Sterkur leiðtogi skiptir máli

Þorsteinn Hallgrímsson

Kæri lesandi, fram undan er prófkjör hjá stærsta stjórnmálaaflinu í Mosfellsbæ. Það er ánægjulegt að sjá hve margir hæfir einstaklingar, ungir, gamlir, reyndir og óreyndir bjóða sig fram til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Í þessu prófkjöri er í fyrsta skipti í langan tíma fleiri en einn í framboði í 1. sæti lista Sjálfstæðisflokksins og er það vel. Það skiptir miklu máli að hafa sterkan leiðtoga sem leiðir listann og hefur góða blöndu af þekkingu, reynslu og hæfileikum til þess að gera það.
Leiðtoginn þarf að vera góður stjórnandi, góður í mannlegum samskiptum, drífandi og hvetjandi, vera góður að fá fólk til að vinna með sér og draga fram það besta hjá samstarfsfólki sínu. Leiðtoginn þarf að vera góð fyrirmynd, vera heiðarlegur og hafa gott mannorð.

Ég hef þekkt Ásgeir Sveinsson um árabil en hann býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ og hann hefur alla þessa eiginleika og meira til.
Hann hefur setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar á þessu kjörtímabili og einnig gegnt embætti formanns bæjarráðs. Ásgeir hefur starfað af krafti að bæjarmálunum, er vel inni í öllum málaflokkum og margt af því sem hann lagði áherslu á fyrir síðustu kosningar hefur verið framkvæmt á þessu kjörtímabili.
Ásgeir hefur mikla reynslu sem leiðtogi og stjórnandi úr atvinnulífinu. Sem farsæll framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. í 12 ár naut hann mikillar velgengni og var afar farsæll stjórnandi og leiðtogi. Verkefnin í þannig starfi eru mörg, ólík og flókin, þar má nefna daglegan rekstur, umsjón með mannauðsmálum, fjármálastjórnun og samningagerð bæði við alþjóðleg fyrirtæki og innlend. Ásgeir hefur einnig mikla reynslu af stjórnun í félagsmálum, var formaður karlahandboltans hjá Aftureldingu 2013–2019 á miklum uppbyggingar- og uppgangstímum. Hann hefur langa reynslu sem handboltaþjálfari hjá Aftureldingu, hefur setið í stjórnum félaga og fyrirtækja og syngur í Karlakór Kjalnesinga.
Það eru mörg spennandi verkefni og tækifæri fram undan í Mosfellsbæ.
Það skiptir miklu máli fyrir okkur Mosfellinga að sterkur leiðtogi leiði lista Sjálfstæðisflokksins í næstu bæjarstjórnarkosningum.
Þess vegna ætla ég að kjósa Ásgeir Sveinsson í 1. sætið og hvet þig, lesandi góður, til að gera slíkt hið sama.

Þorsteinn Hallgrímsson