Mosfellsbær verður Barnvænt sveitafélag

Una Hildardóttir

Þann 28. janúar síðastliðin var skrifað undir samstarfssamning Mosfellsbæjar, UNICEF á íslandi og félagsmálaráðuneytisins um þátttöku bæjarins í verkefninu Barnvæn sveitafélög.
Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi Mosfellsbæjar að fræðslu og stuðning við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á sveitarstjórnarstiginu. Töluverður hluti þjónustu hins opinbera við börn og barnafjölskyldur er á ábyrgð sveitafélaga og þau leika því mikilvægt hlutverk við innleiðingu sáttmálans. Með þátttöku Mosfellsbæjar í verkefninu skuldbindum við okkur til þess að vinna markvisst að innleiðingu barnasáttmálans og tryggja að réttindi barna séu höfð í huga í öllum verkefnum, stefnumótunum og ákvörðunum bæjarins.

Mosfellsbær er tólfta sveitarfélagið til þess að taka þátt í verkefninu en framkvæmd þess verður leidd af lýðræðis- og mannréttindanefnd bæjarins. Mikill metnaður er innan nefndarinnar til þess að takast á við verkefnin fram undan en inneiðingarferlið, sem byggist á hugmyndafræði alþjóðlegs verkefnis UNICEF „Child Friendly Cities“ er óvægið. Til þess að ná árangri er mikilvægt að kjörnir fulltrúar og starfsfólk bæjarins vinni þétt saman í innleiðingaferlinu. Ég tel að lýðræðis- og mannréttindanefnd sé einstaklega vel til þess fallin að leiða vinnuna enda byggjast grunnþættir Barnvænna sveitafélaga á mannréttindum barna. Grunnþættir þessir eru þekking á réttindum barna, það sem er barni fyrir bestu, jafnræði, þátttaka barna og barnvæn nálgun.

Á kjörtímabilinu hefur Mosfellsbær einsett sér að nýta verkfæri Sameinuðu þjóðanna í stefnumótun sinni. Árið 2019 var samþykkt ný umhverfisstefna sem tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í fyrra hafði lýðræðis- og mannréttindanefnd markmiðin til hliðsjónar við gerð aðgerðaáætlunar lýðræðisstefnu bæjarins. Við búum yfir reynslu sem mun nýtast vel við innleiðingu barnasáttmálans og verður sérstök áhersla lögð á náið samstarf nefndarinnar við ungmennaráð Mosfellsbæjar. Aðkoma barna að ákvörðunartöku er veigamikill þáttur Barnasáttmálans og mikilvægt að samráð við börn og ungmenni sé tryggt frá upphafi.

Vinna við verkefnið hefst með greiningu en stefnt er að því að Mosfellsbær uppfylli allar forsendur verkefnisins á árinu 2023 og hljóti í kjölfarið viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitafélag. Verkefninu lýkur þó ekki þá, enda þarf að endurnýja viðurkenninguna á þriggja ára fresti og til þess að standast úttekt þarf sveitafélagið að sýna fram á að það tileinki sér barnaréttindanálgun á öllum stigum stjórnsýslunnar og virði réttindi barna sem tryggð eru í sáttmálanum.

Una Hildardóttir, formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar Mosfellsbæjar

Við áramót

Nýársávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Haraldur Sverrisson

Kæru Mosfellingar!
Við áramót er hefðbundið að líta um öxl, rifja upp það sem gekk vel og ekki síður velta fyrir sér hvað bíður okkar á nýju ári. Það er óhætt að segja að árið 2020 hafi verið sögulegt ár og orðið „fordæmalaust“ sennilega eitt mest notaða orð ársins og „þú ert á mute“ algeng setning.

Kórónaveiran sem bankaði fyrst rólega en svo óþyrmilega á dyrnar hjá okkur í lok febrúar einkenndi allt okkar líf á árinu 2020. Daglegt líf okkar hefur einkennst af takmörkunum á flestu af því sem okkur hefur alltaf þótt sjálfsagt að gera. Koma saman á vinnustað, heilsast eða faðmast, heimsækja ættingja og vini, fylgja börnum í skólann, stunda íþróttir og ferðast utan lands svo nokkuð sé nefnt.
Starfsemi Mosfellsbæjar hefur ekki farið varhluta af þessu. Við þurftum ítrekað að endurskipuleggja starfsemi leik- og grunnskóla og loka hefur þurft íþróttamiðstöðvum og bókasafni. Á bæjarskrifstofum hefur þurft að koma upp vaktaskiptum og fólk hefur þurft að læra ný vinnubrögð og allir eru orðnir sérfræðingar í notkun fjarfundarbúnaðar. Þá hefur fólk gengið í störf hvers annars þegar við vorum á neyðarstigi og fólk var að lenda í sóttkví eða veikindum.
En þrátt fyrir þessar hindranir hefur starfsmönnum Mosfellsbæjar tekist að halda uppi starfsemi sveitarfélagsins og þjónusta við íbúana hefur að langmestu leyti verið óskert. Starfsfólk bæjarins hefur sýnt dugnað, hugmyndaauðgi og þrautseigju við að takast á við breyttar aðstæður og leyst úr málum sem við fyrstu skoðun virtust nánast óleysanleg. Þá hafa íbúar staðið með starfsfólki í því að laga sig að breyttum aðstæðum sem skipti miklu máli þegar þyngslin í fyrstu bylgju voru sem mest.

Þjónustan varin og viðspyrna tryggð
Áhrif faraldursins á efnahagslífið eru mikil, jafnt hér á landi sem á alþjóðavísu. Atvinnuleysi hefur aukist umtalsvert og mörg fyrirtæki hafa þurft að leggjast í eins konar híði til að bíða ástandið af sér. Ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla og sveitarfélög hafa orðið fyrir miklum tekjumissi og útgjöld aukist vegna áhrifa veirunnar á þjónustu þeirra. Að sjálfsögðu kemur þetta niður á fjárhag Mosfellsbæjar eins og annarra sveitarfélaga.
Sá afgangur sem áformaður var í rekstri fyrir árið 2020 mun breytast í töluverðan halla og verður sveiflan væntanlega allt að 800 m.kr. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár gerir ráð fyrr töluverðum halla eða um 560 m.kr. Við þessar aðstæður er gott að sveitarfélagið hafi staðið styrkum fótum áður en þessi efnahagskreppa skall á. Samfélagið í Mosfellsbæ býr að því að töluverður afgangur hefur verið af rekstri bæjarins undanfarin ár og skuldahlutfallið lækkað ár frá ári.
Vegna þessarar stöðu er unnt að veita viðspyrnu með því að reka bæjarfélagið með tímabundnum halla og verja þjónustuna án þess að stefna fjárhag sveitarfélagsins í hættu. Skuldir munu aukast á meðan þetta ástand varir því reksturinn skilar litlum fjármunum upp í fjárfestingar en við þær aðstæður er gott að hafa búið okkur í haginn.

Í Mosfellsbæ einkenndist árið 2020 af miklum framkvæmdum og fjölgun íbúa. Mosfellingar urðu rúmlega 12.500 talsins í lok ársins og hefur fjölgað um tæp 5% á árinu. Það er mikil fjölgun og ein sú mesta á meðal sveitarfélaga og sýnir hversu vinsælt sveitarfélagið er til búsetu.
Stærsta einstaka framkvæmdin á nýliðnu ári var bygging Helgafellsskóla en þar er unnið að því að ljúka seinni tveim áföngum skólans. Þá fóru fram miklar endurbætur á húsnæði Varmárskóla sem voru endurnýjun ytra byrðis yngri deildar og viðgerðir í kjölfar rakaskemmda. Allt skólahúsnæði bæjarins hefur nú verið skimað fyrir rakaskemmdum. Komu þar fram nokkur úrbótatækifæri en á heildina litið er skólahúsnæði bæjarins í góðu ásigkomulagi.
Í íþróttamiðstöðinni að Varmá voru töluverðar framkvæmdir í gangi á árinu og má þar sérstaklega nefna endurbætur á búningsklefum og lagnakerfum. Á haustmánuðum var tekin í notkun ný skrifstofu- og félagsaðstaða fyrir Aftureldingu í millibyggingu við fimleikasalinn. Á árinu 2020 var fyrsta heila rekstrarár Fellsins, nýja fjölnota íþróttahússins okkar. Má með sanni segja að Fellið sé mikil lyftistöng fyrir íþróttalíf í bænum og þá einkum knattspyrnu.

Metnaðarfull fjárhagsáætlun
Þrátt fyrir þau efnahagslegu áföll sem dunið hafa á okkur að undanförnu einkennist fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 af miklum metnaði. Við höldum áfram þeim uppbyggingarverkefnum sem í gangi hafa verið, stöndum ekki bara vörð um þá þjónustu sem veitt er til íbúanna heldur bætum við á nokkrum sviðum.
Á árinu 2021 munu álögur á íbúa og fyrirtæki ekki hækka að raungildi og lækka í nokkrum tilfellum. Síðustu tveir áfangar Helgafellsskóla verða teknir í notkun næsta haust og þá verður rými fyrir alla árganga í skólanum.
Loks er í undirbúningi bygging nýs leikskóla í Helgafellshverfi til að mæta þörfum fyrir leikskólapláss í stækkandi bæjarfélagi. Á árinu verður bætt við 30 nýjum plássum á ungbarnadeildum leikskólanna okkar. Allt er þetta gert til að mæta þörfum íbúa núna og til framtíðar, byggja upp öflugt og gott samfélag og auka lífsgæði og velferð íbúa.

Hér hef ég stiklað á stóru um hvað dreif á daga okkur á liðnu ári og það sem fram undan er. Árið 2020 var skrýtið ár, ár sem við sjálfsagt munum seint gleyma og verður skráð í sögubækur. Nýtt ár felur í sér ný tækifæri til að blómstra.
Bólusetning er hafin og raunhæfar vonir uppi um að það takist að bólusetja nógu marga á fyrri hluta ársins þannig að líf okkar færist í sem eðlilegast horf og atvinnulífið geti tekið við sér að nýju.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur sem fyrr allir vegir færir. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2020 og ég er viss um að nýrunnið ár muni færa okkur gæfu og gleði.

Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri

Bjartsýn á nýju ári

Birna Kristín Jónsdóttir

Kæru Mosfellingar, gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.
Þetta eru skrítnir tíma svo ekki sé annað sagt, til dæmis ekkert þorrablót fram undan! Þorrablót Aftureldingar hefur skapað sér fastan sess sem einn af aðalviðburðum bæjarins ár hvert, ef ekki aðalviðburðurinn.
En út af dottlu verðum við að fá okkur þorramatinn heima og rifja upp góðar minningar, sem auðvitað eru margar. Vonandi getum við haldið skemmtilegan viðburð á vormánuðum þó að ekkert komi í staðin fyrir blótið sjálft, en nauðsynlegt að vita að fram undan eru bjartari tímar.
Það eru góðar fréttir sem við heyrum þessa dagana að bóluefni sé farið að berast okkur og innan tíðar getum við farið að lifa hömlulausara lífi. Það er mikið fagnaðarefni að unga fólkið okkar megi loksins fara að æfa sínar greinar óheft og keppni er að fara í gang. Ég vona bara svo innilega að allir fari varlega og eftir þeim reglum sem gilda hverju sinni og þá á þetta allt eftir að ganga vel hjá okkur.

Á gamlársdag verðlaunuðum við það íþróttafólk hjá okkur sem þótti hafa skarað fram úr á árinu. Sesselja Líf Valgeirsdóttir knattspyrnukona var íþróttakona Aftureldingar og Guðmundur Árni Ólafsson handboltamaður var íþróttamaður Aftureldingar, einnig var valinn þjálfari ársins og kom hann úr fimleikadeildinni, Alexander Sigurðsson.
Öll eru þau frábærar fyrirmyndir fyrir annað íþróttafólk í félaginu. Það er sannarlega tilefni til bjartsýni hjá okkur, í öllum greinum eru iðkendur og þjálfarar sem blómstra og í raun ótrúlegt hvað flestir hafa verið duglegir að halda sér við efnið í þessum löngu pásum sem hafa komið, ég tek virkilega ofan fyrir ykkur. Þetta er eitt af því skemmtilegasta sem við gerum á ári hverju, að verðlauna fyrir uppskeruna, og óska ég ykkur öllum innilega til hamingju.
Við erum svo heppin í Aftureldingu að eiga marga góða styrktaraðila og velunnara. Að þessu sinni veittum við einu fyrirtæki þakkir fyrir að standa fast við bakið á okkur á þessu erfiða ári og var það Barion. Barion hefur verið óþreytandi við að aðstoða okkur og hugsa með okkur í lausnum þegar kemur að ýmsum fjáröflunum.
Takk fyrir okkur Barion og þið öll sem standið með okkur, þið eruð öll starfinu okkar ómetanleg. Ekki síst Mosfellingur sem alltaf er mættur og tilbúinn að aðstoða okkur.

Eitt af því sem veldur mér áhyggjum núna þegar við erum farin að sjá fyrir horn með COVID-19 er brottfall iðkenda, ég vona svo innilega að við náum að halda öllum okkar iðkendum og gott betur.
Milli jóla og nýárs fengum við í íþróttahreyfingunni kynningu frá félagsmálaráðherra og ÍSÍ á úrræðum ríkisstjórnarinnar fyrir íþróttahreyfinguna og hljóma þau mjög vel fyrir okkur og ættu að hjálpa til í þeirri vinnu að byggja á því sem við höfum fyrir, útfærslur eiga að vera tilbúnar í kringum miðjan janúar.
Vonandi verður almenn vitundarvakning hjá allri þjóðinni um frekari hreyfingu og íþróttastarf. Við í Aftureldingu höfum lengi verið stolt af forvarnargildi okkar starfs og höfum metnað til að bæta það enn frekar.
Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar.

Gleðileg jól!

Bjarki Bjarnason

Einn
Árið 2020 er senn á enda en það hefur einkennst af óvissu og stakkaskiptum í hefðbundnu lífi okkar flestra. Faraldur geisar um lönd og álfur sem á sér engin fordæmi á síðari tímum, í sérhverri viku, nánast á hverjum degi, hefur ný sviðsmynd blasað við okkur.
Íslenskt samfélag hefur borið gæfu til að sýna samstöðu undir forystu heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda og það hefur sýnt sig að samtakamáttur þjóðarinnar er öflugt vopn í baráttunni við þennan skæða vágest.

Tveir
Líkt og aðrir hafa Mosfellingar þurft að stokka spilin upp á nýtt á þessum óvenjulegu tímum. Sveitarfélagið hefur lagt allt kapp á að verja grunnþjónustu við íbúa og það er leiðarstefið í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 9. desember síðastliðinn. Viðspyrnan til varnar grunnstarfseminni hefur

Bryndís Brynjarsdóttir

tekist með ágætum og byggir á því að sveitarfélagið hefur verið vel rekið undanfarin ár.
Mosfellsbær hefur innan sinna raða öflugt starfsfólk sem leggst á eitt við að koma starfsemi sveitarfélagsins í gegnum þessar þrengingar með sem minnstum áhrifum á daglegt líf bæjarbúa. Má þar nefna að skólar bæjarins hafa gjörbylt starfsháttum sínum og starfsmenn þeirra sýnt það og sannað að þeir er lausnamiðaðir í þessum erfiðu aðstæðum.

… og þrír
Í dag stöndum við á tímamótum og bjartari tímar eru handan við hornið. Þrátt fyrir að nú hilli undir lok þessa heimsfaraldurs með notkun á bóluefni er baráttunni alls ekki lokið. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að heimsbyggðin hafi það úthald sem til þarf á lokasprettinum. Með hækkandi sól munum við sigrast á þeim vágesti sem hefur herjað á okkur öll með einum eða öðrum hætti.
Hátíð ljóss og friðar er framundan. Við óskum öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og þökkum góð samskipti á þessu óvenjulega ári sem rennur senn í aldanna skaut.

Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi V-lista.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi V-lista.

Tvöföldun aðreina inn á Vesturlandsveg

Stefán Ómar Jónsson

Eins og eflaust margir vegfarendur hafa tekið eftir hefur síðustu daga staðið yfir tvöföldun aðreina inn á Vesturlandsveg, annars vegar frá Þverholti og hins vegar frá Reykjavegi.
Vinir Mosfellsbæjar lögðu fram tillögu í skipulagsnefnd á sínum tíma að aðreinar inn á Vesturlandsveg yrðu tvöfaldaðar samhliða breikkun vegarins frá Skarhólabraut að Langatanga. Tillagan var samþykkt og er nú komin til framkvæmda.
Á annatímum mynduðust oft miklar raðir inn á Reykjaveg og inn á Þverholt og oft mátti sjá að ökumenn voru að reyna að mynda tvær raðir inn í hringtorgið þrátt fyrir að aðreinar væru alls ekki hannaðar fyrir tvöfalda röð. Þetta skapaði bæði hættu á umferðarslysum og var til mikilla tafa á umferð.
Vegfarendum öllum er óskað til hamingju með þessa umferðarbót.

Stefán Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar og fulltrúi í skipulagsnefnd.

Á tímum Covid-19

Valborg Anna Ólafsdóttir

Á þönum? Nei, ekki beint. Þess í stað höfum við átt góðan tíma á tímum COVID-19 með börnum okkar og öðrum fjölskyldumeðlimum, átt yndislegar stundir.
Nú þegar við horfum fram á að bóluefni verði vonandi komið fljótlega á árinu 2021, er mikilvægt að gleyma því ekki að við áttum dýrmætan tíma með börnum okkar og barnabörnum.
Það sem okkur hefur þótt afar merkilegt í gegnum síðustu mánuði er elja og dugnaður kennara okkar hér í Mosfellsbæ og annarra starfsmanna á vegum bæjarins. Þar vinnur fólk í framlínu og leggur sig fram við að sinna börnum þeirra sem verða að mæta til vinnu þrátt fyrir allt og þrátt fyrir allar takmarkanir.
Við viljum þakka þessu fólki sérstaklega fyrir að taka við börnum okkar bæjarbúa og sinna þeim, bæði í skólanum og í gegnum fjarfundabúnað, kenna þeim og fræða. Við þökkum okkar frábæru heilbrigðisstarfsmönnum sem sjá um afa og ömmu, börn okkar og ættingja. Það fólk mætir til vinnu, verður að mæta til vinnu, tekur áhættu fyrir okkur hin til að hlúa að, vernda og líkna.
Nú þegar við höfum kveikt á Spádómskertinu, síðan Betlehemskertinu, svo Hirðakertinu og að lokum Englakertinu eru komin jól. Það eru hin kristnu jól, en til forna var um að ræða hátíð rísandi sólar. Hefðirnar eru margar og skatan á Þorláksmessu er af mörgum talin ómissandi. Undanfarin ár hafa félagar úr Miðflokknum í Mosfellsbæ farið í skötu í Hlégarði og haft gaman af. Nú bíður skatan betri tíma.

Danith Chan

Við sem búum í fjölmenningarsamfélagi vitum einnig af hátíðum annarra trúarbragða. Þá gleðjumst við líka. Það geta flestir notið jólanna og reynt að forðast stressið. Við þurfum að reyna að njóta þessa tíma, kveikja á kertum og gleðja hvert annað. Ljósið er dýrmætt öllum og skiptir engu á hvaða trúarbrögð hver treystir, gleðin, hamingjan og gjafmildin er alþjóðleg, virt hvar sem þú ert, hvert sem þú ferð. Með þetta í huga getum við öll átt farsæl og indæl samskipti, sýnt hvert öðru virðingu og náð meiri árangri. Jólin eru flestum tími til að gleðjast. Sýnum börnum okkar alúð og gleði.
Kennum börnum okkar nægjusemi, eljusemi og ræktum með þeim samkennd gagnvart öðru fólki.
Jólin eru tími barnanna, allra barna.

Valborg Anna Ólafsdóttir, formaður heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis fyrir Miðflokkinn.
Danith Chan, fulltrúi Miðflokksins í menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar.

Það bera sig allir vel

Bryndís Haraldsdóttir

Vá, þvílíkt ár þetta 2020 sem við tókum svo vel á móti. Þetta átti að vera árið og það sannarlega varð það, bara svolítið öðruvísi en við ætluðum. En 2020 fer klárlega í minningabókina yfir furðulegasta árið. Árið sem allir tóku upp kínverska siði, hættu að heilsast með handabandi og grímur urðu töff.
Í upphafi ársins 2020 rifjaði ég upp hvað hafði áunnist á árinu 2019, persónuleg markmið um Landvætt, Laugavegshlaup og einhverja dönskukunnáttu höfðu náðst, en af vinnustaðnum mínum sagði ég:
„Á þinginu unnust ýmis stór og mikilvæg mál. Aukið frelsi, lægri álögur og að einfalda líf fólksins í landinu er og verður grunnstef okkar í þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Skattalækkanir bæði á fólk og fyrirtæki, traust efnahagsstjórn sem hefur skilað sögulega lágu vaxtastigi, aukinn kaupmáttur fólksins í landinu. Já, á Íslandi er svo sannarlega gott að búa enda hefur staðan hér aldrei verið betri.
Ég fer bjartsýn inn í nýtt ár með ný markmið og góða orku til að takast á við spennandi og krefjandi verkefni.“

Já, árið 2020 varð aðeins öðruvísi en ég gerði ráð fyrir, en ég er enn bjartsýn. Ísland er örugglega besti staðurinn til að búa á, sérstaklega í Covid. Frelsi einstaklingsins hefur ekki farið hátt á árinu, þar sem aldrei hafa meiri höft verið sett á daglegt líf fólks. En það hefur verið gert með öryggi og heilsu okkar allra að leiðarljósi. Frelsinu fylgir ábyrgð, þá ábyrgð sýnum við best með því að vera dugleg að sinna persónulegum smitvörnum og fara að fyrirmælum sóttvarnayfirvalda.
Mikið var nú gott að uppsveifla síðustu ára var nýtt til að greiða niður skuldir hins opinbera og tryggja þannig að ríkissjóður geti staðið undir því áfalli sem nú ríður yfir. Úrræði stjórnvalda miða að því að fjárfesta í öflugu samfélagi, samfélagi sem spyrnir við og vex hratt og örugglega út úr kófinu. Ísland er og verður land tækifæranna.
En þrátt fyrir kófið þá bera sig allir vel, Helgi Björns hefur sent okkur hlýja strauma frá Hlégarði og minnt okkur á að þótt úti séu stormur og él, þá lifir ljósið inni hjá þér og að lífið er gott sem betur fer. Mosfellingar hafa nýtt kófið til útiveru og hreyfingar, það sést vel á göngustígum og fellum bæjarins. Lýðheilsa skiptir miklu máli og vonandi er þessi mikli áhugi kominn til að vera.

Okkar yndislegi bæjarbragur hefur ekki fengið tækifæri til að blómstra eins og venjulega, en ég hlakka svo til þegar við förum öll að hittast aftur, get ekki beðið eftir þorrablótinu 2022, það verður eitthvað. En þetta fer nú allt að skána, viðspyrnan verður hraðari en marga grunar. Við þurfum að sýna seiglu, halda áfram að hreyfa okkur og huga að okkar nánasta. Þetta er allt að koma, en þangað til njótum við jólanna í jólakúlunni okkar.
Það koma vonandi jól með hækkandi sól.
Við étum á okkur gat af innlendum mat.
Og þrátt fyrir allt, misnotum sykur og salt.
Jólakveðja

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokks

Nýr leikskóli byggður í Helgafellshverfi

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær
Næsta haust verða seinni tveir áfangar Helgafellsskóla teknir í notkun og verður þá skólinn orðinn heildstæður leik– og grunnskóli. Mikil fjölgun íbúa í Mosfellsbæ síðustu ár kallar svo á áframhaldandi uppbyggingu skólamannvirkja.
Tekin hefur verið ákvörðun um að hefja byggingu á nýjum leikskóla í Helgafellshverfi og hefur bæjarráð falið umhverfis- og fræðslusviði að hefja undirbúning að þeirri framkvæmd. Um verður að ræða 1.200 fermetra húsnæði þar sem hægt verður að taka á móti um rúmlega 100 börnum. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2023.

Mikil fjölgun barna
Það er ánægjulegt að segja frá að ekkert sveitarfélag á landinu hefur tekið á móti jafn miklum fjölda barna á undanförnum árum. Mesta fjölgun barna er á austursvæði bæjarins og þá mest í Helgafellshverfi. Leikskólabörn á aldrinum 2–5 ára í Mosfellsbæ eru 657 og 1 árs börn eru 181. Þann 1. október voru 730 börn úr þessum hópi skráð í leikskóla í Mosfellsbæ að ungbarnadeildum meðtöldum, en auk þess eru 46 börn hjá dagforeldrum.

Fjölgun leikskólaplássa
Til að mæta þessari fjölgun barna verður leikskólaplássum fjölgað í 800 í leikskólum bæjarins. Næsta haust verður mesta fjölgun plássa í Helgafellsskóla og Höfðabergi en sú breyting verður á að Höfðaberg verður alfarið leikskóli þar sem 1.–2. bekkur fer yfir í Lágafellsskóla samhliða fækkun barna í þeim skóla.
Einnig verður sú breyting í Helgafellshverfi að elsta deild leikskólans færist í grunnskólahluta húsnæðisins þar sem teymiskennsla verður á milli 5 og 6 ára barna. Þar með fjölgar plássum í leikskóladeild Helgafellsskóla úr 77 í 117.
Á meðfylgjandi töflu má sjá hver fjölgun leiksskólaplássa hefur verið síðast liðin 10 ár.

Búum vel að barnafjölskyldum
Það er stefna meirihluta Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna að Mosfellsbær styðji vel við barnafjölskyldur sem og alla íbúa bæjarins. Íbúum mun áfram fjölga í bænum þótt ekki sé gert ráð fyrir jafnmikilli fjölgun og síðast liðin ár.
Góðir skólar þar sem fram fer faglegt starf tryggja velferð barnanna í bænum og öflugt fræðslu- og frístundastarf er liður í því að tryggja að Mosfellsbær sé áfram framúrskarandi kostur til búsetu.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar

Hin góða frétt!

Sigurður Rúnar Ragnarsson

Jólasálmur desember 2020

Enn og aftur heyrist Heims um ból,
í helgri stund um jól þá lægst er sól.
Um atburð þann sem þykir bera af,
þá Guð oss mönnum syndir fyrirgaf.
Með nýja von í hjarta heimur lifir,
hin góða frétt var mannkyni til bóta.
Í sínu Orði vakir Guð oss yfir,
öll við fáum gæsku hans að njóta.

Í Ritningunni sögð er þessi saga,
sem af Jesú öll við megum læra.
,,Sjá, – ég er með yður alla daga,
allt til enda“!, orðin huggun færa.
Guð er heill í allri helgun sinni,
Hann í Kristi kom til vor að gefa.
Lát hann setjast að í sálu þinni,
sönn er trú sem ekki býr við efa.

Guð í sínum boðskap vill oss benda,
beina hug að atburðinum sönnum:
,,Til hjálpræðis þá vil ég son minn senda,
Sjá,- engill boðar fögnuð öllum mönnum“.
Jesús sem til frelsunar var fæddur,
fögnuð ást og kærleika út breiddi.
Hann var mildri föðurgæsku gæddur,
græddi, kenndi, og brotnar sálir leiddi.

Við höldum jól og fögnum öll í friði,
fæðing Jesú vekur trú í hjörtum.
Þótt jólatíð með tímans þunga niði,
tifi hjá, með nýársdegi björtum.
Eftir jólin skín við birtan skæra,
skín mót nýju ári von í hjarta.
Öll þau jól sem frelsarinn mun færa,
fögnum við á ný mót hinu bjarta.

Gleðileg jól.
Sigurður Rúnar Ragnarsson.
Þjónandi prestur í Mosfellsprestakalli.

Unglingar vilja meiri tíma með foreldrum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Vinna hafin við nýja lýðheilsu- og forvarnastefnu.

Samvera með foreldrum/forsjáraðilum ásamt skipulögðu íþrótta – og tómstundastarfi er samkvæmt rannsóknum talin ein besta forvörnin í lífi barna og unglinga.
Staðfastir og leiðandi foreldrar eru börnum sínum fyrirmynd og barn sem elst upp við slíkt öryggi er líklegra til að velja rétt fyrir sjálft sig í lífinu. Leiðandi uppeldi ýtir undir þroska og sjálfstraust hjá börnum og unglingum. Leiðandi foreldrar sýna mikla umhyggju en setja um leið skýr mörk.
Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að börn og unglingar sem fá slíkt uppeldi sýna síður merki um kvíða og áhættuhegðun eins og neyslu og ofbeldi.

Fleiri samverustundir með foreldrum
Rannsókn og greining hafa sl. ár lagt kannanir fyrir nemendur í 8.–10. bekk þar sem spurt er um hagi og líðan. Niðurstöður hafa sýnt að almennt líður þessum hópi nemenda vel, þau stunda mörg hver skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og líður vel í bæjarfélaginu.
Þegar niðurstöður kannana liggja fyrir skoða stjórnendur skólanna ásamt stoðþjónustunni hvað má betur fara í starfi skólanna. Niðurstöður fyrir árið 2020 sýna að unglingar í Mosfellsbæ vilja verja meiri tíma með foreldrum sínum og sýna rannsóknir að samvera með foreldrum er besta forvörnin. Niðurstöður sýna einnig meira brottfall unglinga úr skipulögðu íþróttastarfi og er það áhyggjuefni. Mikið brottfall er óviðunandi.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Arna Hagalínsdóttir

Mosfellsbær hefur verið fyrsta val hjá barnafjölskyldum, sem fjölskylduvænt og öruggt bæjarfélag. Bæjarfélagið býður upp á góða þjónustu og eru góðir skólar (grunn-,­ leik-, og tónlistarskóli) efst á blaði ásamt góðu íþrótta- og tómstundastarfi.
Þótt Mosfellsbær hafi stækkað gríðarlega síðustu árin og börnum fjölgað svo mikið að skráð verður í sögubækur, er sveitastemningin ennþá til staðar. Hverfin halda utan um börnin, foreldrar bjóða nýja foreldra velkomna í hópinn og til verður góð og langvarandi vinátta. Börnin í bænum eru börn okkar allra. Þá sannast orðatiltækið að það þarf heilt þorp til að ala upp barn.

Áhersla á skóla- og velferðarmál
Skóla- og velferðarmálin eru ein mikilvægasta þjónustan við íbúa Mosfellsbæjar og er helsta áherslan í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Uppbygging skóla– og íþróttamannvirkja í sístækkandi bæjarfélagi og hækkun frístundastyrkja svo öll börn fái tækifæri til að stunda íþróttir og tómstundir eru áherslur sem bæjarstjórn öll getur verið sammála um.

Ný lýðheilsu- og forvarnastefna
Íþrótta- og tómstundanefnd vinnur nú að nýrri lýðheilsu– og forvarnastefnu sem byggist á stefnu Mosfellsbæjar sem gildir frá árinu 2017 til 2027. Þar stendur að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt og heilsueflandi samfélag þar sem öll börn hafi jöfn tækifæri og tileinki sér heilbrigðan lífsstíl.
Helstu áherslur lýðheilsu– og forvarnastefnunnar eru á skólastarf, íþrótta– og tómstundamál, félagsþjónustu, skipulag og hönnun og samgöngur svo eitthvað sé nefnt. Drög að stefnunni hafa verið kynnt fyrir íþrótta- og tómstundanefnd og í bæjarstjórn. Nú er í undirbúningi að setja drögin í samráðsgátt Mosfellsbæjar undir yfirskriftinni „Mitt heilsumosó“ og þar verður kallað eftir ábendingum og hugmyndum íbúa.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, lýðheilsufræðingur og formaður fræðslunefndar
Arna Hagalínsdóttir, kennari og Dale carnegie þjálfari og situr í fræðslunefnd

Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Árið 2020 mun fara í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir. Covid-19 hefur haft mikil áhrif á líf okkar allra. Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið verður Jólaskógurinn í Hamrahlíð á sínum stað.
Mjög auðvelt er að halda 2 m fjarlægð á milli fólks í skóginum og því hvetjum við sem flesta að koma í skóginn og velja sér jólatré í öruggri sóttvarnarfjarlægð. Jólaskógurinn í Hamrahlíð opnar föstudaginn 11. desember kl. 12. Ekki verður um sérstakan opnunarviðburð að ræða eins og verið hefur síðastliðin ár í ljósi aðstæðna.
Skógurinn veitir okkur gott skjól í því ástandi sem hefur ríkt, rannsóknir hafa sýnt að nálægð við skóg getur bætt geðheilsu fólks og einnig býr hann til veröld sem ekki er til staðar á opnu landi.
Með því að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar er stuðlað að aukinni skógrækt innan sveitarfélagsins. Stór hluti þeirrar vinnu sem fram fer innan skógræktarfélagsins er unnin í sjálfboðaliðavinnu og er ágóði af jólatrjáasölunni nýttur til að gróðursetja tré.
Fyrir hvert selt jólatré eru gróðursettar 30 trjáplöntur og má búast við að helmingur þeirra muni vera í mosfellskri jörð út þessa öld. Hinn helmingurinn mun ýmist verða nýttur í skógarafurðir, deyja sem smáplöntur eða prýða stofur framtíðar Mosfellinga sem jólatré. Helmingurinn sem áfram stendur mun binda kolefni út þessa öld og er því verið að stuðla að aukinni kolefnisbindingu með því að kaupa jólatré í Hamrahlíðarskóginum.
Skógurinn er góður staður til að vera á um þessar mundir. Fólk hefur í auknum mæli sótt í útivist utandyra eftir að Covid-19 kom upp og hafa skógarnir sennilega sjaldan verið heimsóttir eins mikið og í ár.
Heimsókn í Jólaskóginn í Hamrahlíð er hin besta útivist og mjög góð leið fyrir fjölskylduna að sameinast í útiverunni. Í Jólaskóginum verður gætt að öllum sóttvörnum í hvívetna, spritt verður á staðnum og verða sagir sprittaðar eftir hverja notkun. Þó mælum við með að fólk taki með sér eigin sög til að lágmarka smitleiðir. Sjáumst hress í Hamrahlíðinni.

Björn Traustason
Formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Kærumál vegna skipulagsbreytinga Reykjavíkurborgar á Esjumelum

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær og nokkrir íbúar í Leirvogstungu hafa kært Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar skipulagsmála vegna breytinga á deilskipulagi borgarinnar á athafnasvæði hennar á Esjumelum á Kjalarnesi.
Ástæða kærunnar er að Mosfellsbær og þeir íbúar sem eru meðkærendur bæjarins telja breytingarnar séu brot á skipulagslögum og að þær séu ekki í samræmi við skilgreinda landnotkun í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á svæðinu.

Óheimil breyting á landnotkun
Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir 2010-2030 er starfsemi á Esjumelum (AT5) takmörkuð að miklu leyti enda svæðið skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“. Um svæðið segir:
„AT5. Esjumelar-athafnasvæði við Vesturlandsveg. Fyrst og fremst iðnaður og önnur starfsemi sem ekki hefur teljandi mengunarhættu, s.s. verkstæði, gagnaver og vörugeymslur.“
Breytingin á svæðinu sem nú hefur tekið gildi og er verið að kæra felst í að skipulögð er 5 hektara lóð fyrir malbikunarstöðina Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Breytingin felur m.a. í sér að felldar eru niður 12 lóðir og sameinaðar í eina stóra lóð.
Óumdeilt er að umrætt svæði á Esjumelum er skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“ í aðalskipulagi. Það er augljóst að malbikunarstöð líkt og sú sem hér er til umfjöllunar telst umfangsmikil iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér. Því til stuðnings má t.d. vísa til þess að miklar kröfur eru gerðar til starfsemi malbikunarstöðvarinnar. Slíkar kröfur eru ekki gerðar nema þegar mengunarhætta er til staðar og því augljóst að malbikunarstöðvar flokkast undir mengandi starfsemi.
Í umhverfisskýrslu VSÓ-ráðgjafar, sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg í febrúar 2019, eru malbikunarstöðvar t.a.m. skilgreindar sem „meira mengandi starfsemi,“ og þar er jafnframt tiltekið að slík starfsemi falli undir skilgreiningu „iðnaðarsvæða“. Þá er einnig athyglisvert að sjá hvað fram kemur i auglýsingu Reykjavíkurborgar vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, þar sem segir orðrétt að markmiðið sé: „Að tryggja aukið framboð lóða fyrir mengandi iðnað.“ Reykjavíkurborg hefur því nú þegar skilgreint fyrirhugaða starfsemi sem mengandi iðnað sem er bönnuð á athafnsvæði eins og skilgreint er á Esjumelum.

Önnur óheimil breyting á landnotkun
Auk þessarar framangreindu breytingar hafði borgarráð Reykjavíkur áður samþykkt deiliskipulagsbreytingu 2. apríl 2020 á Esju­melum sem einnig fól í sér heimild til að starfrækja malbikunarstöð á Esjumelum, nánar tiltekið á lóð nr. 6-8 við Koparsléttu. Reykjavíkurborg hefur því samþykkt tvær malbikunarstöðvar á athafnasvæðinu á Esjumelum, þrátt fyrir að ekki sé ætlunin að breyta athafnasvæðinu á Esjumelum í iðnaðarsvæði í heild sinni eða að hluta.
Mosfellsbær kærði einnig þessa fyrri deiliskipulagsbreytingu en þeirri kæru var vísað frá kærunefndinni sem tók ekki efnislega á málinu heldur komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að Mosfellsbær væri ekki aðili að málinu. Mosfellsbær hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar niðurstöðu nefndarinnar og liggur niðurstaða í því máli ekki fyrir.

Skipulagslög brotin til að ná fram breytingum
Mosfellsbær hefur mótmælt og gert athugasemdir við þessi áform Reykjavíkurborgar um breytingar á skipulagi á Esjumelum frá upphafi málsins sem var árið 2015 en án árangurs. Haldnir hafa verið fundir með borgarstjóra og skipulagssviði Reykjavikurborgar og í ítrekuðum samtölum verið bent á að þessar breytingar séu brot á skipulagslögum, og breytingar sem þessar eigi að gera með breytingu á aðalskipulagi en ekki rýmkun/aðlögun á deilskipulagi.
Ástæða þess að Reykjavíkurborg fer ekki hefðbundna og löglega leið og breytir aðalskipulagi svæðisins er vegna þess að ströng málsmeðferð gildir um breytingu aðalskipulags og því er ljóst að slík breyting hefði aldrei fengist samþykkt, og er Reykjavíkurborg meðvituð um það. Þess vegna ákveða borgaryfirvöld að gera þessar breytingar í „skjóli nætur“ og fara „bakdyramegin“ með þessar breytingar með mörgum flóknum deilskipulagsbreytingum.

Kæruferli í gangi
Meðferð þessara mála frá hendi Reykjavíkurborgar er þeim ekki sæmandi og bera vott um mikinn yfirgang og tilitsleysi gagnvart Mosfellsbæ, íbúum og umhverfi þeirra.
Mosfellsbær hefur reynt að fá borgaryfirvöld til þess að eiga lögbundið samráð um þessar breytingar við Mosfellsbæ og gert athugasemdir frá upphafi málsins um að þessar breytingar rúmist ekki innan ramma aðalskipulags og stangist því á við skipulagslög. Reykjavíkurborg hefur á engum tímapunkti hlustað á rök Mosfellsbæjar í þeim efnum, og því var síðasta úrræði Mosfellsbæjar að kæra Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar skipulagsmála til að verja sína hagsmuni og íbúa bæjarins. Sú kæra er í ferli hjá úrskurðarnefndinni.

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar

Stöndum saman

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú nálgast jólin óðfluga og aðventan er rétt handan við hornið. Flest krossleggjum við fingur í þeirri von að við náum að halda sæmilega hefðbundin jól á þessum sérkennilegu og lærdómsríku tímum.
Í þessum aðstæðum sakna margir þess að geta ekki hitt fjölskyldu og vini, vinnufélaga, æfingafélaga, göngu-, hlaupa- og hjólafélaga og svo mætti lengi telja. Sem betur fer er hægt að tala við fólk í mynd í gegnum alls kyns tæki og forrit sem við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur óspart.

Félagsleg tengsl mikilvæg
Rannsóknir hafa sýnt að það er okkur öllum mikilvægt að eiga í góðum félagslegum samskiptum og að slík tengsl auka hamingju okkar og lífsgæði. Því er mikilvægt að við nýtum okkur allar þær leiðir sem við getum til að heyra og sjá fólkið okkar og pössum líka upp á þá sem búa einir. Þetta ástand getur reynt á þannig að sýnum fólki umhyggju og skilning og ákveðum að horfa á hlutina með jákvæðum augum, það er svo mikið léttara.

Hreyfum okkur
Það er bráðnauðsynlegt fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu að hreyfa sig reglulega. Nýtum náttúruna, förum út að ganga, hlaupa og/eða hjóla. Tökum þátt í frábærri Tindaáskorun skátafélagsins Mosverja! Prófum heilsárs ratleikinn sem byrjar við „áhorfenda“brekkuna í Álafosskvosinni!
Kippum með okkur frisbídiskum og prófum frisbígolfvöllum í Ævintýragarðinum fyrir aftan íþróttamannvirkin að Varmá! Nýtum okkar frábæra gönguleiðakort sem nálgast má á mos.is og á bensínstöðvum Olís eða N1. Komdu út – möguleikarnir eru endalausir!

Sköpum tilbreytingu
Við þurfum öll á tilbreytingu að halda þannig að hvernig væri að gera samverudagatal fyrir þessi jól? Dagatal sem snýst um leiki, hreyfingu og samveru fjölskyldunnar? Hægt væri að leyfa öllum í fjölskyldunni að taka þátt í gerð þess í sameiningu og síðan fengi hver og einn að vera með einn dag sem kæmi hinum á óvart?
Hægt væri t.d. að hafa vasaljósagöngu, spilakvöld, baksturskvöld, kósýkvöld, stjörnuskoðun og ýmislegt fleira spennandi í dagatalinu. Dagatal sem þetta þarf ekki að kosta krónu en það er alveg klárt að það skapar skemmtilegar samverustundir og dýrmætar minningar.

Þakklæti
Það er alveg ljóst að ástandið hefur keyrt niður hraðann í samfélaginu, takmarkað val okkar og gert líf okkar einfaldara á margan hátt. Nú reynir á þrautseigju okkar og seiglu til að komast í gegnum þetta saman og um leið er mikilvægt að staldra við og finna eitthvað á hverjum degi sem við erum þakklát fyrir.

Við viljum t.d. færa framlínustarfsfólkinu okkar sérstakar þakkir, þ.e. heilbrigðisstarfsfólki fyrir sín störf á verulega krefjandi tímum og sömuleiðis kennurum allra skólastiga fyrir að leggja sig fram um að skapa börnunum okkar eins eðlilegt líf og hægt er undir þessum kringumstæðum.
Svo eigum við að sjálfsögðu öll hrós skilið fyrir að standa saman þegar á reynir!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Mamma Mía

Sveinn Óskar Sigurðsson

Kynjafræðin leiðir okkur hægt og bítandi inn í nýja tíma. Styðjandi kvenleikinn, þar sem einstaklingur með kyngerfið ,,kona” styðjur við ,,ráðandi karlmennsku“, er sagður andstæða hins ,,mengandi“ á marga vegu innan áru kynjajafnréttis.
Við vitum vel að kvenleikinn er félagslega mótaður og birtist með ólíkum hætti. Styðjandi kvenleikinn fer ; ,,[…] mjúkum, stundum silkiklæddum höndum um karlmennskuna”, sé vitnað í fræðigrein Gyðu Margrétar Pétursdóttur á þessu sviði. Þar vitnar Gyða m.a. í Katrínu Önnu Guðmundsdóttur, fyrrum talskonu Femínistafélags Íslands, sem segir í grein frá 2011: ,,Að væla og skæla er ekki tengt hugmyndum okkar um karlmennsku. (Sumir) karlar eiga þó til að væla þegar femínisma ber á góma. Og þá kalla þeir iðulega eftir snuði.“
Á víkingaöld mætti hugsanlega finna hápunkt hinnar „ríkjandi karlmennsku“. Eftir að Egill Skallagrímsson hafði vegið andstæðing sinn í ísknattleik barnungur, þ.e. Grím Heggsson, sagði Bera, móðir hans, hann vera víkingaefni. Orti þá Egill.
Þat mælti mín móðir, / at mér skyldi kaupa / fley ok fagrar árar, / fara á brott með víkingum, / standa upp í stafni, /stýra dýrum knerri, /halda svá til hafnar / höggva mann ok annan.
Frá þessum tíma og til dagsins í dag eigum við íslenskir karlmenn afar erfitt með að elska ekki mæður okkar meira en nokkurn annan.
Í texta hljómsveitarinnar ABBA segir í upphafsorðum: ,,I’ve been cheated by you since I don’t know when”. Þetta leggst út á okkar ástkæra ylhýra í þýðingu Þórarins Eldjárns, „Ég var svikin og særð. Já þú sveikst öll þín heit.“ Það er nokkuð ljóst að þegar slíkt gerist borgar sig að kalla á mömmu eins og sannur hágrátandi ítalskur karlmaður þegar eitthvað gengur ekki upp og framhjáhaldið er komið úr böndunum.
Fleiri tilbrigði má finna varðandi magnaðar mæður, m.a. úr vegagerð. Nýlega samdi Mosfellsbær við Vegagerðina með það að markmiði að fá langþráða tvöföldun á Vesturlandsveg sem var að ergja flesta nema helst Samfylkinguna, Viðreisn, Pírata og VG sem elska þrengingar.
Á 758. fundi bæjarstjórnar 1. apríl 2020, þ.e. í fyrstu bylgju COVID, lagði bæjarstjórinn fram erindi þess efnis að ganga eigi hið fyrsta frá samningi um tvöföldun Vesturlandsvegar, biðin væri orðin löng.
Einhver tók eftir því að þetta var ekki tvíhliða samningur heldur þríhliða í raun því í 5. grein samningsins var búið að troða þar inn hagsmunum móður bæjarstjórans. Þetta afbrigðilega ákvæði gekk út á bætur til lóðarleiguhafa á lóð í eigu Mosfellsbæjar sem er ekki skipulögð sem byggingarlóð heldur „leiksvæði“. Gæti þetta skýrt tafirnar á tvöfölduninni?
Það borgar sig að bíða eftir dýralækni, væntanlega með „mengandi kvenleika“, sem tæki við stjórn Vegagerðarinnar. Gætu þá slík ákvæði runnið þar leikandi í gegnum stjórnkerfið.
Eins og segir í orðum Dr. Collins, ástralskrar transkonu og helsta talsmanni kynjafræðinnar: „Styðjandi kvenleiki er ein af forsendum þess að hægt er að dvelja innan áru kynjajafnréttis á meðan mengandi kvenleiki getur stuðlað að raunverulegu jafnrétti með því að vekja máls á, færa út víglínur og „stækka smugurnar.“
Mosfellingar mega því greinilega vel við una með allt í senn stóraukin kvenréttindi og tvöföldun Vesturlandsvegar.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Seljadalsnáma eða ekki?

Margrét Guðjónsdóttir

Hvar er Seljadalsnáma? Hún er í Þormóðsdal skammt fyrir ofan Hafravatn. Náman var starfrækt frá 1985 til 2016 samkvæmt samningi Mosfellsbæjar sem landeiganda og Reykjavíkurborgar f.h. Malbikunarstöðvar borgarinnar. Malbikunarstöðin vann steinefni úr námunni til að nota í malbik.
Til að hefja að nýju efnistöku úr námunni þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

Þetta hefur helst gerst eftir 2016:
Júní 2017 Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir að heimila umhverfissviði bæjarins að hefja vinnu við gerð matsáætlunar (mat á umhverfisáhrifum) vegna Seljadalsnámu.
Júlí 2020 Skipulagsnefnd: Lögð voru fram til kynningar drög að tillögu að mats­áætlun (mat á umhverfisáhrifum) fyrir efnistöku í Seljadalsnámu sem unnin er af verkfræðistofunni Eflu dags. 29. júní 2020.
Sept. 2020 Skipulagsnefnd: Lögð voru fram til afgreiðslu drög að tillögu að matsáætlun (mati á umhverfisáhrifum) er senda skal Skipulagsstofnun.

Stefán Ómar Jónsson

Skipulagsstofnun fær tillöguna nú til athugunar og mun stofnunin skoða hvort tillagan uppfylli formsatriði og auglýsir hana að óbreyttu. Í því auglýsingaferli fá hagsmunaaðilar og almenningur tækifæri til að koma að athugasemdum sínum.

Það er fyrst þegar öll þessi formsatriði eru að baki, sem hér eru í grófum dráttum tíunduð, að Mosfellsbær tekur afstöðu til þess hvort opna eigi Seljadalsnámu að nýju eða ekki.
Vinir Mosfellsbæjar áttu ekki aðild að bæjarstórn Mosfellsbæjar þegar ákvörðun var tekin um að hefja það ferli sem lýst er hér að ofan. Fulltrúar Vina Mosfellsbæjar í skipulagsnefnd sátu hjá við afgreiðslu skipulagsnefndar í júlí og september sl. en munu taka afstöðu þegar og ef, til þess kemur að tillaga um opnun námunnar kemur fram. Afstaða Vina Mosfellsbæjar verður þá byggð á lokaniðurstöðu skýrslu um matsáætlun, þeim athugasemdum sem komið hafa fram og munu ef til vill koma fram á síðari stigum.
Að mörgu er að hyggja áður en svo stór ákvörðun kann að verða tekin. Náttúran og nærumhverfi íbúa í Mosfellsbæ skipta þar máli.
Sjá má drög að tillögu að matsáætlun:
https://www.efla.is/media/umhverfismat/Seljadalsnama-Drog-ad-kynningu-29.07.2020.pdf

Margrét Guðjónsdóttir varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar