Fjárhagsáætlun og lýðræðisleg umræða

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Síðasta fjárhagsáætlun þessa kjörtímabils var afgreidd úr bæjarstjórn í byrjun desember. Allar ytri aðstæður Mosfellsbæjar, líkt og annarra sveitarfélaga í landinu, eru almennt hagfelldar og horfur góðar.
Þess sést stað í fjárhagsáætlun bæjarins og útkomuspám ársins 2017. Í fjárhagsáætlun ársins 2018 er að finna ýmis verkefni og framkvæmdir sem eru til hagsbóta fyrir íbúa Mosfellsbæjar, verkefni sem hafa verið rædd á vettvangi kjörinna fulltrúa á kjörtímabilinu og mikið sammæli ríkir um innan bæjarstjórnar.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram nokkrar tillögur við fyrri umræðu um áætlunina og óskuðu eftir að þær yrðu skoðaðar milli umræðna og áhrif þeirra á fjárhagsáætlun reiknuð út. Meðal tillagna okkar var hækkun frísundaávísunar í 50 þúsund krónur fyrir hvert barn, lækkun leikskólagjalda og sérstök fjárveiting í að hefja gerð s.k. græns skipulags fyrir Mosfellsbæ.
Þá var gengið frá því að tillaga okkar um gjaldfrjálsan hafragraut að morgni dags í grunnskólum yrði útfærð sem tilraunaverkefni fyrir afmarkaðan hóp til að sjá hvernig best verði staðið að verkefninu. Þessar tillögur Samfylkingar hlutu jákvæðar undirtektir hjá meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks og rötuðu inn í lokaútgáfu fjárhagsáætlunar sem samþykkt var.

Sú niðurstaða ber vott um hverju hægt er að áorka með samtali bæjarfulltrúa, sé viljinn fyrir hendi. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um að taka þyrfti upp ný vinnubrögð í stjórnmálum. Hatrömm átök milli fylkinga spilli framgangi góðra mála og skapi vantraust almennings í garð þess fólks sem gegnir störfum kjörinna fulltrúa og stjórnmálanna almennt. Viljinn til að hlusta og ræða saman skiptir höfuðmáli í breyttum stjórnmálum.

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Ágreiningur heldur vissulega áfram um þau atriði sem skilja fólk að í samræmi við skoðanir þeirra og pólitíska lífssýn. En átökin þurfa ekki og eiga ekki að vera á persónulegum eða niðrandi nótum. Þvert á móti á að takast á með málefnalegum rökum og bera virðingu fyrir því að önnur sjónarmið um málefni eiga fullkominn rétt á sér í lýðræðislegri umræðu. Þannig er ágreiningur á hinu pólitíska sviði í raun grunnurinn að því lýðræðislega skipulagi sem við búum við.

Lítið vitum við um hvað framtíðin ber í skauti sér en þó er vitað að sveitarstjórnarkosningar verða haldnar í lok maí 2018. Við munum halda áfram að vinna okkar störf innan bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þannig að Samfylkingin geti gengið hnarreist til þeirra kosninga.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar senda bæjarbúum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð, farsæld og frið á nýju ári.

Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi Óskarsson

Íslensk knattspyrna á upp­leið en ekki í Mosfellsbæ

Hugi Sævarsson

Hugi Sævarsson

Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með uppganginum í íslenskum fótbolta síðustu árin.
Karla- og kvennalandsliðin okkar náð frábærum árangri, og eftirspurn atvinnuliða erlendis eftir íslenskum starfskröftum aldrei verið meiri. Heimsbyggðin horfir undrunaraugum á og sérfræðingar eru sendir til smáríkisins til að reyna að greina undrið, finna formúluna. Til að skýra árangurinn þá hafa ýmsir þættir verið nefndir. Má þar nefna aukna fagmennsku, jákvætt hugarfar, vinnusemi að ógleymdri hinni svokölluðu íslensku ,,geðveiki“ og hjarta. Ómetanleg landkynning.
Stór partur af velgengninni og óumdeildur er bætt aðstaða til knattspyrnuiðkunar með tilkomu fjölnota íþróttahúsa (oft kallað yfirbyggð knattspyrnuhús þó notkunin takmarkist ekki við knattspyrnu).
Stærri og reyndar mun minni bæjarfélög en Mosfellsbær hafa byggt upp slíka aðstöðu og mörg þeirra fyrir margt löngu síðan. Hins vegar hefur nákvæmlega ekkert verið gert í þessum málum hér og bærinn dregist enn frekar aftur úr.

Í haust voru kynnt drög um að byggja ætti loksins fjölnotahús. Áformin eru því miður mikil vonbrigði og sýna enn og aftur ákveðið metnaðar- og þekkingarleysi á málaflokknum. Framkvæmdin sem kynnt hefur verið nær ekki lengra en svo að byggja á tæplega hálft hús þegar þörfin er að sjálfsögðu yfirbyggður völlur í fullri stærð, til viðbótar við núverandi aðstöðu. Fjöldi íbúa í bænum hefur aukist hratt undanfarin ár og ljóst að áframhald verður á. Íbúafjöldinn að vaxa hlutfallslega mun hraðar en í nágrannasveitafélögunum. Það verður því ekki langt þangað til að þörfin verður þrír vellir.

Knattspyrnufólk í Mosfellsbæ hefur búið við mjög skerta aðstöðu um langt skeið. Engan skal því undra að árangurinn hafi látið á sér standa. Flokkar sem telja fleiri tugi iðkenda þurft að bíta í það súra epli að æfa á hálfum velli, oft við erfiðar veður- og vallaraðstæður. Krakkar og fullorðnir sem eiga að vera að æfa 11 manna bolta eru ennþá í umhverfi smávalla („minibolta“). Golfarar yrðu varla sáttir við að geta bara æft og keppt í mínigolfi eða pútti, handboltinn að spila bara fjórir á móti fjórum, blakarar á hálfum velli og svona mætti lengi telja. Augljóst að gæði æfinga, þrátt fyrir góðan metnað og vilja, verða ekki nærri eins góð. Iðkendur dragast aftur úr eða hætta.
Vinsælasta íþróttin á ekki að sitja eftir, ekki frekar en aðrar greinar. Við verðum ekki samkeppnishæf fyrr en byggt hefur verið alvöru yfirbyggt fjölnota íþróttahús. Hús sem getur gagnast öðrum greinum eins og frjálsum íþróttum og halda má mót og kappleiki í. Einnig er brýn þörf á félags- og búningaaðstöðu. Núverandi aðstaða er alls ekki boðleg í bæ sem við viljum kalla heilsueflandi. Verum því ekki hálfdrættingar, hugsum til nútíðar og framtíðar.
Ágætu ákvörðunaraðilar, setjið góðan metnað í málið sem allra fyrst. Tökum rétt skref upp á við.

Með góðri og bjartsýnni íþróttakveðju,
Hugi Sævarsson
framkvæmdastjóri

Finnum hið fullkomna jólatré í skóginum

Björn Traustason

Björn Traustason

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar hefst laugardaginn 9. desember í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Það verður mikið um dýrðir í skóginum þennan dag.
Bæjarstjórinn mun höggva fyrsta jólatréð, jólasveinar munu koma og skemmta börnunum og að sjálfsögðu verður hægt að ylja sér með heitu kakói og kaffi. Við hvetjum alla til að láta sjá sig og annaðhvort höggva sitt eigið jólatré eða velja tré úr rjóðrinu okkar.
Þeir sem ákveða að ganga um skóginn eru yfirleitt að leita að hinu fullkomna jólatré. Það er nefnilega þannig að jólatréð sem maður fellir sjálfur er yfirleitt hið fullkomna tré vegna stemningarinnar við að arka um skóginn og finna að lokum tréð sem mun skreyta stofuna yfir jólin.
Þá er margþættur ávinningur af því að kaupa íslenskt jólatré. Í fyrsta lagi er kolefnisfótspor íslenskra jólatrjáa margfalt minna en með innfluttum erlendum jólatrjám. Ekki þarf að flytja jólatrén til landsins með tilheyrandi eldsneytisnotkun, auk þess sem íslensk jólatré eru ekki úðuð með skordýraeitri sem notað er við ræktun þeirra innfluttu jólatrjáa sem eru á markaðnum í dag. Jafnframt sparast gjaldeyrir við kaup á íslenskum jólatrjám og á sama tíma er verið að styðja mikilvægt starf þeirra sem koma að ræktun jólatrjáa á Íslandi.
Kaup á íslenskum jólatrjám styðja því undir að stækka skógarauðlind okkar sem nýtist til útvistar, framleiðslu á viðarafurðum og svo auðvitað til að skapa fleiri fullkomin jólatré.
Hvetjum við alla til að heimsækja okkur í Hamrahlíðina, við verðum með opið á virkum dögum frá kl. 12-18 og milli 10 og 16 um helgar.
Sjáumst í Hamrahlíð!

Björn Traustason

Er líður að jólum

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Nú er vetur konungur kominn í öllu sínu veldi. Brátt líður að jólum en þá er gott að staldra við og huga að þeim sem minna mega sín.
Jólin geta verið erfiður tími fyrir marga bæði vegna þess að þá finna margir fyrir einmanaleika sem getur ýmist verið viðverandi ástand eða sem er tilkominn vegna áfalla eins og til dæmis ástvinamissis. Jólin geta líka verið erfið þeim sem búa við þær aðstæður að geta ekki gert sér dagamun eins og flestir gera á þessum árstíma.

Starf Rauða krossins í Mosfellsbæ heldur sínu striki eins og endranær. Við bjóðum alla velkomna sem vilja slást í hópinn eða styrkja starfið okkar. Hægt er að gera það með ýmsu móti. Með því að gerast félagi í Rauða krossinum í Mosfellsbæ styrkir þú starfið þegar þú greiðir árlegt félagsgjald sem er 3.100 kr. og rennur óskipt til deildarinnar okkar í Mosfellsbæ.
Ef þú gerist sjálfboðaliði hjá okkur styrkir þú okkur með því starfa í einhverju af verkefnum okkar, eins og til dæmis að heimsækja einstaklinga sem þiggja slíkar heimsóknir, eða þú getur valið í hvaða af verkefnum okkar þú vilt helst taka þátt. Svo er einnig hægt að styrkja okkur með peningaframlögum en Rauði krossinn í Mosfellbæ stendur meðal annarra deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu að áfallasjóði sem ætlað er að styðja við þá sem verða fyrir áföllum sem leiða af sér að einstaklingar lenda í aðstæðum sem þeir ná ekki að komast út úr án aðstoðar.
Þessu til viðbótar stendur Rauði krossinn í Mosfellsbæ að jólaaðstoð í samvinnu við Félagsþjónustuna í Mosfellsbæ og Lágafellskirkju. Það er því hægt að styðja við starfið okkar með ýmsum hætti og er alveg sama hvað er valið, allt kemur sér vel og mun renna til góðra verka.

