TAKK!

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Í dag 5. desember er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Rauði krossinn þakkar sjálfboðaliðum sínum sem gera starf félagsins mögulegt.
Hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ starfa 90 sjálfboðaliðar í fjölbreyttum verkefnum sem öll hafa þó sömu gildi að leiðarljósi; mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni. Sjálfboðaliðar okkar rjúfa einsemd með heimsóknum, aðstoða börn og ungmenni í námi, styðja við innflytjendur í nýju samfélagi, veita hlýju með hannyrðum, bregðast við í neyðarútköllum og stuðla að umhverfisvernd með betri nýtingu á barnafatnaði. Starfssvæðið er breitt og sjálfboðaliðar víða að en öll með sama markmið: Að byggja betra samfélag, samfélag sem byggir á mannúð og opnum hug.
Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á fáeinum áratugum. Á tímum sem þessum þar sem einstaklingar og fjölskyldur finna fyrir mikilli kröfu úr ýmsum áttum er mikilvægt að minna sig á hvað það er sem skiptir okkur raunverulegu máli og hvernig samfélag við viljum byggja. Því hver og einn einasti hefur þann mátt sem þarf til að láta gott af sér leiða. Hvort sem það er með persónulegum, hagnýtum eða efnislegum leiðum.
Án allra þeirra sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum verkefni Rauða krossins væri samfélagið okkar snauðara. Við hvetjum ykkur til að líta í kringum ykkur í dag og þakka sjálfboðaliðum okkar. Því við gerum það svo sannarlega. Takk!
www.raudikrossinn.is

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