Fjöldahjálp í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósinni

Hrönn Pétursdóttir

Hrönn Pétursdóttir

Í Mosfellsbæ, Kjósinni og á Kjalarnesi eru starfandi þrjár skilgreindar fjöldahjálparstöðvar, í Varmárskóla og Klébergsskóla, og í húsnæði Rauða krossins í Þverholtinu í Mosfellsbæ.
Til viðbótar er unnið að því að bæta við tveimur stöðvum, annarri í Mosfellsbæ en hinni í Kjósinni.

Þegar loka þarf veginum um Kjalarnes gerist það oftar en ekki að opna þarf fjöldahjálparstöðina í Klébergsskóla þangað sem leita tugir og jafnvel hundruð strandaglópa. Ennfremur hafa stöðvarnar í Mosfellsbæ verið opnaðar nokkrum sinnum á síðastliðnum árum í kjölfar rútuslysa í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er mismunandi milli ára hversu oft þessar stöðvar eru opnaðar, en undanfarin ár hefur það verið alls í um fimm skipti á ári að meðaltali.

Fjöldahjálparstöðvar falla undir starfsemi almannavarna á Íslandi og er ákvörðun um það að opna stöðvarnar tekin af almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins þegar veður, náttúruhamfarir eða slys gera það að verkum að koma þarf fólki í skjól eða aðstoða það í nauð.

Rekstur þessara stöðva er í höndum Rauða krossins. Sem hluti af almannavarnarkerfinu hefur félagið umsjón með fjöldahjálp og sálfélagslegum stuðningi þegar náttúruhamfarir og aðrir alvarlegir atburðir eiga sér stað, auk þess að veita áfallahjálp í kjölfar vinnuslysa, hópslysa og annarra alvarlegra atburða. Þá er þolendum húsbruna veitt fyrsta aðstoð á vettvangi, svo sem þak yfir höfuðið, mat og aðrar brýnustu nauðsynjar. Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds og af vel þjálfuðum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir til aðstoðar, hvenær sem kallið kemur.

Undanfarin ár hefur Rauði kross á Íslandi séð um rekstur fjöldahjálparstöðvanna á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ, en frá haustinu 2018 tekur deild Rauða krossins í Mosfellsbæ verkefnið yfir. Starfssvæði deildarinnar nær til Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósar.

Deildin býr þegar yfir vel þjálfuðum og reyndum sjálfboðaliðum sem hafa búsetu í Mosfellsbæ, en þarf fleiri sjálfboðaliða í hópinn til að geta sinnt þessu verkefni. Er þar leitað að einstaklingum sem búa í Mosfellsbæ en ekki síst á Kjalarnesi og í Kjósinni.
Einstaklingar sem vilja leggja samfélaginu lið með því að koma til aðstoðar þegar aðrir eru í nauð geta fengið ítarlegri upplýsingar með því að hafa samband við Rauða krossinn í Mosfellsbæ í netfangið moso@redcross.is. Einnig má skrá sig á fyrsta þjálfunarnámskeiðið hér www.raudikrossinn.is/taktu-thatt/vidburdir/inngangur-ad-neydarvornum-mosfellsbaer, en námskeiðið verður haldið þann 3. september nk. kl. 18 -21 í húsnæði Rauða krossins í Mosfellsbæ.

Hrönn Pétursdóttir,
formaður Rauða krossins í Mosfellsbæ.