Ég er stoltur Mosfellingur

Sturla Sær Erlendsson

Sturla Sær Erlendsson

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer 10. febrúar næstkomandi. Í dag er ég varabæjarfulltrúi og varaformaður þróunar- og ferðamálanefndar sem hefur verið frábær reynsla.
Fyrir 4 árum var ég ekki viss um hvort stjórnmál væru fyrir mig, en eftir að hafa tekið þátt hefur áhuginn vaxið og því ákvað ég að halda áfram. Margir spyrja fyrir hvað ég standi og hverju ég ætla að vinna að í bæjarstjórn. Þar sem ég er tuttugu og þriggja ára myndu einhverjir segja að ég væri fulltrúi unga fólksins í hópnum, en án gríns þá er fátt sem ég hef ekki áhuga á.
Ég er stoltur Mosfellingur og hef alveg ólæknandi áhuga á því sem er að gerast í bænum mínum. Það er ánægjulegt hvað Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn eins og Gallup kannanir hafa sýnt. Það vil ég að verði áfram. Mosfellsbær er bærinn minn og sá staður sem ég vil búa með minni fjölskyldu og veit ég að margir jafnaldrar mínir eru mér sammála.
Ég hvet Mosfellinga til að taka þátt í prófkjörinu sem fram fer 10. febrúar og óska eftir stuðningi í 4.-6. sæti.

Sturla Sær Erlendsson