Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Nú þegar líður að hausti fara margir að huga að því hvað þá langar að gera í vetur. Félagar í POWERtalk deildinni Korpu hafa verið í góðu sumarfríi en eru byrjaðir að huga að vetrarstarfinu.
POWERtalk samtökin eru þjálfunarsamtök sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu sem skilar árangri. Markmið POWERtalk eru sjálfstyrking, uppbygging á eigin persónu og samskipti af virðingu við aðra auk þess að félagarnir verði færari um að tjá sig á formlegan hátt með þátttöku í og stjórnun félagsmála.

Starfsemin byggir á einstaklingsmiðaðri jafningjafræðslu sem hvetur fólk til dáða þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi. Félagar njóta einnig góðs af nauðsynlegu uppbyggilegu frammistöðumati reyndari félaga.
Þann 4. og 13. september munu samtökin halda ræðunámskeiðið „Fyrstu skrefin“, sem er tilvalið fyrir fólk sem langar að fá þjálfun í ræðuskrifum og framkomu. Námskeiðið er fyrir alla sem vilja stíga aðeins út fyrir þægindahringinn sinn. Ekki er skilyrði að vera í samtökunum til að skrá sig á námskeiðið. Það er tilvalið að fara á námskeiðið og halda svo áfram að efla sjálfan sig og fá áframhaldandi þjálfun með því að mæta á fundi hjá Korpu í kjölfarið og taka þátt í skemmtilegu starf.

POWERtalk deildin Korpa er ein af sjö deildum á Íslandi. Korpa starfar í Mosfellsbæ og er fyrir alla þá sem langar að læra og tileinka sér allt það sem viðkemur t.d. framkomu, ræðuskrifum, glærukynningum, fundarsköpum, viðburðastjórnun, greinaskrifum og tímastjórnun. Einnig fyrir þá sem langar að efla sjálfstraust sitt og færni í samskiptum og samvinnu. Í starfinu fær fólk tækifæri til að vinna á eigin hraða að markmiðum sínum. Og fólk fær uppbyggilega endurgjöf á vinnu sína og verkefni.

Langar þig að öðlast meira öryggi á fundum, sýna meira frumkvæði í vinnunni, tjá þig á foreldrafundi í leikskólanum eða flytja tækifærisræðu í stórafmæli? Langar þig að styrkja sjálfsímynd þína almennt og þannig eiga auðveldara með samskipti í bæði leik og starfi? Þá er starfið í Korpu fyrir þig og það er ekki eftir neinu að bíða.

Fundirnir eru haldnir fyrsta og þriðja miðvikudag í mánuði. Fyrsti fundur vetrarins verður haldinn miðvikudaginn 5. september klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3, á 2. hæð. Gestir eru velkomnir á alla fundi í vetur og fólk er hvatt til að koma og kynna sér starfið.
Ef einhverjar spurningar vakna má gjarnan senda fyrirspurnir á netfangið korpa@powertalk.is og þeim verður svarað fljótt og vel. Einnig er hægt að kíkja á powertalk.is fyrir almennar upplýsingar um starf samtakanna.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019