Menntamálin í forgang

varmagreinÞað dylst engum sem fylgist með fréttum að grunnstoðum menntunar er ábótavant en brýnasti vandinn er þó að mati flestra of mikið álag á kennara og skortur á úrræðum fyrir börn sem þurfa stuðning.
Sveitarfélög hafa verið að bregðast við og margt að gerast í skólamálum í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun, markvisst samstarf fagaðila milli sviða, aukna stoðþjónustu og bættan aðbúnað.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga kalla áhugasamir foreldrar barna í Varmárskóla eftir stefnu flokkanna í menntamálum.
Í skýrslum um uppbyggingu skólahverfa og byggingu nýrra skóla í Mosfellsbæ 2013-2014 kemur fram að æskilegur fjöldi nemenda í hverjum skóla séu 550-600 börn og gæta verði að því að Varmárskóli verði ekki 1000 barna skóli. Niðurstöður Leithwood og Jantzi (2009) sem skoðuðu niðurstöður 57 rannsókna sýna að hagkvæmasta rekstrarstærð grunnskóla, að teknu tilliti til árangurs og ánægju nemenda, er um 500 nemendur ef samfélagsstaða þeirra er svipuð. Í Varmárskóla eru nú tæplega 900 nemendur. Álag á kennara og börn hefur aukist, úrræði eru takmörkuð og námsárangur undir væntingum. Næsta haust er gert ráð fyrir um 1.000 börnum og þótt Helgafellsskóli verði tekinn í notkun áramótin 2018/2019 mun nemendafjöldi í Varmárskóla vera áfram langt umfram það sem telst ákjósanlegt næstu árin. Niðurstöður Rannsókna og greininga á högum og líðan ungs fólks í Mosfellsbæ undanfarin misseri sýna vaxandi kvíða og vanlíðan hjá börnunum sem rýna þarf betur í. Mikilvægt er að bregðast við því sem betur má fara og setja fram aðgerðaáætlun þar sem andleg líðan barnanna er í forgrunni.
Í Varmárskóla er að finna mikinn mannauð meðal kennara. Mikilvægt er að skapa eftirsóknarverðar starfsaðstæður sem styðja við þá og hvetja í starfi og skoða sérstaklega álag vegna þeirra vaxtaverkja sem skólinn glímir við. Þá þarf að gera skólanum kleift að fylgja eftir þeim þjóðfélagsbreytingum sem framundan eru en sérfræðingar á sviði upplýsingatækni telja að á næstu 5 árum verði meiri tækniframfarir en hafa verið síðustu 20 árin. Í stefnu bæjaryfirvalda er talað um að grunnskólar Mosfellsbæjar verði í fremstu röð á sviði upplýsinga- og tæknimála en hvernig og hvenær komumst við þangað?
Í skólastefnu Mosfellsbæjar er að finna allt sem þarf til að gera skólana okkar þá bestu á landsvísu en við þurfum að spýta í lófana og setja menntun og líðan barnanna í forgang. Í skólastefnunni segir: „…Einstaklingurinn er í öndvegi og á skólastarfið að taka mið af þörfum hans, félagslegum aðstæðum og umhverfi. Mosfellsbær leggur áherslu á að vel sé að börnum bæjarins búið, bæði andlega og líkamlega, svo þau fái notið bernsku sinnar. Umhverfi barna taki mið af þroska hvers og eins, jafnframt sé tekið tillit til bakgrunns og einstaklingsþarfa og hugmynda um skóla fyrir alla. Skólastarf á að vera sveigjanlegt og laða fram hæfileika allra nemenda með markvissum hætti því öll börn eru einstök og sérstök…“
Íslenskt menntakerfi stendur á tímamótum og við sem samfélag verðum að taka höndum saman. Störf framtíðarinnar munu byggjast á samvinnu, hugviti og sköpun og til að undirbúa börnin sem best til þátttöku í síbreytilegu tæknisamfélagi þarf skólastarfið að vera í stöðugri þróun. Því skorum við á bæjaryfirvöld í samvinnu við allt skólasamfélagið að móta heildstæða menntastefnu til framtíðar þar sem markmiðið er að skólar í Mosfellsbæ verði í fremstu röð. Framsækna stefnu sem fylgja þarf vel eftir og tryggja að dagi ekki uppi sem falleg orð á blaði.
Hópur áhugasamra foreldra barna í Varmárskóla um menntamál

F.h. hönd áhugasamra foreldra barna í Varmárskóla um menntamál:
Aníta Gísladóttir, Ágúst Guðmundsson, Elfa Haraldsdóttir, Erla Birgisdóttir, Ólafur Guðnason og Rakel Baldursdóttir

„Betri“ veg um Kjalarnes? Nei, takk!

Sigurjón Benediktsson

Sigurjón Benediktsson

Undarleg umræða er í gangi um Vesturlandsveg um Kjalarnes. Heilu fundirnir eru haldnir þar sem íbúar Kjalarness gráta úr sér augun og eru engir eftirbátar alvöru landsbyggðarvælara að norðan.
Stjórnmálamenn sjá auðvitað tækifæri í aumingjadómnum og mæta og klappa á bakið á Kjalnesingum, svona til að hressa þá, og þiggja kaffi og kleinur um leið.

Hvert er vandamálið?
Það vita allir að vegir eru ekki líklegir til að skapa vandamál. Eru einfaldlega leið milli A og B sem einhverjir snillingar hanna og aðrir byggja. Vandamálið er umferðin. Fjöldi rennireiða sem fer milli A og B. Það er því snilldarlausn að hafa vegi þannig að sem fæstir fari þá. Þar hefur vel til tekist á Kjalarnesinu og því undarlegt að vera væla yfir vegi sem sannarlega minnkar umferð ökutækja. Hefur sannað gildi sitt. Bætir þannig mannlíf á nesinu. Minnkar mengun og hávaða.

Fyrir hverja?
Það er erfitt að skilja að einhverjir ferðamenn, sem eru hér aðeins sem dægurflugur, skuli stjórna umræðu um vegi og samgöngur. Held að þeir geti bara farið Kjósarskarðsveg ef þá langar út úr borginni. Við, sem viljum vera í friði og ró á Kjalarnesinu, kærum okkur sköllótta um þessa ferðamenn. Verða þeir hér eftir fimm ár ? Eftir 10 ár? Enginn veit.

Gæfusporið?
Þegar Kjalarneshreppur hinn forni var innlimaður í borg óttans héldu einhverjir að það væri mikið gæfuspor. Einu sporin sem það hjónaband hefur getið af sér, eru sporin í veginum um Kjalarnesið. Reyndar er það svo, að afar gott er að hjóla í þessum sporum og er ég viss um að hin frægi Hjólmar mun leggja til að gefa öllum íbúum Kjalarness hjól til að minnka umferðina og auka yndi íbúa. Auk þess veitir ekki af að róa niður þær þúsundir grísa og mikinn fjölda fiðurfjár sem bíða örlaga sinna á nesinu góða. Hávaðinn fer illa í verur á endalausum válista.

Hvað næst?
Kjalarnesið var frægt fyrrum fyrir ástir og umburðarlyndi. Þar var á sama tíma ein fyrsta kirkja landsins reist og eitt stærsta hof sem sögur fara af hérlendis. Nú eru Kjalnesingar helst þekktir fyrir málaferli og landamerkjadeilur sem og angan af svínaskít og hænsnadriti. Uppgangur er aðallega í landbúnaðargeiranum. Stundum leiðir það til niðurgangs. Svín og hænsn eru aðall Kjalarnessins. En það er önnur saga.

Sigurjón Benediktsson
Esjuhofi Kjalarnesi

Þegar neikvæðir halda sig jákvæða

Hjördís Bjartmars

Hjördís Bjartmars

Það virðast nánast viðtekin viðbrögð við gagnrýni hér á landi, að menn (og konur!) tala um að verið sé að tala hlutina niður. Og hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðu landsins eins og kunnugt er.
Það eru þó nokkur öfugmæli að tala um stjórnmálaumræðu í því samhengi, því í þannig svari felst engin umræða heldur einungis tilraun til þöggunar.

Umræðan í Mosfellsbæ er þar engin undantekning. Fyrirspurnum þeirra sem vinna að bæjarmálum hér hefur margoft verið svarað með þessum hætti. Þegar bent er á að eitthvað megi betur fara t.d. varðandi störf bæjarstjórnar og stöðu umhverfis- eða skólamála, svo dæmi séu tekin, eru ekki veitt málefnaleg svör. Heldur er viðbáran sú, að ekki eigi að tala hlutina niður og menn verði að vera uppbyggilegir! Jákvæðir! Og bjartsýnir!

Það er gott að hafa jákvæðni að leiðarljósi og ekki skemmir að bera virðingu fyrir öðrum. Það felst þó hvorki jákvæðni eða virðing í að svara gagnrýni annarra með þessum hætti. Uppbyggileg gagnrýni annars vegar, og neikvæðni hins vegar, eru alls ekki sami hluturinn, eins og þessir einstaklingar virðast halda.

Málefnalegur ágreiningur er eðlilegur og ekkert við honum að segja. Menn geta rifist, blótað hver öðrum og stundum óvart viðhaft óheppilega orðanotkun. En það sem raunverulega skiptir máli er staða fólks í samfélaginu. Við hljótum að gera þá kröfu til þeirra sem kosnir eru til starfa fyrir bæjarfélagið eða þeirra sem vinna að skólamálum eða öðrum samfélagsmálum að þeir veiti greinargóð og heiðarleg svör, en reyni ekki að þagga umræðuna niður með því að segja viðmælandanum að hann sé bara leiðinlegur, neikvæður, fúll og þar með ekki svara verður.

Þannig viðbrögð skila sér beint aftur til föðurhúsanna. Jákvæðni eða virðing gagnvart viðmælanda sem fær þannig svar er nefnilega nákvæmlega engin.

Hjördís Bjartmars er læknisfræðilegur teiknari, kennari og formaður Íbúahreyfingarinnar

Hvatning til Mosfellinga – sem og annarra landsmanna

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Ég hefi lengi haft mikla ánægju af að ganga mér til heilsubótar og skemmtunar. Áður fyrr meðan ég var yngri og hraustari kleif ég fjöll, hjólaði jafnvel úr Mosfellsbæ að Esjurótum og var allan guðslangan daginn að ganga upp og um fjallið. Oft kom ég dauðþreyttur heim og það var auðvitað markmiðið.
Í dag verð ég að eftirláta öðrum fjallið, einkum þeim sem mér eru yngri og enn hafa fullu heilsu. En Úlfarsfellið og mosfellsku fjöllin get ég enn fengist við. Oft á ég leið gegnum skóginn í Hamrahlíðinni og stundum ásana austur af Lágafelli. Nú er að vaxa þar upp mjög góður og fagur skógur sem veitir okkur bæði skjól og mikinn unað. Fuglalífið er sérstakur kapítuli út af fyrir sig og er margt sem gleður þá sem unna fuglum og kunna að njóta þeirra. Skógarfuglunum hefur fjölgað gríðarlega og er það vel.
Skógurinn framleiðir mikið af ýmsum afurðum. Í lundum trjánna má víða finna sveppi af ýmsum tegundum, sumum ætum en öðrum ekki. Jólatré hafa verið höggvin í um þrjá áratugi í Hamrahlíð og sjálfsagt mætti auk þess fá umtalsverðan eldivið af grisjunarvið. Mosfellsku skógarnir eru komnir á það stig að þá þarf að grisja og eru umtalverð verðmæti fólgin í skóginum.
Ein „skógarafurðin“ eru könglarnir af barrtrjánum. Þeim má safna meðan þeir eru enn lokaðir og ná fræjunum úr þeim þá þeir opna sig og sá áfram annað hvort í bakka og potta eða í beð og jafnvel út í sjálfa náttúruna. Stafafuran er t.d. ein „ágengasta“ tegund sem þekkist hérlendis og má víða sjá sjálfsáin barrtré út um allan Hamrahlíðarskóginn ef vel er að gáð. Þannig eru öll þau tré sem nú eru að vaxa og dafna meðfram Vesturlandsvegi og hitaveitustokkinum meðfram Hamrahlíðarskóginum. Mjög líklegt er að þau séu „dauðadæmd“ þegar þarf að endurnýja eða gera við þær lagnir sem þar eru undir, rafmagnslagnir og vatnslagnir (kalt vatn).
Undanfarin ár hefi ég safnað í góðum fræárum birkifræi að hausti. Stundum verð ég of seinn til eftir að Kári hefur færst í aukana í vetrarbyrjun og feykt þeim út í buskann. Lokuðum könglum af barrtrjám hefi ég einnig safnað og gjarnan dreift út í náttúruna eins og þeir koma. Í raun er ég með þessu að taka að mér að vera n.k. „handlangari“ náttúrunnar, miðlunarstarf með því að koma fræi og könglum á staði þar sem trjáplönturnar geti náð að festa rætur, dafnað og vaxið í íslenskri náttúru.
Ísland er mjög fábreytt að tegundatali hvað jurtir varðar. Hér vaxa rétt innan við 500 villtar tegundir en til samanburðar þá er tegundafjöldinn um fjórfaldur á sambærilegri breiddagráðu í Noregi (Þrándheimi). Auðvitað er ljóst að fræ af barrtrjám eiga ekki greiða leið yfir Atlantshaf með fuglum eða vindum og þaðan af síður með hafstraumum. En Ísland er í miðju barrskógabeltinu og hér þrífast mjög margar tegundir barrtrjáa mjög vel eins og við getum víða séð.
Á heilli öld hefur okkur tekist að færa skóglendi landsins út í það að um 1,5% Íslands er um þessar mundir þakið skógi. Ísland er þess vegna eitt skógfátækasta land ekki aðeins Evrópu heldur aðeins alls heimsins. Við þurfum að bæta verulega úr enda skógurinn mannfólkinu sem og náttúrunni mjög mikilvægur.
Söfnum birkifræi að hausti og barrkönglum að vetri. Og dreifum þessu sem víðast á óbyggt land. Við gætum með þessu móti endurheimt birkiskóginn sem einu sinni óx á Mosfellsheiði og gert jafnvel betur.

Guðjón Jensson
Leiðsögumaður og náttúruunnandi

Mosfellsbær sem staður að búa á

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Gallup gerir skoðanakönnun árlega meðal íbúa stærstu sveitarfélaga landsins og spyr almennra spurninga um ýmis atriði sem snúa að þjónustu sveitarfélaganna.
Svarendur í Mosfellsbæ 2017 voru 438 en úrtakið er að stærstum hluta unnið upp úr viðhorfahópi fyrirtækisins að viðbættu úrtaki úr Þjóðskrá. Ég hefði getað lent í síðara úrtakinu en gerði ekki. En hverju hefði ég svarað? Jú, spurningunni um hversu ánægð ég væri með bæinn minn sem stað til að búa á hefði ég óhikað svarað mjög ánægð. Því vissulega er gott að búa í Mosfellsbæ.
Hér er fallegt og skjólsælt, fjöldi skemmtilegs og áhugaverðs fólks sem fæst við margt og mikið. Hér er rólegt og gott umhverfi fyrir fjölskyldur, frábær lítill bær til að ala upp börn. Steinsnar niður í fjöru og upp á fell. Stutt í höfuðstaðinn og næturstrætó heim um helgar! Helst að búðarferðir geti tekið of langan tíma því maður hittir alltaf einhverja sem maður vill að spjalla við.

Gott silfur gulli betra?
Við lentum víst í 2. sæti 2017, sem er auðvitað fínn árangur. En um hvað er spurt í könnuninni og hvernig geta bæjaryfirvöld nýtt sér niðurstöðurnar? Undanfarið hafa niðurstöðurnar verið teknar fyrir á fundum nefnda sveitarfélagsins og nefndirnar skoðað sérstaklega þá málaflokka sem að þeim snúa. Skipulagsnefnd skoðar niðurstöður skipulagsspurningar, menningarmálanefnd sinn málaflokk, fræðslunefnd sinn o.s.frv.
Afgreiðsla er nánast samhljóða, könnunin lögð fram. Enda litlar vísbendingar um hvað það er nákvæmlega sem fólk er vansælt með þar sem óánægja kemur fram, sem og hvað er sérstaklega gott þar sem það á við. Eða hvernig ber að skilja spurninguna um ánægju almennt með skipulagsmál í bænum? Er átt við aðalskipulagið? Einstök deiliskipulög? Hringtorg? Þéttingu í miðbæ? Það er ómögulegt að vita út frá könnuninni. Eða hversu miklar forsendur hefur fólk, sem hvorki er sjálft fatlað né er í fjölskyldu með fötluðum einstaklingi, til að meta þjónustu við þann fjölbreytta hóp?
Samkvæmt könnuninni eru 20% þeirra sem notið hafa þjónustu við fatlað fólk sjálfir eða við fjölskyldumeðlim, óánægðir. En um hvað óánægjan snýst er óljóst. Könnunin kafar ekki dýpra.

Tilgangurinn
Til að fá niðurstöður könnunarinnar í hendur og leyfi til að birta þær greiðir Mosfellsbær árlega upphæð. Miðað við þá vitneskju sem niðurstöðurnar veita um álit og upplifun íbúa af þjónustunni leyfi ég mér að efast um að þessum peningum sé vel varið. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir bæjaryfirvöld að hafa sem gleggsta hugmynd um hvaða augum íbúar líta þjónustu bæjarins, til að geta brugðist við ef ánægjan dalar. En til þess að geta brugðist við, t.d. niðurstöðum um að 15% foreldra grunnskólabarna séu óánægðir með grunnskóla bæjarins, þarf mun nákvæmari könnun. Könnun sem spyr dýpri spurninga. Því megintilgangurinn með því að verja peningum í skoðanakannanir hlýtur að vera að finna út hvar gera má betur, finna veikleika til að geta unnið með þá og úr þeim, til að gera góðan bæ betri.
Tilgangurinn getur ekki verið sá að fá yfirborðskennda niðurstöðu til að flagga í einhverri sætakeppni, eða á ég að leyfa mér að segja pissukeppni, sveitarfélaga. Auðvitað getur verið upplýsandi að spyrja almennra spurninga og fá almenn svör en er ekki nóg að gera svona almenna könnun á þriggja til fjögurra ára fresti og nýta fjármuni í afmarkaðri kannanir á þjónustuþáttum þess á milli?
Silfurverðlaun á íþróttamóti eru flott og ástæða til að flagga og fagna og jafnvel að ærast af fögnuði um stundarsakir. En grunnþjónusta sveitarfélags, s.s. fræðslumálin og félagsþjónustan, aðbúnaður og líðan íbúa, er ekki íþróttakeppni heldur verkefni sem tekur ekki enda, þarf sífellt að vera í skoðun og þarf dýpra samtal um þá þætti sem bæta þarf. Dýpra samtal en þjónustukönnunin gefur færi á.

Anna Sigríður Guðnadóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Hvað er Rótarý?

Jóhanna Björg Hansen

Jóhanna Björg Hansen

Rótarý er hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu. Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur sem er starfandi í meira en 200 löndum í öllum heimsálfum.
Félagar eru rúmlega 1,2 milljónir í um 35 þúsund klúbbum. Þessi alþjóðlegu samtök standa fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðla að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetja til góðvildar og friðar í heiminum. Til marks um það er opinbert kjörorð alþjóðahreyfingarinnar: „Þjónusta ofar eigin hag“.
Á Íslandi eru starfandi 31 rótarýklúbbur með um 1300 félaga. Í klúbbunum er lifandi starf og vikulegir eða hálfsmánaðarlegir fundir með fróðlegum fyrirlestrum og umræðu. Félagar eru á öllum aldri og af báðum kynjum. Rótarýfélagi getur sótt rótarýfund hjá hvaða rótarýklúbbi sem er í heiminum.
Rótarýdagurinn er haldinn hátíðlegur þann 24. febrúar næstkomandi og af því tilefni er Rótarýhreyfingin á landsvísu að vekja athygli á starfsemi sinni.

Hvað gerir Rótarý fyrir samfélagið ?
Rótarý leggur áherslu á ýmis mannúðarmál og ber þar fyrst að nefna verkefnið End Polio Now þar sem klúbbarnir leggja sitt af mörkum í baráttunni við útrýmingu lömunarveiki í heiminum. Rótarý á Íslandi styrkir síðan árlega efnilega tónlistarmenn í gegnum tónlistarsjóð sinn og var Víkingur Heiðar Ólafsson fyrsti styrkþegi tónlistarsjóðsins. Rótarýklúbbur Mosfellssveitar hefur veitt árleg samskiptaverðlaun til grunskólanema og ennfremur staðið fyrir skógrækt hér í heimabænum. Síðast en ekki síst veitti Rótarý í tengslum við nýliðið Umdæmisþing styrki til þriggja mjög verðugra samfélagsverkefni hér í Mosfellsbæ.

Hvað gefur Rótarý félögum sínum ?
Rótarý er félagsskapur sem eflir þekkingu og kunningsskap milli starfstétta og þar skapast tækifæri til áralangrar vináttu og samstarfs í gegnum skemmtileg viðfangsefni. Haldnir eru fjölbreyttir og fræðandi fyrirlestrar þar sem farið er yfir það sem efst er á baugi hverju sinni. Árlega heldur klúbburinn skemmtilega hátíðarfundi og fer saman í ferðir og nýtur útivistar í nærsamfélaginu en einnig hafa félagsmenn skellt sér saman í ferðir utan landssteinanna.

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar
Rótarýklúbbur Mosfellssveitar var stofnaður þann 17. mars 1981 og er hann því rétt tæplega 37 ára gamall. Fundað er yfir vetrartímann á þriðjudögum kl. 18:15 í nýja Golfskálanum Kletti. Hafir þú eða þið áhuga á Rótarý eða viljið gerast félagar er velkomið að hafa samband við Jóhönnu Björgu Hansen forseta Rótarýklúbbs Mosfellssveitar starfsárið 2017-2018 eða Þuríði Yngvadóttur ritara klúbbsins.

Jóhanna Björg Hansen
Forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar
starfsárið 2017-2018

Heilsueflandi bærinn okkar

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Við búum í fallegum bæ. Stutt er til fjalla og í fjöru. Allir sem vilja stunda útivist geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Talað er mikið um það að menn eigi að hreyfa sig daglega og þá sérlega börnin. Mér finnst til dæmis mjög hjákátlegt þegar menn mæta í íþróttamiðstöðvar og vilja helst keyra beint inn að inngangnum. Mæta menn ekki til þess að hreyfa sig? Er þá ekki í lagi að labba nokkur skref?
En talað um útivist: Ómældan fjársjóð er að finna hér í bæ. Og það besta er að það kostar ekki neitt. Ganga meðfram Leiruvoginum eða fara upp á eitthvað af okkar fjöllum í nágrenninu er besta líkamsrækt. Eða fá sér hjólreiðaferð á stígunum milli bæjarfélagana.
Veturinn er einnig mjög heillandi. Þeir sem eru sprækir geta skemmt sér á skíðum. Ein lítil toglyfta myndi nú ekki kosta mikið. Miður er að engin gönguskíðabraut er rudd um golfvallarsvæðið eins og í fyrra. Þetta var mjög skemmtilegt framtak. En gönguskíðabrautin um Tunguvöllinn er ekki spennandi, enda einungis 900 m á jafnsléttu og þjónar einungis þeim sem búa í Leirvogstungu.
Auðvitað gegna íþróttafélögin okkar mikilvægu hlutverki. En við eigum ekki alltaf að þurfa að borga fyrir það að við viljum hreyfa okkur. Þannig að allt sem stuðlar að hollri útiveru burtséð frá félagsaðild að einhverjum félögum þarf að styðja sérlega vel. Skógræktarsvæðin eiga að fá fjármagn til að tryggja áframhald á starfseminni, mest notuðu göngustígar upp á fjöllin okkar þurfa varanlegt viðhald.
Mosfellsbærinn okkar á að stefna áfram að því að vera heilsueflandi samfélag og hlúa sérlega að því að menn á öllum aldri uni sér vel í að vera úti í nátturunni.

Úrsúla Jünemann,
situr í umhverfisnefnd fyrir Íbúarhreyfingu

„Fermetrar með þaki“ eða byggingarlist

Gunnlaugur Johnson

Gunnlaugur Johnson

Undanfarin misseri hefur mikið verið byggt í Mosfellsbæ. Ný hverfi hafa risið í Helgafellslandi og Leirvogstungu, íbúðabyggingar af ýmsum stærðum og gerðum. Sömuleiðis hefur atvinnuhúsnæði verið byggt við Desjamýri, og víða eru framkvæmdir inni í eldri hverfum bæjarins.
Undirritaður hefur setið síðastliðin 3 ár í skipulagsnefnd sem fulltrúi Íbúahreyfingarinnar og fylgst með þessari framkvæmdasemi á ýmsum stigum og reynt að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að beina þeim í farsælan farveg.
Við hönnun byggingar er að ýmsu að hyggja. Hún þarf að uppfylla kröfur og þarfir húsbyggjandans en jafnframt að falla vel inn í umhverfi sitt, og vera augnayndi fyrir nágranna og aðra. Hún þarf að samræmast fyrirliggjandi deiliskipulagi og uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar.
Rétt eins og við aðrar athafnir mannanna eru margir sem koma að svona verki; hver fagmaður veit hvar hans hæfileiki og þekking nýtist best og sinnir sínu hlutverki af kostgæfni og alúð.
Eða hvað?
Við uppskurð koma ýmsir að verki, skurðlæknir, hjúkrunarfræðingar, svæfingarlæknir, lyfjafræðingar og fleiri. Allir vita hvað til síns friðar heyrir og engum dettur í hug að sinna öðru en sínu hlutverki.
Við hönnun bygginga ætti sama verklag að gilda. Arkitektinn hannar bygginguna með tilliti til rýmisuppbyggingar og flæðis, stýrir birtu og litavali og nýtir listfengi sitt til að byggingin sé prýðileg umhverfinu. Verkfræðingurinn sér um að húsið sé traust og öruggt og uppfylli fagurfræðilegar væntingar arkitektsins, og tækni- og byggingarfræðingurinn tryggja að húsið hvorki leki né mygli eða sé tæknilega ófullnægjandi. Síðan eru gerðar lagnateikningar fyrir rafmagn og hitaveitu, vatnslagnir og fráveitu og ýmislegt annað. Oft kemur landslagsarkitekt að hönnun umhverfis hússins, veranda og garðs. Allir vita hvað til síns friðar heyrir og engum dettur í hug að sinna öðru en sínu hlutverki.
Því miður er veruleikinn annar í raun. Löggjafinn lítur svo á að allir sem eiga tölvu með teikniforriti hljóti að geta gert það sama, og því skuli þeir allir hafa sömu réttindi. Allmargir bygginga- og tæknifræðingar gefa sig út fyrir að vera jafn hæfir arkitektum við húsahönnun, þótt uppbygging náms þeirra sé á engan veg sambærileg, og taka að sér að gera aðalteikningar af húsum.
Þessu hefur verið líkt við að gefa slátrara læknisleyfi. Húsbyggjendur eru grandalausir og treysta sínum hönnuði í blindni. Þegar svo byggingin er risin og mistökin og klúðrið blasa við er of seint að iðrast.
Vitaskuld er ekkert mál að búa í vondu húsi. Maður getur sofið víðast, salernið virkar yfirleitt og gegnumsneitt kemst maður af fyrirhafnarlítið. En þó skynja allir á eigin skinni muninn á „fermetrum með þaki“ og góðri byggingarlist, og oftast er byggingarlistin ódýrari þegar til kastanna kemur, og ánægjulegri, bæði fyrir eigandann og umhverfið.
Sem nefndarmaður í skipulagsnefnd hef ég því miður horft upp á hvernig húsbyggjendur í Mosfellsbæ hafa látið vanhæfa aðila hanna sín hús og þannig klúðrað þeim möguleikum sem spennandi lóðir hafa boðið upp á.
Ég hef margoft lýst eftir byggingarlistarstefnu Mosfellsbæjar, sem boðuð er í núverandi aðalskipulagi en hefur ekki enn séð dagsins ljós. Gildandi byggingarreglugerð er mjög yfirgripsmikil varðandi byggingartækni og öryggismál, en þar er hvergi tæpt á fagurfræði eða formskyni, sjónmenntun eða öðru sem gæti hjálpað byggingarfulltrúum landsins til að verjast verstu smekkleysunni.
Ég hvet alla sem hyggja á húsbyggingar að vanda val sitt á ráðgjöfum og muna að vel skal til þess vanda sem lengi á að standa.

Gunnlaugur Johnson
Höfundur er arkitekt og fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar

Er gott að búa í Mosfellsbæ?

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson

Á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mosfellsbaer.is eru einkunnarorðin: „Virðing – Jákvæðni – Framsækni – Umhyggja“
Ekki veit ég hversu margir taka þessi orð alvarlega né hversu margir líta á þessa yfirlýsingu sem eins og hver önnur innantóm orð.
Þessi fjögur orð voru sett á heimasíðu Mosfellsbæjar fyrir um áratug. Sjálfsagt er að þeim sem þar áttu hlut að máli hafi ekki gengið nema gott eitt til.

Um aldamótin síðustu var vinstri meirihluti við stjórn í Mosfellsbæ. Á vegum hans var sett upp umræðusíða í tenslum við síðu Mosfellsbæjar sem margir Mosfellingar notuðu mikið, sumir jafnvel daglega. Á þessari umræðusíðu gátu Mosfellingar skrifað sitt hvað sem þeim þótti ástæða til að tjá sig um, bentu á sitt hvað sem betur mætti fara. Urðu þar oft mjög þarfar umræður um þessi mál.
En eitt yfirsást þeim meirihlutamönnum: að ráða sérstakan ritstjóra og umsjónarmann síðunnar. Ekki væri birt efni nema þar gætti hófsemi og um málefnaleg sjónarmið væri að ræða. Því miður urðu það endalok þessarar umræðusíðu að einn aðili tók sér það bessaleyfi og vald að birta oft á tíðum mjög óviðunandi athugasemdir við það efni sem var honum ekki að skapi. Varð þetta til að margir urðu miður sín og urðu jafnvel sárir fyrir svona uppivöðslusemi.
Sennilega hefur lýðræði íbúa aldrei komist jafnlangt og á þessum tíma í Mosfellsbæ.
Eitt af fyrstu verkefnum Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar vorið 2002 var að taka ofan þennan spjallvettvang. Til stóð að endurvekja hann en nú er liðinn meira en hálfur annar áratugur án þess nokkuð hafi gerst né eitthvað bendi til að aftur verði tekinn upp þráðurinn.
Spurning er hvort „virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja“ séu ekki aðeins orðin tóm. Ég tel mig alla vega vera í þeim hópi efasemdarmanna.
Ég hefði gjarnan viljað benda á sitt hvað sem þarf að skoða betur í bæjarfélaginu. Eitt mjög lítið dæmi er að fyrir nokkru hefur einhver húseigandi bæjarins séð ástæðu til að saga ofan af trjám sem bæjarstarfsmenn gróðursettu um aldamótin. Hefði ekki verið æskilegt að íbúar bæjarins geti rætt saman um mál eins og þetta fremur en að einhver taki lögin í sínar hendur og eyðileggi að þarflausu opinberar eigur?
Kannski hefði farið betur að hafa samráð við íbúa á sínum tíma um hvort rétt væri að planta hávöxnum trjám rétt utan við stofugluggann. Sumar trjátegundir geta jafnvel orðið tugir metrar á hæð.

Það þarf að opna að nýju umræðugrundvöll á heimasíðu Mosfellsbæjar eins og vinstri meirihlutinn átti veg og vanda af á sínum tíma.
Þegar kosningar fara í hönd þá ræða Mosfellingar gjarnan um skattana sína og fyrir hvað þeir fá til baka í opinberri þjónustu: Er skólamálum nægilega sinnt? Hvað með málefni barnafjölskyldna? Hver er staða félagsmála, húsnæðismála og heilbrigðismála? Hvernig er staðið að umhverfismálum og almenningsþjónustu? Og hvað með málefni aldraðra? Þannig má lengi áfram telja.

Við viljum að tekjur sveitarfélagsins nýtist sem best og opið bókhald sveitarfélagsins er stór áfangi að opna lýðræðuslegar umræður.

Guðjón Jesson
Arnartanga 43

Ég brenn fyrir verkefnunum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Það eru forréttindi að fá tækifæri til að taka þátt í stjórnmálum í samfélagi eins og Mosfellsbæ. Í Mosfellssveit, sem hún hét þá, eyddi ég æsku minni áhyggjulaus þar sem vinirnir, hesthúsin, íþróttahúsið og skólinn, í þessari röð, skiptu mestu máli.
Það var langt til Reykjavíkur og við vorum sjálfum okkur næg framan af. Ég ólst upp í stórum systkinahópi og börðust foreldrar mínir í bökkum til að hafa ofan í okkur og á. Aðstæður heima voru ekki alltaf þær bestu en við lærðum að standa á eigin fótum og að ekkert kemur af sjálfu sér. Mosfellssveitin ól okkur upp og þurftum við ekki mikið en í þessu umhverfi fannst okkur við vera óhult.
Umhverfið og náttúran mótaði mig og gerir það að verkum að ég brenn fyrir því að börn eigi að búa í góðu og öruggu samfélagi. Auðvitað hafa tímarnir breyst. Það var ekki allt gott í gamla daga en þorpið sem ég var svo heppin að alast upp í á í mér hverja taug. Vinataugin á milli vina úr Mosó slitnar ekki svo auðveldlega og er svo ótrúlega gaman að heyra yngri kynslóðir segja einmitt það sama.
Eftir nokkurra ára fjarveru fannst mér mikilvægt að mín börn fengju að kynnast því sama og ég fékk að upplifa. Að eignast vini, fara í skólann, taka þátt í tómstundum og vera örugg í sínu samfélagi. Nú eru barnabörn að koma til sögunnar og á meðan ég hef orku til mun ég leggja mitt af mörkum til að Mosfellsbær verði áfram góður staður fyrir fólk til að halda utan um sína fjölskyldu. Þar skipta skólarnir mestu máli og þjónustan sem bærinn veitir.
Þetta er ástæðan fyrir þátttöku minni í stjórnmálum. Það er mikilvægt að fá að móta og bæta samfélagið. Það gerir enginn einn. Nú er aftur komið að kosningum og eftir að hafa íhugað málin vel, athugað bensínið á tanknum þá finn ég að eldmóðurinn og áhuginn er enn til staðar. Ég er ekki í pólitík til að koma höggi á aðra heldur til að gera samfélaginu gagn. Ég veit að reynsla mín og þekking kemur að gagni og hef því ákveðið að leggja mig alla fram eitt kjörtímabil í viðbót.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi býður sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Söfnun og endurvinnsla á plasti

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason

Sérsöfnun á plasti í Mosfellsbæ hefst 1. mars nk. Frá þeim degi geta Mosfellingar sett allt hreint plast í poka sem fer síðan í orkutunnuna (dökkgráu/svörtu tunnuna) við heimili bæjarbúa.
Söfnun þessi er samstarfsverkefni fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem eru: Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Garðabær og Seltjarnarnes.

Pokarnir verða fluttir í endurvinnslustöð SORPU þar sem þeir verða aðskildir frá öðru sorpi með sérstökum blástursbúnaði. Plastið verður síðan baggað, sett í gáma og flutt sjóleiðis til Svíþjóðar þar sem það verður endurunnið fyrir nýjar vörur. Flestar tegundir plasts er hægt að endurnýta, harðplast er til dæmis endurunnið sem efni í flíspeysur en það plast sem er ekki endurvinnanlegt verður brennt til orkunotkunar.
Þetta framfaraspor mun ekki hafa áhrif á gjaldskrá fyrir móttöku úrgangs úr orkutunnunni, enda er gert ráð fyrir að úrvinnslugjaldið kosti þær breytingar sem SORPA hefur lagt í vegna þessa verkefnis. Góður árangur í plastsöfnun getur hins vegar leitt til lækkunar á móttökugjaldi.

Örn Jónasson

Örn Jónasson

Á næstu vikum mun SORPA kynna þetta verkefni, í nánu samstarfi við sveitarfélögin fjögur. Það er von okkar að við náum strax sem bestum árangri í því, enda er það til mikilla hagsbóta fyrir umhverfi okkar og náttúruna. Því má þó ekki gleyma að framtíðarsýn okkar er ævinlega sú að minnka notkun á plasti sem allra, allra mest.

Bjarki Bjarnason,
formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Örn Jónasson, varaformaður.

Helga gefur kost á sér í 3. sæti

Helga Jóhannesdóttir

Helga Jóhannesdóttir

Ágætu Mosfellingar.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fyrir bæjarstjórnarkosningarnar nú í vor. Ég hef mikinn áhuga á málefnum bæjarins almennt, verkefnum bæjarins sem og þeirri þjónustu sem bærinn veitir íbúum sínum og er ég tilbúin að leggja mitt af mörkum næstu árin til að bæta og efla þjónustu bæjarins í þágu íbúanna.
Í prófkjörinu sem haldið verður laugardaginn 10. febrúar nk. sækist ég eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Mínar áherslur er tengjast verkefnum og þjónustu bæjarins eru skýrar en sjálfsögðu verða þær að samrýmast stefnu þeirri sem mótuð er og verður gildandi fyrir Mosfellsbæ sem bæjarfélag.
Áframhaldandi ábyrg fjármálastjórn er forsenda góðra verka í bæjarfélaginu sem og skilvirk og gagnsæ stjórnsýsla. Samskipti bæjarbúa við bæjaryfirvöld eiga að mínu mati að byggja á einföldu en öruggu fyrirkomulagi.
Í ört vaxandi bæjarfélagi er að mörgu að hyggja í skipulagsmálum. Samgöngumál í bæjarfélaginu þarf að skoða og jafnvel endurskipuleggja, og samhliða því þarf meðal annars að byggja upp miðbæjarkjarna með góðri þjónustu bæjarbúum í hag.
Í dag tekur það okkur Mosfellinga oft ansi langan tíma að sækja vinnu og þjónustu til nágrannnasveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þessu þurfum við að breyta og er orðið tímabært að skoða þá möguleika sem í boði eru til að stytta ferðatíma okkar meðal annars til og frá vinnu.
Skólamál skipta okkur öll miklu máli og er mikilvægt að umgjörð skólanna sé til fyrirmyndar. Hér eru það sjálfir skólarnir og aðstaða sú sem við bjóðum starfsfólki þess og nemendum sem við þurfum að huga vel að. Þar er okkur öllum mikilvægt að aðstaðan sé í góðu lagi og að við bjóðum upp á þann aðbúnað og aðstöðu sem þarf til í skólunum.
Foreldrar með ung börn eiga að hafa kost á því að börn þeirra geti farið á ungbarnaleikskóla. Þetta er að mínu mati sjálfsagður hlutur í dag þar sem samfélag okkar hefur breyst mikið og mikilvægt að þessi valkostur sé í boði.
Ég hef verið svo heppin að fá að taka þátt í starfi Aftureldingar og síðan Ungmennafélags Íslands í nokkur ár, en þar hef ég kynnst æskulýðs- og íþróttahreyfingunni vel. Íþrótta- og félagsstarf eru góðar forvarnir fyrir alla bæjarbúa óháð aldri.
Við eigum að mínu mati sem sveitarfélag að efla og auka þátttöku bæjarbúa í félags- og íþróttastarfi. Mosfellsbær býður upp á góða aðstöðu og yndislegt umhverfi, en alltaf má gera betur og efla þarf bæjarfélagið sem Heilsueflandi samfélag.
Verkefnin eru mörg og fjölbreytt og það er margt sem við getum gert og lagt áherslu á. Ég hef einungis nefnt hér lítinn hluta þeirra verkefna sem eru bæjarins. Umhverfismál, menningarmál, málefni eldri borgara, félagsmál, atvinnumál eru sem og önnur verkefni einnig mikilvæg.
Málefni Mosfellinga eru okkar mál og það er okkar að huga vel að bæjarbúum óháð aldri þeirra, kyni, efnahag, búsetu, félagslegri stöðu eða áhuga.

Helga Jóhannesdóttir

Bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Töluverð umræða hefur verið að undanförnu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi umræða hefur snúist um ástandið eins og það er í dag en sífellt lengri tíma tekur að ferðast um höfuðborgarsvæðið á álagstímum. Einnig hefur umræðan snúist um hver stefnan eigi að vera til framtíðar og hverjir séu valmöguleikarnir í stöðunni.

Hágæða almenningssamgöngur eða einkabíll?
Staðan í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu er víða orðin óviðunandi. Ferðatími hefur aukist, biðraðir lengst og á þetta sérstaklega við á álagstímum, þ.e. á morgnana og síðdegis. Þetta ástand skapast fyrst og fremst vegna fjölgunar íbúa, stóraukinnar bílaeignar og fjölgunar ferðamanna.
Samkvæmt spám á íbúum á höfuðborgarsvæðinu eftir að fjölga mikið á næstu árum eða um 70 þúsund fram til ársins 2040. Ef ekkert verður að gert mun því ástandið í samgöngumálum íbúa höfuðborgarsvæðisins versna á næstu árum og áratugum. En hvað er til ráða? Einkum hafa tvennskonar lausnir verið nefndar til sögunnar, annars vegar hágæða almenningssamgöngur sk. Borgarlína og hins vegar að bæta þurfi vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu verulega.
Umræðan hefur litast af því að annaðhvort er talað fyrir borgarlínuverkefninu eða að það þurfi að bæta vegakerfið. En þetta er alls ekki svo, það þarf nefnilega hvoru tveggja til. Veruleg þörf er orðin á að leggja meira af vegafé ríkisins til að bæta stofnvegakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu eftir áralangt svelti til þess að greiða fyrir umferð og gera hana öruggari. Samhliða er nauðsynlegt að hugsa almenningssamgöngukerfið upp á nýtt. Borgarlínuverkefnið sem öll sveitarfélög standa að er leið til þess. En Borgarlína er hágæða almenningssamgöngukerfi sem hefur mikla flutningsgetu, hátt þjónustustig og ferðast í sérrými, þ.e. kemst greitt milli staða óháð töfum í bílaumferð. Forsenda fyrir Borgarlínu til Mosfellsbæjar er að uppbygging í Blikastaðalandi og óbyggðum svæðum Reykjavíkurmegin eigi sér stað. Það verkefni mun taka þónokkur ár. Borgarlínan er því ekki að verða að veruleika í Mosfellsbæ á næstu árum. Mosfellsbær er þátttakandi í þessu verkefni og Borgarlínan verður hluti af þeim nauðsynlegu samgöngubótum sem þurfa að koma til á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, ásamt því að byggja upp betra vegakerfi fyrir einkabílinn. Þetta tvennt þarf algjörlega að fara saman.

Nauðsynlegt er að bæta samgöngur í gegnum Mosfellsbæ
Vesturlandsvegur í gegnum Mosfellsbæ er einn umferðarmesti þjóðvegur landsins en þar aka um 30 þús. bílar að meðaltali á sólarhring. Hann er í dag 2+1 vegur að hluta og er orðinn farartálmi fyrir þá sem eru á leið út úr bænum eða í bæinn sem og Mosfellinga. Eins uppfyllir vegurinn ekki öryggiskröfur um umferðarmikinn veg eins og þennan. Tvöföldun vegarins er á samgönguáætlun en sú áætlun hefur ekki verið fjármögnuð að fullu af ríkissjóði. Brýnt er að ráðast í tvöföldun vegarins sem allra fyrst og ætti þessi framkvæmd að vera í fyrsta forgangi hvað varðar úrbætur á þjóðvegakerfi landsins.
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ munu halda áfram að berjast fyrir því að þessi framkvæmd komist á koppinn sem allra fyrst því hún er afar nauðsynleg í öllu tilliti. Ég sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun halda áfram að vinna í þessum málum og þrýsta á að aukið fjármagn fáist til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Það á bæði við um bráðnauðsynlegar vegabætur og bættar almenningssamgöngur því ljóst er að verkefni eins og Borgarlína verður ekki að veruleika nema með verulegri kostnaðarþátttöku ríkisins.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri

Framtíð Hlégarðs

Hildur Margrétardóttir

Hildur Margrétardóttir

Málefni Hlégarðs eru nú til umræðu í menningarmálanefnd Mosfellsbæjar.
Framtíð hússins er óviss en niðurstaða mikilvæg því hún hefur þýðingu fyrir svarið við þeirri spurningu hvort Mosfellsbær er úthverfi frá Reykjavík í félagslegu og menningarlegu tilliti eða bæjarfélag með sterka sjálfsímynd.

Um langt skeið hefur húsið verið leigt út til einkaaðila sem samið hafa um reksturinn við bæinn. Einn slíkur samningur er nú að renna sitt skeið og mál margra að rétt sé að endurskoða hann, áður en lengra er haldið, með það að leiðarljósi að efla félagslegan þátt starfseminnar og auka framboð og um leið fjölbreytni viðburða. Sú staðreynd að Hlégarður er eina samkomuhús Mosfellinga leggur bæjaryfirvöldum ríkar skyldur á herðar.

Félagsheimilið Hlégarður var byggt um miðja síðustu öld. Nú er 21. öldin gengin í garð og félagslegar forsendur allt aðrar. Sú spurning vaknar hvort yfirhöfuð sé þörf fyrir samkomuhús í Mosfellsbæ. Til þess að varpa ljósi á það er vert að skoða upphafið og rekja sig þaðan til dagsins í dag.

Upp úr 1900 urðu miklar breytingar á búsetu fólks á Íslandi. Þéttbýli tók að myndast og úr þeim jarðvegi spruttu m.a. ungmennafélög sem þurftu þak yfir höfuðið.
Í loftinu lá krafa um að blása lífi í íslenskt menningarlíf. Lítil samkomuhús litu dagsins ljós en eftir því sem leið á öldina fjölgaði stærri félagsheimilum á borð við Hlégarð.

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Framan af hýstu þessi hús nánast allt félags- og menningarlíf á Íslandi en með tilkomu íþróttamiðstöðva, tónlistarhúsa, leikhúsa, danshúsa, skátaheimila, félagsmiðstöðva eldri borgara og húsnæðis fyrir ýmsa aðra félagsstarfsemi dró úr eftirspurninni. Samkeppnin við kvikmyndahúsin og sjónvarpið hafði líka sín áhrif.

Í upphafi voru samkomuhús samstarfsverkefni félagssamtaka og hreppa. Um miðja öldina lagði ríkið svo sitt lóð á vogarskálarnar með stofnun félagsheimilasjóðs. Sameiginlegur rekstur og bygging samkomuhúsanna tengdi fólkið saman og það sem meira var íbúana og stjórnvaldið. Samkomustaðirnir urðu þannig sameiningartákn.
Öflugt félagsstarf styrkti ímynd hreppanna og gaf fólkinu tilfinningu fyrir því að það væri hluti af sterkri liðsheild. Með því að efla félagsstarfið sendu hrepparnir jafnframt frá sér þau skilaboð að búseta þar væri eftirsóknarverð, að sveitin væri sjálfri sér nóg, ekki eftirbátur annarra.
Viðfangsefni bæjarins núna er að skera úr um hvort bæjarfélagið fullnægi þessum þörfum. Hvort það skilgreini sig sem bæjarfélag eða úthverfi, hvort félagsheildin Mosfellsbær sé sjálfri sér nóg? Mælikvarðinn á það eru innviðirnir, ekki síst félags- og menningarlegir.

Ljóst er að skapandi greinar gætu haft mikil not fyrir Hlégarð. Ungmenni, eldri borgarar, íbúasamtök og önnur félagssamtök sömuleiðis. Húsið var byggt til að hýsa leiksýningar, tónlistarflutning, dansleiki og félagsstarf hverskonar. Forsendan fyrir gróskumiklu starfi þessara hópa er að þeir eigi sér afdrep þar sem fólk getur mælt sér mót, æft sig, talað saman og troðið upp í til þess gerðu umhverfi. Um samfélagslegt gildi þess að njóta í sameiningu líðandi stundar „í hléi fyrir mesta vindinum“ leikur enginn vafi.

Íbúahreyfingin hefur viðrað þá hugmynd að kalla áhugasama íbúa, félagssamtök og fagfólk til skrafs og ráðagerða um framtíð Hlégarðs. Allir hefðu gagn af því.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Hildur Margrétardóttir og Sigrún H. Pálsdóttir

Taktu þátt, kjóstu þinn fulltrúa í bæjarstjórn!

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fer fram 10. febrúar.
Mikilvægt er að sem flestir íbúar taki þátt í að velja fólk á listann og hafa þannig áhrif á gang mála í bæjarfélaginu.
Ég býð mig fram í 2.-3. sæti í prófkjörinu þann 10. febrúar og hér að neðan eru helstu áherslur mínar varðandi rekstur og þjónustu bæjarins á næstu misserum.

Rekstur og þjónusta
Bæjarmálin snúast um að veita hágæða þjónustu sem þjónar hagsmunum allra bæjarbúa. Mikilvægt er að kappkosta að forgangsraða í fjárfestingum á vegum bæjarins og gæta aðhalds þegar kemur að stórum og dýrum framkvæmdum. Það er mikilvægt því það eru mörg verkefni sem þarf að ráðast í á næstu misserum á vegum bæjarins.
Á sama tíma er það forgangsmál að halda álögum á íbúa sem lægstum. Það þarf að skoða hvort svigrúm sé til að lækka fasteignaskatta enn frekar en þegar hefur verið gert, og þá sérstaklega á eldra fólk.

Íþrótta og tómstundamál
Mosfellsbær er lýðheilsu- og íþróttabær. Að mínu mati þarf að byggja upp íþróttaaðstöðu í bænum umfram það sem þegar er búið að ákveða. Hér má nefna viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá sem innihéldi nýja búningsklefa, fjölnota rými sem myndi nýtast Varmárskóla í kennslu og öðrum verkefnum, og sem félagsaðstaða fyrir íþrótta og tómstundafélög í Mosfellsbæ. Það bráðvantar annan gervigrasvöll í fullri stærð, ný gólfefni á íþróttasalina að Varmá og lagfæra aðstöðuna á Tungubökkum.
Þetta eru víðtæk og stór verkefni en mjög aðkallandi. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að finna leiðir og fjármagn til þess að þessar framkvæmdir geti orðið að veruleika sem allra fyrst. Framúrskarandi aðstaða er lykillinn að því að tómstundastarf blómstri.
Hröð fjölgun íbúa og iðkenda kallar á hraða uppbyggingu í þessum málum.

Skólamál
Í Mosfellsbæ eru góðir skólar og leikskólar og þar starfar frábært starfsfólk.
Mosfellsbær leggur áherslu á að skólarnir og leikskólarnir okkar séu í fremstu röð, þar á öllum að líða vel. Með fjölgun bæjarbúa eykst álag á skólana sem ekki má bitna á á faglegu starfi þeirra. Hér má nefna húsnæðismál og ráðningar faglærðs fólks bæði í skóla og leikskóla. Það þarf að bæta starfskjör og aðstöðu kennara og fagfólks innan skóla og leikskóla bæjarins.

Skipulagsmál, umhverfismál og samgöngur
Skipulags og umhverfismál eru stórir málaflokkar í Mosfellsbæ. Stækkun bæjarins og ný hverfi þarf að byggja upp í sátt við íbúa, umhverfi og náttúru.
Við eigum einstaka náttúru allt í kring um bæinn okkar og þurfum að passa upp á grænu svæðin og halda áfram uppbyggingu á göngustígum o.fl.
Samgöngumál verða einnig fyrirferðarmikil á næstu árum og miklar breytingar fram undan í þeim málum. Hagsmunir Mosfellinga þurfa að vera í fyrirrúmi þegar umferðarmál í og umhverfis bæinn eru mótuð. Þar þurfa bæjaryfirvöld að taka virkan þátt með nágrannasveitarfélögum í að móta raunhæfar hugmyndir bæði varðandi einkabílinn og almenningsamgöngur.

Málefni og velferð eldri borgara
Hlutfall fólks 65 ára og eldra mun hækka verulega á næstu árum samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Málefni eldri borgara í Mosfellsbæ eru að mörgu leyti í góðu horfi en það þarf að hlúa enn betur að sumum málefnum þessa hóps. Plássleysi er farið að há félagsstarfi og það þarf að virkja betur lýðheilsustefnu fyrir þennan hóp. Það vantar t.d. stærri aðstöðu fyrir skipulagða leikfimi. Aukin áhersla á lýðheilsu eldri borgara er mjög góð fjárfesting, stuðlar að betri heilsu, auknum lífsgæðum og styrkir félagslega virkni og tengsl þeirra.

Látum verkin tala
Það eru skemmtilegir og krefjandi tímar á næsta kjörtímabili í rekstri Mosfellsbæjar og mikilvægt að bæta úr þar sem þörf er á ásamt því að grípa tækifærin sem gefast.
Ég býð fram krafta mína og víðtæka reynslu sem stjórnandi úr atvinnulífinu auk mikillar reynslu úr félagsmálum til þess að vinn af krafti og heilindum að þeim verkefnum.
Ég óska eftir stuðningi þínum í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.

Ásgeir Sveinsson