Söfnun og endurvinnsla á plasti

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Sérsöfnun á plasti í Mosfellsbæ hefst 1. mars nk. Frá þeim degi geta Mosfellingar sett allt hreint plast í poka sem fer síðan í orkutunnuna (dökkgráu/svörtu tunnuna) við heimili bæjarbúa.
Söfnun þessi er samstarfsverkefni fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem eru: Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Garðabær og Seltjarnarnes.

Pokarnir verða fluttir í endurvinnslustöð SORPU þar sem þeir verða aðskildir frá öðru sorpi með sérstökum blástursbúnaði. Plastið verður síðan baggað, sett í gáma og flutt sjóleiðis til Svíþjóðar þar sem það verður endurunnið fyrir nýjar vörur. Flestar tegundir plasts er hægt að endurnýta, harðplast er til dæmis endurunnið sem efni í flíspeysur en það plast sem er ekki endurvinnanlegt verður brennt til orkunotkunar.
Þetta framfaraspor mun ekki hafa áhrif á gjaldskrá fyrir móttöku úrgangs úr orkutunnunni, enda er gert ráð fyrir að úrvinnslugjaldið kosti þær breytingar sem SORPA hefur lagt í vegna þessa verkefnis. Góður árangur í plastsöfnun getur hins vegar leitt til lækkunar á móttökugjaldi.

Örn Jónasson

Örn Jónasson

Á næstu vikum mun SORPA kynna þetta verkefni, í nánu samstarfi við sveitarfélögin fjögur. Það er von okkar að við náum strax sem bestum árangri í því, enda er það til mikilla hagsbóta fyrir umhverfi okkar og náttúruna. Því má þó ekki gleyma að framtíðarsýn okkar er ævinlega sú að minnka notkun á plasti sem allra, allra mest.

Bjarki Bjarnason,
formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Örn Jónasson, varaformaður.