Skólinn á nýjum áratug

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Skólakerfið hefur þróast og breyst undanfarna áratugi og er skólinn í dag ekki sá sami og hann var fyrir 10 árum svo ekki sé talað um fyrir 20 árum.
Sjónum er nú meira beint að líðan barna og er sannað að góð skólamenning og jákvæður skólabragur er forvörn gegn vanlíðan og undirstöðuatriði hvað námsárangur varðar. Áhersla er á einstaklingsmiðað nám og stoðþjónustu skólanna. Skólinn þróast í takt við samfélagið, það þekkja allir. En hvað hefur breyst og hvernig sjáum við skólana okkar þróast næsta áratuginn?

Aukin þátttaka foreldra
Það hefur verið áskorun undanfarin ár að taka á móti miklum barnafjölda sem flutt hefur í okkar góða bæ. Vegna mikillar uppbyggingar á austursvæði bæjarins hefur fjölgun barna í Varmárskóla og Helgafellsskóla verið mikil og mikið reynt á stjórnendur, kennara og starfsfólk skólanna.
Þrátt fyrir það höfum við Mosfellingar verið óhrædd við að fara ótroðnar slóðir í skólamálum og er horft til okkar hvað það varðar. Þegar á reynir veltur mikið á jákvæðum skólabrag og góðri skólamenningu. Ein breytingin í skólakerfinu er sú að foreldrar taka nú mun meiri þátt í skólastarfinu en áður og er þáttur foreldra mjög mikilvægur. Skólinn er viðkvæmur vinnustaður barnanna okkar og mikilvægt að áhugasamir foreldrar styðji við skólastarfið með jákvæðum hætti.
Í fjölmennu samfélagi er aldrei svo að öllum líki og mikilvægt að koma á framfæri gagnrýni og ábendingum um það sem betur má fara. Ef aðkoma foreldra er farin að hafa neikvæð áhrif á störf stjórnenda og kennara og þar með á skólabraginn þarf að staldra við. Neikvæð umræða og niðurrif hefur sjaldan skilað góðum árangri og getur bókstaflega haft skaðleg áhrif eins og dæmin sanna. Í slíku ástandi á skólaþróun og skólabragur erfitt uppdráttar.

Arna Hagalínsdóttir

Tekið skal fram að undirritaðar eru ekki að varpa frá sér ábyrgð heldur að benda á að enginn er eyland þegar kemur að þróun og þroska lærdómssamfélagins. Grasrótin og fræðsluyfirvöld eiga að taka samtalið en ekki slaginn, þannig náum við meiri árangri. Sýnin og markmiðin eru þau sömu en sitt sýnist hverjum um leiðirnar að markmiðinu.

100 ára afmæli og fleira fram undan
Það er margt fram undan í skólaþróun í Mosfellsbæ. Endurskoðun skólastefnunnar er stórt og spennandi verkefni og er sú vinna að hefjast. Þar ættu allir að fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast skólasamfélaginu til framdráttar. Vinna við forvarna- og lýðheilsustefnu er einnig að hefjast sem mun hafa áhrif á skólasamfélagið.
Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar til næstu þriggja ára sýnir að fókusinn er á skólunum en það er hlutverk bæjaryfirvalda að styðja við skólana, mæta þörfum og óskum sem nútíma samfélag kallar á. Mikilvægast af öllu er að daglegt starf skólanna gangi sem allra best.
Að lokum er vert að nefna að á næsta ári á skólastarf í Mosfellsbæ 100 ára afmæli og verður haldið upp á það með pomp og prakt. Megi næsti áratugur færa okkur áframhaldandi gott skólastarf í Mosfellsbæ börnum okkar til heilla.
Óskum starfsfólki og nemendum skólanna gæfu og velfarnaðar á nýju ári.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar
Arna Hagalínsdóttir fulltrúi í fræðslunefnd