsson

Jón Gunnarsson

Kæru sjálfstæðismenn.
Kjörtímabilið sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur verið viðburðaríkt. Árangursríkt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur skilað fjölmörgum framfaramálum í höfn, landsmönnum öllum til hagsbóta.
Verðbólga hefur verið í sögulegu lágmarki, kjör almennings hafa stórbatnað bæði vegna aukins kaupmáttar vegna hækkunar launa og auknum ráðstöfunartekjum vegna skattalækkana sem við sjálfstæðismenn höfum barist fyrir. Nú sér fyrir endann á afnámi fjármagnshafta undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem skapar grundvöll til framtíðar fyrir áframhaldi í bættum lífskjörum. Ég hef verið í forystu fyrir Atvinnuveganefnd Alþingis á kjörtímabilinu, en undir nefndina heyra málefni atvinnulífsins í landinu, þ.e. sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðaþjónustu. Þessar atvinnugreinar eru grundvöllurinn undir þjóðfélaginu sem við lifum í og lífæð samfélagsins.
Ef atvinnulífið skilar ekki sínu; skapar fólki atvinnu og tekjur, framleiðir verðmæti til innanlandsnota og útflutnings og skilar ríkinu beinum og óbeinum skatttekjum, er til lítils barist. Öll opinber þjónusta hverju nafni sem hún nefnist byggir á fjármunum sem atvinnulífið myndar á einn eða annan máta. Þess vegna er það forgangsmál að atvinnulífinu og einstaklingunum séu skapaðar aðstæður til sóknar og framfara.
Í þessu samhengi er grundvallaratriði að fólkið í landinu, atvinnulífið og stjórnvöld séu ásátt um þær leikreglur sem unnið er eftir. Sífelldar deilur um umgjörð atvinnulífsins eru meinsemd sem verður að uppræta. Það verður að ríkja sátt um samspil atvinnulífsins og einstaklinganna. Fyrir slíkri sátt mun ég beita mér af alefli á næsta kjörtímabili, fái ég til þess traust kjósenda.
Umgjörð helstu atvinnugreina landsins, sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar og ferðaþjónustu hefur allt of lengi verið bitbein stjórnmálamanna. Þar hafa of margir farið fram með óábyrgum hætti og lagt fram algerlega óraunhæfar tillögur. Þetta á t.a.m. við um sjávarútveginn. Í þeim málaflokki hef ég kynnt hugmyndir um blandaða leið sem tekur tillit til sjónarmiða beggja aðila, þ.e. þeirra sem halda vilja í gildandi fyrirkomulag um auðlindagjald og hinna sem vilja bjóða upp aflaheimildirnar. Ég vil koma til móts við sjónarmið beggja, án þess þó að raska starfsumhverfi greinarinnar en skapa samt rými fyrir nýja aðila að hasla sér völl í sjávarútvegi.
Landbúnaðurinn og búvörusamningur sem ráðherra gerði við bændur hefur skapað deilur undanfarið. Ég hef barist fyrir sátt um málið, þannig að samningstíminn verði styttur verulega. Næstu þrjú ár verði nýtt til að gera þjóðarsátt um greinina með aðkomu neytenda, verslunar, bænda og verkalýðsfélaga undir forystu Alþingis. Sama á við um samspil orkufreks iðnaðar og náttúruverndar. Þar er forgangsmál að ná sátt um hvaða svæði megi nýta og hver beri að friða. Með það að leiðarljósi mun ég beita mér fyrir umtalsverðri stækkun friðlands á hálendi Íslands sem yrði ósnortið um alla framtíð.

Jón Gunnarsson alþm.

Sema Erla Serdar

Byggjum eitt samfélag fyrir alla!

Sema Erla Serdar

Sema Erla Serdar

Íslenskt samfélag er í stöðugri þróun. Breytt samfélag þýðir breyttar áherslur og nýir tímar þýðir nýjar áskoranir. Krafan um ný stjórnmál og ný vinnubrögð hefur sjaldan verið háværari og hún hefur sjaldan verið réttmætari.
Sérhagsmunaöflin og auðvaldið hafa alltof lengi ráðið för í samfélaginu og við hin höfum um of langan tíma þurft að lúta í lægra haldi. Kerfisbreytingar hafa reynst ómögulegar, loforð eru svikin, gagnsæið er ekkert og lýðræðið hefur orðið undir í keppninni um völd og auð. Niðurstaðan er landflótti ungs fólks, húsnæðismarkaður sem er í molum, ónýtt heilbrigðiskerfi og aðför að menntakerfinu. Niðurstaðan er sú að árið 2016 finnst varla sá hópur sem ekki er enn að berjast fyrir bættum kjörum, virðingu og réttlæti. Má þar m.a. nefna barnafjölskyldur, öryrkja og eftirlaunafólk. Þessu þarf að breyta strax!

Helsta verkefnið fram undan er að endurmóta íslenskt samfélag í anda hugsjóna jafnaðarmanna, byggja þarf upp eitt samfélag fyrir alla þar sem grundvallar lífsgæði almennings eru tryggð, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi og grunnstoðirnar eru í lagi. Samfélag þar sem réttlæti, velferð og mannréttindi allra eru tryggð.
Þar á endurreisn heilbrigðiskerfisins að vera forgangsatriði. Aðgengi að slíkri þjónustu á aldrei að vera háð fjárhagsstöðu einstaklinga og því á hún að vera gjaldfrjáls. Útrýma þarf löngum biðlistum sjúklinga og bæta þarf aðgengi. Bæta þarf kjör eftirlaunafólks og öryrkja án tafar og gera þarf betur við barnafjölskyldur. Fjárfesta þarf í menntakerfinu og gera það aðgengilegt öllum, óháð aldri, búsetu eða fjárhag. Greiða þarf úr gríðarlega alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaði og gera ungu fólki auðveldara að eignast þak yfir höfuðið.

Áskoranirnar eru margar en áskorunum fylgja tækifæri. Nú er tækifæri til þess að byggja raunverulega eitt samfélag fyrir alla – þar sem ungir Íslendingar vilja og geta byggt sér framtíð og þeir sem eldri eru vilja vera áfram hluti af. Því er mikilvægt að flokkur jafnaðarmanna svari ofangreindum kröfum og mæti sterkur til leiks í komandi kosningum svo hann komist í stöðu til þess að tryggja Íslendingum betra og réttlátara samfélag.
Ég vil leggja mitt af mörkum í því mikilvæga verkefni sem fram undan er og því sækist ég eftir 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi
og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar

Óli Björn Kárason

Vinafáir skattgreiðendur og metnaður þingmanna

Óli Björn Kárason

Óli Björn Kárason

„Ef það hreyfist skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.“
Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, um skattastefnu vinstri manna.

Skattgreiðendur eiga fáa vini og enga meðal vinstri manna. Útgjaldasinnar og þeir sem standa í þeirri trú að flest vandamál sé hægt að leysa með því að auka útgjöldin, eiga sér hins vegar marga málsvara og harða stuðningsmenn. Millistéttin – burðarásinn í íslensku samfélagi og skattkerfi – getur ekki reiknað með að milliþrep í tekjuskatti verði fellt niður, ef vinstri flokkarnir mynda ríkisstjórn eftir kosningar. Sjálfstæðir atvinnurekendur ættu einnig að hafa áhyggjur líkt og eldra fólk þegar eignaskattar verða innleiddir að nýju undir hatti auðlegðarskatts, líkt og vinstri flokkarnir hóta. Það verður gengið hart fram í anda skattastefnu vinstri stjórnar sem kenndi sig við norræna velferð.

Það virðist vera erfitt fyrir vinstri menn að læra það sem John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, reyndi að kenna samverkamönnum sínum fyrir liðlega 50 árum:
„Efnahagskerfi sem er þrúgað af háum sköttum mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.“
Í komandi alþingiskosningum verður tekist á um stefnuna í skattamálum og þar með möguleika okkar til að byggja sameiginlega upp öflugt heilbrigðis- og almannatryggingakerfi. Það verður tekist á um það hvort við nýtum tækifærin sem hafa skapast til að ráðast í umfangsmiklar innviðafjárfestingar í samgöngum og í menntakerfinu, með því að gæta hófs í álögum ríkisins. Barátta skattgreiðandans að fá að ráðstafa sjálfur sem mestu af sjálfsaflafé sínu er hins vegar ójöfn. Kröftugir sérhagsmunahópar hvetja skattmann áfram og þeir eru studdir af öflugum fjölmiðlum.
Ég mun taka mér stöðu við hlið skattgreiðandans og millistéttarinnar. Verði ég kjörinn þingmaður Suðvesturkjördæmis vil ég brjóta gamla og útelta mælistiku sem notuð er fyrir Alþingi. Mælistiku sem búin hefur verið til af fjölmiðlum og meirihluta þingmanna og miðast við að sem flest mál séu afgreidd. Því fleiri lagafrumvörp og því fleiri þingsályktanir því betra er þinghaldið. Afkastamikið þing er sagt gott þing. Ráðherrar eru vegnir og metnir út frá fjölda lagafrumvarpa sem þeir leggja fram. Fjölmiðlar hampa þeim þingmönnum sem hæst og oftast tala.

Gæði og skýrleiki lagasetningar er orðið aukaatriði en einstaklingum og fyrirtækjum er ætlað að starfa innan ramma óskýrra lagatexta og fyrirmæla og síbreytilegra leikreglna.
Metnaður þingmanna á ekki að vera bundinn við hversu mörg mál þeir afgreiða. Metnaðurinn á að vera bundinn í efni og innihaldi, skýrleika og einfaldleika. Um leið eiga þingmenn að grisja lagafrumskóginn, einfalda gildandi lög og gera þau skýrari, takmarka heimild til setningar reglugerða og vinna að því að auka svigrúm einstaklingsins, í stað þess að sækja að honum.

Óli Björn Kárason
Höfundur býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Karen Elísabet Halldórsdóttir

Tækifæri í ferðaþjónustu

Karen Elísabet Halldórsdóttir

Karen Elísabet Halldórsdóttir

Það eru endalaus tækifæri í auknum ferðamannastraumi til landsins. Í raun má segja að stefna Sjálfstæðisflokksins geti kristallast í þessari þjónustugrein sem miðar að því að hver og einn hafi tækifæri til að stofna fyrirtæki til að sjá sér og sínum farborða.
Það hefur verið ótrúlega jákvætt að fylgjast með hverju fyrirtækinu og frumkvöðlinum á fætur öðrum grípa þessar gullnu gæsir sem hingað koma til að skoða landið og kynnast þjóðinni. Veitingastaðir spretta upp, bæði í þéttbýli sem dreifbýli. Ævintýraferðir seljast eins og heitar lummur, hvort sem þær eru gerðar til að ferðast um í 101 eða víðáttunni á hálendinu. Til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna þurfa allir innviðir að vera sterkir.
Allt er þetta jákvætt fyrir íslenskan efnahag en margt má betur undirbúa. Ákveðið ráðleysi hefur einkennt tilraunir til gjaldtöku svo efla megi innviðina. Náttúrupassinn var ágætis hugmynd, nútímaleg en flókin í kynningu sem og hafa komugjöld verið ítrekað rædd en því miður lítið orðið um framkvæmdir í þeim efnum. Gistináttagjaldið þarf mögulega að hækka ef ekkert er að gert í annarri gjaldtöku.
Þegar ég nefni að verðum að efla innviðina þá er ég ekki bara tala um að bæta klósettaðstöðu við Gullfoss. Við verðum að gæta betur að t.d. öryggi ferðamanna sem vafra hér um grunlausir um ýmsar hættur hrjóstugs lands. Ekki getum við endalaust treyst á duglegar björgunarsveitir í sjálfboðavinnu og gengið fram af því góða starfi.
Því miður hafa orðið og verða án efa bæði slys og dauðsföll vegna þess að ekki er farið nægilega varlega. Kynna verður hættur landsins og mögulega hvetja ferðamenn að tryggja sig við komu. Athafnir sem eru okkur tamar og þekktar geta valdið mikilli örvæntingu þeirra sem ekki þekkja íslenskt umhverfi. Einbreiðar brýr, þröngir akvegir og íslenskt veðrátta er eitthvað sem fáir eru undirbúnir fyrir.

Karen Elísabet Halldórsdóttir
sækist eftir 3.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

89% nýttu sér frístundaávísunina – við getum gert betur

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Frá árinu 2010 hefur Mosfellsbær greitt út tæplega 165 milljónir króna í frístundaávísanir til handa börnum og unglingum á aldrinum 6-18 ára í Mosfellsbæ.
Á árinu 2015-2016 var 89% nýting á frístundaávísunum, sem er mesta hlutfall ávísana sem nýtt hefur verið til þessa í Mosfellsbæ. Betur má en duga skal, markmiðið hjá Íþrótta og tómstundanefnd Mosfellsbæjar er að öll börn í Mosfellsbæ sem stunda einhverja frístund nýti sér ávísanirnar.
Nú er nýtt frístundaávísanatímabil að hefast í Mosfellsbæ. Gerðar voru breytingar á úthlutunarreglum sem veita barnmörgum fjölskyldum möguleika á hærri styrk til úthlutunar. Samhliða breytingum á úthlutunarreglum var tekin ákvörðun um að taka upp notkun á Frístundakerfi tengt Nóra til að halda utan um úthlutun frístundaávísana.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í fjárhagsáætlun 2016 síðastliðið haust að frístundaávísun hækki sérstaklega fyrir barnmargar fjölskyldur. Frístundaávísun fyrir fyrsta barn verður eftir sem áður 27.500 kr. en breytingin felur í sér að heildar upphæð frístundaávísunar hækkar um 25% við annað barn og aftur um 25% við þriðja barn. Þegar foreldri sækir um frístundaávísun á íbúagátt/hjá félagi kemur hækkun á upphæð ávísunar sjálfkrafa fram eftir fjölda barna sem skráð eru með sama lögheimili hjá foreldri.
Skráningar eru nú hafnar hjá flestum félögum fyrir tímabilið 2016-2017 og er hægt að skrá sitt barn í gegnum íbúagáttina á www.mos.is. Ég vek athygli á því að barn sem á rétt á frístundarávísun þarf ekki endilega að stunda sína frístund í Mosfellsbæ.

Rúnar Bragi Guðlaugsson.
Formaður íþrótta- og tómstundanefndar Mosfellsbæjar.

Hulda Margrét Rútsdóttir

„Skottmarkaður“ í Þverholti, gönguvinir og heimanám

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Við þökkum fyrir góðar viðtökur á skottmarkaðnum en við seldum notuð föt og fylgihluti á bæjarhátíðinni 27. ágúst. Það sem var ekki síður mikilvægt var að fá tækifæri til að hitta fólkið í bænum og kynna verkefnin hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ en það er ýmislegt framundan. Það gefur meðbyr fyrir veturinn að finna fyrir jákvæðni í garð deildarinnar.
Við höfum ákveðið að vera með fatamarkaðinn örlítið lengur. Enn er hægt að gera góð kaup á fötum, skóm og fylgihlutum og verður hann opinn næstu tvær vikur þegar starfsemi er í húsinu eða starfsmaður á staðnum. Best er að hafa samband í síma 898 6065 eða senda línu á hulda@redcross.is til þess að ganga úr skugga um að það sé opið.
Mánudaginn 12. september verður opið frá 16:15-18:15. Hægt er að skoða myndir og verð á facebooksíðu Rauða krossins í Mosfellsbæ.
Gengið er frá Rauða kross húsinu í Mosfellsbæ, Þverholti 7 alla mánudaga og fimmtudaga frá klukkan 16:15. Um er að ræða létta göngu í góðum félagsskap en það er gengið í 30-40 mínútur. Okkur vantar sjálfboðaliða til að stýra göngunni öðru hvoru og við viljum einnig gjarnan stækka gönguhópinn. Þetta er upplagt tækifæri fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér af stað en það er alkunna að ferskt loft og hreyfing getur gert kraftaverk fyrir heilsuna. Ekki hika við að hafa samband ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða bara mæta á staðinn.
Heimanámsaðstoðin byrjar næsta þriðjudag, 13. september. Aðstaðan verður á bókasafni Mosfellsbæjar og eru allir krakkar í 1-10 bekk velkomnir sem aðstoð þurfa. Það verður létt og afslappað andrúmsloft þar sem hver og einn fer á sínum hraða. Þetta er tilvalið fyrir börn með námsörðugleika eða þá sem hafa íslensku sem annað tungumál – nú eða fyrir þá sem vilja klára lærdóminn snemma í vikunni.

Hulda Margrét Rútsdóttir
Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ

Ólöf Kristín Sívertsen

Upp, upp mitt geð

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vonandi hafa allir notið sumarsins í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir veturinn. Við í Heilsueflandi samfélagi ætlum að halda áfram uppteknum hætti og munu haustið og veturinn bera ýmislegt spennandi og skemmtilegt í skauti sér.

„Hugsaðu jákvætt, það er léttara“
Sýnt hefur verið fram á það að hafa jákvæðni í orði fyrir augunum hjálpar okkur við að beina huganum á jákvæðar brautir og þá verður lífið einhvern veginn auðveldara. Margir hafa orðið sér úti um myndir og skilti með alls kyns jákvæðni og hafa þeir hinir sömu alveg klárlega upplifað þessi áhrif á eigin skinni. Eitt síðasta verk Vinnuskóla Mosfellsbæjar nú í sumar að einmitt að mála jákvæð skilaboð til bæjarbúa á gangstéttir bæjarins. Frábært framtak til að hjálpa okkur að hugsa jákvætt því það er í raun og sann léttara!

Í túninu heima
Bæjarhátíð okkar Mosfellinga, Í túninu heima, verður haldin með pompi og prakt núna um helgina. Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð með heilsueflandi ívafi þar sem aðal markmiðið er að ungir sem aldnir komi saman, auðgi andann og njóti samverunnar með fjöldskyldu og vinum. Dagskráin er að venju glæsileg en hana má finna á heimasíðu bæjarins og að sjálfsögðu hér í Mosfellingi.

Tindahlaupið
Eitt skemmtilegasta hlaup sumarsins, Tindahlaupið í Mosfellsbæ, er framundan og verður einn af hápunktum bæjarhátíðarinnar Í túninu heima. Í þessu náttúru- og/eða utanvegahlaupi verða fjórar útfærslur í boði, þ.e. 7 tindar (37 km), 5 tindar (35 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). Hlaupið verður laugardaginn 27. ágúst og því tilvalið að reima á sig skóna og velja sér áskorun við hæfi. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum Mosfellsbæjar mos.is og hlaup.is

Fellaverkefni og ratleikur
Við munum í samvinnu við Ferðafélag Íslands blása á ný til Fellaverkefnis nú í haust með aðeins breyttu sniði þar sem göngunum verður dreift yfir lengri tíma en í fyrra. Við munum einnig ýta úr vör ratleik sem við höfum verið að útbúa í samvinnu við nemendur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Ferðafélagið. Nánari upplýsingar um þetta hvort tveggja verður að finna í næsta Mosfellingi þannig að þið getið strax farið að láta ykkur hlakka til.

Það verður sem sagt af nógu að taka og hvetjum við ykkur sem fyrr til að taka þátt í þessu frábæra verkefni sem Heilsueflandi samfélag er. Hlúum að því sem okkur þykir vænt um og verum til fyrirmyndar!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Elín Hirst

Heilbrigðisþjónusta í fremstu röð

elinhirst

Elín Hirst

Heilbrigðismálin verða í forgangi hjá Sjálfstæðisflokknum á næsta kjörtímabili eins og formaður flokksins hefur boðað.
Ég fagna þeirri sýn og er þeirrar skoðunar að enda þótt vægi heilbrigðismála hafi aukist verulega undir forystu núverandi ríkisstjórnar þurfi að gera enn betur á næstu árum. Þar er að mörgu að hyggja.

Við þurfum að efla enn frekar heilsugæsluna og styrkja okkar aðal sjúkrahús Landspítalann við Hringbraut. Fyrir liggur áætlun um meiriháttar endurbætur og endurbyggingu spítalans, auk kaupa á nýjum tækjum. Hafin er bygging sjúkrahótels á lóð spítalans við Hringbraut og miklu skiptir að hefjast sem fyrst handa við byggingu nýrrar bráðadeildar.
Mín skoðun er sú að einnig sé tímabært að skoða og ræða byggingu annars fullkomins hátæknispítala, sem við Íslendingar þurfum að geta tekið í notkun eftir 20-30 ár. En það er verkefni númer tvö, á eftir því að klára margsamþykkta uppbyggingu við Hringbraut.

Eldri borgurum þessa lands fer hratt fjölgandi á næstu árum og við þurfum að geta hlúð að þeim, hvort heldur er með heimahjúkrun eða á hjúkrunarheimilum. Börn og unglingar eiga því miður í vaxandi mæli við ýmis kvíðavandamál að stríða og þeim vanda verðum við að mæta og tryggja að þeim líði vel og þau blómstri. Þau eru jú framtíðin. Langveikum börnum fjölgar hér á landi. Þau eru oft að kljást við sjaldgæfa og mjög erfiða sjúkdóma og eiga að fá bestu þjónustu sem völ er á.

Þetta eru dæmi úr fjölbreyttri flóru viðfangsefna heilbrigðisþjónustu sem þarf að taka myndarlega á. Sjálfstæðisflokkurinn lofar aukinni áherslu á bætta samfélagsþjónustu, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu Landspítalans og bætta heilbrigðisþjónustu með stórauknum fjárframlögum á næsta kjörtímabili. Þetta getum við ekki síst vegna þess að ríkissjóður stendur vel eftir okkar ríkisstjórn.
Staðfesta í ríkisfjármálum er og verður kjölfestan í okkar stefnu. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi og áhersla lögð á að greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrðina. Lækkun vaxtagreiðslna er fundið fé og við munum einmitt uppskera af þessum verkum á næstu árum.
Mitt aðalkeppikefli er að Íslandi geti í náinni framtíð státað af heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Annað er ekki í boði.

Kær kveðja, Elín Hirst alþingismaður.
Ég býð mig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi 10. september nk.

Ólöf Kristín Sívertsen

Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu. Margir eru nú þegar komnir í frí og enn aðrir farnir að telja niður dagana af tilhlökkun.

Samvera og vellíðan
Lífsmynstur margra breytist á sumrin og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Njótum náttúrunnar á hreyfingu
Sumarið er ekki hvað síst tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær svo sannarlega upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugarnar og hvernig væri síðan að gera gönguáætlun með fjölskyldunni? Við fjölskyldan erum t.d. búin að ganga á Úlfarsfellið og Mosfell oftar en einu sinni í ár. Svo eru einnig spennandi göngu- og hjólaleiðir á láglendinu, t.d. meðfram ströndinni, í kringum Álafosskvos, í Reykjalundarskógi, meðfram Varmánni og svo mætti lengi telja. Þess utan er líka gaman að nýta þá frábæru aðstöðu sem er t.d. í boði á Stekkjarflöt, í Hamrahlíðarskóginum og Ævintýragarðinum til að bregða á leik og endurvekja barnið í sjálfum sér. Þarna er hægt að ná skemmtilegu markmiði í hverri ferð þar sem náttúran og félagsskapurinn spila að sjálfsögðu stærsta hlutverkið. Hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir.

Fjölbreyttur matur – vöndum valið
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæða hráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Fyrir hönd okkar sem stýrum Heilsueflandi samfélagi þá þökkum við fyrir frábært samstarf í vetur og hlökkum til að halda vegferðinni áfram í haust í samvinnu við ykkur, frábæru Mosfellingar. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Bjarki Bjarnason

Umhverfisviðurkenningar – nýjar reglur

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Undanfarin ár hefur Mosfellsbær veitt viðurkenningar til þeirra sem hafa skarað fram úr við að gera bæinn okkar enn fallegri. Þær hafa verið veittar í þremur flokkum: fallegasti húsagarðurinn, snyrtilegasta íbúagatan og fyrirtæki eða stofnanir sem hafa skapað fagurt og snyrtilegt umhverfi.
Þessi skipting er að sumu leyti barn síns tíma því sífellt fleiri láta sig fallegt og heilnæmt umhverfi varða með fjölbreyttum hætti, bæði einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og fleiri. Þess vegna hefur verið gerð breyting á þeim ramma sem gildir um umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar.

Nýjar reglur
Á fundi sínum 9. júní sl. samþykkti umhverfisnefnd Mosfellsbæjar eftirfarandi reglur: ,,Umhverfisnefnd samþykkir að breyta reglum um umhverfisviðurkenningar á þann veg að núverandi flokkaskipting verði afnumin. Þess í stað verði veittar viðurkenningar í einum opnum flokki. Innan hans rúmast m.a. íbúagötur, húsagarðar, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og einstaklingar. Veittar verði að hámarki 5 viðurkenningar á sérhverju ári.“ Með þessum breytingum er ætlunin að ná til breiðari hóps; allir sem hafa látið sig umhverfismál og fegrun bæjarins varða með einum eða öðrum hætti koma til greina.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Tilnefningar frá bæjarbúum
Vert er að vekja athygli á því að allir bæjarbúar geta lagt fram ábendingar/tilnefningar um þá sem þeir telja að eigi þessar viðurkenningar skilið, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir eða einhverja aðra. Hægt er að senda tilnefningar rafrænt á heimasíðu Mosfellsbæjar eða með tölvupósti á netfangið mos@mos.is. Með þessu móti skapast lýðræðislegur farvegur fyrir hinn almenna bæjarbúa til að taka þátt í því ferli sem framundan er og skulu tilnefningarnar berast fyrir 1. ágúst 2016.

Í túninu heima
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar verða sem fyrr afhentar í sumarlok, á bæjarhátíðinni Í túnina heima. Nafn þessarar vinsælu hátíðar er sótt í bókartitil eftir Halldór Laxness en þetta heiti má túlka á ýmsa vegu. Það er einmitt í túninu heima hjá okkur sjálfum sem bestu breytingarnar hefjast. Sérhvert okkar getur fundið farveg og verkefni til að stuðla að umhverfisvænni veröld og lagt um leið lóð á vogarskálarnar í þessum mikilvæga málaflokki.

Gleðilegt umhverfissumar!

Bjarki Bjarnason, formaður
umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Örn Jónasson, varaformaður.

Bryndís Haralds

Uppbygging í Mosfellsbæ

Bryndís Haralds

Bryndís Haralds

Það fer ekki fram hjá neinum sem leið á um Helgafellshverfi þessar vikurnar að þar er mikið um að vera. Helgafellshverfið er núna stærsti vinnustaðurinn í Mosfellsbæ, þar vinna smiðir, múrarar og fleiri iðnaðarmenn að því að reisa í kringum 400 íbúðir. Uppbyggingin í Leirvogstungu er einnig mikil en þar eru um þessar mundir um það bil 100 íbúðir í byggingu.
Þessi uppbygging er öll í samræmi við áætlanir, reyndar er töluvert langt síðan þessi hverfi voru tilbúin fyrir uppbyggingu en það er ekki fyrr en núna sem byggingariðnaðurinn er farinn að taka aftur við sér eftir hrun.
Í þessum hverfum fullbyggðum gætu búið ríflega 4000 manns, gert er ráð fyrir um 1200 íbúðum í Helgafellshverfi öllu og rúmlega 400 íbúðum í Leirvogstungu. Til samanburðar búa um 4300 manns í Vestmannaeyjum. Óvíst er hvenær hverfin verði fullbyggð, en líklegt má telja það það gerist á næstu 10 árum.
Í miðbænum hefst fljótlega bygging um 40 íbúða við Þverholt. Kvaðir er á lóðinni um að allavega 30 þeirra verði leiguíbúðir. Einnig er nú unnið að því að hefja uppbyggingu í Háholti og Bjarkarholti, þar sem rísa munu glæsilegar íbúðir.

Fjölskyldubærinn
Í Mosfellsbæ er mikið af börnum og hingað sækir fjölskyldufólk, því fylgir þörf á leik- og grunnskólum. Í Helgafellshverfi mun rísa leik- og grunnskóli innan tíðar þar sem sveitarfélagið hefur hafið undirbúning að stofnun Helgafellsskóla. Þar verða bæði leik- og grunnskólabörn, en gert er ráð fyrir að í hverfinu rísi annar leiksskóli síðar. Í Leirvogstungu er í dag fjögurra deilda leiksskóli en börn þaðan sækja Varmárskóla þegar þau koma á grunnskólaaldur.

En af hverju er svona mikill uppbyggingu í Mosfellsbæ? Ástæðurnar eru nokkrar en fyrst og fremst sú staðreynd að í Mosfellsbæ er gott að búa.

Bryndís Haralds
Bæjarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar

Ólöf Kristín Sívertsen

Sefur þú nóg?

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Svefn er öllum manneskjum mikilvægur enda ein af grunnþörfum mannsins. Hann veitir hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur og er því nauðsynlegur þáttur heilbrigðra lífshátta.
Hann styrkir jafnframt ónæmiskerfið og gerir okkur betur í stakk búin til að mæta alls kyns umgangspestum og öðrum kvillum. Því er nægur og góður svefn mikilvæg forsenda góðrar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu og vellíðunar.

Svefntími barna og fullorðinna
Samkvæmt rannsóknum Örnu Skúladóttur, barnahjúkrunarfræðings, á íslenskum börnum, spannar heildarsvefntími 9-14 mánaða gamalla barna 12,5 – 15,5 klst. á sólarhring (dag- og nætursvefn). Í aldursflokknum 15 – 23 mánaða mælist svefntíminn á bilinu 11,5 – 15,5 klst. á sólarhring og 10,5 – 13 klst. hjá 2-4 ára börnum. Frá 5 ára aldri og fram á táningsár er heildarsvefntíminn á bilinu 9 – 11 klst. á nóttu. Þegar kemur fram á fullorðinsár dregur úr svefnþörf einstaklinga en ráðlagður svefntími þessa aldurshóps er um 7-8 klst. á nóttu.

Nýlegar rannsóknir sýna hins vegar að við sofum ekki nóg og á það sérstaklega við um ungmenni og fullorðna. Ef við náum ekki að uppfylla svefnþörf okkar þá getur það valdið streitu sem safnast upp í líkama okkar. Slíkt getur valdið pirringi, hvatvísi, skorti á einbeitingu og skert hæfni okkar á mörgum sviðum.

Góður svefn – hvernig?
Til eru mörg góð ráð til að sofna og sofa betur. Mikilvægt er umhverfið þar sem við leggjumst til svefns sé rólegt og hlýlegt og til þess fallið að kalla fram vellíðan. Gott er að hafa hæfilega svalt og ekki verra að sofa við opinn glugga. Dagleg líkamleg áreynsla leiðir til dýpri svefns og gott er að sleppa notkun raftækja, sjónvarps, tölva o.s.frv., rétt fyrir svefninn til að auka líkurnar á því að við náum þeirri slökun og ró sem er svo nauðsynleg til að geta fjarlægst áreiti dagsins.
Á þann hátt getum við best notið hvíldarinnar sem gerir okkur síðan tilbúnari til að takast á við næsta dag með jákvæðu hugarfari og gleði. Svefn hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði okkar almennt. Sofðu rótt!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Ólöf Kristín Sívertsen

Vér göngum svo léttir í lundu…

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

…því lífsgleðin blasir oss við, kvað Freysteinn Gunnarsson um árið og ef maður leggur textann út frá hreyfingu og vellíðan má segja að þarna hafi hann einmitt hitt naglann á höfuðið.
Ganga og önnur hreyfing léttir nefnilega lundina og framkallar jákvæðari sýn á lífið eins og niðurstöður rannsókna bera með sér. Nú á vordögum og í byrjun sumars er einmitt heilmikið um að vera í heilsubænum okkar til að koma blóðinu á hreyfingu og auðga andann.

