Ég brenn fyrir verkefnunum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Það eru forréttindi að fá tækifæri til að taka þátt í stjórnmálum í samfélagi eins og Mosfellsbæ. Í Mosfellssveit, sem hún hét þá, eyddi ég æsku minni áhyggjulaus þar sem vinirnir, hesthúsin, íþróttahúsið og skólinn, í þessari röð, skiptu mestu máli.
Það var langt til Reykjavíkur og við vorum sjálfum okkur næg framan af. Ég ólst upp í stórum systkinahópi og börðust foreldrar mínir í bökkum til að hafa ofan í okkur og á. Aðstæður heima voru ekki alltaf þær bestu en við lærðum að standa á eigin fótum og að ekkert kemur af sjálfu sér. Mosfellssveitin ól okkur upp og þurftum við ekki mikið en í þessu umhverfi fannst okkur við vera óhult.
Umhverfið og náttúran mótaði mig og gerir það að verkum að ég brenn fyrir því að börn eigi að búa í góðu og öruggu samfélagi. Auðvitað hafa tímarnir breyst. Það var ekki allt gott í gamla daga en þorpið sem ég var svo heppin að alast upp í á í mér hverja taug. Vinataugin á milli vina úr Mosó slitnar ekki svo auðveldlega og er svo ótrúlega gaman að heyra yngri kynslóðir segja einmitt það sama.
Eftir nokkurra ára fjarveru fannst mér mikilvægt að mín börn fengju að kynnast því sama og ég fékk að upplifa. Að eignast vini, fara í skólann, taka þátt í tómstundum og vera örugg í sínu samfélagi. Nú eru barnabörn að koma til sögunnar og á meðan ég hef orku til mun ég leggja mitt af mörkum til að Mosfellsbær verði áfram góður staður fyrir fólk til að halda utan um sína fjölskyldu. Þar skipta skólarnir mestu máli og þjónustan sem bærinn veitir.
Þetta er ástæðan fyrir þátttöku minni í stjórnmálum. Það er mikilvægt að fá að móta og bæta samfélagið. Það gerir enginn einn. Nú er aftur komið að kosningum og eftir að hafa íhugað málin vel, athugað bensínið á tanknum þá finn ég að eldmóðurinn og áhuginn er enn til staðar. Ég er ekki í pólitík til að koma höggi á aðra heldur til að gera samfélaginu gagn. Ég veit að reynsla mín og þekking kemur að gagni og hef því ákveðið að leggja mig alla fram eitt kjörtímabil í viðbót.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi býður sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