Jólakveðja frá Aftureldingu

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Enn líður að jólum og komið að því að gera upp árið. Árið 2019 hefur verið lifandi og skemmtilegt hjá Aftureldingu, en það eru orð að sönnu að það er aldrei dauð stund í lífinu þegar kemur að því að hlúa að og halda utan um þetta flotta félag sem við erum.
Stór skref hafa verið tekin í aðstöðumálum á árinu og má þar helst nefna endurnýjun gólfa í sölum Varmár og fjölnota knatthús. Í framhaldi af því má nefna að samráðshópur á vegum Mosfellsbæjar og Aftureldingar hefur klárað þarfagreiningu og framtíðarsýn á aðstöðumálum félagsins til næstu 15 ára. Næstu skref eru að vinna þetta áfram með arkitektum og teikna upp sviðsmynd sem allir geta verið sáttir við. Afurð af þessari vinnu ætti að vera tilbúin í lok næsta sumars.
Mér finnst þessi samvinna frábært skref fram á við og gríðarlega mikilvægt að framtíðarsýn í aðstöðumálum sé til staðar. En eins og góður maður sagði þá klárast þessi vinna aldrei, það er okkar að vera endalaust á vaktinni yfir því að viðhalda góðri uppbyggingu.
Með bættri aðstöðu má búast við auknum fjölda iðkenda og kröfu um góðan árangur. Talandi um góðan árangur þá verður tilkynnt um val á íþróttakarli og -konu ársins hjá okkur í Aftureldingu 27. desember nk. í Hlégarði, þetta er uppáhaldsviðburðurinn minn á árinu og það er alltaf jafn gaman að taka saman árangur ársins og sjá hversu mikinn félagsauð við eigum og flotta fulltrúa sem gera okkur stolt á hverjum degi.
Auðvitað snýst ekki allt um árangur en við gerum okkar besta við að sinna öllum hvort sem iðkendur eru að stunda sína íþrótt til þess að ná afreksárangri eða hreinlega til þess að vera í góðum félagsskap og hafa gaman. Best er þegar þetta fer saman því það er svo dýrmætt að geta sinnt báðum hópum saman.
Sjálfboðaliðinn er eitt af því mikilvægara sem við eigum í félaginu og auðvitað styrktaraðilarnir okkar líka en báða hópa viljum við halda fast í vegna þess að án ykkar kæmust við ekki langt. Rekstrarumhverfi íþróttafélaga hefur verið mikið rætt undanfarið og það er staðreynd að það verður erfiðara og erfiðara að halda úti öflugu starfi meistaraflokka og vera réttum megin við núllið. Eitthvað er um að fyrirtæki hafi dregið saman í styrkjum til íþróttafélaga sem gerir starf sjálfboðaliðanna enn erfiðara. Það er erfitt til þess að hugsa að forsvarsmenn sumra ráða séu hálfandvaka yfir því hvernig kljúfa eigi reksturinn, en margar hendur létta róðurinn og við megum alls ekki gefast upp.
Kæru iðkendur, foreldrar og aðrir stuðningsmenn, ég vona að þið eigið eftir að eiga gleðileg jól og ég hlakka til að sjá ykkur sem flest í Hlégarði 27. desember þar sem íþróttafólkið okkar verður valið. Ég fer stolt og full tilhlökkunar með Aftureldingu inn í árið 2020 og hlakka til þess að sjá ykkur sem flest á viðburðum félagsins.

Jólakveðja,
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar