Felldu tillögur um nýjan veg og lækkun fasteignaskatts á fyrirtæki

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar flutti tvær tillögur við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sem var til afgreiðslu í bæjarstjórn í síðustu viku.
Fyrri tillagan laut að því að inn kæmi nýr liður í fjárfestingaráætlun undir liðnum gatnagerð, sem bæri nafnið „Skammadalsvegur frá Helgafelli að Bjargsvegi” og til fjárfestingarinnar yrði varið 10 milljónum á árinu 2020.
Tilgangur tillögunnar var að þegar yrði hafinn undirbúningur að lagningu nýs vegar frá Auganu svokallaða í Helgafellshverfi og að Bjargsvegi sem fælist í gerð kostnaðaráætlunar vegna nýja vegarins og undirbúnings uppkaupa á landi. Undirritaður hefur bent á nauðsyn þess, í ræðu og riti, að þessi vegtenging komi sem allra fyrst þar sem uppbygging á IV. og V. áfanga í Helgafellshverfi er þegar komin á dagskrá.
Fyrstu hugmyndir um veg­tengingar inn og út úr Helgafellshverfinu voru um núverandi Álafossveg. Að auki stóð til að vegur lægi yfir Varmá á móts við Ístex og upp á Reykjalundarveg, og svo að lokum sá vegur sem undirritaður gerði tillögu um að hafinn yrði nú undirbúningur að.
Síðari tillagan laut að breyttri álagningarprósentu fasteignagjalda í skattflokki C, það er vegna verslunar-, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæðis. Tillagan laut að lækkun á álagningarprósentu um 6,2% þannig að hún færi úr 1,6% af fasteignamati húss og lóðar og niður í 1,5%. Þess má geta að raunhækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis milli 2019-2020 sem tekur gildi um nk. áramót er ca. 14%. Hér var því gerð tillaga um að koma til móts við þá hækkun um tæpan helming.
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær ekki látið hækkun fasteignamats vegna íbúðarhúsnæðis koma að fullu til framkvæmda en ekkert hefur verið komið til móts við eigendur atvinnuhúsnæðis. Það er ekki fyrr en allt í einu núna að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggur til lækkun um heil 0,015%.
Það er mikilvægt í huga undirritaðs að einmitt núna þegar dregur úr þenslu og hagvexti og horfur eru á að tekjur fyrirtækja séu að dragast saman, komi sveitarfélagið á móti atvinnulífinu með því að lækka gjaldtöku af fasteignaskatti.
Því miður er skemmst frá því að segja að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna felldi báðar þessar tillögur án nokkurra umræðna.

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar