Er gott að búa í Mosfellsbæ?

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mosfellsbaer.is eru einkunnarorðin: „Virðing – Jákvæðni – Framsækni – Umhyggja“
Ekki veit ég hversu margir taka þessi orð alvarlega né hversu margir líta á þessa yfirlýsingu sem eins og hver önnur innantóm orð.
Þessi fjögur orð voru sett á heimasíðu Mosfellsbæjar fyrir um áratug. Sjálfsagt er að þeim sem þar áttu hlut að máli hafi ekki gengið nema gott eitt til.

Um aldamótin síðustu var vinstri meirihluti við stjórn í Mosfellsbæ. Á vegum hans var sett upp umræðusíða í tenslum við síðu Mosfellsbæjar sem margir Mosfellingar notuðu mikið, sumir jafnvel daglega. Á þessari umræðusíðu gátu Mosfellingar skrifað sitt hvað sem þeim þótti ástæða til að tjá sig um, bentu á sitt hvað sem betur mætti fara. Urðu þar oft mjög þarfar umræður um þessi mál.
En eitt yfirsást þeim meirihlutamönnum: að ráða sérstakan ritstjóra og umsjónarmann síðunnar. Ekki væri birt efni nema þar gætti hófsemi og um málefnaleg sjónarmið væri að ræða. Því miður urðu það endalok þessarar umræðusíðu að einn aðili tók sér það bessaleyfi og vald að birta oft á tíðum mjög óviðunandi athugasemdir við það efni sem var honum ekki að skapi. Varð þetta til að margir urðu miður sín og urðu jafnvel sárir fyrir svona uppivöðslusemi.
Sennilega hefur lýðræði íbúa aldrei komist jafnlangt og á þessum tíma í Mosfellsbæ.
Eitt af fyrstu verkefnum Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar vorið 2002 var að taka ofan þennan spjallvettvang. Til stóð að endurvekja hann en nú er liðinn meira en hálfur annar áratugur án þess nokkuð hafi gerst né eitthvað bendi til að aftur verði tekinn upp þráðurinn.
Spurning er hvort „virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja“ séu ekki aðeins orðin tóm. Ég tel mig alla vega vera í þeim hópi efasemdarmanna.
Ég hefði gjarnan viljað benda á sitt hvað sem þarf að skoða betur í bæjarfélaginu. Eitt mjög lítið dæmi er að fyrir nokkru hefur einhver húseigandi bæjarins séð ástæðu til að saga ofan af trjám sem bæjarstarfsmenn gróðursettu um aldamótin. Hefði ekki verið æskilegt að íbúar bæjarins geti rætt saman um mál eins og þetta fremur en að einhver taki lögin í sínar hendur og eyðileggi að þarflausu opinberar eigur?
Kannski hefði farið betur að hafa samráð við íbúa á sínum tíma um hvort rétt væri að planta hávöxnum trjám rétt utan við stofugluggann. Sumar trjátegundir geta jafnvel orðið tugir metrar á hæð.

Það þarf að opna að nýju umræðugrundvöll á heimasíðu Mosfellsbæjar eins og vinstri meirihlutinn átti veg og vanda af á sínum tíma.
Þegar kosningar fara í hönd þá ræða Mosfellingar gjarnan um skattana sína og fyrir hvað þeir fá til baka í opinberri þjónustu: Er skólamálum nægilega sinnt? Hvað með málefni barnafjölskyldna? Hver er staða félagsmála, húsnæðismála og heilbrigðismála? Hvernig er staðið að umhverfismálum og almenningsþjónustu? Og hvað með málefni aldraðra? Þannig má lengi áfram telja.

Við viljum að tekjur sveitarfélagsins nýtist sem best og opið bókhald sveitarfélagsins er stór áfangi að opna lýðræðuslegar umræður.

Guðjón Jesson
Arnartanga 43