Borist hafa fréttir af því að í fyrsta sinn muni Mosfellsbær taka á móti flóttamönnum sem sérstaklega er boðið til landsins og munu fá búsetu í bænum okkar góða. Um er að ræða svokallaða kvótaflóttamenn en það eru flóttamenn sem stjórnvöld bjóða að koma til Íslands og mun þeim veittur stuðningur til að koma undir sig fótunum í nýju landi.
Áður hafa flóttamenn sem þessir komið til Íslands og má nefna Akranes, Akureyri, Hveragerði og Selfoss sem staði sem boðið hafa flóttamennina velkomna. Í þeim tilfellum kemur Rauði krossinn að málum og aðstoðar við að útvega húsgögn og annað sem þarf til heimilishalds og við að komast inn í og fóta sig í samfélaginu en einn mikilvægasti þátturinn í því eru vina- og stuðningsfjölskyldur sem tengjast innflytjendunum og hjálpa þeim við að komast inn í samfélagið og ekki síst að skilja það.

Það er því nóg fram undan hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ og tökum við öllum stuðningi fagnandi. Þrátt fyrir að nóg sé að gera erum við alltaf opin fyrir nýjum hugmyndum um verkefni sem vinna að markmiðum okkar. Ef þú hefur góða hugmynd þá endilega komdu henni á framfæri við okkur.
Jólagleði sjálfboðaliða verður haldin miðvikudaginn 6. desember kl. 16 – 18 og eru allir sjálfboðaliðar hjartanlega velkomnir í Rauðakrosshúsið að Þverholti 7.

Katrín Sigurðardóttir
Ritari stjórnar Rauða krossins í Mosfellsbæ

Máttur eldhúsborðsins

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Mikill árangur hefur náðst í forvörnum hér á landi á síðustu 20 árum í að draga úr unglingadrykkju og reykingum ungmenna.
Það er margt sem skýrir þennan árangur en nefna má gott forvarnarstarf, aukna þátttöku barna í skipulögðu íþrótta – og tómstundastarfi og síðast en ekki síst samverustundir með fjölskyldunni. Í dag glímum við við nýjar áskoranir en kvíði og vanlíðan er að aukast á meðal barna og unglinga eða loks farið að opna augun fyrir þeim vanda.

Hagir og líðan barna
Mosfellsbær hefur líkt og mörg önnur sveitarfélög látið gera kannanir á högum og líðan barna frá 5.- 10. bekk. Einnig eru gerðar kannarnir varðandi notkun á áfengi og tóbaki. Niðurstöður síðustu ára sýna að mikill árangur hefur náðst og hefur Mosfellsbær stutt vel við íþrótta- og tómstundastarf í bænum.
Á síðust vorönn var lögð könnun fyrir nemendur­ í 5. – ­7.­ bekk um hagi og líðan og voru niðurstöður kynntar fyrir fræðslunefnd. Niðurstöður þessarar könnunar eru ekki góðar og kemur fram að börnin vilji meiri tíma með foreldrum sínum, að mörg börn eiga ekki vini og of mörgum börnum líður illa. Þetta er ekki gott. Sagt er að miðstigið, 5. – 7. bekkur, sé hið nýja unglingastig. Á miðstiginu eru börnin farin að máta sig við aðra og það sem skiptir máli í lífinu er góð fjölskylda, góð sjálfsmynd, góðir félagar og góð líðan í skólanum. Ef þetta þrennt er í lagi gengur námið betur. En því miður er það ekki alltaf raunin og þá verður fullorðna fólkið að grípa inní.

Matartíminn er mikilvægur
Börn eru á ábyrgð foreldra en að segja að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn er ekki orðum aukið. Reglur á heimilinu eins og matartími og háttatími eru börnum afar mikilvægar. Matartíminn er mikilvægur því þá gefst tækifæri til að ræða saman og þjálfa góð samskipti.
Börn eru ekki sérfræðingar í samskiptum og þurfa þjálfun í þeirri list. Börn þurfa hlustun, fá að kvarta og væla undan öllu. Það er allt í góðu. Þau þurfa ekki endilega svör en sannarlega hlustun. Fái barnið hlustun og virðingu í samskiptum lærir það að treysta þeim fullorðna og tekur framkomuna til fyrirmyndar sem eykur líkur á að barnið velji rétt. Fjölskyldan er mikilvægust sama hvernig hún er samsett og eldhúsborðið þarf ekki að vera merkilegt.

Við foreldrar
Gott foreldrastarf í skólunum, samstaða í bekk, umburðarlyndi og gleði bætir líðan barna í skólanum. Í grunnskólum Mosfellsbæjar hefur nýtt fólk boðið sig fram í stjórnir foreldrafélaganna og þar ríkir mikill metnaður. Foreldrastarfið er mikilvægur stuðningur við störf umsjónarkennarans og við félagstarfið í skólunum.
Allir nemendur eiga að finna að þeir eru velkomnir og tilheyra hóp þar sem virðing er borin fyrir bekkjarfélaganum. Skólinn er líka staður þar sem vönduð samskipti eru æfð og stunduð. Góður bekkjarandi og heilbrigð skólamenning er gríðarlega mikil forvörn. Þar spila kennarar stærsta hlutverkið.
Það er einlæg trú mín að foreldrastarfið í grunnskólum bæjarins eigi enn eftir að eflast og styrkjast, börnum okkar til framdráttar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi og
formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.

Stóra upplestrarkeppnin í 20 ár í Mosfellsbæ

björkeinis

Það má með sanni segja að þjóðarátak í upplestri hafi byrjað með Stóru upplestrarkeppninni sem hófst í Hafnarfirði haustið 1996.
Fljótlega bættust fleiri bæjarfélög í hópinn og allt frá árinu 2001 hafa nær allir nemendur í 7. bekk um land allt verið skráðir til verkefnisins og tekið þátt í ræktunarhlutanum sem stendur frá degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, þar til hátíðarhlutinn tekur við í mars. Það er í raun athyglisvert að heill árgangur í grunnskóla skuli ár hvert verja stórum hluta vetrar til að æfa sig við flutning móðurmálsins og stíga síðan á stokk, lesa af listfengi og fylla hátíðarsali, félagsheimili og kirkjur landsins af áhugasömum áheyrendum.

Keppnin hefur hlotið afbragðsviðtökur skólafólks og ekki er síst ánægjulegt að verða vitni að þeim mikla áhuga sem nemendur hafa sýnt með því að leggja mikinn metnað í verkefnið. Skólaskrifstofur hafa veitt keppninni brautargengi í sínu umdæmi og lagt henni ómetanlegt lið, en sjálft uppeldisstarfið, ræktun upplestrarins, hefur hvílt á höndum kennara.
Fræðsluskrifstofa Mosfellsbæjar hefur sannarlega lagt sig fram um að standa sem allra best að lokahátíðunum í gegnum árin og stutt kennara við undirbúninginn.

Það er sérlega ánægjulegt að víðast hvar er Stóra upplestrarkeppnin fastur liður í skólanámskrám og læsishvetjandi verkefnum grunnskólanna og þar eru grunnskólarnir í Mosfellsbæ engir eftirbátar annarra skóla.
Fyrsta keppnin í Mosfellsbæ var haldin í Bæjarleikhúsinu 1997 með lesurum úr Varmárskóla sem þá var eini skólinn í Mosfellsbæ með 7. bekk. Lágafellsskóli tók fyrst þátt árið 2002 og síðan þá hafa hátíðirnar verið haldnar til skiptis í skólunum.
Undirbúningur keppninnar felst í upplestri á ýmiss konar textum, hlustun og framsögn. Verkefnið kveikir oftar en ekki áhuga hjá nemendum á lestri og að vanda framburð og flutning. Nemendur læra líka að hlusta af athygli þegar aðrir lesa upp og læra þannig að bera virðingu fyrir öðrum.

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, sem standa að verkefninu, hvetja foreldra til að taka virkan þátt. Það er hægt að gera með því að vera góður og áhugasamur áheyrandi við heimalestur, ræða um áherslur og blæbrigði sem skipta máli við allan flutning, aðstoða barnið við að lesa upp af skilningi og spjalla um efnið.
Ljóst er að góð lestrarstund vekur ánægju, eflir sjálfstraust og bætir lestrarfærni. Einnig er vert að hafa í huga að lestur góðra bóka getur líka þroskað samskiptahæfni því bækur fjalla oftast um samskipti sögupersónanna þar sem birtast bæði góð fordæmi og hvað ber að varast.

Að lokum er mér það bæði ljúft og skylt að minnast á Litlu upplestrarkeppnina. Litla upplestrarkeppnin byggir á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestrarkeppnin þar sem ávallt er haft að leiðarljósi að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni.
Keppnin var formlega sett á degi íslenskrar tungu í áttunda sinn í Hafnarfirði nú í haust og í sjötta sinn í öllum grunnskólum Mosfellsbæjar. Allir hafa áhyggjur af lestrarfærni nemenda og Litla upplestrarkeppnin er einungis hugsuð sem styrkur við þær aðferðir og vinnu sem er í gangi hjá kennurum hverju sinni.

Það verður stórhátíðarbragur yfir Stóru upplestrarkeppninni í Mosfellsbæ sem fram fer 20. mars. Fulltrúar skólanna munu leggja sitt af mörkum og verður hátíðin í formi samveru með foreldrum, kennurum, fulltrúum bæjarstjórnar, fræðsluskrifstofu Mosfellsbæjar og öðrum góðum gestum, eins og venjan hefur verið á lokahátíðum Stóru upplestrarkeppninnar í Mosfellsbæ í 20 ár.

Björk Einisdóttir deildarstjóri eldri deild Varmárskóla
og varaformaður Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn.

Heilsueflandi göngur

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Enginn efast lengur um að hreyfing sé mikilvæg og hafi góð áhrif á heilsuna. Fjöldinn allur af rannsóknum liggja fyrir sem sýna fram á það. Rannsóknir staðfesta einnig að hreyfing þarf ekki að vera svo mikil til að skila bættri heilsu.
Annað sem rannsóknir sýna er að félagsskapur er líka mjög mikilvægur góðri heilsu, það er að vera í sambandi við aðra og fara út á meðal fólks. Til að viðhalda góðri heilsu þarf ástundun að vera reglubundin og allt árið um kring.
Allt of algengt er að fólk taki sig til og ákveði að fara í ýmis konar átök í alls kyns hreyfingu. Farið er bratt af stað en svo einhvern veginn endist maður ekki í þessu og fer aftur í sama farið. Slíkar skorpur eru ekki til þess fallnar að auka heilbrigði eða verða að lífstíl sem hægt er að tileinka sér í langan tíma.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ stofnaði á sínum tíma gönguhóp sem við köllum Gönguvini. Markmiðið með hópnum er að ganga saman til heilsubótar og er gönguhópurinn fyrir alla sem sem vilja koma út á meðal fólks og hreyfa sig á sínum forsendum, á sínum hraða og í góðum félagsskap.

Gengið er tvisvar í viku í um það bil klukkustund á hraða sem hentar hverjum og einum. Ekki er verið að keppa við aðra eða klukkuna, heldur er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hversu langt hann gengur og hversu hratt hann fer. Til þess að það sé hægt er valin gönguleið með mögleika á að snúa til baka eftir mislanga göngu. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem ekki treysta sér einir út að ganga af einhverjum ástæðum því Gönguvinir aðstoða hver annan ef á þarf að halda. Áherslan er á að ganga með hópnum á fyrirfram ákveðum tíma en það gerir það mun líklegra að maður drífi sig í af stað og haldi út að ganga reglulega til lengri tíma og geri gönguna að lífsstíl.

Nú er veturinn farinn að gera vart við sig með alls konar veðrum sem oft eru ekki hagstæð þeim sem vilja stunda göngur allt árið um kring. Margir hætta þá en dæmigert er að fólk taki sig til á vorin og byrji að stunda göngur en hætti svo aftur og ekki síst þegar vetur konungur gerir vart við sig. Þá er maður kominn í hið dæmigerða mynstur þar sem ekki er stunduð reglubundin hreyfing árið um kring. Til að gera okkur kleift að stunda göngur allt árið hafa Gönguvinir fengið leyfi til að ganga inni í fótboltahúsi Egilshallar á sínum reglubundna tíma þegar veður er óhagstætt. Þannig komust við hjá að berjast við veður og vinda eða leggja okkur í hættu í hálku og ófærð.
Gengið er á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16.30 frá Rauða kross húsinu að Þverholti 7 Mosfellsbæ. Allir eru velkomnir þeim að kostnaðarlaus.

Katrín Sigurðardóttir
Ritari stjórnar Rauða krossins
í Mosfellsbæ og hópstjóri Gönguvina.

Við getum gert miklu betur

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Rósa Björk Brynjólfsdóttir

Það eru sannarlega óvenjulegir tímar í stjórnmálum. Við göngum aftur til þingkosninga, í annað sinn á einu ári.
Tímarnir eru ekki óvenjulegir af því að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk innanborðs sprakk í þriðja skiptið í röð, það virðist orðið að venju í íslensku samfélagi að ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn er í forsvari fyrir eða sitji í, springi og skapi óreiðuna sem formanni Sjálfstæðisflokksins er tíðrætt um og óttast hvað mest.
Nei, tímarnir eru óvenjulegir því að efnahagslegar ástæður eru ekki ástæða þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hélt ekki velli núna, heldur femínísku baráttu-bylgjurnar gegn kynjaofbeldi og kynferðisafbrotum gegn börnum. Leyndarhyggjan og samtryggingin var skoruð á hólm. Þolendur hryllilegra kynferðisafbrota sýndu ótrúlegt hugrekki og þrautseigju. Stigu fram og neituðu að gefast upp fyrir þöggun og leynd. Þau, ásamt fjölmiðlum, héldu áfram að krefjast upplýsinga og gagnsæis. Kröfðust þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórnkerfis. Fólk hafði hátt.
Fyrir þetta hugrekki og magnaða þrautseigju þolenda kynferðisofbeldis nú og áður, ber okkur að þakka margfalt fyrir.
Við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði styðjum femíníska baráttu, enda erum við kvenfrelsisflokkur sem frá stofnun hefur barist fyrir því að útrýma kynbundnu ofbeldi í hvívetna, viljum styrkja réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis og barist fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og efla fræðslu um jafnréttismál. Þeirri baráttu munum við í Vinstri grænum halda áfram að leggja lið af krafti.

Við erum líka grænn flokkur og teljum að íslenskt samfélag þurfi að leggja miklu meiri þunga en nú á umhverfismálin. Ísland á að verða kolefnishlutlaust 2040, hverfa frá áformum um olíuvinnslu og strika frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Ísland á að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C.
Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru. Efla þarf almenningssamgöngur – á borð við Borgarlínu sem þarf að halda áfram vinnu við – sem og fleiri græn mál.
Umhverfisvernd og virðing fyrir náttúrunni á að vera í öllum ákvarðanatökum enda mál framtíðarinnar og komandi kynslóða.

Við í Vinstri grænum viljum leiða ríkisstjórn þar sem forgangsröðun opinberra fjármuna er sanngjarnari. Við viljum efla heilbrigðisþjónustuna af alvöru og styðja betur við menntun. Velferðin á Íslandi á að jafnast á við það besta á Norðurlöndum og vera fyrir okkur öll, óháð efnahag. Gerum skattkerfið réttlátara, léttum skattbyrðinni af þeim tekjulægstu og þau sem eru mest aflögufær greiði sanngjarnari hluta til samfélagsins. Hækkum lægstu laun og styttum vinnuvikuna án launaskerðingar. Setjum strax meira fjármagn í háskólana og heilbrigðisþjónustuna, gerum betur við eldri borgara og hækkum frítekjumarkið. Hlúum að ungum fjölskyldum með raunverulegu vali á húsnæði og lengjum fæðingarorlofið.
Við getum þetta allt. Þetta er bara spurning um pólitískan vilja.

Við stöndum frammi fyrir nýjum tímum. Það er ákall í samfélaginu um meiri heiðarleika og traust í stjórnmálum. Við í VG hlýðum því ákalli og trúum að hægt sé að gera miklu betur í íslensku samfélagi.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
oddviti VG í Suðvesturkjördæmi.

Hvað í fjandanum á ég að kjósa?

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir

Lengi vel skildi ég ekki stjórnmál. Fyrir mér voru þau veruleiki fyrir miðaldra punga sem lifðu fyrir völdin ein. Eftir menntaskólagönguna tók ég mig til og kynnti mér stefnur flokkanna. Þær reyndust afar svipaðar, allir vildu betra samfélag. Hins vegar voru áherslurnar á hvað fælist í betra samfélagi ekki alltaf þær sömu.
Sem ungur kjósandi legg ég áherslu á jöfn tækifæri í samfélagi, stöðugt gengi, lægri vexti og þar af leiðandi betri kjör í húsnæðismálum. Menntamálin eru mér einnig afar hugleikin.
Það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum sem ég gat loksins sagt að ég væri sammála stefnu flokks. Sá flokkur heitir Viðreisn, en Viðreisn er fyrsti frjálslyndi flokkurinn á Íslandi síðan 1929. Ég velti lengi fyrir mér hvers vegna frjálslyndi skipti mig svona miklu máli og af hverju ég væri svona sammála stefnu Viðreisnar.
Ég komst að því að flokkur sem er reiðubúinn að halda huganum opnum fyrir hugmyndum sem fælust í breytingum á núverandi ástandi í samfélaginu. Það skiptir mig miklu máli, enda tel ég liggja í augum uppi að margt mætti bæta til hins betra. Viðreisn er flokkur sem berst fyrir jöfnum tækifærum, stöðugleika og betri kjörum allra stétta. Flokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum og sátt í samfélaginu. Flokkur sem leggur áherslu á jöfn tækifæri, þar sem allir standa jafnfætis í samfélaginu.
Eitt helsta stefnumál Viðreisnar er gjaldeyrismálið en það felst í því að taka upp evruna eða tryggja stöðugt gengi með myntráði. Þar af leiðandi yrðu vextir á húsnæðislánum ekki 7-8% heldur um 2%. Sem ungur kjósandi skiptir það mig miklu máli að ég geti keypt íbúð á svipuðum kjörum og í nágrannalöndunum.
Viðreisn samanstendur af virkilega öflugu og kláru fólki. Flokkur sem nýtir stöðu sína til verka en ekki valda. Þetta eru breytt stjórnmál og er ég virkilega ánægð að loksins sé kominn flokkur sem talar ekki aðeins um breytingar heldur fer í þær kerfisbreytingar er þörf er á.

Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir;
laganemi, lögreglumaður og skipar 9. sæti
í Suðvesturkjördæmi fyrir hönd Viðreisnar.

Heilbrigt atvinnulíf

Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson

Jafnaðarmenn eru ekki á móti því að fólk verði auðugt af dugnaði sínum og útsjónarsemi. Öðru nær.
Um að gera – það á að greiða götu lítilla og meðalstórra fyrirtækja svo að þau vaxi og dafni, eigendum sínum, starfsfólki og samfélaginu öllu til hagsbóta. Þess vegna viljum við meðal annars lækka tryggingargjald.

Það er hins vegar ekki hugsjónamál okkar jafnaðarmanna að menn geti orðið­ ­auðugir hvað sem það kostar öll hin.

Okkur finnst ekki rétt fólk hagnist á því að vera í einokunarstöðu við að selja okkur varning sem við verðum að kaupa. Okkur finnst ekki sanngjarnt að menn fái úthlutað ókeypis einkaaðgangi að sameiginlegum auðlindum og fari svo að selja öðrum aðgang að þessum einkarétti – jafnvel að veðsetja hann fyrir gríðarlegar fjárhæðir sem eru svo faldar í skattaskjólum. Við erum ekki hrifin af skattaskjólum. Við erum ekki hrifin af kúlulánakapítalisma.
Við erum ekki hrifin af gervivaxtarbólum sem springa fyrr en varir með hörmulegum afleiðingum fyrir aðra en þá sem blésu út bólurnar. Við erum ekki hrifin af því að fólk raki saman auði á því að hagnast á veikindum annarra, eða hinu að kenna forréttindabörnum forréttindafræði á meðan hið almenna kerfi sé fjársvelt.

Fólk á að njóta sín
Okkur dreymir um heilbrigt atvinnulíf þar sem sníkjulífsóværan nær ekki að þrífast og reglugerðir koma í veg fyrir einokun og fjárryksugur. Við viljum að dafni bílaverkstæði og bókaútgáfur, forritun, ferðaþjónusta og matvælagerð, blómabúðir, álfaleiðsögn og stjörnuskoðun – og yfirleitt hvað það sem fólki hugkvæmist að nota hæfileika sína í. Því að hugsjón jafnaðarmanna er sú að fólk njóti sín.

Velferðarkerfið og vanrækta innviði ætlum við að fjármagna með auðlindagjöldum, að norskri fyrirmynd. Við ætlum að hækka skatta á stóreignafólk en lækka þá á venjulegt launafólk. Um þetta meðal annars snýst pólitík: hvernig við skiptum gæðunum.

Guðmundur Andri Thorsson
oddviti Samfylkingarinnar í SV kjördæmi

Forvarnir eru svarið

Willum Þór Þórsson

Willum Þór Þórsson

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Nálægðin við náttúruna skapar umgjörð fyrir hvers konar íþróttaiðkun og útivist hvort sem það er að taka þátt í hlaupahópnum í bænum, stunda hestamennsku, fara í sundlaugarnar, ganga á Úlfarsfellið eða annað. Þátttaka í íþróttum og frístundastarfi hefur ótvírætt forvarnargildi.

Rannsóknir benda til að fyrstu 1000 dagarnir í lífi barna hafi áhrif á framtíðarheilbrigði þeirra. Því er mikilvægt að styðja við foreldra ungra barna. Framsókn ætlar að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og leggja áherslu á styttingu vinnuvikunnar. Auk þess þarf að styðja við foreldra sem eiga við geðrænan vanda að stríða.

Endurskipuleggja þarf geðheilbrigðiskerfið og auka aðgengi að sálfræðimeðferð. Við ætlum að efla heilsugæsluna frekar þannig að þar starfi saman fleiri fagstéttir. Við ætlum einnig að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Ráðast þarf í þjóðarátak gegn sjálfsvígum.
Efla þarf löggæslu til að lögreglan hafi burði til þess að takast á við breyttan veruleika og geti tryggt öryggi okkar sem allra best.

Kristbjörg Þórisdóttir

Kristbjörg Þórisdóttir

Hvetja þarf til aukinnar hreyfingar með því að veita hreyfistyrk árlega. Einnig þarf að veita stuðning við uppbyggingu íþróttamannvirkja til að viðhalda og bæta enn frekar aðstöðu til íþróttaiðkunar barna og unglinga. Lækka þarf verð á ávöxtum, grænmeti og annarri matvöru sem skilgreind er sem hollustuvara.

Við þekkjum það úr störfum okkar hversu miklu máli forvarnir skipta, hvort sem þær snúa að fjölskyldunni, geðheilbrigðismálum, löggæslu eða hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Við viljum setja þessi málefni fremst í forgangsröðina. Þess vegna erum við í stjórnmálum.

Willum Þór Þórsson skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi
Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Andlegt ferðalag

vinur

Í lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp með tímanum atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og því oft mjög erfitt að átta sig á því.
Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn. Ég var orðinn ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarfir, mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti í engu mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.
Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara og að á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífsstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið út úr mínum ógöngum. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.

Hefur þú einhvern tímann velt fyrir þér að skoða líf þitt og vinna úr því sem safnast hefur upp á lífsleiðinni eða einfaldlega bæta samskipti við annað fólk? Þá ætti þú að kynna þér 12 sporin hjá Vinum í bata.

Síðasti kynningarfundurinn í vetur verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, miðvikudagskvöldið 25. október­ kl. 18:30. Það er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það er hópum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.

Bestu kveðjur,
Vinur í bata.

Þegar stórt er spurt

Margrét Tryggvadóttir

Margrét Tryggvadóttir

Í kosningabaráttu þeytast frambjóðendur um og reyna að kynna sig, flokkinn sinn, hugsjónirnar og hugmyndafræðina.
Ólíkt því sem ætla mætti af umræðunni taka flestir þátt í stjórnmálastarfi af hugsjón. Þeir vilja bæta samfélagið og trúa því að sú hugmyndafræði sem þeirra flokkur byggi á muni gera það betra. Og því trúi ég einmitt. Ég er handviss um að jafnaðarstefnan er svarið við því hvernig við getum byggt upp betra og heilbrigðara samfélag til framtíðar. Við höfum hreinlega sannanir fyrir því.
Á hinum Norðurlöndunum hefur hún orðið ofan á og það er sama hvar okkur ber niður – allar alþjóðlegar mælingar sýna að hinum norrænu þjóðunum vegnar best. Það er sama hvort litið er til jafnréttis kynjanna, hagsældar, velmegunar, heilbrigðis, lífslíkna eða frelsis í viðskiptum. Norræna leiðin hefur reynst best. Þar er velferðarkerfið sterkast og best hlúð að fólki á öllum aldri.

Nýlega var ég í framhaldsskóla að kynna málefni Samfylkingarinnar fyrir áhugasömum nemendum. Krakkarnir færðu sig á milli borða en við frambjóðendurnir sátum kyrrir og höfðum fimm mínútur til að kynna hverjum nemendahóp stefnu okkar og hugsjónir.
Þegar viðburðurinn var að klárast kom til mín strákur sem hafði verið með þeim fyrstu sem við ræddum við. „Ég er með spurningu,“ sagði hann. „Ég var nefnilega að hugsa. Mér leist svo rosalega vel á allt hjá ykkur. Hver eru eiginlega gildi þeirra sem eru á móti ykkar stefnu?“

Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör. Flokkurinn minn berst meðal annars fyrir jöfnuði, mannréttindum og mannúð, réttlátari skiptingu gæðanna, betra heilbrigðiskerfi, auknu aðgengi að sálfræðingum, sókn í menntamálum, umhverfismálum og síðast en ekki síst nýrri stjórnarskrá sem tryggir að arðurinn af auðlindunum renni til þjóðarinnar. Hver gæti svo sem verið á móti því?

Margrét Tryggvadóttir
Skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í SV kjördæmi

Velkominn Arnarskóli í Mosfellsbæ

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Mig langar að byrja á því að bjóða þennan skóla velkominn í bæjarfélagið okkar og vekja athygli á því við nærsveitarmenn, og þá sérstaklega bæjaryfirvöld, hvers skonar fengur er þarna á ferð fyrir okkar bæjarfélag.
Ég er svo heppin að hafa notið þjónustu atferlisfræðinga sem þarna starfa. Þarna er verið að setja á fót skóla sem virkileg þörf er á á Íslandi, því þó að skóli án aðgreiningar sé fallegt hugtak og eigi að vera markmiðið fyrir alla, þá eru alltaf einhverjir sem þurfa meiri aðstoð og athygli en hægt er að veita í dag til þess að geta fengið að blómstra og njóta sín.
Eins og kemur fram á facebook-síðunni er Arnarskóli grunnskóli sem stefnt er að að verði stofnaður í síðasta lagi haustið 2017. Skólinn mun bjóða heildstæða þjónustu fyrir fötluð börn með fjölþættar þarfir byggða á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar. Við viljum starfa eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og sjáum fyrir okkur að skólinn verði staðsettur í almennum grunnskóla með eins miklu samstarfi við þann skóla og mögulegt er. Skólinn yrði þó rekinn af sjálfseignarstofnun svo bjóða megi upp á þann sveigjanleika og sérþekkingu sem þarf til að koma til móts við þær þarfir sem væntanlegir nemendur okkar munu hafa.
Ég veit að það flotta fólk sem að þessum skóla stendur er að vinna dagsdaglega að ráðgjöf fatlaðra barna meðal annars hjá Greiningarstöð ríkisins og frábært hjá þeim að fara af stað og stofna skólann. Þörfin er mikil. Álag á fjölskyldur fatlaðra barna eins og til dæmis með einhverfu er mikið, ekki síst á barnið sjálft.
Vetrarfrí og sumarfrí eru erfið. Að púsla saman skóla, frístund, stuðningsfjölskyldum, liðveislu, talþjálfun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, atferlisþjálfun… á ég að halda áfram? Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Þarna er verið að bjóða upp á heildstæða þjónustu þannig að það sé samfella og föst rútína allan ársins hring. Atferlisþjálfun er mjög markviss aðferð sem reynist mjög vel að kenna fötluðum eins og til dæmis einhverfum sem eru kvíðnir eða með mótþróa.
Ég veit að lengi var leitað að heppilegu húsnæði undir skólann í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Því kom skemmtilega á óvart að hann skyldi vera stofnaður hér í þessum frábæra bæ Mosfellsbæ. Þar sem framtíðarmarkmiðið er að starfa við hlið almenns grunnskóla skora ég á bæjaryfirvöld að finna stað fyrir þennan skóla innan skólakerfis Mosfellsbæjar.
Eins og ég sagði í byrjun þá er mikill fengur fyrir okkur sem samfélag að fá þennan flotta skóla og mikla þekkingu inn í bæjarfélagið.

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Bætt lífskjör almennings og kosningar

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Það er óhætt að segja að okkur vegni vel hér á landi þegar litið er til efnahags og lífskjara almennings.
Skuldastaða íslenska ríkisins hefur batnað hratt og hefur ekki verið lægri frá hruni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að skuldirnar lækki enn meira enda er það besta leiðin til að geta ráðstafað auknu fé í velferðarmála, heilbrigðismál og samgöngumál.
Atvinnuleysi er hér mjög lágt og verðbólgan hefur haldist lág þrátt fyrir mikinn hagvöxt síðustu ára. Eða eins og seðlabankastjóri sagði í sumar „líklega hefur staða efnahagsmála aldrei verið betri í Íslandssögunni“. En þrátt fyrir það horfum við fram á enn aðrar kosningarnar. Ótrúlegt að okkur gangi ekki að halda meiri stjórnmálalegum stöðuleika, sérstaklega þegar horft er til þess sögulega árangurs sem náðst hefur í efnahagsmálum.
Auðvitað er það þannig að góð staða efnahagsmála þýðir ekki endilega aukna hamingju og lífsgæði almennings. En staðan hér er nú samt þannig að við erum með hamingjusömustu þjóðum og hér er jöfnuður hvað mestur.
Við Sjálfstæðismenn göngum keikir til kosninga og leggjum á borðið fyrir kjósendur grunnstefnu flokksins. Frelsi til orðs og athafna, allir eiga að hafa tækifæri til að láta drauma sína rætast.
Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til menntunar og jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Við treystum best hinum vinnandi manni fyrir tekjum sínum og stefnum ávallt að því að halda skattaálögum í lágmarki.
Þrátt fyrir að mikið sé lagt á kjósendur að ganga til kosninga nú þegar aðeins er liðið ár frá síðustu alþingiskosningum vil ég þó leggja áherslu á að almenningur missi ekki trúna á stjórnmálunum.
Lýðræðið er ekki fullkomið en þó besti kosturinn. Kosningar eru hluti af lýðræðinu og því er það ekki bara æskilegt heldur skylda almennings að taka sér tíma til að kynna sér málefni framboðanna, mynda sér afstöðu og mæta á kjörstað 28. október næstkomandi.
Fyrir ári síðan gaf ég kost á mér til þingsetu og stóð í þeirri meiningu að það gerði ég til næstu fjögurra ára. Ég átti ekki von á kosningum ári seinna en það er staðan í dag. Ég er tilbúin að halda áfram að vinna með Sjálfstæðisflokknum að því að tryggja hér áframhaldandi lífsgæði almennings og mun því aftur bjóða fram krafta mína í komandi kosningum.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins