Opinn fundur umhverfisnefndar

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Ágætu Mosfellingar.
Fimmtudaginn 28. apríl nk. mun umhverfisnefnd Mosfellsbæjar efna til opins fundar í Listasalnum í Kjarna og hefst hann kl. 17.
Fundurinn er haldinn í samræmi við lýðræðistefnu bæjarins en þar segir: Hver og ein nefnd leitist við að hafa opinn upplýsinga- og samráðsfund fyrir bæjarbúa einu sinni á ári.
Þema fundarins er heilsuefling og útivist í Mosfellsbæ og verða flutt þrjú stutt erindi þar um. Í kjölfarið gefst fundargestum kostur á að ræða þessi málefni og hvaðeina sem tengist umhverfismálum bæjarins. Hér verður gerð nánari grein fyrir viðfangsefni fundarins.

Heilsueflandi samfélag og útivist
Mosfellsbær skilgreinir sig sem heilsueflandi samfélag og er útivist mikilvægur þáttur í því samhengi. Bærinn er umlukinn fögru umhverfi með ótal tækifærum til útivistar og á fundinum mun Ólöf Sívert­sen frá Heilsuvin fjalla um heilsueflingu og útivist í sveitarfélaginu.

Skógrækt og útivist
Skógrækt hefur verið stunduð í landi Mosfellsbæjar um áratugaskeið eins og sjá má víða í sveitarfélaginu. Þetta starf hefur ekki síst verið borið uppi af Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, af mikilli eljusemi og dugnaði. Skógræktarsvæðin eru kjörin til útivistar og á fundinum mun fulltrúi félagsins fjalla um þau mál.

Gönguleiðir
Margar áhugaverðar gönguleiðir er að finna í landi Mosfellsbæjar, bæði meðfram ströndinni og um fjöll og dali. Á undanförnum árum hafa þessar leiðir verið merktar rækilega með stikum og skiltum; verkefnið er fjármagnað af Mosfellsbæ en Skátafélagið Mosverjar annast framkvæmd þess. Ævar Aðalsteinsson mun fjalla um gönguleiðaverkefnið á fundinum.
Þessar merktu gönguleiðir eru flestar í námunda við þéttbýlið en þess má geta að uppi á Mosfellsheiði er mikið af ómerktum göngu- og reiðleiðum. Undanfarin misseri hefur starfshópur á vegum bæjarins haft það verkefni með höndum að kortleggja þessar leiðir og skilgreina notkun þeirra. Hér er um viðamikið verkefni að ræða sem er enn í vinnslu en þess má geta að Mosfellsheiði er sameign nokkurra sveitarfélaga, þar á meðal Mosfellsbæjar.

Lokaorð
Sumarið er sá árstími þegar fólk hugar hvað mest og best að umhverfi sínu. Því er ekki úr vegi að minna á að fram til 5. maí verður sérstakt hreinsunarátak í bænum; að venju hefur sveitarfélagið sett upp gáma fyrir garðaúrgang en um staðsetningu þeirra má lesa nánar á heimasíðu Mosfellsbæjar.
Við hvetjum bæjarbúa til að fjölmenna á fundinn þann 28. apríl og fyrir hönd umhverfisnefndar óskum við öllum Mosfellingum gleðilegs sumars.

Bjarki Bjarnason, formaður.
Örn Jónasson, varaformaður.

Þakklæti bætir, hressir og kætir

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Þar sem ég sit og horfi út um gluggann í sveit á Suðurlandi fyllist ég þakklæti fyrir svo margt og finn svo sterkt fyrir því hversu þakklæti er göfug og góð tilfinning.
Það er nefnilega svo ótrúlega margt sem við getum verið þakklát fyrir í lífinu eins og t.d. fyrir fólkið okkar, þak yfir höfuðið, sólskinið, hreina loftið (sem stundum er á mismunandi mikilli hreyfingu), mat á borðum, fallegt landslag og svo mætti lengi telja.

Hvað er þakklæti í raun?
Í bók sinni Gæfuspor – gildin í lífinu segir Gunnar Hersveinn þakklæti vera bæði innri upplifun og ytri tjáningu. Innra þakklætið lúti að því sem við erum, höfum, eigum og því sem kemur ekki fyrir okkur.
Galdurinn felist í því að kunna að bera kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra að meta það mikils eins og t.d. lífið, heilsuna, frelsið, æskuna, ellina, fjölskylduna, vinina o.s.frv. Ytra þakklæti lúti hins vegar að því sem aðrir láta okkur í té eins og t.d. samveru, viðurkenningu, virðingu, leiðsögn, góð orð, kærleik og samúð svo fátt eitt sé nefnt.

Þakklæti bætir heilsuna
Fjöldamargar rannsóknir sýna fram á að þakklæti bætir heilsu okkar. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur síðustu ár rannsakað áhrif þakklætis á fólk, samskipti, hamingju og heilsu.
Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífsánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.

Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkar með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.
Kærar þakkir fyrir lesturinn!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Í lakkskóm í sundklefanum

Jóna Björg Ólafsdóttir

Jóna Björg Ólafsdóttir

„Nohh, nohh, það er aldeilis stæll á manni!“ sagði maðurinn við bifvélavirkjann þar sem sá síðarnefndi stóð í klefanum í sund­skónum.
Maður má bara þakka fyrir að þú mætir ekki bara hérna á nýpússuðum lakkskónum, sagði maðurinn við bifvélavirkjann og rak svo upp hæðnishlátur. Bifvélavirkinn starði vonleysislega á manninn sem stóð andspænis honum í sturtunni og hugsaði með sér: „Andskotans afskiptasemi alltaf hreint!“

Spígsporandi um klefann
„Já, þú hefur ekki trú á svona skóm,“ sagði bifvélavirkinn og dró andann djúpt. „Ef að þú vilt auka líkurnar að fá sveppsýkingu í fæturna eða í neglurnar þá eru sundklefarnir algjörlega málið. Ekki svo að skilja að klefarnir séu illa þrifnir heldur kemur þetta vegna þess að fólk er ekki í sundskóm!“ Hvorki þeir sem eru með sveppasýkingu né þeir sem eru í áhættuhópi fyrir að fá sveppasýkingar. Það þarf ekki nema að eitthvað smá rof komi á húðina eða ónæmiskerfið virki ekki alveg eins vel og það ætti að gera, þú spígsporandi á tánum hérna í klefanum og viti menn: Bamm! Þú ert kominn með sveppasýkingu.

Þetta kemur ekki fyrir mig
„En þú heldur kannski að þetta geti ekki komið fyrir þig? Að þú sért á einhverjum andskotans sérsamningi? En þar skjátlast þér gamli minn,“ sagði bifvélavirkinn og fann að nú var hann að komast á skrið. Og hélt svo áfram: „Svo nennir þú eflaust ekki heldur að þurrka þér vel á milli tánna, heldur strýkur kannski bara mestu bleytuna ofan af tánum, smellir þér í sokkana og svo í lokaða skóna. Það sem gerist er að sveppurinn mallar í skónum, því í hitanum og rakanum í skónum líður sveppnum svo vel. Sveppurinn nær svo yfirhöndinni, hann byrjar oft á milli tánna og svo færir hann sig kannski niður á tábergið og svo ef hann er í stuði fer hann kannski í neglurnar líka.“
„Já, er það virkilega,“ sagði maðurinn og var nú orðinn svolítið alvarlegri. „En hvernig veistu hvort þú sért með sveppasýkingu á fótunum?“ spurði maðurinn.

Ekki gera ekki neitt
„Mér skilst að húðin verði svona hvít og þurr. Hún reyndar getur líka orðið rauð og þrútin og svo klæjar mann í húðina. Neglurnar geta orðið þykkar og ljótar og oft koma litabreytingar fram í þeim. Það versta er að þetta er alveg bráðsmitandi.“
„Já, er það virkilega,“ sagði maðurinn hissa. „Og hvað ef mig grunar að ég sé með sveppasýkingu?“ spurði maðurinn og hugsaði hvort hann klæjaði nokkuð á milli tánna.
„Aðalatriðið er að gera eitthvað í þessu en annars er ég bifvélavirki og enginn andskotans sérfræðingur í þessu! Farðu bara í fótaaðgerð og þá færðu að vita allt!“
Ekki gera ekki neitt
Pantaðu þér tíma strax í dag

Jóna Björg Ólafsdóttir
Fótaaðgerðafræðingur
Líkami og sál – s. 566-6307

POWERtalk deildin Korpa 30 ára

POWERtalk eru alþjóðleg samtök sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu sem skilar árangri. Samtökin virkja fólk til þátttöku í umræðum, bjóða leiðtogaþjálfun og auka færni fólks við kynningar og fundarstjórnun.
Samtökin hafa engan fjárhagslegan ávinning. Ávinningurinn felst í því að fólk öðlist þá færni og sjálfstraust sem þarf til að flytja mál sitt af öryggi, hvort sem er í ræðu eða riti, við ýmis tækifæri. Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri jafningjafræðslu sem hvetur fólk til dáða þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi.
Þann 5. mars 1986 var POWERtalk deildin Korpa stofnuð í Mosfellsbæ. Korpa fagnaði því 30 ára afmæli sínu s.l. helgi. Félagar deildarinnar blésu til afmælisfundar fimmtudaginn 3. mars 2016, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar. Fjölmargir gestir komu og fögnuðu afmælinu með félögum deildarinnar. Vel var gert við þá í mat og drykk, ásamt góðri hressingu fyrir sálina með skemmtilegri dagskrá.

Heiðursgestur afmælisfundarins var einn af stofnfélögum deildarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingiskona. Í ávarpi sínu sagði hún fundargestum frá mikilvægi þess fyrir sig að hafa fengið þjálfun í að undirbúa mál sitt og flytja það fyrir hóp af fólki. Einnig fjallaði hún um þann góða vinskap sem myndast innan deildarinnar og persónulega tengslanetið sem stækkar mikið er maður starfar í samtökunum.
Á 30 árum hafa um 130 manns notið góðs af því starfi sem fer fram í POWERtalk deildinni Korpu. Fólk kemur úr öllum áttum og hefur mismunandi þekkingu og reynslu. Einstaklingurinn finnur fljótt að fátt eða ekkert er ómögulegt. Það virðist alltaf einhver hafa lausn eða þekkingu til að vinna þau mál sem þarf að leysa. Í Korpu er enginn eins en allir vinna saman og nýta tækifæri sín vel.
POWERtalk-deildin Korpa er staðsett í Mosfellsbæ og fundar annan hvern fimmtudag í Safnaðarheimili Lágafellssóknar. Næsti fundur er fimmtudaginn 17. mars kl. 20:00. Það vill svo skemmtilega til að þá verða kappræður á milli tveggja deilda. Korpa keppir við POWERtalk deildina Hörpu frá Reykjavík. Korpa hefur fengið það hlutverk að leggja til að heilbrigðiskerfið verði einkavætt. Kappræðulið Hörpu mótmælir tillögunni. Að sjálfsögðu ætlar Korpa að vinna þessa úrslitaviðureign og hampa bikarnum í lok kvöldsins. Kappræður eru einstaklega líflegar og skemmtilegar á að horfa og því tilvalið að koma á fund hjá Korpu fimmtudaginn 17. mars kl 20:00 í Safnaðarheimilinu, Þverholti 3. Það eru allir velkomnir.

Lóa Björk Kjartansdóttir

Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016

Verum hér og nú

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Segja má að líf okkar sé í raun samsett úr ótölulegum fjölda augnablika sem við getum kallað núið. Ef við erum ekki í núinu má segja að við séum ekki til staðar í lífinu, gleymum að njóta líðandi stundar.
Í hröðu samfélagi nútímans einkenna margskonar áreiti líf okkar flestra, við þurfum að takast á við alls kyns áskoranir, gegna mörgum hlutverkum og svo mætti lengi telja. Slíkt ástand getur kallað fram streitu hjá einstaklingum og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þá er streita og andleg vanlíðan einn helsti heilsuvandi Vesturlandabúa um þessar mundir.

Hvað er núvitund?
Hugurinn hefur tilhneigingu til að fara með okkur á flakk um fortíð og framtíð auk þess sem hann er alltaf að meta, skilgreina, flokka og skipuleggja – bæði meðvitað en oftast ómeðvitað. Mörg okkar glíma einnig við sjálfsgagnrýni og neikvæðar hugsanir og mótast líðan okkar mjög af þessum þáttum. Á meðan líður lífið hjá án þess að við tökum eftir öllum þeim stóru sem smáu ævintýrum sem eru í boði bæði innra með okkur og allt um kring.

Núvitund (e. mindfulness) merkir í raun að vakna til meðvitundar um okkur sjálf og lífið á líðandi stundu, að hafa athyglina í núinu á opinn og virkan hátt. Núvitund þýðir að við erum með hugsunum okkar á meðvitaðan hátt, tökum eftir þeim án þess að dæma og festa okkur í þeim – lærum að velja hvert og hvernig við beinum athygli okkar. Á þann hátt fáum við tækifæri til að losna undan valdi hugans og skynja okkur sjálf og lífið í vinsemd og sátt.

Ávinningurinn
Fjöldamargar rannsóknir hafa verið gerðar á núvitund síðustu ár og er niðurstaðan sú að þeir sem stunda núvitundaræfingar hafa betri skilning á tilfinningum sínum, eru hamingjusamari, eiga auðveldara með að setja sig í spor annarra, búa yfir meiri persónulegri hæfni, hafa meiri sjálfsvirðingu og eru sáttari í eigin skinni.
Núvitund styrkir einnig ónæmiskerfið, getur dregið úr þrálátum verkjum, vinnur gegn þunglyndi og kvíða og getur jafnvel haft jákvæð áhrif á t.d. of háan blóðþrýsting og hjartavandamál.

Samkvæmt rannsóknum er núvitund einfaldlega ein öflugasta leiðin sem við þekkjum í dag til að losna undan streitu og efla heilbrigði, vellíðan, sátt og jákvætt hugarfar.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016

Íslenskir karlmenn

Jóna Björg Ólafsdóttir

Jóna Björg Ólafsdóttir

Maður kom á bifvélaverkstæðið og hitti þar fyrir bifvélavirkjann. Getur þú gert við bílinn minn, sagði maðurinn. Já ekkert mál, sagði bifvélavirkinn, en ég kemst ekki í það alveg strax af því að ég er að fara í fótaaðgerð. Ha, sagði hinn, ertu að fara í hvað?
Nú ég er að fara í fótaaðgerð, svaraði bifvélavirkinn, þú veist þar sem að það er tekið siggið af hælunum, klipptar neglurnar og þær snyrtar og allt það. Fótaaðgerð! Er þetta ekki bara ekki eitthvað bölvað pjatt? spurði viðskiptavinurinn.

Upphersla á fótabúnaði
Pjatt! Gall í bifvélavirkjanum. Þú verður að læra að hugsa um fæturna þína eins og bílinn þinn, sagði bifvélavirkinn. Þú ferð ekkert langt á lélegum dekkjum eða hvað? Líkami okkar er eins og vél í bíl þar sem fæturnir eru dekkin. Það er ekki nóg að bíllinn þinn líti voðalega út ef dekkin eru gatslitin. Fæturnir eru undirstaðan, þú veist. Við verðum að fara reglulega í uppherslu á fótabúnaðinum okkar alveg eins og með bílinn. Hmm, sagði hinn og var hugsi, en bíddu eru það ekki bara einhverjar kjellingar sem fara í svona?

Konur og menn
Bifvélavirkinn starði með undrunarsvip á viðskiptavininn og sagði svo: Veistu bara ekkert um þetta maður? Nú skal ég segja þér hvernig þetta fer fram. Þetta er bara þannig að maður kemur þarna á stofuna til stelpnanna. Þú ferð í heitt og notalegt fótabað. Færð gott kaffi. Svo situr maður þarna og slappar af og spjallar við fótaaðgerðafræðinginn um daginn og veginn á meðan að fæturnir eru teknir í gegn. Svo eftir klukkutíma gengur þú út eins og nýr maður.
Kemur svo heim og konan agalega kát þegar þú skríður upp í vegna þess að nú er ekkert hart sigg á hælunum sem að rispar leggina á henni. Þannig að kannski er þetta bara fyrir okkur bæði. Annars get ég sagt þér að það eru fleiri karlar en konur sem fara í fótaaðgerð ! Hmm er það, sagði maðurinn verulega hissa. En hva afhverju talar enginn um þetta ?

Íslenskir karlmenn fara í fótaaðgerð!
Pantaðu þér tíma strax í dag!

Jóna Björg Ólafsdóttir
Fótaaðgerðafræðingur
Líkami og sál s. 566-6307

Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016

Sérkennileg staða hjá FaMos

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Helstu fregnir af Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni eru þær að nýverið var haldinn fjölmennur aðalfundur, hinn 15. febrúar 2016, í Hlégarði. Fyrri stjórn var samhljóða endurkjörin. Um þetta má sjá nánar á vefsíðu félagsins www.famos.is.

Lög félagsins endurskoðuð
Lög félagsins voru endurskoðuð fyrir aðalfundinn, eftir að stjórn FaMos og sérskipuð laganefnd höfðu komið fram með ýmsar tillögur um lagfæringar á lögum félagsins. Nokkur umræða varð um lagabreytingarnar en að öðru leyti gekk fundurinn vel og óhikað fyrir sig, undir góðri fundarstjórn Magnúsar Sigsteinssonar. Eftir fyrsta stjórnarfund nýkjörinnar stjórnar varð skipting verka innan stjórnarinnar sú sama og verið hafði 2015. Mikill og góður rómur var gerður að glæsilegu örþorrablótsmeðlæti með kaffinu sem var í boði félagsins. Kaffinefnd félagsins undir forystu Elísabetar Kristjánsdóttur, matreiðslukennara, fékk mikið og verðskuldað lófaklapp fyrir sinn þátt í vel heppnuðum aðalfundi.

Skemmtiatriði
Meðan aðalfundargestir gæddu sér á þorrablótsréttum kaffinefndar, kom Pétur Bjarnason, fyrrum skólastjóri í Varmárskóla og síðar framkvæmdastjóri SÍBS, mjög á óvart, með skemmtilegum og fróðlegum fyrirlestri um hið einstaka og skemmtilega hljóðfæri „harmónikkuna“. Hann mætti með einar fjórar mismunandi stórar harmónikkur úr safni sínu og gaf fundargestum hljóðdæmi frá hverri um sig ásamt því að fá um 80 fundargesti fundarins til að taka hressilega undir með sér. Einstaklega skemmtileg stemning og almenn ánægja með framlag Péturs.

Sérkennileg staða
Á fyrsta stjórnarfundi nýkjörinnar stjórnar FaMos, gerði formaður stjórnar FaMos, Harald S. Holsvik, grein fyrir þeirri staðreynd að af 1362 einstaklingum, fæddum fyrir 31.12. 1956, þ.e. 60 ára og eldri, eru ekki nema um 34% í félaginu. En 2/3 hlutar íbúa í póstnúmerunum 270. 271 og 276, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir ágæti þess að gerast félagar. En ekkert er auðveldara, t.d. með því að koma við hjá Félagsstarfi eldri borgara að Eirhömrum. Þar liggja frammi umsóknareyðublöð um félagsaðild ásamt því að unnt er að afrita slík umsóknareyðublöð af vefsíðu félagsins www.famos.is og senda upplýsingarnar á netfangið famos@famos.is ef fólk hefur tölvu til umráða. Svo einfalt er það. En hverjir eru þá kostir þess að vera skráður félagi í FaMos? Það er góð spurning.

Helstu viðfangsefni FaMos
1. Félagið stendur fyrir ýmis konar menningar- og skemmtistarfsemi um vetrarmánuðina ásamt því að ljúka vetrarstarfinu með dagsferð sem kallast „Menningarkvöld um miðjan dag“. Undanfarin misseri hafa verið sögunámskeið á vegum nefndarinnar og þá gjarnan farið í eins eða tveggja daga ferð um viðeigandi söguslóðir. Á vegum félagsins er einnig starfandi „Leshringur“ sem tekur ýmsar bókmenntir fyrir og greinir inntak þeirra „niður í kjölinn“, stundum í sameiningu með höfundum sem koma stundum og lesa upp með hópnum í góðri samvinnu með starfsfólki Bókasafnsins í Mosfellsbæ.
2. Félagið samræmir íþróttaiðkun félagsmanna. Þar má nefna; vatnsleikfimi, boccia, ringó og dansleikfimi. Mismunandi oft í viku hverri um vetrartímann. Ýmis íþróttamót eru haldin allt árið og hefur lið FaMos oft unnið til verðlauna undanfarin ár.
3. Einnig má nefna; Línudans, gönguhóp, golf-pútt, olíumálun, gleriðju, hannyrðir, módelsmíði, útskurð, spænskunám og fl. ótalið. Allt í góðu samstarfi við Félagsstarfið að Eirhömrum. Þeir sem hafa aðgang að tölvu, fá, um vetrartímann, vikulegar tilkynningar um það sem efst er á baugi í félagsstarfinu.
4. Á vegum félagsins starfar einnig sérstök Ferðanefnd sem skipuleggur og samræmir skemmtilegar ferðir á vegum félagsins innanlands og erlendis eftir atvikum.
5. Félagsskírteini FaMos, gildir sem afsláttarkort um land allt, því félagið er aðili að Landssambandi eldri bogara, LEB en með félagsskírteini FaMos, virkjar félagsmaður aðild að ýmsum afsláttarsamningum og sérstakri afsláttarbók sem gefin er út af LEB og er einnig tiltæk á Internetinu, fyrir þá sem hafa tölvu við höndina. Algengur afsláttur af vöru og þjónustu getur verið á bilinu 10-15% eftir viðkomandi viðskiptum. Fyrirtækin í Mosfellsbæ hafa stutt og styrkt félagsstarfið vel og dyggilega og verið góður bakhjarl við félagið og starfsemi þess. Það er því ósk mín að allir félagar og þeirra fjölskyldur, þiggi þjónustu hér í bænum ef hún er til staðar, áður en leitað er annað.
6. Fyrir þá sem hafa unun af að syngja, þá er starfandi kór eldri borgara, Vorboðarnir, formaður er Úlfhildur Geirsdóttir. Í Vorboðunum eru um 60 manns, veitt er kennsla í raddbeitingu ásamt því er um mjög öflugt félagsstarf að ræða og skemmtilegir viðburðir, stundum oft í mánuði. Bara fjör.
Verið öll velkomin í hópinn til okkar, www.famos.is og famos@famos.is

Harald S. Holsvik, formaður FaMos

Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016

Þakkir til Mosfellinga!

Helga Kristín Magnúsdóttir

Helga Kristín Magnúsdóttir

Á dögunum gengum við ásamt frábærum hópi fólks í hús hér í bæ til að safna undirskriftum til að knýja fram almennar prestskosningar í Mosfellsprestakalli.
Við erum ákaflega stoltar og þakklátar yfir því hversu vel tókst til, hversu auðveldlega tókst að ná tilsettum fjölda undirskrifta og gott betur. Við erum mjög svo þakklátar þeim sem voru tilbúnir að leggja okkur lið og það er augljóst að hér í sókninni býr frábært fólk sem stendur saman. Bæjarbúar eiga hrós og þakkir skildar fyrir hversu vel þeir tóku í undirskriftarsöfnunina og voru almennt jákvæðir fyrir því að styðja lýðræðið.

Umsóknarfrestur um embætti prests í Mosfellsprestakalli rann út þann 9. febrúar sl. og nú liggur ljóst fyrir að Arndís G. Bernhardsdóttir Linn er eini umsækjandinn og því ein presta í kjöri. Arndís hefur starfað við Lágafellssókn í fjórtán ár, verið meðhjálpari, séð um foreldramorgna, unnið að fermingarfræðslu og komið að fleiri störfum innan kirkjunnar. Frá því hún hlaut sjálf vígslu til Kvennakirkjunnar hefur hún leyst presta sóknarinnar af og sinnt hinum ýmsu prestsverkum fyrir bæjarbúa sem og aðra við góðan orðstír.
Arndís er Mosfellingur í húð og hár og teljum við það mikinn kost að fá hér prest sem þekkir til flestra sóknarbarna sem og þau til hennar. Hún hefur afar þægilega nærveru, er einlæg og tilbúin til að þjóna fólki á gleði- og sorgarstundum.

Sigríður Sigurðardóttir

Sigríður Sigurðardóttir

Þó svo að Arndís sé eini umsækjandinn munu fara fram „kosningar“ á vegum Biskupsstofu. Við viljum því hvetja bæjarbúa til að fjölmenna á kjörstað, styðja okkar konu og sýna í verki að hún á stuðning okkar til þessa embættis.

Virðingarfyllst
Helga Kristín Magnúsdóttir
og Sigríður Sigurðardóttir

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er svo ótal margt sem við getum gert til að efla vellíðan okkar og leggja rækt við okkur sjálf.
Það er löngu vísindalega sannað að holl, góð og fjölbreytt næring hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan okkar og hið sama gildir um hreyfingu. Ef okkur líður vel andlega og líkamlega þá eru yfir­gnæfandi líkur á því að félagslegi þátturinn fylgi með sem einkennist af góðum og kærleiksríkum samskiptum við aðra.

Kærleiksvikan 14.-21. febrúar
Kærleiksvikan hefur verið við lýði í Mosfellsbæ allt frá árinu 2010 en markmið hennar er að virkja kærleikann innra með okkur, bæði í garð okkar sjálfra sem og annarra. Margt skemmtilegt er á dagskránni og má þar m.a. nefna kærleiksrík skilaboð sem nemendur grunnskólanna setja á innkaupakerrur í Krónunni og Bónus og Heilunarguðþjónustu sem verður í Lágafellskirkju kl. 20:00 í kvöld.
Kærleikssetrið býður m.a. upp á létt herðanudd, talna- og stjörnuspeki og margt fleira auk þess sem hægt verður að kaupa 15 mínútna spá á vægu verði í Spákaffi í Kaffihúsinu Álafossi á sunnudag. Nánari dagskrá má finna á síðunni „Kærleiksvika í Mosfellsbæ“ á Facebook.

Lífshlaupið
Þessa dagana er Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, í algleymingi. Mörg lið úr Mosfellsbæ taka að sjálfsögðu þátt eins og frá bæjarskrifstofunni, Varmárskóla og Lágafellsskóla. Í Lífshlaupinu eru landsmenn hvattir til að huga að daglegri hreyfingu sinni og hvernig megi auka hana.
Getum við t.d. gengið/hjólað á milli staða í stað þess að nýta bílinn? Getur við gengið stigann í staðinn fyrir lyftuna? Höldum við á börnunum okkar eða leyfum við þeim að ganga/hlaupa? Við getum öll bætt við hreyfingu í okkar daglega líf og gott er að miða við ráðleggingar Embættis landlæknis en þar er börnum/unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur. Nánari ráðleggingar um hreyfingu má nálgast á www.landlaeknir.is

Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Rannsóknir hafa sýnt að þeim sem gengur vel í lífinu og líður vel eiga það sameiginlegt að hlúa að því sem þeim þykir vænt um. Með því að koma vel fram við og gleðja aðra þá stuðlum við að vellíðan þeirra auk okkar eigin. Settu þér það markmið að gleðja og/eða tjá einhverjum væntumþykju þína áður en þú ferð að sofa í kvöld og hlúðu þannig að þeim sem þér þykir vænt um og skipta þig máli í lífinu.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Við eigum bara eitt par…

jona

Jóna Björg Ólafsdóttir

Af hverju hugsar fólk ekki betur um fæturna sína? Ef þér er illt í tönninni þá ferðu til tannlæknis. Ef þér er illt í hnénu þá ferðu til sjúkraþjálfara. En ef þér er illt í fótunum? Hvert ferðu þá?

Kannastu við að?
• Hafa keypt þér skó sem höfðu útlitið langt fram yfir þægindin?
• Hafa ætlað að ganga til flottu skóna þó svo að það hafi verið sársauki í hverju skrefi?
• Verið með siggbunka á hælunum og hugsað að það væri nú gott að losna við hann en endað á því að gera ekki neitt?
• Keypt svaka fína kremtúpu fyrir fæturna sem liggur svo upp í skáp og safnar ryki?

Ekki gera ekki neitt
Á einni mannsævi gengur meðal maðurinn ca 180 þúsund skref eða um 8500 skref á dag. Heilbrigði fóta okkar er ekki síður mikilvægt en önnur líkamleg heilsa. Fæturnir bera okkur uppi alla daga, allan ársins hring. En samt hugsum við ekki nægjanlega vel um fæturna. Þeir eru oft meira og minna innilokaðir í sveittum sokkum og þröngum skóm.
Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag er ekki víst að heilsan hafi tíma fyrir þig á morgun.
Heimsókn til fótaaðgerðafræðings ætti að vera að lágmarki einu sinni á ári. Alveg eins og að fara til tannlæknis. Þó ekki nema væri í fyrirbyggjandi tilgangi.

Hvað gera fótaaðgerða­fræðingar?
Það sem fótaaðgerðafræðingar gera er m.a að:
• Fjarlægja sigg.
• Vinna á líkþornum
• Veita ráðgjöf varðandi skó
• Brenna og frysta vörtur
• Klippa og þynna neglur
• Ráðleggja varðandi sveppasýkingar í húð og nöglum
• Meðhöndla inngrónar neglur
• Búa til sérsniðið sílíkon til að rétta af tær eða til að hlífa meinum t.d. vegna núnings
• Gefa góð ráð varðandi heilbrigði fóta þinna.

Hugsaðu vel um fæturna þína! Við eigum bara eitt par og þeir þurfa endast okkur alla ævina. Heimsókn til fótaaðgerðafræðings er skref í rétta átt !

Jóna Björg Ólafsdóttir
Löggiltur fótaaðgerðafræðingur
Líkami og sál

Hugsaðu jákvætt, það er léttara!

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg líðan og gerir einstaklingnum kleift að lifa innihaldsríku lífi (skilgreining WHO). Þriðji áhersluþáttur verkefnisins Heilsueflandi samfélag er geðrækt, líðan og félagslíf. Fyrsta geðorðið hvetur okkur til þess að hugsa jákvætt. Það er auðvelt að festast í viðjum vanans og rannsóknir hafa sýnt fram á að það er algengara að neikvæðar hugsanir brjótist fram í amstri dagsins. Við þurfum að þjálfa heilann til að hugsa jákvætt.
Það að vera jákvæður er ekki aðeins að brosa, vera glaður og ánægður, heldur snýst það um að meta umhverfi sitt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þannig getum við betur haldið einbeitingu, metið aðstæður og tekið skynsamar ákvarðanir.

Neikvæðar hugsanir eins og ótti taka völdin þegar við mætum ljóni og hlaupum í burtu. Flestir hugsa aðeins um það eitt að forða sér og hlaupa en gleyma skynsemi og að meta aðstæður. Það sama á við þegar við hugsum neikvæðar hugsanir um okkur sjálf, við sjáum ekki lausnir fyrir áhyggjum og neikvæðni. Álag og stress margfaldast. Heilinn í raun lokar á umhverfi sitt og einbeitir sér að því neikvæða sem er t.d.: „Ég náði ekki að klára öll verkefnin í dag, ég fór ekki í heimsókn til mömmu eða…“
Á meðan náum við ekki að einbeita okkur að öðrum valkostum, þegar við erum glöð, jákvæð og ánægð. Við tökum oft ekki eftir því þegar við getum verið hamingjusöm, aðeins þegar við erum það ekki. Við verðum að staldra við í amstri dagsins og horfa í kringum okkur og læra að meta allt það sem er í kringum okkur. Ekki bara að vera að hugsa um morgundaginn, eða gærdaginn, hugsum um daginn í dag.
Temjum okkur að sjá það jákvæða, þegar neikvæðar hugsanir heltaka okkur. Í öllum tilfellum er hægt að sjá það jákvæða – við þurfum bara að þjálfa og rækta heilann til þess.
Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt?

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, 
fagstjori EFLU.

Heilsuhornið
Mosfellingur 28. janúar 2016

Tíðindalaust í bæjarstjórn?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Á vettvangi bæjarstjórnar og nefnda bæjarfélagsins eru teknar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á bæjarbúa. Á flestum nefndafundum eru rædd málefni sem á einn eða annan hátt skipta bæjarbúa máli í þeirra daglega lífi.
Á nefndafundum eru málin rædd og fulltrúar allra flokka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn hafa rétt til að koma sínum skoðunum á framfæri. Í samræmi við sveitarstjórnarlög eru nefndafundir lokaðir fundir sem einungis kjörnir nefndamenn mega sitja. En í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar sem fyrst var samþykkt 2011 og endurskoðuð af bæjarráði árið 2015 hafa markviss skref verið tekin til að opna stjórnsýsluna og að gera hana gagnsærri.
Þannig eru nú birt með fundargerðum nefnda og bæjarráðs á vef bæjarins þau gögn sem fylgja málum, þ.e. ef þau eru ekki þess eðlis að persónuvernd hamli birtingu eða að hagsmunir bæjarins gætu skaðast af birtingu þeirra. Með birtingu fylgigagna er bæjarbúum gert auðveldara að fylgjast með hvernig ákvarðanir eru teknar og á hverju þær byggja. Ég vil hvetja bæjarbúa til að láta sig varða umræðuna á vettvangi bæjar­stjórnar. Það má gera með því að mæta á fundi hennar til að fylgjast með umræðunum því fundir bæjarstjórnar eru opnir fundir þar sem allir mega mæta og hlusta.
Þá hefur sú framför orðið að streymt er beint frá fundunum svo þeir sem hafa áhuga á vissum málum, en eiga ekki heiman­gengt, geta lagt við hlustir þegar þau eru rædd. Um árabil hafa fundirnir síðan verið teknir upp og gerðir aðgengilegir á vef bæjarins.
Mörg mál eru afgreidd í samkomulagi innan nefnda og bæjarstjórnar en auðvitað skerst í odda á stundum. Þá fer umræðan fram á fundi bæjarstjórnar og getur hvesst nokkuð á ræðustóli og bókanir lagðar fram á báða bóga. Þegar best lætur næst nokkuð víðtækt samkomulag um mál. Má þar nefna sem dæmi tillögu Samfylkingar um aðgerðir til að efla almennan leigumarkað í bænum. Sú tillaga hlaut gott brautargengi hjá öðrum stjórnmálaflokkum og nú hefur bæjarstjóra verið falið að undirrita samkomulag við framkvæmdaaðila um úthlutun lóðarinnar við Þverholt 27-29 undir leiguíbúðir, allt að 30 talsins.
Þá má nefna tillögu Samfylkingar um uppbyggingu Ungmennahúss sem bæjarráð vísaði með öllum greiddum atkvæðum til gagngerrar skoðunar og upplýsingaöflunar embættismanna bæjarkerfisins. Niðurstaða málsins er ekki ljós en samtalið varð a.m.k. til þess að tillögunni var ekki fleygt lóðbeint út af borðinu. Ekki fá öll mál okkar slíkan framgang enda má segja að það liggi í eðli þess að bæjarstjórn skiptist í meirihluta og minnihluta.
Dæmi um það er umræðan um uppbyggingu skólamannvirkja þar sem Samfylkingin taldi að kostir við byggingu skóla miðsvæðis hafi ekki fengið þá skoðun sem hugmyndin átti skilið. Þó við Samfylkingarfólk höfum orðið undir í þeirri umræðu þá þýðir það ekki að við tökum ekki fullan þátt og af heilindum í undirbúningi nýs skóla samkvæmt þeim ákvörðunum sem meirihlutinn hefur tekið. Það er okkar skylda að vinna úr hverri stöðu eins og hún er á hverjum tíma með hag bæjarbúa í huga.
Aðhald bæjarbúa er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa og með því að fylgjast með störfum bæjarstjórnar og koma ábendingum til bæjarfulltrúa stuðla kjósendur að betri og gegnsærri stjórnsýslu og vonandi heilladrjúgum ákvörðunum fyrir bæinn okkar.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingar

Hvað er varanleg förðun?

Fanney Dögg Ólafsdóttir

Fanney Dögg Ólafsdóttir

Varanleg förðun er byltingarkennd meðferð sem felst í innsetningu lita undir yfirborð húðar til þess að skerpa línur andlits, og undirstrika náttúrulega fegurð þína. Meðferðin hefur verið notuð af mörgum þekktustu módelum, leikurum og skemmtikröftum heims til að bæta útlit þeirra. Fagurfræðilegt gildi, tímasparnaður og minni peningaeyðsla er ástæða þess að varanleg förðun er kölluð „förðun framtíðarinnar“.
Ímyndaðu þér að horfa í spegilinn á hverjum degi og sjá fullkomnar augabrúnir, skarpa augnlínu og fallegar varir. Þú værir fersk og örugg með sjálfa þig og ávallt tilbúin að fara hvert sem er. Hægt er að ná öllu þessu fram og meira til með heimsþekktum vörum og tækjabúnaði frá Nouveau Contour. Nouveau Contour er eitt þekktasta og mest leiðandi fyrirtækið í heiminum í dag á þessu sviði og er ég mjög stolt af því að geta boðið upp á meðferðir og vörur því tengdu.
Varanleg förðun felur í sér ísetningu lita á augnlínu, augabrúnir og varir, og endist í u.þ.b. 1-3 ár. Litirnir frá Nouveau Contour eru 100% náttúrulegir. Þeir innihalda járnoxíð sem gerir það að verkum að mjög ólíklegt er að þeir valdi ofnæmi.
Margar konur eru með gisnar augnabrúnir og ljósa augna­umgjörð, og eru þreyttar á því að þurfa mjög ört að lita augnhár og augabrúnir. Aðrar konur hafa lítinn tíma til að mála sig, og svo eru enn aðrar sem hafa þurft að undirgangast lyfjameðferð vegna ýmissa heilsufarskvilla og hafa þess vegna misst augabrúnir og augnhár, og er varanleg förðun því frábær kostur. Ávinningurinn af varanlegri förðun er náttúrulegt, svipmeira útlit sem undirstrikar fegurð þína.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á www.likamiogsal.is

Fanney Dögg Ólafsdóttir
master í varanlegri förðun frá Nouveau Contour

Traustur vinur getur gert kraftaverk

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vinátta er ekki sjálfgefin en er okkur öllum mikilvæg. Hún getur verið með ýmsu móti en þegar við ræktum vinasambönd líður okkur vel innra með okkur auk þess sem við sköpum góðar minningar sem við búum að til framtíðar. Því skulum við hlúa að og rækta sambönd við góða vini.

Styrkur og hamingja
Við manneskjurnar erum í raun háðar hver annarri á svo margan hátt. Við erum í sífelldri leit að styrk og hamingju sem kemur vissulega innan frá en það eitt að eiga góða og sanna vináttu annarrar manneskju er mikil gæfa, gæfa sem gerir okkur hæfari í að verða besta útgáfan af sjálfum okkur. Gæfa sem hjálpar okkur að öðlast þá vissu að við séum elskuð með öllum okkar kostum og göllum, VIÐ séum nóg.

Góð samskipti
Uppbyggileg samskipti eru grundvöllur að góðri vináttu og í því tilliti þurfum við að tileinka okkur nokkur grundvallaratriði eins og umburðarlyndi, því ekkert okkar er eins og því ríður á að viðurkenna og skilja mikilvægi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
Við þurfum að taka tillit til annarra, virða og sýna mismunandi skoðunum og hátterni skilning auk þess að sýna samkennd og áhuga. Allt þetta krefst hugrekkis og þess að við gefum af okkur en slíkt gerir okkur að góðum vinum.

Jákvætt viðhorf
Viðhorf okkar geta skipt sköpum varðandi sanna vináttu, styrk og hamingju og því ættum við að temja okkur glaðværð, kærleika, hlýju og bjartsýni. Lærum að meta líðandi stund, verum meðvituð um að skapa góðar minningar fyrir okkur sjálf og þá sem eru í kringjum okkur og hugsum jákvætt, það er léttara.

„Ég get aðeins hvatt ykkur til að setja vináttuna ofar öllu öðru hér í heimi því ekkert er í jafn miklu samræmi við innsta eðli mannsins. Það er ekkert sem hefur meira gildi, hvort heldur vel gengur eða á móti blæs.“ (heimspekingurinn Cicero, 106-43 f.Kr.).

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Mosfellingar velji sér prest

kirkjugreinNú í byrjun árs liggur fyrir að auglýst verði staða prests við Mosfellsprestakall. Samkvæmt starfsreglum um val og veitingu prestsembætta velur valnefnd prest nema óskað sé eftir almennri kosningu í prestakallinu.
Það vill brenna við að þeir umsækjendur sem lengst hafa þjónað sem prestar fái auglýstar stöður, burt séð frá því hversu vel þeir þekkja til sóknarinnar eða hversu kraftmiklir og vel liðnir þeir eru.

Það ætti að skipta íbúa sóknarinnar máli að næsti prestur verði prestur sem flest sóknarbörn þekkja til og treysta og ættu því að fá tækifæri til að velja sér þann prest sjálf. Það er mögulegt með því að safna undirskriftum þriðjungs kosningabærra sóknarbarna um að fram fari almenn prestskosning.

Undirrituð eru þess fullviss að séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn sé vel til þess fallin að verða prestur í Mosfellsprestakalli. Hún hefur starfað við Lágafellsókn á annan áratug við góðan orðstír. Hún hefur verið meðhjálpari og kirkjuvörður í átta ár, stýrt foreldramorgnum, komið að fermingarfræðslu og leyst presta sóknarinnar af eftir að hún sjálf hlaut vígslu til Kvennakirkjunnar árið 2013. Arndís er borinn og barnfæddur Mosfellingur, hún er vel liðin innan sóknarinnar og hefur mætt sóknarbörnum af alúð, einlægni og virðingu alla tíð.

Við hvetjum íbúa í Mosfellsprestakalli til að sameinast um val á presti fyrir okkur sjálf, presti fólksins, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Því óskum við eftir að fram fari prestskosningar í prestakallinu og teljum séra Arndísi verðugan þjón kirkjunnar.

Bryndís Haraldsdóttir
Elísabet Jónsdóttir
Hilmar Bergmann
Karl Tómasson
Katrín Sigurðardóttir
Magnús Sigsteinsson
Úlfhildur Geirsdóttir