Framlög til íþróttamannvirkja fordæmalaus

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Framtíðarsýn okkar er sú að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi. Traustur rekstur er lykill þess að að vöxtur sveitarfélagsins sé efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær.
Á undanförnum árum hefur bærinn okkar stækkað, eflst og dafnað. Það má segja að fordæmalaus fjölgun hafi verið hér síðustu tvo áratugina en síðustu árin hefur fjölgað um allt að 1.000 íbúa á ári. Þessu hefur fylgt mikil innviðauppbygging til að mynda í skólum, gatnakerfi og ekki hvað síst í íþrótta- og tómstundamannvirkjum.
Mosfellsbær hefur alltaf verið mikill íþrótta- og útivistarbær og hér búa barnmargar fjölskyldur og því er okkur mikilvægt að hér sé fyrsta flokks aðstaða til íþrótta-, útivistar- og tómstundaiðkunar. Þá er Mosfellsbær heilsueflandi samfélag og við tökum það eins og allt annað alvarlega og sinnum okkar skyldum í þeim efnum.

Framkvæmt fyrir um 5.500 m.kr. á síðustu 17 árum
Síðustu árin hefur mikið áunnist í aðstöðu fyrir íþrótta-, útivistar- og tómstundastarf í Mosfellsbæ. Samantekið hefur á síðustu 17 árum verið varið rétt um 5,5 milljörðum króna til uppbyggingar á innviðum í þessum málaflokki.
Hér að neðan er tafla sem sýnir framkvæmdirnar í heild sinni.

Íþróttamiðstöðin að Varmá 1.823
Tungubakkar 72
Gervigrasvöllur 477
Íþróttamiðstöðin Lágafell 2.222
Golfvellir og íþróttamiðstöð 447
Skíðasvæðin 77
Reiðhöll og reiðstígar 265
Skátaheimili og stikaðar gönguleiðir 101
Mótomos 12
Samtals 5.496

Eins og sjá má af töflunni er hér um verulega miklar framvæmdir að ræða en upphæðirnar eru á verðlagi dagsins í dag. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Íþróttamiðstöðvarinnar við Lágafell.
Tilkoma Lágafellslaugar var bylting í sundaðstöðu hér í bæ og laugin er ein vinsælasta sundlaug landsins. Að Varmá hafa verið geysimiklar framkvæmdir og nemur upphæð þeirra með framkvæmdum við gervigrasvöll um 2.300 m.kr. á þessu tímabili. Þar ber hæst bygging fimleikahúss, fjölnota knatthúss og gervigrasvallar.
En mörgum fleiri smærri framkvæmdum hefur verið lokið á þessu tímabili. Má þar nefna að í ár lauk vinnu við að skipta um gólfefni í öllum sölum íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá, búningsklefar undir sundlauginni hafa verið stækkaðir og endurnýjaðir, ný stúka byggð við gervigrasvöllinn auk þess sem nýtt gervigras var lagt á hann í fyrra.
Töluvert fjármagn hefur einnig verið lagt í uppbyggingu golfvalla bæði í Bakkakoti og á Hlíðavelli sem og uppbyggingu íþróttamiðstöðvar við Hlíðavöll. Reiðhöll hefur verið byggð á þessu tímabili og fé lagt í skátaheimili í Álafosskvos svo eitthvað sé nefnt.

Áfram skal haldið
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árin 2020-2023 er sem fyrr gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á íþrótta-, útivistar- og tómstundaaðstöðu fyrir bæjarbúa eða rúmir 1,6 milljarðar króna. Þar er meðal annars tekið mið af þeirri vinnu sem sett var af stað með samráðsvettvangi bæjarins og Aftureldingar um uppbyggingu að Varmá.
Þar er verið að skoða möguleika á nýjum gervigrasvelli í stað grasvallarins, stúkubyggingu og aðstöðu fyrir félagsstarf ungmennafélagsins. Á næsta ári er m.a. gert ráð fyrir að að innrétta húsnæði í millibyggingu milli fimleikahúss og íþróttasalar fyrir starfsemi Aftureldingar, bæta við búningsklefum sem bæði geti nýst sundlaug og íþróttasvæðinu og endurnýja lýsingu í sal 1 og 2 með hágæða led lýsingu sem bætir birtu og dregur úr rekstrarkostnaði. Loks er gert ráð fyrir að þak salar 1 og 2 verði nánast endurgert.
Það er mikið um að vera í Mosfellsbæ um þessar mundir enda íbúafjölgun mikil sem kallar á fjárfestingu í innviðum. Íþrótta-, útivistar- og tómstundamál eru þar ekki undanskilin sem sést vel á þeim miklu fjármunum sem hefur verið varið í uppbyggingu í þessum málaflokki á undanförnum árum og því sem stendur til að gera á komandi árum.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri