Framtíðin veltur á því sem þú gerir í dag

Lóa Björk Kjartansdóttir

Lóa Björk Kjartansdóttir

Kannastu við þvala lófa, öndunarerfiðleika og jafnvel öran hjartslátt þegar athyglin beinist að þér?
Flestir finna fyrir kvíðaeinkennum þegar þeir standa upp og tjá sig á fundum. Staðreyndin er sú að mjög reyndir ræðumenn finna margir fyrir kvíða þegar þeir tala fyrir framan hóp af fólki. Því hefur jafnvel verið haldið fram að fólk óttist dauðann minna en að tala opinberlega.

Það er eðlilegt að vera taugaóstyrkur og það veldur því að við erum aðeins á tánum. Við erum líklegri til að undirbúa okkur þannig að vel takist til þegar við finnum fyrir fiðrildum í maganum. Ef maður er of afslappaður og ákveður að þetta reddist allt saman þá er maður ekki tilbúinn þegar á hólminn er komið.

Okkur finnst vont að vera kvíðin og taugaóstyrk, þá er ágætt að vita að auðvelt er að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Markmiðið er að hafa stjórn, ekki að komast alveg yfir taugaóstyrkinn. Gott er að hafa í huga hvað það er sem veldur kvíðanum. Erum við hrædd við áheyrendur? Þeir eru bara venjulegt fólk. Erum við hrædd um að ræðan okkar sé ömurleg, eða að spurningin sem við viljum bera upp hallærisleg? Eða erum við hrædd við það óþekkta, verð ég kjánaleg, flækist ég í snúru á leiðinni í pontu? Get ég svarað öllum spurningum?
Þegar við tökumst á við þennan ótta og skiljum hvað það er sem veldur honum þá undirbúum okkur í samræmi við það. Það versta sem við gerum er að hætta við allt saman, sitja bara heima og segja ekki neitt.

Á fundum hjá Korpu mætir fólk og þjálfar sig í að takast á við þessar aðstæður. Það undirbýr erindi sín vel, bæði skrifin og flutning. Það finnur oft fyrir kvíða þegar það mætir og þegar það stendur upp og tjáir sig eða flytur ræður. En satt að segja þá sést það yfirleitt ekki á fólki, þeir sem á hlýða greina sjaldnast mikinn taugaóstyrk hjá þeim sem tala. Því fólk hefur undirbúið sig. En fólk undirbýr sig ekki bara heima áður en það mætir.

Hluti af góðum undirbúningi er t.d. að kynna sér salinn þar sem það ætlar að tala. Koma snemma og kynna sér umhverfið, passa að hljóðneminn sé ekki til vandræða, verði hann notaður. Ákveða fyrirfram hvaða leið best sé að ganga í ræðustól. Ef það á að nota skjávarpa, tölvu eða önnur tæki þá er gott að prófa allt slíkt áður en fundur hefst og vera viss um að allt virki áður en kemur að flutningi. Allur svona undirbúningur minnkar líkur á vandræðagangi og eykur öryggi flytjanda.

Það er alltaf gott að minna sig á að áheyrendur eru ekki komnir til að horfa á þig mistakast, þeir vilja í raun gjarnan að þér takist vel til, þeir eru með þér í liði. Það er eins með þetta og allt annað, reynslan byggir upp sjálfstraust og það er lykillinn að góðum ræðuflutningi og þátttöku á fundum.
Hjá Korpu færðu endalaus tækifæri til að þjálfa framkomu, ræðuflutning og almennt að tjá þig í hóp. Þar viðheldur fólk bæði þekkingu og þjálfun með því að mæta á fundi allan veturinn og bætir í reynslubankann með þátttöku í skemmtilegu starfi.

Fundir Korpu eru 1. og 3. miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3 á 2. hæð. Allir eru velkomnir á fundi og vel er tekið á móti gestum. Frekari upplýsingar um starfið má finna á powertalk.is
Næstu tveir fundir verða miðvikudaginn 3. október og miðvikudaginn 17. október klukkan 20.00. Ég hvet þig til að mæta og láta ekki kvíðann stjórna þér.

Lóa Björk Kjartansdóttir
Ritari Korpu 2018-2019