Eflum menntasamfélagið í Mosfellsbæ

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var afgreidd á bæjarstjórnarfundi þann 27. nóvember síðastliðinn. Eins og áður eru fræðslumálin langstærsti málaflokkurinn og fer um 52% af útgjöldum bæjarins í málaflokkinn eða um 5.712 mkr.
Áætlunin ber merki þess að bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að efla menntasamfélagið í Mosfellsbæ. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á aukið fjármagn til málaflokksins og aukast framlög til hans um 11% milli ára.

Helstu áherslur fjárhagsáætlunar í fræðslumálum eru:
Stoðþjónusta efld. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla stoðþjónustuna í skólum bæjarins. Aðstaða til sérkennslu og stuðnings hefur verið bætt til að mæta þörfum nemenda.
Einnig má nefna aukið stöðugildi talmeinafræðings hjá Mosfellsbæ sem kemur að frumgreiningu barna með skertan málþroska. Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað og hefur stoðin fyrir þau börn verið aukin, svo eitthvað sé nefnt.

Upplýsinga – og tæknimál. Á næsta ári verður haldið áfram að efla upplýsinga- og tækniumhverfi grunnskólanna með megin­áherslu á spjald- og fartölvur fyrir nemendur og innleiðingu nýrra kennsluhátta.

Ný ungbarnadeild opnar. Þrír leikskólar munu bjóða pláss fyrir yngstu börnin. Leikskólinn Hlíð er ungbarnaleikskóli, á Huldubergi eru tvær ungbarnadeildir og opnar ný deild í Leirvogstunguskóla. Mun plássum því fjölga um 25.
Mosfellsbær er einnig með samninga við ungbarnaleik­skóla og dagforeldra í öðrum sveitarfélögum. Ungbarnaskóli/deildir er ný þjónusta samhliða dagforeldrum og stefnir í að öll börn 12 mánaða og eldri verði komin með pláss í vor, mun fyrr en áætlað hafði verið.
Leikskólagjöld lækka. Til að koma enn frekar til móts við fjölskyldur verða leikskólagjöld lækkuð um 5% þriðja árið í röð.
Stöðugildum í Listaskólanum fjölgar. Mikil ásókn er í tónlistarnám og var ákveðið að fjölga stöðugildum í Listaskólanum til að koma til móts við þá eftirspurn. Kennsla verður aukin út í grunnskólunum, sérstaklega kennsla fyrir yngstu nemendurna.

Nýsköpunar– og þróunarsjóður stofnaður. Til að styðja betur við kennara og skólana okkar hefur Mosfellsbær ákveðið að stofna nýsköpunar– og þróunarsjóð. Verður hægt að sækja um styrki til að koma nýjum hugmyndum á laggirnar eða þróa enn frekar starf sem þegar er í gangi.
Fræðslunefnd mun ákveða hverjar áherslur hvers árs verða og auglýsa eftir styrkumsóknum.
Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi leik- og grunnskólum. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin verði kynnt í skólasamfélagi Mosfellsbæjar og heimilt verði að nota verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Nýsköpunar- og þróunarverkefnum verður gert hátt undir höfði með sérstökum viðburði og kynningu þegar kemur að styrk­afhendingu, slíkt er afar jákvætt og hvetjandi fyrir starfsemi leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ.

Stjórnendur og starfsfólk bera uppi starfið
Stjórnendur og starfsfólk skólanna bera uppi skólastarfið og verður seint fullþakkað fyrir þeirra mikilvæga starf. Mosfellsbær vill standa vörð um skólastarfið í öllum skólum bæjarins og halda áfram að byggja upp framúrskarandi skólastarf.
Þessi hópur, starfsfólk Mosfellsbæjar, leysir verkefni sín á grunni virðingar, jákvæðni, framsækni og umhyggju fyrir þeim verkefnum sem þeim eru falin. Þannig stöndum við saman að uppbyggingu menntasamfélagsins í Mosfellsbæ.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Felldu tillögur um nýjan veg og lækkun fasteignaskatts á fyrirtæki

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Undirritaður bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar flutti tvær tillögur við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sem var til afgreiðslu í bæjarstjórn í síðustu viku.
Fyrri tillagan laut að því að inn kæmi nýr liður í fjárfestingaráætlun undir liðnum gatnagerð, sem bæri nafnið „Skammadalsvegur frá Helgafelli að Bjargsvegi” og til fjárfestingarinnar yrði varið 10 milljónum á árinu 2020.
Tilgangur tillögunnar var að þegar yrði hafinn undirbúningur að lagningu nýs vegar frá Auganu svokallaða í Helgafellshverfi og að Bjargsvegi sem fælist í gerð kostnaðaráætlunar vegna nýja vegarins og undirbúnings uppkaupa á landi. Undirritaður hefur bent á nauðsyn þess, í ræðu og riti, að þessi vegtenging komi sem allra fyrst þar sem uppbygging á IV. og V. áfanga í Helgafellshverfi er þegar komin á dagskrá.
Fyrstu hugmyndir um veg­tengingar inn og út úr Helgafellshverfinu voru um núverandi Álafossveg. Að auki stóð til að vegur lægi yfir Varmá á móts við Ístex og upp á Reykjalundarveg, og svo að lokum sá vegur sem undirritaður gerði tillögu um að hafinn yrði nú undirbúningur að.
Síðari tillagan laut að breyttri álagningarprósentu fasteignagjalda í skattflokki C, það er vegna verslunar-, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæðis. Tillagan laut að lækkun á álagningarprósentu um 6,2% þannig að hún færi úr 1,6% af fasteignamati húss og lóðar og niður í 1,5%. Þess má geta að raunhækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis milli 2019-2020 sem tekur gildi um nk. áramót er ca. 14%. Hér var því gerð tillaga um að koma til móts við þá hækkun um tæpan helming.
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær ekki látið hækkun fasteignamats vegna íbúðarhúsnæðis koma að fullu til framkvæmda en ekkert hefur verið komið til móts við eigendur atvinnuhúsnæðis. Það er ekki fyrr en allt í einu núna að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggur til lækkun um heil 0,015%.
Það er mikilvægt í huga undirritaðs að einmitt núna þegar dregur úr þenslu og hagvexti og horfur eru á að tekjur fyrirtækja séu að dragast saman, komi sveitarfélagið á móti atvinnulífinu með því að lækka gjaldtöku af fasteignaskatti.
Því miður er skemmst frá því að segja að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna felldi báðar þessar tillögur án nokkurra umræðna.

Stefán Ómar Jónsson
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Björn Traustason

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður með sína árlegu jólatrjáasölu í Hamrahlíð fyrir jólin eins og síðastliðna áratugi.
Jólaskógurinn í Hamrahlíð mun opna sunnudaginn 8. desember með opnunarhátíð sem hefst klukkan 13. Þar verður ýmislegt við að vera, bæjarstjóri mun höggva fyrsta jólatréð, jólasveinar mæta á svæðið, ratleikur fyrir börnin og margt fleira.
Hjá mörgum fjölskyldum er jólatrjáaleit í Hamrahlíð orðinn árviss viðburður og ómissandi hluti af aðventunni. Mjög margir sækja einmitt í Hamrahlíðina til að saga sitt eigið tré, þó fjölgar þeim sem heimsækja rjóðrið okkar þar sem hægt er að velja tré sem söguð hafa verið úr skóginum. Þar er mikið úrval af greni og stafafuru af öllum stærðum.
Loftslagsmál hafa fengið aukið vægi síðustu misseri, en skógrækt hefur verið hluti af lausnum stjórnvalda sem binding á móti þeirri losun sem við mannfólkið látum frá okkur.
Á síðasta ári lofaði Skógræktarfélag Mosfellsbæjar því að gróðursetja 30 tré fyrir hvert tré sem yrði selt. Skógræktarfélagið hefur þegar staðið við gefið loforð og voru gróðursett 15.000 tré í sumar fyrir þau tré sem félagið seldi í jólatrjáasölunni á síðasta ári. Búast má við að helmingur þeirra trjáa muni verða að fullvaxta trjám og binda koltvísýring næstu áratugina. Hinn helmingurinn verður ýmist seldur sem jólatré, nýttur í skógarafurðir eða nær ekki að lifa.
Sami háttur verður hafður á um þessi jól, við munum gróðursetja 30 tré fyrir hvert og eitt sem selt verður og með því er hægt að nýta jólatrjáasöluna til að stuðla að aukinni bindingu með skógrækt. Eins og áður erum við stödd við Vesturlandsveginn í alfaraleið og hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að heimsækja okkur og næla sér í flott jólatré, og stuðla að kolefnisbindingu í leiðinni!

Jólakveðja, Björn Traustason
Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar

Eldri ökumenn í umferðinni

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Í almennri umræðu er oft rætt um eldri ökumenn sem hættu í umferðinni. Jafnframt að þörf sé á að hafa meira eftirlit með þessum hópi ökumanna, meðal annars með því að skylda þá til að fara reglulega í akstursmat.
Í nýafloknu námi til ökukennslu skrifaði ég ritgerð um eldri ökumenn og spurði þeirrar spurningar: Eru eldri ökumenn hættulegri en yngri ökumenn í umferðinni?
Niðurstaðan var sú að aldur segir ekki til um getu hvers og eins til að aka bifreið, heldur koma þar fjölmargir aðrir þættir sem geta gert ökumenn mishæfa til að stjórna bifreið, má þar helst nefna heilsu hvers og eins. En hvað breytist þegar aldurinn hækkar?
Þegar við eldumst hrakar almennri heilsu, þar með sjón, heyrn, viðbragðstíma og almennri hreyfigetu. Þessir þættir tengjast oft vanda í umferðinni.

Sjón: Góð sjón er ein af grunnkröfunum í öruggum akstri. Sjónin breytist þegar aldurinn færist yfir og því er nauðsynlegt að láta kanna sjónina á nokkurra ára fresti og þá sérstaklega þegar árin færast yfir.

Heyrn: Góð heyrn er einnig mjög mikilvæg í akstri. Nauðsynlegt er að ökumenn heyri og geti þannig greint hættumerki í umferðinni. Eins og sjón þá hrakar heyrn einnig með aldrinum.

Hverjir eru styrkleikar og veikleikar eldri ökumanna? Styrkleikar eldri ökumanna liggja í meiri reynslu og dómgreind er oft betri en hjá yngri ökumönnum, en breytingar til dæmis á umferðarmannvirkjum, akstursleiðum og ökutækjum geta reynst þeim eldri erfiðari ásamt nýjum umferðarmerkjum. Reikna má með að eldri ökumenn eigi erfiðara með akstur í lélegu skyggni s.s. myrkri og misjafnri lýsingu. Oft eru eldri ökumenn á lyfjum sem einnig geta haft áhrif á akstursgetu.
Töluvert hefur verið rætt um þá þörf að setja upp ferla sem aðstoða eldri borgara til að meta hæfni sína til þátttöku í umferðinni. Slíkir ferlar gætu verið í formi akstursmats eins og notað er fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis. Í því akstursmati væri kannað hvort mat viðkomandi ökumanns væri í samræmi við raunverulega getu viðkomandi. Markmið slíks mats er að ökumaðurinn geri sér fulla grein fyrir getu sinni og hæfni í umferðinni. Einnig er rík þörf á fræðslu fyrir eldri borgara í umferðinni.

Hvað gerist þegar aldurinn færist yfir?
Ég hef tekið saman örnámskeið sem verður í boði fyrir félög eldri borgara. Námskeið þetta tekur á eftirfarandi þáttum: Mannfjöldaspá, helstu orsökum umferðaslysa eldri ökumanna, kvíða, öldrun og athyglisskerðingu, gildistíma ökuskírteina, endurnýjun og akstursmat.
Hafir þú spurningar um þetta efni, næstu námskeið eða vilt bóka tíma í ökukennslu eða ökumat, hafðu þá samband í gegnum netfangið hzoega@gmail.com eða í síma 820 1616.

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson, ökukennari

TAKK!

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Í dag 5. desember er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Rauði krossinn þakkar sjálfboðaliðum sínum sem gera starf félagsins mögulegt.
Hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ starfa 90 sjálfboðaliðar í fjölbreyttum verkefnum sem öll hafa þó sömu gildi að leiðarljósi; mannúð, hlutleysi og óhlutdrægni. Sjálfboðaliðar okkar rjúfa einsemd með heimsóknum, aðstoða börn og ungmenni í námi, styðja við innflytjendur í nýju samfélagi, veita hlýju með hannyrðum, bregðast við í neyðarútköllum og stuðla að umhverfisvernd með betri nýtingu á barnafatnaði. Starfssvæðið er breitt og sjálfboðaliðar víða að en öll með sama markmið: Að byggja betra samfélag, samfélag sem byggir á mannúð og opnum hug.
Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á fáeinum áratugum. Á tímum sem þessum þar sem einstaklingar og fjölskyldur finna fyrir mikilli kröfu úr ýmsum áttum er mikilvægt að minna sig á hvað það er sem skiptir okkur raunverulegu máli og hvernig samfélag við viljum byggja. Því hver og einn einasti hefur þann mátt sem þarf til að láta gott af sér leiða. Hvort sem það er með persónulegum, hagnýtum eða efnislegum leiðum.
Án allra þeirra sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum verkefni Rauða krossins væri samfélagið okkar snauðara. Við hvetjum ykkur til að líta í kringum ykkur í dag og þakka sjálfboðaliðum okkar. Því við gerum það svo sannarlega. Takk!
www.raudikrossinn.is

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ

Helgafell – deiliskipulag 4. áfanga

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Þann 31. október sl. lauk fresti til að skila inn athugasemdum vegna auglýsingar um deiliskipulagsbreytingu fyrir 4. áfanga í Helgafellshverfi.
Skemmst er frá því að segja að formlega bárust fimmtán athugasemdir, þar af athugasemd frá húsfélagi með um þrjátíu íbúðum. (Sjá fundargerð skipulagsnefndar nr. 501)
Segja má að helst hafi athugasemdir lotið að tveimur meginþáttum, í fyrsta lagi óánægju með ráðgert fjögurra hæða fjölbýlishús vestast í skipulaginu með tilheyrandi skerðingu á útsýni og í öðru lagi að áhyggjum af umferð í gegnum augað, Vefarastræti og Gerplustræti, á meðan á uppbyggingu 4. áfanga stendur. Í athugasemdum er bent á að umferðin fari fram hjá nýjum Helgafellsskóla þar sem umferð barna er mikil bæði til og frá skóla og götur þröngar.

Skipulagsnefnd gerði svohljóðandi samþykkt á 501. fundi sínum:
„Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að flokka og greina innkomnar athugasemdir og leggja fram á fundi nefndarinnar. Skipulagsnefnd felur skipulagsfulltrúa að boða til fundar með fulltrúum úr skipulagsnefnd, Byggingarfélaginu Bakka og skipulagshöfundum varðandi hugsanlega endurskoðun deiliskipulagstillögunnar.”
Það er skemmst frá því að segja að undirritaður hafði strax í upphafi málsins áhyggjur af því að aðkoma að 4. áfanga á uppbyggingartíma yrði í gegnum Helgafellshverfið (augað Vefarastræti/Gerplustræti). Þetta viðraði undirritaður í grein sem birtist í Mosfellingi 29. nóvember 2018. (Sjá grein)

Það er með nokkrum ólíkindum að ríkjandi meirihluti bæjarstjórnar, fullltrúar D- og V-lista, skuli ekki hafa hugað að því að finna einhverja lausn á aðkomu að 4. áfanga á meðan á uppbyggingu stendur. Það albesta hefði verið að vegur austur út 4. áfanga og niður á Bjargsveg/Reykjaveg hefði verið kominn, að minnsta kosti vinnuvegur vegna framkvæmda í nýju hverfi. En svo er ekki og ekkert er um veginn í fyrirliggjandi 3ja ára framkvæmdaáætlun 2020-2023.

Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina
Mosfellsbæjar og aðalmaður í skipulagsnefnd

Allt í ru$li

Valdimar Birgisson

Valdimar Birgisson

Það er óhætt að segja að það hafi staðið styr um Sorpu undanfarnar vikur, eftir að það kom í ljós að það vantar rúmar 600 milljónir til þess að klára byggingu á gas- og jarðgerðarstöðinni sem verið er að byggja í Álfsnesi.
Þar fyrir utan þurfti að stækka móttökustöðina í Gufunesi og kaupa tæki þar til þess að hægt sé að nýta sorpið. Þessi tækjakaup gleymdust í áætlun 2019 og bætast við rúmar 700 milljónir af þeim sökum. Það kemur í ljós að kostnaður við stöðina er 1,3 milljörðum meiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Fyrsta spurninginn er náttúrulega hvort þessi stöð sé nauðsynleg – til hvers er verið að byggja hana? Svarið við því er já, hún er nauðsynleg. Gas- og jarðgerðarstöðin mun geta unnið metangas og moltu úr heimilissorpinu. Sorp sem hingað til hefur verið urðað við bæjardyrnar hjá okkur með tilheyrandi lyktarmengun verður að mestu endurnýtt. Þetta er því hagsmunamál okkar Mosfellinga að þessi stöð rísi.

En þegar mistök eru gerð er eðlilegt að það sé staldrað við, þau skoðuð og lært sé af þeim. Í tilfelli Sorpu eru ekki gerð ein mistök heldur röð mistaka sem leiða í ljós stjórnunarvanda sem þarf að taka á. Því þarf að fara fram umræða um stjórnun Sorpu. Eins og hún er í dag er hún ekki skilvirk. Við erum með stjórn þar sem sitja sex kjörnir fulltrúar sem samkvæmt starfsreglum eiga sérstaklega að gæta þess að nægjanlegt eftirlit sé með bókhaldi og meðferð fjármuna. Allar meiriháttar ákvarðanir eru þó teknar á svokölluðum eigendavettvangi þar sem stjórn Sorpu situr auk bæjarstjóra og borgarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Því eru samtals tólf kjörnir fulltrúar sem koma að ákvarðanatöku varðandi Sorpu. Þarna vantar skýrara samband á milli ákvarðana, ábyrgðar og eftirlits.

Bæjarfulltrúar Viðreisnar á höfuðborgarsvæðinu hafa látið sig málið varða og lagt til að skipuð verði neyðarstjórn fagfólks sem fari ofan í saumana á rekstri Sorpu. Þessi stjórn starfi tímabundið og klári þau verkefni sem eru fram undan og komi með tillögur að úrbótum. Það er tímabært að stokka upp og laga þegar svona gerist. Við eigum að gera betur.

Valdimar Birgisson
bæjarfulltrúi Viðreisnar

Haustið gengur í garð

Birna Kristín Jónsdóttir

Birna Kristín Jónsdóttir

Það er einhvern veginn alltaf ákveðinn léttir þegar fer að hausta, skólarnir byrja, laufblöðin falla, æfingar barnanna falla í fastar skorður og þar með lífið í heild.
Sumarið var náttúrulega dásamlegt hjá okkur í Mosfellsbæ og Aftureldingu, veðrið lék við hvern sinn fingur og til dæmis á fótboltaleikjum meistaraflokkanna var stúkan þéttsetin á flestum heimaleikjum. Við getum verð stolt af því að eiga knattspyrnulið bæði karla og kvenna í topp 20 á Íslandi.
Núna þegar vetrarstarfið fer á fullt langar mig að skora á ykkur kæru foreldrar og velunnarar Aftureldingar að bjóða fram aðstoð ykkar. Sjálfboðaliðastarfið er virkilega gefandi og skemmtilegt, þar sem það er mikil fjölgun hjá okkur á öllum vígstöðum þá vantar alltaf fólk, margar hendur vinna létt verk sagði einhver. Ég hvet ykkur til að setja ykkur í samband við deild að eigin vali.
Fram undan hjá okkur í Aftureldingu er spennandi vetur, meistaraflokkarnir okkar í handbolta og blaki eru í fremstu röð og fara vel af stað. Einstaklingsgreinarnar falla oft í skuggann fyrir hópunum en karate-, taekwondo- og frjálsíþróttafólkið okkar er að standa sig gríðarlega vel svo eitthvað sé nefnt.
Við höfum skrifað undir samning við Sideline, snjallforrit sem er um leið samskiptatæki milli þjálfara, foreldra og iðkenda, og hins vegar er þar mikill æfingagrunnur og tæki til leikgreiningar fyrir þjálfarana okkar.
Við munum innleiða þetta í nokkrum áföngum fram að áramótum. Samhliða því hættum við að nota facebook í þessum tilgangi þannig að þjálfararnir okkar eignast sitt einkalíf aftur 🙂 Markmið okkar með innleiðingu Sideline er að auka þjónustuna bæði við iðkendur og foreldra og ekki síst þjálfarana okkar.
Það verður haldinn starfsdagur fyrir þjálfara og sjálfboðaliða 10. október í Hlégarði þar sem allar æfingar verða felldar niður þann seinnipart til þess að gefa öllum þjálfurum kost á að mæta. Það er gríðarlega mikilvægt að mæta og hlusta á fróðleg erindi og hrista hópinn saman. Það er aldrei of oft sagt að þó að við séum 11 deildir þá erum við öll eitt lið, Afturelding.
Að lokum langar mig að hvetja þig til að mæta á viðburði hjá Aftureldingu og mig langar líka til að hvetja þig til þess að mæta í Aftureldingartreyju, það er svo gaman að tilheyra svona flottu liði sem Afturelding er.

Birna Kristín Jónsdóttir
formaður Aftureldingar

Áherslur í uppeldi

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Þegar fjölskyldur fá sér hund er ekki óalgengt að farið sé á hundanámskeið þar sem fjölskyldan lærir að umgangast hundinn og siða hann þannig að hundurinn teljist hlýðinn og góður.
Þegar barn kemur í heiminn er sjaldnast farið á námskeið um barnauppeldi. Áhugasamir foreldrar ná sér reyndar í bækur um ungbörn og atlæti þeirra og fræðast þannig um það helsta sem snýr að barninu. Foreldrar fá það reyndar í forgjöf að hafa verið barn, en því er ekki að heilsa með hundinn ;-).

Frumtengsl foreldra seint vanmetið
Uppeldishlutverkið hefst um leið og barnið fæðist, þó ekki með leiðsögn og reglum strax í upphafi heldur við að annast það, vernda og mæta þörfum þess. Frumtengsl foreldra við barn sitt verður seint vanmetið en rannsóknir hafa sýnt að samskipti foreldra og þá helst móður við barn sitt á fyrstu vikum og mánuðum lífs þess hefur afgerandi áhrif á þroska barnsins.
Rannsóknir renna stoðum undir mikilvægi þess að hvítvoðungum sé veitt athygli strax frá upphafi, að móðirin horfi á barnið sitt og gæli við það á meðan það tekur brjóst sem dæmi.

Umbun gríðarlega mikilvæg
Þegar barnið vex og dafnar þurfa foreldrar að vera samtaka og sammála um uppeldi barnsins. Þeir þurfa að setja reglur og skýran ramma um daglegt umhverfi barnsins. Slíkur rammi veitir barninu öryggi, því líður betur og það á auðveldara með að fara eftir þeim reglum sem því eru settar.
Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir hegðun barnsins. Barnið þarf að fá hrós og styrkingu í viðeigandi hegðun. Slíkt hrós kallast umbun. Reglulega hitti ég foreldra sem eru algerlega á móti öllum umbunum. Þeim finnst að það eigi ekki að þurfa að umbuna börnum sérstaklega fyrir æskilega hegðun. Því er til að svara að umbun er gríðarlega mikilvæg til að styrkja æskilega hegðun.
Umbunin þarf alls ekki að vera í efnislegu formi. Hrós, merki (svo sem þumall upp) og önnur tjáning sem segir barninu að það sé að gera rétt verður að fylgja góðri hegðun. Þegar um vægan agavanda er að ræða getur stjörnugjöf verið gríðarlega áhrifarík.

Barnið viti af óæskilegri hegðun
Á sama hátt þarf barnið að fá að vita þegar hegðun þess er óæskileg. Það á ekki að þurfa að skamma barnið þótt það geri hluti sem foreldrarnir vilja ekki. Yfirleitt er nóg að ræða við það án nokkurs æsings. Aðal inntakið er að barnið þarf upplýsingar um þegar hegðun þess er æskileg og einnig þegar hún er óæskileg.
Ef barn fer að sýna ítrekaða óæskilega hegðun er mikilvægt að foreldrarnir grípi inn í. Barnið þarf að fá að vita hvað það er við hegðun þess sem foreldrunum ekki líkar. Gott er að láta barnið endursegja hvað það má ekki svo foreldrarnir viti fyrir víst að það skilji og að það sé meðvitað um hegðun sína.

Barnið fái viðvörun
Þegar barn sýnir ítrekaða óæskilega hegðun þarf að skoða hvað veldur hegðuninni. Hvenær á hún sér stað, hvar og hvað er í gangi í kringum barnið? Algengt er að sum börn, oft drengir, verði reiðir þegar þeir fá ekki að spila tölvuleikinn sinn lengur.
Gott er að gefa barninu viðvörun áður en það á að hætta. Það má t.d. klára borðið sem það er í eða að það eigi að hætta eftir 10 mínútur. Ef það dugar ekki til missir það þau forréttindi að fá að fara í tölvuleikinn sinn næst þegar kemur að tölvutíma.

Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is

Að finna gleðina og bæta gæðin í lífinu á ný

vinurÍ lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp með tímanum atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr.
Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og það getur verið erfitt að átta sig á því.
Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn og gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þótt ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með en var ekki ánægður. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti ekki mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.
Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara. Á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið fyrir mig. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.
Kynningarfundurinn verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, miðvikudaginn 2. október kl. 19.00. Næstu þrjú miðvikudagskvöld eftir það verða opnir fundir til frekari kynninga en 23. október kl. 19.00 er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það verður hópnum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.
Bestu kveðjur.

Vinur í bata

Þakklæti bætir, hressir og kætir

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vonandi hafa allir notið sumarsins og bæjarhátíðarinnar í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir veturinn.
Mantran um það að „lifa og njóta“ hefur farið hátt á undanförnum misserum og snýst hún ekki hvað síst um mikilvægi sáttar og þakklætis. Í stað þess að einblína á það sem við höfum ekki eigum við endilega að horfa til þess sem við höfum og vera þakklát fyrir það. Það er nefnilega svo ótrúlega margt sem við getum verið þakklát fyrir í lífinu eins og t.d. fyrir fólkið okkar, þak yfir höfuðið, sólskinið, hreina loftið (sem stundum er á mismunandi mikilli hreyfingu), mat á borðum, fallegt landslag og svo mætti lengi telja.

Hvað er þakklæti í raun?
Í bók sinni Gæfuspor – gildin í lífinu segir Gunnar Hersveinn þakklæti vera bæði innri upplifun og ytri tjáningu. Innra þakklætið lúti að því sem við erum, höfum, eigum og því sem kemur ekki fyrir okkur.
Galdurinn felist í því að kunna að bera kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra að meta það mikils eins og t.d. lífið, heilsuna, frelsið, æskuna, ellina, fjölskylduna, vinina o.s.frv. Ytra þakklæti lúti hins vegar að því sem aðrir láta okkur í té eins og t.d. samveru, viðurkenningu, virðingu, leiðsögn, góð orð, kærleik og samúð svo fátt eitt sé nefnt.

Þakklæti bætir heilsuna
Fjöldamargar rannsóknir sýna fram á að þakklæti bætir heilsu okkar. Sálfræðingurinn Robert A. Emmons hefur síðustu ár rannsakað áhrif þakklætis á fólk, samskipti, hamingju og heilsu.
Niðurstöður hans sýna m.a. að það einfalda atriði að þakka markvisst og meðvitað einu sinni í viku leiðir til betri heilsu, meiri gleði og hamingju, betri svefns og samskipta, meiri ákafa og bjartsýni, meiri styrks og ákveðni, meiri ástundunar líkamsræktar, meiri lífsánægju og er þá einungis talinn upp hluti þeirra góðu áhrifa sem þakklæti hefur á líf okkar og heilsu.

Temjum okkur að þakka fyrir góðu hlutina í lífi okkar, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, og virkjum fólkið í kringum okkar með í þessari vegferð til þakklætis, hamingju og heilbrigðis.
Kærar þakkir fyrir lesturinn!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ

Unnið með stoðkerfisvandamál í vatnsleikfimi og tabata tímum

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

Núna er komið á þriðja ár sem Mosfellsbær hefur boðið starfsmönnum sínum upp á fjölbreytta íþróttatíma.
Ég er búin að fá að þróast með í þessu verkefni sem kennari og verð að segja að þetta er eitt skemmtilegasta framtak sem ég hef unnið að.
Ég hef séð um tíma í sundi og sal þar sem við vinnum með ólíka þætti en samt líka að vissu leyti. Stoðkerfisvandamál eru einn algengasti kvillinn á vinnustöðum, í Evrópu hafa þau áhrif á milljónir launþega og kosta atvinnurekendur milljarða evra. Það hjálpar til við að bæta líf launþega að taka á stoðkerfisvandamálum en einnig er það skynsamlegt fyrir fyrirtæki.

Vatnsleikfimi er frábær líkamsrækt þar sem unnið er með mótstöðu vatnsins sem veitir mjúkt álag á vöðva og liðamót, við þjálfum einnig upp styrk og þol og notum fá áhöld, það hentar fólki sem er með stoðkerfisvandamál að þjálfa sig í sundi en það það hefur áhrif á bak, háls, axlir, efri og í einhverjum tilvika neðri útlimi.

Í tabata tímunum sem eru kenndir í sal erum við einmitt líka að þjálfa þol og styrk, þar er sveigjanleikinn mikill þegar kemur að æfingum. Tímarnir hafa farið ágætlega af stað síðustu ár en vatnsleikfimin hefur verið vinsælust á meðal starfsmanna Mosfellsbæjar.
Það væri frábært að sjá fleiri ný andlit næstu vikurnar og aldrei að vita nema við förum af stað með mætingaverðlaun á milli vinnustaða.
Starfsmenn í Mosfellsbæ – Hlakka til að sjá ykkur!

Þorbjörg Sólbjartsdóttir
Íþrótta- og grunnskólakennari í Mosfellsbæ

Heyrir barnið þitt hvað þú segir?

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Þegar ég var strákur fór mamma með mig til heyrnarlæknis. Líklega var þetta háls- nef og eyrnalæknir en hans hlutverk var að kanna hvort heyrnin væri í lagi. Mömmu fannst ég nefnilega ekki heyra nógu vel.
Niðurstaða læknisins var að það var lítið að heyrninni. Ég veit ekki til þess að mamma hafi gert neitt meira með heyrnina en ekki er ólíklegt að hún hafi talið mig vera með „valheyrn.“ Hún hafi talið mig einfaldlega heyra það sem ég vildi heyra.
Málið var ekki alveg svo einfalt. Málið var að ég heyrði ekki í henni þegar hún kallaði á mig. Sama var upp á teningnum þegar vinir mínir voru með mér. Við heyrðum ekki þegar mamma mín kallaði á mig. Fleiri foreldrar hafa upplifað það sama. Í svona tilfellum er mögulega ekkert að barninu. Vandinn liggur mögulega í því hvernig fyrirmælunum er komið til barnsins.

Andlega fjarverandi
Skoðaðu hvar þú ert þegar þú gefur fyrirmæli og hvar barnið er þegar það á að heyra fyrirmælin. Ef þú ert í eldhúsinu og barnið í herberginu sínu, niðursokkið í leik sínum, heyrir það einfaldlega ekki þótt þú hrópir á það. Þú ert of langt í burtu og barnið er með hugann við leik sinn og er í raun „andlega fjarverandi“.
Það er lykilatriði í samskiptum foreldra og barns að skilaboð og fyrirmæli skili sér óhindrað. Það getur þýtt að foreldrið þurfi stundum að fara til barnsins til að ná athygli þess og jafnvel ná augnsambandi við barnið sitt svo öruggt sé að barnið hafi náð skilaboðunum. Það að foreldrið stígi inn í heim barnsins hefur þar að auki þann ótvíræða kost að foreldrið sér hvað barnið er að gera og getur meira að segja sest niður í örskamma stund og rætt við barnið, spurt hvað það sé að gera, gefið barninu tækifæri til að tjá sig og örvað þannig málstöðvarnar. Þessi litla stund sem foreldrið gefur barninu sínu og þarf ekki að vera meira en 30 til 60 sekúndur fær barnið auk þess til að finna að það er mikilvægt. Það hugsar eða finnur ómeðvitað: „Pabbi eða mamma settist niður hjá mér og sýndi því áhuga sem ég var að gera.“

Einföld og skýr skilaboð
Flestum börnum (og fullorðnum reyndar líka) finnst gott að fá fyrirvara svo þau séu ekki fyrirvaralaust tekin úr verkefninu sínu án þess að fá að klára. Gott er að láta barnið vita að eftir svo og svo margar mínútur þurfi það að stoppa eða þegar ákveðinn hlutur hefur gerst eigi það að stoppa. Það getur til dæmis átt við ef barnið er að horfa á sjónvarpsefni að það stoppi þegar þættinum lýkur.
Til að vera viss um að fyrirmæli eða upplýsingar þínar komist örugglega til barnsins er góð aðferð að fara til barnsins, snerta það létt til að ná örugglega athygli þess og segja skýrt: „Það er kominn matur. Komdu núna að borða.“ Ef foreldrinu finnst barnið ekki líklegt til að koma strax er tilvalið að standa hjá barninu þar til það leggur af stað með þér.
Barnið þitt heyrir í þér þegar þú gefur einföld og skýr skilaboð.
________________________
Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is

Stöndum vörð um mannréttindi

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Þann 6. október 1982 var Rauði krossinn í Mosfellsbæ stofnaður í Hlégarði og fagnar því 37 ára afmæli sínu um þessar mundir.
119 árum áður hafði Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) verið stofnað og 56 árum eftir það, árið 1919 var Alþjóðasamband landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans stofnað. Burðarás hreyfingarinnar eru hugsjónirnar 7; mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðin þjónusta, eining og alheimshreyfing.
Hvað þýða þessar hugsjónir eiginlega? Þær þýða það að við leitumst við að létta þjáningar fólks og koma í veg fyrir þær. Við verndum líf og heilsu einstaklinga og tryggjum að allir njóti þeirrar virðingar sem þeim ber. Við gerum ekki mun á milli fólks eftir þjóðerni þess, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Við tökum ekki þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði. Við gætum þess ávallt að vera sjálfstæð svo grundvallarhugsjónir séu okkar leiðarljós í öllum okkar gjörðum. Við virkjum almenning til þess að dreifa þessum boðskap með okkur í formi sjálfboðinnar þjónustu. Við erum opin og reynum eftir fremsta megni að tryggja aðgengi allra að hreyfingunni. Við berum ábyrgð á því að koma til hjálpar þar sem okkar er þörf.

Á Íslandi leggjum við upp úr því að bæta og efla íslenskt samfélag og bregðast við á neyðarstundu. Sé litið til grundvallarhugsjóna hreyfingarinnar er eitt allra stærsta hlutverk okkar að standa vörð um mannréttindi og virðingu samborgara okkar. Í því felst að nálgast nágranna okkar á jafningjagrundvelli, tala gegn hatursorðræðu og fræða um fjölmenningu.

Mosfellingar, Kjalnesingar og Kjósarbúar, við hvetjum ykkur til að sameinast okkur í grundvallarhugsjónum hreyfingarinnar og bjóða nýja íbúa velkomna og taka þeim sem fyrir eru með opnum örmum.
Langi þig til að gerast sjálfboðaliði getur þú sótt um á heimasíðu Rauða krossins, www.raudikrossinn.is. Hafir þú ekki tíma má alltaf gerast Mannvinur.

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ

Ævintýragarðurinn í Mosfellsbæ – ert þú með góða hugmynd?

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Í framhaldi af hugmyndasamkeppni sem var haldin um hönnun á Ævintýrgarðinum í Mosfellsbæ hefur verið unnið að uppbyggingu garðsins í samráði við sigurvegara samkeppninnar og hafa framkvæmdir staðið yfir frá árinu 2010. Nú er í gangi deiliskipulagsvinna fyrir svæðið og Mosfellsbær óskar eftir hugmyndum frá íbúum inn í þá skipulagsvinnu.

Hvað er búið að framkvæma?
Stígagerð hefur verið ríkjandi á þessum fyrstu stigum framkvæmdanna, þar sem lagður hefur verið malbikaður og upplýstur aðalstígur, sk. „Rósastígur“, í gegnum garðinn frá miðbæ Mosfellsbæjar að Leirvogstungu, með göngubrýr yfir Varmá og Köldukvísl í hvorum enda.
Lagður hefur verið sk. „Ætistígur“ þar sem gróðursettar hafa verið ýmsar tegundir ætiplantna við malarstíg sem liggur út frá Rósastígnum og settir upp áningarstaðir. Mikið hefur verið unnið að gróðursetningu í garðinum og þá sérstaklega í kringum Rósastíginn og Ætistíginn.
Unnið hefur verið við uppsetningu áningarsvæða þar sem m.a. eru notaðir náttúrulegir bekkir frá Ásgarði. Fræðsluskilti um garðinn hefur verið sett upp þar sem komið er inn í garðinn að sunnanverðu þar sem upplýsingar eru um helstu svæði í garðinum og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er skv. vinningstillögu hugmyndasamkeppninnar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Fjölbreytt leiktæki, frisbígolfvöllur og hundagerði
Í garðinum er fjöldi skátaleiktækja sem voru sett upp í suðurenda garðsins í samvinnu við Skátafélagið Mosverja. Um er að ræða ýmis klifur- og þrautaleiktæki fyrir alla aldurshópa, s.s. klifurbrú, hlaupakött, klifurturn og klifurslá.
Svæðið er mikið notað, m.a. af ýmsum skólum og námskeiðum. Ásgarður gaf Mosfellsbæ árið 2013 nokkur leiktæki úr tré sem sett hafa verið upp með skátaleik­tækjum, s.s. traktor og dýr. Sett hefur verið upp klifurnet og áningarstaður norðan við fyrirhugað miðsvæði.
Hannaður var 9 holu frisbígolfvöllur í garðinum sem nýtist bæði almenningi og keppendum í íþróttinni. Sett hefur verið upp afgirt hundagerði á hluta íþróttaflatar, þar sem heimilt er að sleppa hundum lausum undir eftirliti og þar settur upp bekkur, merkingar og ruslafata.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvað á 30 ára afmæli bæjarins árið 2017 að setja sérstakt fjármagn í uppsetningu á leiktæki og var keyptur stór klifurkastali sem hentar vel í náttúrulegu umhverfi eins og í Ævintýragarðinum. Auðvelt verður að tengja kastalann við fleiri leiktæki í framtíðinni við uppbyggingu garðsins.

Skipulagsvinna í gangi
Hafist hefur verið handa við deiliskipulag fyrir Ævintýragarðinn. Þessi vinna mun skapa heildstætt skipulag fyrir garðinn, skila sér í skýrari verkaskiptingu, forgangsröðun og betri yfirsýn yfir uppbyggingu garðsins. Þessi deiliskipulagsvinna er í höndum skipulagshönnuða og undir umsjón skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar.
Forgangur í áframhaldandi uppbyggingu svæðisins verður á miðsvæði garðsins. Þetta svæði hentar mjög vel fyrir leik- og útivistarsvæði, og verður lögð áhersla á að koma upp nýju og fjölbreyttu leiksvæði með náttúrulegu yfirbragði, á því svæði sem núverandi kastali og klifurnet eru staðsett.
Hugsunin er að leiksvæðið verði heildstætt safn útivistarleiktækja sem falla muni vel að hugmyndafræði og umhverfi garðsins. Í þeirri vinnu er m.a. gert ráð fyrir fleiri leiktækjum og grillskýli á svæðinu, sparkvelli, minigolfvelli, litlu leiksviði og fleiri skemmtilegri afþreyingu fyrir íbúa Mosfellsbæjar á öllum aldri.

Kynning Í túninu heima
Kynning á skipulagsvinnu fyrir Ævintýragarðinn verður fyrir framan íþróttamiðstöðina að Varmá á bæjarhátíðinni Í túninu heima laugardaginn 31. ágúst kl. 13.00-15.00. Þar munu hönnuðir frá verkfræðistofunni Landmótun auk fulltrúa frá Mosfellsbæ svara spurningum og taka við góðum hugmyndum frá íbúum Mosfellsbæjar varðandi áframhaldandi uppbyggingu á Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ.

Ásgeir Sveinsson formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar
og Bryndís Brynjarsdóttir varaformaður skipulagsnefndar.