Fjárhagsáætlun

Anna Sigríður Guðnadóttir

Fjárhagsáætlun fyrir 2020 var samþykkt eins og lög gera ráð fyrir síðla árs 2019.
Margt er gott þar að finna enda samstaða um ýmis málefni innan bæjarstjórnar. Vinnubrögðin við gerð fjárhagsáætlunar eru þó árlegur ásteytingarsteinn. Samfylkingin hefur í áraraðir lagt það til að fagnefndir bæjarins komi með markvissari hætti að undirbúningi fjárhagsáætlunar. Virkja ætti nefndir betur í umræðu um þá málaflokka sem undir þær heyra og nefndir ættu að koma beint að tillögugerð.
Lokaábyrgðin myndi þó að sjálfsögðu liggja hjá kjörnum bæjarfulltrúum sem tækju ábyrgðina á forgangsröðun tillagnanna. Þessi lýðræðislega aðferð hefur ekki hugnast meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.

Felldar tillögur
Tvær nefndir lögðu fram tillögur þegar tækifæri gafst, þ.e. á milli fyrri og síðari umræðu í bæjarstjórn. Önnur nefndin er umhverfisnefnd, undir forsæti VG, en eins og í öðrum fagnefndum skipa fulltrúar VG og D-lista meirihluta nefndarmanna. Sameinaðist nefndin um 3 tillögur sem formanni var falið að fylgja eftir.
Skemmst er frá því að segja að engin þeirra hlaut framgang hjá bæjarfulltrúum VG og D-lista við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2020. Einni var þó vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2021.
Hin nefndin var öldungaráð. Ráðið lagði til að stöðugildum við heimaþjónustu aldraðra yrði fjölgað um tvö og þau nýtt til að mæta þörf fyrir aðstoð við persónulega umhirðu og heimilishald, annað en heimilisþrif, og að rjúfa félagslega einangrun aldraðra þar sem um hana er að ræða. Þessari tillögu hafnaði meirihluti bæjarstjórnar.

Fleiri felldar tillögur
Engin tillagna Samfylkingarinnar hlaut framgang við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Hér geri ég að umtalsefni tvær tillögur sem undirrituð gerði varðandi lýðræðismál í bæjarfélaginu. Annars vegar tillögu um reglubundna fundi bæjarstjórnar með stjórnum hverfafélaga, aðstoð við stofnun hverfafélaga og almenna fundi með íbúum hverfa og hins vegar tillaga um hlutastarf umboðsmanns íbúa.
Fyrri tillagan er í samræmi við lið 2A í samþykktri lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Tilgangur tillögunnar var að uppfylla stefnuna og efla og styrkja samtal og samráð við íbúa. Það vakti greinilega ekki áhuga Vinstri grænna og sjálfstæðismanna.
Seinni tillagan um hlutastarf umboðsmanns íbúa snýst um að bæjarbúum gefist tækifæri til að leita til hlutlauss aðila til að fá ráðgjöf um samskipti sín við bæjarkerfið. Hún snýst um að hlutlaus aðili skoði ábendingar og kvartanir bæjarbúa varðandi úrlausn umkvörtunarefna þegar ekki hefur tekist að komast að sameiginlegum skilningi eða íbúi telur að ábendingum sínum og kvörtunum hafi ekki verið sinnt sem skyldi.

Báðar þessar tillögur eru í eðli sínu mjög pólitískar, snúast um grundvallarskoðun á samráði og lýðræðislegu samtali kjörinna fulltrúa og íbúa og um samskipti og samtal bæjarkerfisins og íbúanna. Maður skyldi ætla að meirihluti VG og Sjálfstæðisflokks hefði skoðun á þessum grundvallaratriðum í samspili kjörinna fulltrúa og íbúa, en nei ekkert slíkt heyrðist.
Meirihlutinn brá á það ráð að skýla sér á bak við ráðinn embættismann í stað þess að taka skýra pólitíska afstöðu til þessara tillagna. Embættismaður er settur í þá vandasömu stöðu að skrifa umsögn um hápólitískar tillögur og í stað þess að kjörnir fulltrúar VG og D í meirihluta hysji upp um sig sokkana og taki opinbera pólitíska afstöðu um að styðja tillögur eða hafna þeim þá kúra þau í skjóli embættismannsins. Þarna lagðist lítið fyrir meirihlutann.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar