Aðfluttur andskoti

Þóranna Rósa Ólafsdóttir

Að vera aðfluttur andskoti í Mosfellsbæ er bara ansi gott! Ég flutti í Mosfellsbæ í janúarbyrjun 2003 af Kjalarnesi. Eignaðist hér mitt seinna barn og upplifði góðan anda.
Í lok árs 2003 var íbúafjöldinn 6.574. Þá var maður alveg minntur á að vera ekki innfæddur enda þekkti maður ekki fjölskyldurnar sem hér höfðu ráðið ríkjum. Þið hafið vonandi horft á Verbúðina en í litlum samfélögum skipti einmitt máli að þekkja rétta fólkið! Hér hefur okkur fjölskyldunni liðið vel og viljum hvergi annars staðar vera. Bærinn hefur svo sannarlega blómstrað og breitt úr sér. Við sem erum aðflutt sjáum bara tækifærin í litla bæjarfélaginu okkar sem vex og dafnar.
Ég starfaði sem skólastjóri í 12 ár við einn stærsta grunnskóla landsins sem einmitt var staðsettur hér í litla bæjarfélaginu okkar. Áskoranirnar voru svo sannarlega til staðar en ég man eftir að vera með nemendafjölda frá 660 og fara upp í tæpa 1000. Við vorum á þessum tíma að taka á móti nýjum íbúum sem voru að marka spor sín hér í bæjarfélaginu og koma upp nýjum hverfum. Skólinn stækkaði ansi hratt og verkefnin um leið. Fólk hafði ýmsar skoðanir og við sem vorum í skólanum þurftum að hlaupa hraðar og byggja upp ný úrræði eftir því sem nemendum fjölgaði. Það sem bjargaði þessu var frábært starfsfólk og foreldrar sem fylktu sér við hlið okkar og saman unnum við í að takast á við skóla í hruni sem stækkaði ört og koma inn tækninýjungum.

Reynsla mín eftir þennan tíma er hversu mikilvægt er að samfélag fylki sér um skólana sína, íþróttafélögin, leikhúsið, tónlistarlífið og aðilana sem sinna sjálfboðaliðastarfi í bæjarfélaginu okkar. Því miður varð skólinn okkar uppspretta pólitískra afla sem reyndu að ná höggi á meirihluta í pólitíkinni. Þetta skapaði sundrung, umtal og aukna vinnu skólafólksins.
Nú eru bæjarstjórnarkosningar fram undan í vor og mín einlæga ósk er sú að fólk vandi sig í slagnum og verði málefnalegt. Flest af fólki í öllum flokkum er gott fólk sem vill vel. Mörg þeirra hafa unnið mjög vel fyrir bæjarfélagið, verið málefnaleg og veitt gott aðhald. Við þurfum öll sem hér búum að horfa til þess hvernig fólk við viljum í forystuna í Mosfellsbæ. Til þess þurfum við að horfa á hverjir bjóða sig fram, ganga í þá flokka og gefa fólki brautargengi. Við konur þurfum ekki síðar en karlarnir að taka afstöðu og styðja við þau málefni sem eru okkur hugleikin. Við þurfum öll að vera virk og taka þátt!

Kæru sveitungar, við erum núna orðin 13.025 manns og aðfluttu andskotarnir eru komnir í meirihluta. Ég hvet fólk til að taka afstöðu í kosningunum og hafa áhrif á listana. Sjónarmið allra skipta máli og saman gerum við gott bæjarfélag enn betra.
Ég styð Kolbrúnu Þorsteinsdóttur í 1. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum.

Þóranna Rósa Ólafsdóttir
íbúi í Mosfellsbæ og skólastjóri í Rimaskóla