Skólarnir í forgangi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mikil gróska hefur verið í skólaumbótum hér á landi undanfarin misseri. Skólinn breytist stöðugt líkt og samfélagið sjálft og sveitarfélögin fylgja eftir þeirri þróun með auknum stuðningi.
Mosfellsbær hefur stækkað og breyst mikið á stuttum tíma og næg hafa verkefnin verið. Stærsta hlutfall fjármagns bæjarins fer í rekstur skólanna og vega skólarnir langþyngst í þjónustu við bæjarbúa.

Við stöndum með skólunum
Við sjálfstæðisfólk ætlum að halda áfram á braut þróunar og framfara í skólamálum því við viljum að skólarnir í Mosfellsbæ séu ávallt í fremstu röð. Við í Mosfellsbæ getum það því fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er sterk og góð fjármálastjórn sveitarfélagsins gefur okkur svigrúm til góðra verka. Fram undan eru spennandi tímar og göngum við áfram galvösk til verka. Skólamál eru í forgangi í Mosfellsbæ því skólinn varðar allar fjölskyldur. Við höfum verið óhrædd að fara ótroðnar slóðir eins og Krikaskóli og Höfðaberg sýna. Kallað er eftir aukinni stoðþjónustu eins og talmeinaþjónusta og annarri nauðsynlegri þjónustu við börn.
Nýr skóli í Helgafelli verður tekinn til notkunar um áramót. Helgafellsskóli er metnaðarfull skólabygging þar sem hugað er að þörfum nemenda í nútímasamfélagi.
Við ætlum sannarlega ekki að gleyma „gömlu“ skólunum okkar en þar er sérstaklega hugað að úrbótum sem stöðugt þarf að vinna að. Eldri byggingar kalla á mikið viðhald og því þarf að fylgja vel eftir. Miklu fé hefur verið varið í að efla og þróa tölvutæknina í skólunum og er því verkefni hvergi nærri lokið. Grunnskólarnir okkar eru velbúnir list- og verkgreinastofum og er það mjög mikilvægt til að efla kennslu í verkgreinum svo allir nemendur fái notið krafta sinna. Í Listaskólanum hefur stöðugildum verið fjölgað og kennslan verið aukin út í grunnskólunum. Mjög gott samstarf er við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og mikilvægt að það haldi áfram.

Arna Hagalínsdóttir

Arna Hagalínsdóttir

Aukin þjónusta í leikskólunum
Mikil aukning hefur verið í þjónustu við yngstu börnin á kjörtímabilinu. Settar hafa verið á laggirnar ungbarnadeildir á leikskólunum og einnig hafa verið gerðir samningar við aðra ungbarnaskóla á höfuðborgarsvæðinu. Leikskólaaldur verður lækkaður í 12 mánuði og leikskólagjöld lækkuð. Einnig verður sumarþjónusta leikskólanna aukin enn frekar. Allt er þetta mikil þjónustuaukning við foreldra ungra barna í Mosfellsbæ.
Undanfarin ár hefur verið unnið eftir metnaðarfullri skólastefnu í Mosfellsbæ og hefur nú verið kallað eftir endurskoðun stefnunnar. Það verður gert og eins og áður verða kallaðir að borðinu aðilar frá skólasamfélaginu, foreldrar, börn og allir þeir sem málið varðar. Það er mikilvægt að sátt ríki um skólasamfélagið og við annað verður ekki unað. Það er fræðsluyfirvalda að styðja við skólana svo menningin blómstri og börnunum líði vel.
Eftir margra ára aðhald í efnahagsmálum og góða stjórn fjárhagsmála er nú loks kominn tími til að uppskera. Það má með sanni segja að bjart sé fram undan í Mosfellsbæ og sýnir fjölgun bæjarbúa það að fólk treystir vel núverandi stjórnvöldum.
Við sjálfstæðisfólk viljum að Mosfellsbær sé öflugt lærdómssamfélag með metnað og árangur í fyrirrúmi og munum standa með skólunum. Þar verður ekkert gefið eftir.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir kennari og bæjar­fulltrúi, skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Arna Hagalínsdóttir kennari, skipar 5. sæti á lista sjálfstæðismanna.

Hvert stefnum við í menntamálum?

varmagrein„Börn og unglingar eiga að upplifa ævintýri á hverjum degi og koma heim úr skóla- og frístundastarfi ánægð, hugsandi, forvitin, full ástríðu og vilja til að afla sér þekkingar og hafa áhrif…“

Svona hljóma upphafsorð nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. Útgangspunkturinn við mótun stefnunnar var barnið sjálft og haft víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila í skólasamfélaginu og leitað ráðgjafar sérfræðinga. Markmið menntastefnunnar er að börn og unglingar verði leiðtogar í eigin lífi og fær um að láta drauma sína rætast. Til að svo megi verða verður lögð áhersla á eftirfarandi lykilhæfni: félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði. Innleiðingunni er fylgt eftir með stuðningi og fjármagni og eftir þriggja ára þróunartímabil verður lagt mat á hvernig til tókst og gerðar nauðsynlegar endurbætur.
Það er engin tilviljun að mörg nágrannasveitarfélög okkar eru með menntamálin í forgangi og eru að eyða miklum tíma og fjármunum í að greina stöðuna og móta sér framtíðarstefnu. Grunnstoðum menntunar er ábótavant sem endurspeglast meðal annars í niðurstöðum PISA og úttekt Evrópumiðstöðvar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar. Mennta-málaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, talar um tímamót í menntamálum þjóðarinnar og að við séum víða á rauðu ljósi. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, bendir á að á Íslandi séu byggðir dýrir og flottir skólar en of lítil áhersla lögð á innra starfið. Haraldur Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, talar um úrræðaleysi vegna nemenda með fjölþættan vanda.

Ef við lítum okkur nær og skoðum niðurstöður mælinga á líðan og námsárangri barna í Mosfellsbæ (Rannsókn og greining um líðan og hagi ungs fólks, Skólapúls, samræmd próf o.fl.) sést glöggt að víða eru rauð flögg sem rýna þarf betur í. Við megum ekki skorast undan heldur þarf að horfa fram á veginn og gera betur því hvort sem okkur líkar betur eða verr eru gríðarlegar breytingar framundan. Tæknibyltingin sem er hafin mun hafa mikil áhrif á líf okkar allra og breyta því samfélagi sem við nú þekkjum. Miklar breytingar munu verða á vinnumarkaði og þurfa því börnin okkar að búa sig undir störf sem eru jafnvel ekki til í dag. Hefðbundum störfum mun fækka og flókin störf taka við þar sem reynir á skapandi hugsun, þrautseigju, rökhugsun, samvinnu og grunnþekkingu á forritun. Hvernig ætlum við sem samfélag að takast á við þetta risavaxna verkefni?

Foreldrafélag Varmárskóla skorar á öll framboð að setja menntamálin í fyrsta sæti. Mikilvægt er að fara í greiningu á stöðu skóla í Mosfellsbæ og kynna sér hvað önnur bæjarfélög eru að gera. Gera þarf áætlun og móta framtíðarsýn til að takast á við gjörbreytt samfélag og tryggja að fjármagn fylgi. Nauðsynlegt er að endurskoða núverandi menntastefnu sem eru einstaklega falleg orð á blaði en því miður lítil innistæða fyrir. Saman getum við breytt þessu og tryggt að skólar í Mosfellsbæ séu framsæknir og í fremstu röð. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi enda snýst pólitík um forgangsröðun. Hver er ykkar forgangsröðun?

F.h. stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla,
Helga Kristín Magnúsdóttir formaður og Elfa Haraldsdóttir varaformaður

——

Hver er ykkar forgangsröðun?
Foreldrafélag Varmárskóla hefur þegar sent eftirfarandi spurningar um skólamál á öll framboð og verða svör þeirra birt á samfélagsmiðlum.

Munuð þið beita ykkur fyrir því að:
1. Gera úttekt til að tryggja að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs sé fullnægjandi og samrýmist kröfum um heilsuvernd?
2. Endurskoða menntastefnu Mosfellsbæjar og tryggja skólunum nauðsynlegt fjármagn til að geta unnið eftir henni?
3. Efla faglega þjónustu við nemendur og kennara með því að fjölga faglærðu fólki innan skólanna og auka þverfaglegt samstarf milli þeirra?
4. Nýta með markvissum hætti niðurstöður innlendra sem erlendra mælinga sem gerðar eru á námsárangri og líðan barna til að gera betur?
5. Vinna markvisst gegn einelti og huga betur að bættri líðan barna og ungmenna? Niðurstöður Rannsókna og greininga sýna að kvíði og vanlíðan barna og unglinga í Mosfellsbæ fer vaxandi.
6. Endurskoða úrræði fyrir börn með sérþarfir og leggja áherslu á snemmtæka íhlutun og markviss inngrip án þess að greining þurfi endilega að vera forsenda fjárveitinga?
7. Veita öflugri stuðning við börn og ungmenni í hegðunar- og samskiptavanda með aukinni ráðgjöf og ráðningu fleiri sérhæfðra starfsmanna?
8. Móta heildstæða stefnu um upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi og tryggja að innleiðingu fylgi stuðningur sérfræðinga í upplýsingatækni, skólaþróun og kennsluráðgjöf og nauðsynlegt fjármagn til að bæta búnað?
9. Nemendur fái aukin tækifæri til að kynnast störfum í iðn-, raun- og tæknigreinum og styrkja tengsl milli skóla og atvinnulífs með markvissri náms- og starfsfræðslu og vettvangsferðum?
10. Unnið sé markvisst í skólastarfi eftir markmiðum um heilsueflandi samfélag þar sem heilsa spannar líkamlega, andlega og félagslega vellíðan?
11. Auka samstarf við foreldrasamtök og tryggja aðkomu foreldra að stefnumótandi ákvörðunum um skóla- og frístundastarf?

Styrkjum beint lýðræði í Mosfellsbæ

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Lýðræði
Lýðræði byggir á þátttöku almennings í ákvörðunum er hann varðar. Í lýðræðissamfélagi á valdið sér uppsprettu hjá fólkinu. Í menntastefnu fyrir öll skólastig frá 2011 er lögð áhersla á að borgarar taki lýðræðislega afstöðu til álitaefna, frá siðferðislegum áherslum til ákvarðana um mótun samfélagsins og ráði þannig í sameiningu öllum meiriháttar málum sínum. Í beinu lýðræði eru haldin regluleg íbúaþing um helstu málefni bæjarfélagsins, þar sem íbúar upplifa að þeir geti haft raunverulega aðkomu að ákvarðanatöku og að hlustað sé á það sem þeir hafa fram að færa. Lykilatriði er að íbúar finni að það sem þeir leggja til skipti máli. Að loknum fundum eru málefnin tekin saman og íbúum gert fært að fylgjast með framvindu mála.

Lýðræðið á undir högg að sækja
Í Mosfellsbæ hefur sú stjórnmálamenning skapast að niðurlægja pólitíska keppinauta. Bæjarstjóri hefur gengið svo langt að setja hömlur á upplýsingagjöf til löglega kjörinna bæjarfulltrúa með því að mæla svo fyrir að allar upplýsingar um ákveðna þætti stjórnsýslunnar sé einungis hægt að sækja í gegnum hann sjálfan. Slík vinnubrögð á ekki að líða. Aðgengi að upplýsingum er ein af grundvallarforsendum lýðræðislegs samfélags.

Í-listinn leggur áherslu á að stjórnmálamenn hlusti á íbúana og ræði allar hliðar mála, hvaðan sem hugmyndirnar koma. Að ákvarðanir séu teknar í samráði og með málamiðlunum þar sem á þarf að halda. Við viljum setja hámarkstíma á setu bæjarfulltrúa í embætti, sem mætti vera tvö til þrjú kjörtímabil. Þannig er mögulegt að koma í veg fyrir að óæskilegar venjur og hagsmunatengsl nái að festa sig í sessi og að endurnýjun verði í öllum flokkum. Við viljum að ópólitískur bæjarstjóri verði ráðinn til að stuðla að meiri fagmennsku og gæta að velferð allra Mosfellinga.

Kjósum gegnsæi og fagmennsku
Í-listinn hvetur til þess að skipulag og fjárhagsáætlanir séu gerðar á ábyrgan og gegnsæjan hátt. Íbúahreyfingin hefur hvatt til opins bókhalds á yfirstandandi kjörtímabili líkt og Píratar hafa unnið að hjá Reykjavíkurborg. Í-listinn fagnar því að bókhald Mosfellbæjar verði loks opið öllum. Aðhald er mikilvægt svo traust og ábyrg fjármálastjórnun eigi sér stað.

Íbúahreyfingin hefur unnið að því gera störf bæjarstjórnar gegnsæ svo sú vinna sé sýnileg borgurum. Að upptökur séu til af fundum og að auðvelt sé að nálgast þær.
Nefndarfundir Mosfellsbæjar eru í dag ekki opnir og því verður að breyta. Þegar trúnaður þarf að ríkja um viðkvæm málefni samkvæmt persónuverndarlögum má gera undantekningar, en aðrar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar.
Fundargerðir allra funda bæjarfélagsins eru mjög stuttar og í þær vantar ítarefni eins og hvernig atkvæði falla. Upptökur af fundum bæjarstjórnar eiga að vera merktar dagskrárliðum og þannig gerðar aðgengilegar á vefsíðu. Í-listinn mun berjast fyrir því að bæta þessa annmarka á vinnubrögðum bæjarstjórnar.

Þann 26. maí næstkomandi þurfa frambjóðendur að endurnýja umboð sitt. Þegar sömu öfl eru við völd of lengi er hætt við stöðnun. Við á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata hvetjum alla bæjarbúa til að horfa langt fram á veginn og hugsa um tækifæri komandi kynslóða. Veljum traust, heiðarleika og gagnsæi.

Kristín Vala Ragnarsdóttir er í 2. sæti
á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata í Mosfellsbæ.

Börnin í Mosfellsbæ – Skítugu börnin hennar Evu?

Herdís Kristín Sigurðardóttir

Herdís Kristín Sigurðardóttir

Miðflokkurinn vill gæta barna ekkert síður en aldraðra og öryrkja. Miðflokkurinn leggur sérstaklega áherslu á snemmtæk úrræði fyrir börn með sérþarfir þar sem bið fyrir úrræði verði ekki aðeins stytt heldur hverfi.
Í dag er þessu svo við komið að hver silkihúfan á fætur annarri ásamt ágreiningi á milli stofnanna, ríkis og sveitarfélaga gerir það að verkum að börn þurfa ekki aðeins að bíða eftir úrræðum heldur fá þau ekki.

Biðin eftir greiningu
Í pistli á Bleikt.is frá því í september 2011 lýsir móðir ein, Kolbrún Reinhardtsdóttir Kvaran (Kolla Kvaran), hve vonlaust kerfið er þegar kemur að því að leitað sé eftir greiningu barna og úrræðum fyrir börn sem þola enga bið.
Foreldrar sem þurfa að komast í gegnum daginn rétt eins og við hin en hafa ekki tök, ráð eða þekkingu á skrifræðinu og vita ekki hve langan tíma það tekur að fá lausn brennur inni og barnið sem og öll fjölskyldan líður fyrir aðgerðarleysið.
Hve hversdagslega illt getur kerfið verið gagnvart börnum og hversu vonlaus barátta foreldra oft er fyrir börnin sín þarf að vera viðfangsefni okkar sem viljum breyta og bæta.

Örlygur Þór Helgason

Örlygur Þór Helgason

Snemmtæk úrræði
Í Mosfellbæ, rétt eins og víðast hvar annars staðar, eru börn sem þurfa á sértækum úrræðum af margvíslegum toga að halda. Þarna þarf að spyrða saman félags- og fjölskylduúrræði sveitarfélags, íþrótta- og tómstundafélög og síðast en ekki síst leik- og grunnskóla.
Snemmtæk úrræði eru ætluð til þess að áður en við missum barnið út af braut lífsins og hamingjunnar ber okkur, sem þekkjum til og höfum tækin, að skapa grundvöll fyrir foreldra að lausn, varanlegri lausn, sem miðast að því að unnið sé í þessum málum áður en vandinn er orðinn of stór.

Enga bið
Miðflokkurinn leggur gríðarlega áherslu á snemmtæk úrræði sem byrja eigi í leikskóla og svo fylgt eftir í grunnskóla. Tryggja þarf betri menntun og þverfagleg úrræði yfir svið bæjarfélagsins og nefnda með það að markmiði að allir í kerfinu viti af ferlinu og lausnum áður en vandinn ber foreldra yfirliði.
Látum ekki börn og foreldra bíða svo árum skiptir til að fá lausn fyrir barn sitt þar sem hver bendir á annan og ekkert gerist. Leysum vandann.
Miðflokkurinn er lausnamiðaður flokkur sem framkvæmir.

Herdís Kristín Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi og hrossaræktandi, skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Örlygur Þór Helgason er kennari og þjálfari, skipar 3. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Heimild: Bleikt.is: (www.bleikt.pressan.is/lesa/skituguborninhennarevu)

Nýtt fólk hjá Framsókn í Mosfellsbæ

Sigurður Kristjánsson

Sigurður Kristjánsson

Stutt er til sveitarstjórnarkosninga. Kosningabaráttan er á lokastigi og fólk er að spá í möguleg úrslit.
Framsókn hefur ekki fengið bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ í síðustu kosningum og nú bætist við klofningur í liði samvinnumanna og félagshyggjufólks þar sem margir telja rétt að fylgja lista Miðflokksins víða um land. Á móti kemur að síðustu alþingiskosningarnar hafa sýnt að nýir kjósendur koma í staðínn og útkoman var glæsilegur varnarsigur Framsóknarmanna.
Nú er verkefnið annað en í Alþingiskosningunum og aðstæður eru mismunandi eftir hinum ýmsu stöðum á landinu. Hér í Mosfellsbæ er Sjálfstæðisflokkurinn sterkur og hefur þar að auki varadekk undir sínum vagni. Atkvæði til VG hljóta að teljast ávísun á óbreytt valdatímabil Sjálfstæðisfokksins. Hjá íhaldinu gætir líklega klofnings til Viðreisnar og harðsoðinn sjálfstæðismaður í 1. sæti Miðflokksins þannig að ljóst er hvar hann á að fiska. Það má spá því að Sjálfstæðismenn tapi einhverju fylgi í þessum kosningum og vel gæti það skeð að fá atkvæði gætu ákveðið hver endanleg úrslit yrðu.
Það má segja að þau sem blésu lífi í Framsóknarfélag Mosfellsbæjar þegar klofningurinn varð í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga hafi verið Sveinbjörn Ottesen, Sveingerður Hjartardóttir og formaðurinn Óskar Guðmundsson. Þetta fólk allt er nú ofarlega á B-listanum í Mosfellsbæ, þar af Sveinbjörn Ottesen í 1. sæti.
Sveinbjörn er vel að þessu sæti kominn, traustur og duglegur og sannarlega líklegur til þess að vinna ötullega að hagsmunamálum bæjarbúa. Síðan tel ég ómetanlegt happ fyrir þetta bæjarfélag að fá ungt og efnilegt fólk í 2. og 3. sæti B-listans eða þau Þorbjörgu Sólbjartsdóttur og Birki Má Árnason.
B-listinn í Mosfellsbæ með þetta fólk í efstu sætunum er sigurstranglegur og það er kominn tími til þess að Framsókn fái 1-2 bæjarfulltrúa hér í Mosfellsbæ.
Til þess að svo megi verða þurfa kjósendur að skoða hug sinn og ekki aðeins styðja Framsókn í kjörklefanum heldur þá daga sem enn eru til kosninga að afla B-listanum fylgis, stuðla þannig að valddreifingu og bættri þjónustu í Mosfellsbæ.

Sigurður Kristjánsson
í stjórn Framsóknarfélags Mosfellsbæjar.

Málefni aldraðra í Mosfellsbæ og EIR málið

Sveinn Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson

Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á að þeir sem fyrir hann starfa vilji vinna með fólki en ekki brjóta sjálfsmynd fólks niður. Við sem skipum lista Miðflokksins í Mosfellsbæ komum úr öllum áttum og fjölmargt sem sameinar okkur.

Við erum eins og þið
Í einhverjum tilvikum virðist sem stjórnmálamenn hafi farið svo út fyrir getu sína og mörk að tíðindum sæti. Við, sem skipum lista Miðflokksins, erum vinnandi fólk á öllum aldri. Við erum viðskiptafræðingar, einn er lögreglumaður, þar má finna einstæðar mæður, fólk sem hefur þurft að berjast fyrir hverri krónu, sumir eru vörubílstjórar, aðrir námsmenn. Við höfum marga fjöruna sopið og erum hokin af reynslu.

EIR málið verður rannsakað
Miðflokkurinn lofar því að EIR málið verði rannsakað, mál sem er eina einstaka hrunmálið sem ekki hefur verið rannsakað. Þar glötuðust 8 milljarðar og þar af 2 af lífeyri eldri borgara, þeirra sem treystu og trúðu þáverandi stjórnarmönnum EIRAR. Þeir hafa ekki þurft að sæta ábyrgð. Ekki má gleyma þaulsetnasta flokksins í bæjarstjórn.

Margrét Jakobína Ólafsdóttir

Margrét Jakobína Ólafsdóttir

Eigum við að gleyma þessu EIR máli?
Getum við, í hvaða flokki sem er, látið undir höfuð leggjast að kalla til ábyrgðar þá sem gættu ekki hagsmuna eldri borgara í þessu bannsetta EIR máli? Í stjórn var fólk með menntun frá verkfræðingi til lögfræðings og gætti ekki þess einfalda og sjálfsagða hlutar að þinglýsa beinum eða óbeinum eignarréttindum gamla fólksins. Hvaða opinber embættismaður, lögmaður eða fasteignasali sem er hefði misst öll sín réttindi og starf vegna aðgerðarleysis af þessum toga.
Getum við, sem samfélag, haldið vegferð okkar áfram inn í lífið og út úr því án þess að þetta mál verði krufið? Við í Miðflokknum segjum nei!
Það er tími til kominn að meirihlutinn í Mosfellsbæ, þ.e. þeir sem þar enn sitja í fleti, fái úttekt á því hvernig fulltrúar þeirra fóru með fjármuni eldri borgara í framangreindu EIR máli.

Miðflokkurinn vill persónulega þjónustu og skilvirkar lausnir fyrir aldraða
Miðflokkurinn leggur áherslu á að gæta að persónulegri þjónustu við aldraða inn í framtíðina. Tími ópersónulegrar símsvörunar og kröfu um fyrirspurnir í gegnum netheima Mosfellsbæjar er runninn upp. Miðflokkurinn mun tryggja aðrar leiðir og persónulegri fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ þar sem tryggt verði aðgengi beint að bæjarstjóra fyrir hvern einasta einstakling.
Við munum tryggja gjaldfrjálsar almenningssamgöngur fyrir aldraða og aðgengi að þjónustu þótt búið sé að loka Heilsugæslunni um kvöldin og helgar auk þess að síðasti bankinn lokaði skyndilega. Miðflokkurinn vill rjúfa einangrun eldri borgara og auka virkni þeirra.
Miðflokkurinn mun ekki gera aldraða að e.k. féþúfu eins og virðist gilda um meirihlutann í Mosfellsbæ og EIR. Þarna er gott að vera en það er dýrt. Verðlag leigu og þjónustu er tilkomið m.a. vegna óráðsíu og þessa umtalað EIR máls. Þaðan sprettur þessi vandi og honum hefur verið velt yfir á eldri borgara. Miðflokkurinn mun leitast við að vinda ofan af þessu viljaverki.

Sveinn Óskar Sigurðsson er viðskiptafræðingur og skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Margrét Jakobína Ólafsdóttir er félagsliði og skipar 6. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Að gefa af mér til baka til bæjarins

Lilja Kjartansdóttir

Lilja Kjartansdóttir

Að alast upp í Mosfellsbæ voru forréttindi, þótti mér. Hér hef ég búið alla mína ævi; var á leikskólanum Hlaðhömrum, gekk í Varmárskóla, æfði íþróttir hjá Aftureldingu og lærði á fiðlu í tónlistarskólanum í rúm tuttugu ár.
Að stunda þær tómstundir sem maður hefur áhuga á er þroskandi og veitir reynslu sem gagnast manni fyrir lífstíð. Í stækkandi samfélagi eins og Mosfellsbær er þarf að huga vel að þessum innviðum sem tónlistarskólinn, íþróttafélögin, kirkjustarfið og önnur tómstundafélög eru, svo allir, ungir sem aldnir, fái notið sín sem best.
Það er nefnilega á þessum stöðum sem maður í flestum tilfellum eignast líka góða vini, hvort sem þeir verða manns bestu eða kunningjar sem maður heilsar á förnum vegi – bæði er ómetanlegt og gerir Mosfellsbæ að okkar „heima“.

Ég tek sæti á lista Vina Mosfellsbæjar þar sem framboðið er óháð og af brennandi þrá fyrir að gefa af mér til baka til bæjarins sem ól mig svo vel.

Lilja Kjartansdóttir
skipar 7. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.

Eflum kynja- og jafnréttisfræðslu

Björk Ingadóttir

Björk Ingadóttir

Kynjafræði ætti að vera skyldufag á öllum skólastigum. Almennur hluti Aðalnámskrár kveður á um að jafnréttismenntun skuli sinnt á öllum skólastigum til að fá nemendur til að horfa gagnrýnum augum á viðteknar venjur í samfélaginu.
Allir nemendur, hvort sem þeir eru leik-, grunn- eða framhaldsskólanemar, eiga að hafa rödd í kennslustofunni. Kennarar eiga að leitast við að skapa andrúmsloft þar sem nemendur þora að spyrja óheft og leiða svo samtalið í átt til skilnings.
Kennarar eiga að vera upplýstar fyrirmyndir. Þetta er mikið og flókið ábyrgðarhlutverk og í dag er boðið upp á ýmis konar valnámskeið í kynja- og jafnréttisfræðum í kennaranámi hérlendis – sem er gott! Enn betra væri þó ef þessi námskeið væru skylda í kennaranáminu, því annars fer stór hluti kennara á mis við þessa fræðslu. Þróunin ætti að vera í þá átt að kynja-og jafnréttisfræði verði skyldufag í kennaranámi og sjálfsagður hluti endurmenntunar.
Femínísku byltingarnar #freethenipple og #metoo vöktu samfélagið og sýndu okkur að betur má ef duga skal, líka í skólakerfinu. Það sem meira er þá sýndu þessar byltingar okkur að samfélagið er vel fært um að rífa sig úr hlekkjum hugarfarsins. Samfélagið endurmenntaði sig og er í sífelldri endurmenntun. Kennarar eru upp til hópa víðsýnar manneskjur sem þora að rýna í baksýnisspegilinn og taka kennslu sína til endurskoðunar. Við spyrjum okkur í þessu tilliti: tölum við eins við alla í kennslustofunni? Höfum við nógu mikla þekkingu til að skilja hversu gríðarlega margbreytilegir nemendur eru? Er námsefnið okkar fjölbreytt og höfundar alls konar? Höfum við rými í skipulaginu til að ræða mál sem koma upp eða er dagskráin svo þéttskipuð að við klippum á umræður til þess að geta haldið áfram að fara

Valgarð Már Jakobsson

Valgarð Már Jakobsson

yfir grískar rætur orða? Kunnum við að ræða við nemendur um málefni á þann hátt að samtalið leiði til skilnings og umburðarlyndis? Er þekking okkar í kynja- og jafnréttisfræðum nógu sterk til að geta tæklað allt sem upp getur komið í kennslustofunni?
Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir árlegri endurmenntun en hvernig kennarar kjósa að endurmennta sig ár hvert er þeim í sjálfsvald sett. Sveitafélögin ættu að styðja við kennara með því að skapa aðstæður þar sem auðvelt er að sækja sér formlega og reglulega endurmenntun á sviði kynja- og jafnréttisfræða.
Sveitafélögin eiga svo sannarlega að sjá til þess að hlúð sé að kynjafræðikennslu í leik- og grunnskólum. Jafnrétti og gagnrýnin hugsun á jú að vera rauði þráðurinn í öllu skólastarfi, í öllum kennslustofum, öllum stundum. Pössum upp á að svo sé og gerum kynjafræði að skyldufagi í framhaldsskólum, kennaranámi og í endurmenntun.

Björk Ingadóttir og Valgarð Már Jakobsson.
Höfundar eru kennarar í FMos og frambjóðendur Vinstri grænna í Mosfellsbæ.

Umhverfisvernd

Bjartur Steingrímsson

Bjartur Steingrímsson

I.
Umhverfisvernd skipar sífellt stærri sess í samfélaginu okkar. Það sem þótti eitt sinn jaðarpólitík fyrir sérvitringa og draumóramenn er nú orðið að meginstefi í nútímalífi, jafnt í fræðslu skólabarna, lífsháttum fjölskyldna og í stefnuplöggum stjórnmálaflokka og stórfyrirtækja.
Krafan um að náttúran fái að njóta vafans verður háværari með hverjum deginum. Það er ekki eingöngu vegna þess að falleg náttúra og útivist veiti hugarró og færi okkur gleði heldur vegna þeirra gífurlegu hagsmuna sem felast í því að varðveita landið okkar og auðlindir þess fyrir komandi kynslóðir.
II.
Umhverfisvernd hefur verið ein af meginstoðum í stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs frá stofnun. Á þingi, í ríkisstjórn og sveitarstjórnum hefur VG háð ötula baráttu fyrir umhverfissjónarmiðum og sjálfbærni með það að markmiði að gera Ísland að leiðandi ríki á heimsvísu í þeim málaflokki. Rammaáætlun um virkjanakosti, vinna að miðhálendisþjóðgarði og áætlun núverandi ríkisstjórnar um kolefnis­hlutlaust Ísland eru allt dæmi um afrakstur þeirrar baráttu.
Í setu sinni í meirihluta bæjarstjórnar hér í Mosfellsbæ hafa fulltrúar VG lagt áherslu á gerð nýrrar umhverfisstefnu fyrir bæjarfélagið, eflingu almenningssamgangna og betrumbótum í flokkun heimilissorps.

III.
En betur má ef duga skal. Mosfellsbær er blómlegt samfélag í miklu nábýli við ósnortna náttúrufegurð. Sóknarfærin eru fjölmörg. Hér má efla útivistar- og tómstundamöguleika á grænum svæðum, tryggja góðar almenningssamgöngur og tækifæri til vistvænna ferðamáta í öllum hverfum bæjarins og betrumbæta enn frekar sorphirðu- og endurvinnslumál.
Slík vinna mun ekki bara gera bæinn okkar að fallegra og betra heimili fyrir alla íbúa heldur einnig að ákjósanlegri áfangastað fyrir ungar kynslóðir sem forgangsraða meira og meira í átt að umhverfisvernd og sjálfbærum lifnaðarháttum.

Kjósum V-listann!

Bjartur Steingrímsson
skipar 5. sætið á lista VG í komandi kosningum.

Virkt aðhald skapar traust

Lovísa Jónsdóttir

Lovísa Jónsdóttir

Það er vinsæll frasi að tala um bætta, opna og gagnsæja stjórnsýslu í aðdraganda kosninga. Allir geta tekið undir en sjaldnast fylgja frekari skýringar eða útfærslur. Það er einna helst þegar fólk rekst á „computer says no“ vegginn að það minnist þessara óljósu loforða.
Lítt skiljanlegar og órökstuddar ákvarðanir eru teknar í stjórnsýslunni sem við íbúarnir, og ekki síður starfsfólkið sem þarf að svara fyrir málin, eigum bara að sætta okkur við. „Svona eru reglurnar bara, því miður“ eða „nei, því miður þetta fellur ekki innan þess sem við getum aðstoðað þig með“ og eftir sitjum við engu nær um úrlausn okkar mála en óljósar minningar um kosningaloforðin góðu.
Hér er tvennt í stöðunni, að sætta sig við orðinn hlut eða ráðast til atlögu við kerfið með öllu sem því fylgir. Það er hins vegar hægara sagt en gert og hætt við því að fólk treysti sér einfaldlega ekki til þess vegna kostnaðar og þess að baka sér óvild þeirra sem í hlut eiga.

Við í Viðreisn meinum það sem við segjum um að bæta stjórnsýslu í Mosfellsbæ. Við viljum setja á fót embætti umboðsmanns bæjarbúa að fyrirmynd umboðsmanns borgarbúa í Reykjavík. Hlutverk umboðsmanns er þríþætt. Í fyrsta lagi að liðsinna þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem telja á rétti sínum brotið af hendi bæjarfélagsins, í öðru lagi að taka á móti ábendingum frá starfsfólki bæjarins og í þriðja lagi að rannasaka að eigin frumkvæði hvort bæjarfélagið uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum. Þessu til viðbótar getur umboðsmaður einnig sinnt ýmis konar fræðslu um þau mál sem falla undir verksvið hans.
Umboðsmaður bæjarbúa, sem væri óháður stjórnsýslunni, er þannig lögfræðilegur ráðgjafi sem getur aðstoðað bæjarbúa í samskiptum sínum við stjórnsýsluna, hvort sem það er með óháðri ráðgjöf eða með því að leiðbeina og aðstoða íbúa við beiðnir eða kærur. Þá getur umboðsmaður komið að málum sem sáttamiðlari ef hann metur málið þannig að mögulegt sé að leysa úr ágreiningi milli íbúa og bæjar með þeim hætti.
Annað mikilvægt hlutverk umboðsmanns er að starfsfólk bæjarins getur leitað til hans og komið á framfæri í fullum trúnaði upplýsingum um óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af einstökum málum eða ábendingum um vanrækslu bæjarins eða starfsmanna hans. Þannig verður umboðsmaður mikilvægur hlekkur í því að sporna við spillingu innan stjórnsýslunnar. Hann er óháður regluvörður í þjónustu bæjarbúa.
Okkur í Viðreisn finnst sjálfsagt og eðlilegt að veita virkt aðhald og opna raunhæfar leiðir til þess. Forsenda farsæls og góðs samfélags er traust og vissa fyrir því að allir sitji við sama borð. Það viljum við í Viðreisn tryggja.

Lovísa Jónsdóttir er viðskiptalögfræðingur
og skipar 2. sæti á lista Viðreisnar.

Við munum þekkja okkar vitjunartíma

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Nú líður senn að því að Mosfellingar ganga að kjörborðinu og velja sér nýja bæjarstjórn.

Vinir Mosfellsbæjar bjóða fram krafta sína til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og sækja fram undir leiðarljósum heiðarleika, þekkingar, lýðræðis og gagnsæis.
Í fyrsta lagi munum við gera þetta með því að handleika öll mál af heiðarleika gagnvart íbúum, öðrum bæjarfulltrúum og starfsmönnum bæjarins.
Í öðru lagi munum við leita þekkingar við alla ákvarðanatöku, búum við ekki yfir henni frá fyrstu hendi.
Í þriðja lagi munum við ástunda lýðræðislega umræðu þar sem við munum bera virðingu fyrir skoðunum íbúa, annarra bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins.
Í fjórða lagi munum við beita okkur fyrir að fullkomið gagnsæi ríki í allri meðferð ákvarðana og við það beita heiðarleikanum, þekkingunni og lýðræðinu eins og því er lýst hér að framan.

Vinir Mosfellsbæjar setja fjölmörg mál á oddinn en þessi eru okkur ekki hvað síst hugleikin. Við viljum ráðast í að móta nýja skóla- og menntastefnu, ekki af því að engin stefna ríki, heldur af því að í tækniheimi nútímans breytast aðstæður hratt og því þarf sífellt að bregðast við breyttum aðstæðum.
Við viljum sýna festu í deiliskipulagsmálum og draga úr eftir á breytingum nema ríkir hagsmunir standi til annars. Þetta sé gert af virðingu fyrir þeim sem hafa fest sér kaup á eign í góðri trú um gildandi skipulag. Við viljum standa þétt við bakið á íþrótta- og æskulýðsfélögunum sem drifin eru áfram af sjálfboðaliðum sem leggja vinnu sína og þrótt fram til almannaheilla.
Við viljum virkja reynslu eldri borgara og kraft unga fólksins, njóta af viskubrunni þeirra eldri og virkja kraft þeirra sem taka eiga við keflinu. Við viljum síðast en ekki síst hlusta. Hlusta á samfélagið og leita þar þekkingar og ábendinga til gagns fyrir alla.

Vinir Mosfellsbæjar munu ekki gleyma því fyrir hverja þeir vinna, við eigum ekkert og það er ekkert gefið. Við munum þekkja okkar vitjunartíma og glaðir rétta keflið til komandi kynslóðar.

Ég vil að síðustu hvetja þig, ágæti Mosfellingur, til þess að nýta atkvæðisrétt þinn í þessum kosningum lýðræðinu til heilla.

Stefán Ómar Jónsson
skipar 1. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er íþróttabær

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er íþróttabær þar sem fram fer kröftugt og fjölbreytt íþróttastarf. Það er afar mikilvægt í okkar samfélagi að stundaðar séu íþróttir og hreyfing um allan bæ.
Það hefur sjaldan verið mikilvægara að hvetja fólk á öllum aldri til reglulegrar hreyfingar sem bætir heilsu og líðan fólks á öllum aldri, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Það er mikil og víðtæk forvörn fólgin í þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi.
Við Sjálfstæðismenn metum þetta starf mikils, erum stolt af okkar íþrótta og afreksfólki og höfum á liðnum árum stutt dyggilega við bakið á okkar íþróttafólki í flestum greinum íþrótta og tómstunda. Þann stuðning ætlum við að efla enn frekar á næsta kjörtímabili.

Eflum lýðheilsu
Það er einnig markmið okkar í heilsueflandi samfélagi að fjölga fólki sem hreyfir sig reglulega og ná til enn fleiri barna og unglinga sem eru ekki í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi.
Til þess að gera það höfum við t.d. hækkað frístundaávísunina um 280% á kjörtímabilinu og er hún nú 50 þúsund krónur á ári með hverju barni og mun hærri fyrir barnmargar fjölskyldur.
Það er einnig mjög jákvæð þróun að íþróttaiðkun er sífellt að aukast hjá eldra fólki. Við viljum fjölga möguleikum fyrir þann hóp til íþróttaiðkunar undir leiðsögn faglærðra leiðbeinenda.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fjölgun íbúa og iðkenda – uppbygging
Íbúum fjölgar ört í Mosfellsbæ og ein af ástæðum þess að ungt fjölskyldufólk kýs að setjast hér að er öflugt íþrótta- og tómstundastarf, og fólk horfir einnig til þeirrar góðu íþróttaaðstöðu sem boðið er upp á.
Við höfum stutt við starfsemi og uppbyggingu margra íþrótta- og tómstundafélaga og má þar t.d. nefna nýtt skátaheimili, uppbyggingu á aðstöðu á golfvöllum í Mosfellsbæ, auk stuðnings og samstarfs við hestmannafélagið Hörð.
Íþróttasvæðið að Varmá er hjarta íþróttaiðkunar í bænum og þar hafa staðið yfir endurbætur og uppbygging á liðnum árum. Má þar nefna nýtt fimleikahús og á þessu ári var sett nýtt gervigras á stóra völlinn, auk þess sem verið er að hefjast handa við byggingu fjölnota knatthúss sem tekið verður í notkun árið 2019. Fleiri framkvæmdir eru fram undan því góð aðstaða er undirstaða þess að íþrótta- og tómstundastarf blómstri og dafni.

Við Sjálfstæðismenn ætlum að halda áfram að bæta og byggja upp íþróttaaðstöðuna í bænum. Við ætlum í góðu samstarfi við íþrótta- og tómstundafélög eins og t.d. Aftureldingu að halda áfram að vinna að uppbyggingu að Varmá. Félagið er að vinna að stefnumótun og forgangsröðun varðandi uppbyggingu á Varmársvæðinu og er knattspyrnudeildin, sem er stærsta deildin, komin lengst í að móta sína stefnu í þeim málum.
Bygging knatthússins er liður í þeirra óskum og stefnu, auk fleiri framkvæmda sem þarf að forgangsraða í samstarfi við félagið eins og t.d. öðrum gervigrasvelli í fullri stærð, fjölgun klefa við íþróttamiðstöðina að Varmá og byggingu félagsaðstöðu, svo dæmi séu tekin.

Uppbygging íþróttaaðstöðu – langtímaverkefni
Miðað við spár um fjölgun íbúa í Mosfellsbæ á næstu árum og þar með fjölgun iðkenda í íþrótta- og tómstundastarfi í íþróttabænum okkar er ljóst að nauðsynleg uppbygging á íþróttaaðstöðu mun halda áfram í takti við þá aukningu.
Við Sjálfstæðismenn ætlum að halda áfram kröftugri uppbyggingu og bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar. Með því stuðlum við að enn frekari þátttöku fólks í heilsueflandi samfélagi sem Mosfellsbær er.

Áfram Mosó!

Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri,
2. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Rúnar Bragi Guðlaugsson, framkvæmdastjóri,
4. sæti á lista Sjálfstæðismanna.

Menntamál eru forgangsmál

sammosKæru frambjóðendur!
SAMMOS eru samtök foreldrafélaga gunnskóla í Mosfellsbæ. Hlutverk samtakanna er að stuðla að velferð grunnskólabarna, sameina krafta foreldrafélaga í bænum til góðra verka í skólamálum og vera fræðslunefnd og bæjaryfirvöldum til ráðgjafar varðandi velferð grunnskólabarna. Samtökin vilja með öðrum orðum styðja við og stuðla að uppbyggingu framúrskarandi skóla- og lærdómssamfélags fyrir alla hér í Mosfellsbæ.

Mennt er máttur
Menntun stuðlar að aukinni þekkingu, kunnáttu og færni einstaklinga þannig að þeir búi yfir hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lífs á tímum hraðra samfélagsbreytinga. Menntun er þannig lykilþáttur þegar kemur að framþróun samfélaga og því áríðandi að tryggja aðgengi allra að menntun við hæfi og að hún fari fram við viðunandi aðstæður þar sem hlúð er að styrkleikum hvers og eins. Jafnframt er mikilvægt að horfa til fjölbreyttra kennsluhátta, snemmtækrar íhlutunar, gagnreyndra aðferða og faglegrar skólaþróunar til að renna styrkum stoðum undir framúrskarandi skóla- og lærdómssamfélag.

Vellíðan nemenda mikilvæg
Menntun er mikilvæg forsenda heilbrigðis en vellíðan nemenda er að sama skapi mikilvæg forsenda náms og góðs námsárangurs. Af þeim sökum eru heilbrigði og vellíðan einmitt skilgreind sem einn af grunnþáttum menntunar sem allir skólar eiga að hafa að leiðarljósi í starfi sínu. Okkur þykir mikilvægt að skólasamfélagið allt taki höndum saman um skapa jákvæðan skólabrag og umhverfi þar sem markvisst er stuðlað að þroska og andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barnanna okkar.

Sameinum kraftana
Markmið SAMMOS er að tryggja virka, jákvæða og uppbyggjandi samvinnu við þá hagsmunaaðila er koma að velferð grunnskólabarna í bæjarfélaginu. Það er einfaldlega hagur okkar allra að standa vörð um menntun og vellíðan barnanna sem hér búa og tryggja skýra framtíðarsýn í menntamálum.

SAMMOS skorar á frambjóðendur að setja menntamál á oddinn og tryggja þannig velferð grunnskólabarna hér í Mosfellsbæ því menntamál eru sannarlega forgangsmál.

F.h. SAMMOS: Ágúst Leó Ólafsson, formaður Foreldrafélags Krikaskóla, Helga Magnúsdóttir, formaður Foreldrafélags Varmárskóla, Ólöf Kristín Sívertsen, formaður Foreldrafélags Lágafellsskóla

Hlustum og gerum betur

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Í Mosfellsbæ geta kjósendur valið á milli átta framboða. Alls eru 144 Mosfellingar í framboði og 760 að auki hafa gefið þeim meðmæli til að bjóða fram.
Þetta eru um 900 manns sem annað hvort eru á lista eða meðmælendur, samtals um 12% kjósenda. Vonandi skilar þessi áhugi sér í aukinni kosningaþátttöku en hún var dræm við síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Við sem stöndum að framboði Viðreisnar í Mosfellsbæ veltum því vandlega fyrir okkur hvort við ættum að blanda okkur í þennan slag, hvort við ættum brýnt erindi við kjósendur og hvort við gætum látið gott af okkur leiða til að gera mannlífið betra og rekstur sveitarfélagsins skilvirkari og opnari. Niðurstaða okkar var sú að okkar hugmyndir og um framfarir hér í bæ og stefna Viðreisnar um að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum ættu sannarlega erindi við kjósendur. Listi Viðreisnar er skipaður fólki með fjölbreytta reynslu og þekkingu, konum og körlum til jafns. Við treystum ungu fólki til verka og það finnur sér farveg innan okkar raða.

Við viljum komast að til þess að breyta, ekki til þess að geta sest við borðsendann og skipað fyrir. Framboðið er ekki sett fram til þess að gera einhvern að bæjarstjóra sem gengur með það í maganum eða til höfuðs núverandi bæjarstjóra. Við kærum okkur kollótt um slíkt. Við ætlum einfaldlega að hlusta á fólk og starfa í þeim anda að bæjarfulltrúar séu til þess að þjóna bæjarbúum en ekki til þess að halda í völd eða rífa niður það sem gert hefur verið. Við teljum að með þessum hugsunarhætti og nýjum vinnubrögðum getum við gert betur.

Eitt af því sem við setjum á oddinn eru lýðræðislegar umbætur og ábyrgð í fjármálum. Við ætlum að ráða umboðsmann íbúa sem gætir hagsmuna þeirra og leiðbeinir í samskiptum við bæinn. Við teljum æskilegt að bæjarstjórinn sé ráðinn á faglegum forsendum – ekki pólitískum – en starfi í umboði meirihlutans. Við viljum gagnsæja stjórnsýslu og viljum opna bókhald bæjarins. Það er líka mikilvægt að bjóða íbúum að koma að hugmyndavinnu verkefna sem eru á könnu sveitarfélagsins og sömuleiðis að ákvörðunum í meira mæli en nú er. Við teljum mikilvægt að einfalda ferla í skipulagsmálum og stytta afgreiðslu athugasemda. Við viljum breyta vinnubrögðum.

Við erum frjálslynt fólk sem vill að sérhagsmunir víki fyrir hagsmunum almennings. Við tökum jafnrétti kynjanna alvarlega og höfnum hvers konar kynbundinni mismunun. Við viljum veita öllum jöfn tækifæri og styðja þá sem ekki geta nýtt þau, með öflugu öryggisneti. Á grundvelli jafnra tækifæra geta einstaklingarnir blómstrað og ráðið eigin lífi. Þannig sköpum við réttlátt samfélag í Mosfellsbæ.

Valdimar Birgisson
skipar fyrsta sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ.

Öryggismál í forgrunni hjá Miðflokknum

Ásta B. O. Björnsdóttir

Ásta B. O. Björnsdóttir

Hver þekkir ekki þá óþægilegu tilfinningu að óttast um öryggi barna sinna? Hver vill ekki gæta að heimili sínu og munum?
Mosfellsbær er ekki undanskilinn af þeim sem vilja leita skjótfengins gróða eða valda tjóni með einum eða öðrum hætti. Við viljum öll tryggja að heimilið sé öruggt og að börnin geti notið sín óáreitt, í friði og spekt.

Nábýli við náttúruna
Mosfellingar eru lánsamir að búa nær náttúrunni í allri sinni dýrð en flestir aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Fegurðin er til staðar hvar sem litið er, ár, sjór, fjöll og vötn. Nútíma samfélag hefur þróast hratt og samhliða hefur bæjarfélagið okkar gert það einnig. Við teljum að það sé ekki aðeins gott að búa í Mosfellsbæ heldur forréttindi. Við veljum þennan griðarstað vegna þess að hann er öruggur staður til að búa á og samheldni íbúa er mikil.

Vágestir
Það er ekkert launungarmál að hingað í okkar fallega bæ hafa komið aðilar og jafnvel sækja í hann til að nálgast muni eða selja það sem ekki má selja og hvað þá börnum og unglingum. Veip hefur aukist mikið og það er dulin hætta í því fólgin þó svo að það sé sjálfsagt skömminni skárra en sígarettur, munn- eða neftóbak og vindlar, en þörf er á að kanna betur. Hvert samfélag þarf að meta hvað skal til bragðs taka og hvernig það ver sig gegn utanaðkomandi hættu og áreiti.

Jón Pétursson

Jón Pétursson

Öryggi í fyrirrúmi
Miðflokkurinn leggur til að málið verði leyst með bæjarbúum og lögreglu þannig að lausnin verði til að takmarka hættuna frá því sem nú er og tryggja að allir séu sáttir með aðferðafræðina. Það er ekki boðlegt að hingað valsi aðilar inn og út í bænum og hafi þannig fullan og óheftan aðgang að börnum og unglingum sem oft leita í breytingar á lífi sínu eða til að leysa sína erfiðleika með stórhættulegum efnum.
Miðflokkurinn vill tryggja öruggari Mosfellsbæ fyrir alla.

Ásta B. O. Björnsdóttir er viðskiptafræðingur
og skipar 7. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Jón Pétursson er stýrimaður og skipar 16. sæti
á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.