Hjólað í vinnuna
Nú er í gangi lýðheilsuverkefnið Hjólað í vinnuna sem stendur frá 4.- 24. maí. Helsta markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að ganga, hjóla, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu.
Virkur ferðamáti er frábær kostur til þess að koma hreyfingu inn í daglega rútínu og hvetjum við ykkur eindregið til að prófa. Nánari upplýsingar má finna á www.hjoladivinnuna.is

Hreyfivika UMFÍ – Move Week
Hreyfivikan verður nú haldin í fyrsta sinn að vori dagana 23.-29. maí nk. Hreyfivikan er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu á sama tíma. Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020 og eru allir hvattir til að finna sína uppáhalds hreyfingu.
Að venju verður heilmikið um að vera í Mosfellsbæ og má finna dagskrá sem uppfærist jafnóðum á heimasíðu verkefnisins www.iceland.moveweek.eu auk þess sem upplýsingar verða birtar á www.mos.is og www.heilsuvin.is og fésbókarsíðum beggja aðila.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ 2016
Dagurinn verður haldinn hátíðlegur miðvikudaginn 25. maí nk. og byrjum við daginn á hressandi morgungöngu með Ferðafélagi Íslands meðfram hinni fallegu strandlengju í bænum okkar. Um kvöldið verður að venju blásið til myndarlegs málþings í Framhaldsskólanum þar sem gleðin verður í hávegum höfð.
Edda Björgvinsdóttir, leikkona og gleðigjafi, mun fræða okkur um hvernig við getum nýtt húmor og gleði í samskiptum og almennt í hinu daglega lífi, Skólakór Varmárskóla mun stíga á stokk, við fáum kynningu á appinu Sidekick Health og svo mætti lengi telja. Að venju er aðgangur ókeypis, boðið verður upp á léttar veitingar og allir hjartanlega velkomnir.

Við hvetjum ykkur sem fyrr eindregið til að taka þátt í dagskránni sem boðið er upp á og virkja fólkið í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama – því maður er manns gaman – og félagslegi þátturinn er svo sannarlega mikilvægur í vegferð okkar til hamingju og heilbrigðis.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Samson Bjarnar Harðarson

Grænt skipulag í Mosfellsbæ

Samson Bjarnar Harðarson

Samson Bjarnar Harðarson

Mosfellsbær er einstaklega vel í sveit settur og býður íbúum sínum og nærsveitungum upp á frábæra útivistarmöguleika bæði innanbæjar sem og í umliggjandi landbúnaðar- og náttúrusvæðum.
Í ört vaxandi sveitarfélagi er hinsvegar hætta á að aðgengi að þessum útivistarsvæðum geti minnkað eða þau orðið óaðgengileg og að verðmæt svæði glatist eða verði brotin upp. Það er skylda sveitarfélagsins að tryggja íbúum sínum gott aðgengi og góð útivistarsvæði auk þess að stuðla að umhverfis- og náttúruvernd og góðri sátt við landeigendur og hagsmunaaðila.
Í samræmi við stefnu Mosfellsbæjar sem heilsueflandi samfélag er mikilvægt að vel sé hugað að þessum málum hjá sveitarfélaginu. Ein besta leiðin til þess er að gera svokallað grænt skipulag líkt og gert hefur verið víða á Norðurlöndunum og í Þýskalandi.

En hvað er grænt skipulag?
Grænt skipulag er heildstætt skipulag á öllum grænum svæðum sveitarfélaga frá litlum svæðum inn í þéttbýli til stórra náttúrusvæða. Skipulagið felst í að mynda samhangandi græn svæði tengd með göngu- og hjólreiðastígakerfi, nokkurskonar grænan vef.
Þessi græni vefur umlykur og umvefur byggðina og tengir hana saman við umliggjandi náttúru- og útivistarsvæði, landbúnaðarsvæði, fjöll, vötn, ár og strendur.
Við gerð græns skipulags er jafnframt mótuð stefna um ræktun og umhirðu grænna svæða svo sem almenningsgarða, skógrækt og vistheimt/landgræðslu og stjórn beitar. Einn mikilvægasti þáttur græns skipulags er að stuðla að bættri lýðheilsu og hvernig eigi að ná markmiðum sem getið er um í staðardagskrá 21.
Síðastliðið haust samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar að skoða kosti þess að gera grænt skipulag fyrir Mosfellsbæ. Tildrög þessa er að undirritaður lagði fram tillögu í skipulagsnefnd bæjarins að farið yrði í slíka vinnu.
Það er mikilvægt að Mosfellsbær fari í þessa vinnu af fullum þunga til að tryggja að bærinn okkar verði fjölskylduvænni, grænni og meira heilsueflandi sveitarfélag til að búa í.

Samson Bjarnar Harðarson
Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar