Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Björn Traustason

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður með sína árlegu jólatrjáasölu í Hamrahlíð fyrir jólin eins og síðastliðna áratugi.
Jólaskógurinn í Hamrahlíð mun opna sunnudaginn 8. desember með opnunarhátíð sem hefst klukkan 13. Þar verður ýmislegt við að vera, bæjarstjóri mun höggva fyrsta jólatréð, jólasveinar mæta á svæðið, ratleikur fyrir börnin og margt fleira.
Hjá mörgum fjölskyldum er jólatrjáaleit í Hamrahlíð orðinn árviss viðburður og ómissandi hluti af aðventunni. Mjög margir sækja einmitt í Hamrahlíðina til að saga sitt eigið tré, þó fjölgar þeim sem heimsækja rjóðrið okkar þar sem hægt er að velja tré sem söguð hafa verið úr skóginum. Þar er mikið úrval af greni og stafafuru af öllum stærðum.
Loftslagsmál hafa fengið aukið vægi síðustu misseri, en skógrækt hefur verið hluti af lausnum stjórnvalda sem binding á móti þeirri losun sem við mannfólkið látum frá okkur.
Á síðasta ári lofaði Skógræktarfélag Mosfellsbæjar því að gróðursetja 30 tré fyrir hvert tré sem yrði selt. Skógræktarfélagið hefur þegar staðið við gefið loforð og voru gróðursett 15.000 tré í sumar fyrir þau tré sem félagið seldi í jólatrjáasölunni á síðasta ári. Búast má við að helmingur þeirra trjáa muni verða að fullvaxta trjám og binda koltvísýring næstu áratugina. Hinn helmingurinn verður ýmist seldur sem jólatré, nýttur í skógarafurðir eða nær ekki að lifa.
Sami háttur verður hafður á um þessi jól, við munum gróðursetja 30 tré fyrir hvert og eitt sem selt verður og með því er hægt að nýta jólatrjáasöluna til að stuðla að aukinni bindingu með skógrækt. Eins og áður erum við stödd við Vesturlandsveginn í alfaraleið og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að heimsækja okkur og næla sér í flott jólatré, og stuðla að kolefnisbindingu í leiðinni!

Jólakveðja, Björn Traustason
Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar