Unglingarnir okkar – harðnaðir glæpamenn eða hæfileikaríkir og kurteisir einstaklingar?

Guðrún Helgadóttir

Við í félagsmiðstöðinni Bóli vinnum með unglingunum okkar alla virka daga. Það er fjölmennur hópur sem leggur leið sína til okkar dag hvern, annaðhvort í skipulagt starf eða „bara“ til þess að spjalla. Þess á milli lesum við, á hinum ýmsu samfélagsmiðlum, athugasemdir um krakkana okkar.
Við, starfsfólkið, lokum ekki augunum fyrir þeirri hópamyndun sem hefur átt sér stað að undanförnu, en við vitum líka að það er verið að vinna, í samvinnu við foreldra, með þessa örfáu einstaklinga sem rötuðu aðeins út af sporinu.
Það er upplifun starfsmanna Bólsins að stærsti hluti unglinganna okkar er á hárréttri braut og við gerum allt sem við getum til að aðstoða þessa örfáu við að komast aftur á rétta sporið. Hafa skal þó í huga, að Bólstarfsmönnum þykir einstaklega vænt um þessa örfáu, sem og aðra unglinga Bólsins, og innan okkar veggja eru þeir skemmtilegir, tillitsamir og kurteisir.
Við fengum nokkra einstaklinga til að skrifa niður af hverju þeir koma til okkar í Bólið. Rauði þráðurinn í þeirra punktum var að þeim finnst gott að koma og spjalla við starfsfólkið.
Á unglingsárunum eru krakkarnir að taka út þroska og átta sig á hvaða persóna þeir eru og/eða vilja vera. Mikilvægt er að mæta þeim á jafningjagrundvelli og virða þeirra skoðanir. Við verðum að forðast að setjast í dómarasætið, heldur reyna frekar að ná fram umræðum þar sem allar hliðar eru skoðaðar.
Í Bólinu eru samræðurnar oft mjög líflegar, en hvernig eiga þessir krakkar að geta speglað sig í fullorðnum einstaklingum, ef þeir fá ekki tækifæri til að tjá sig og finna að á þá sé hlustað?
Eins og með okkur öll, þá þurfum við mismikla aðstoð við að finna okkar hillu í lífinu, en við getum verið sammála um það að það er gott að fá stuðning. Öll upplifum við það að mistakast eða taka, á einhverjum tímapunkti, ranga ákvörðun. Það á jafnt við um börn, unglinga og fullorðna einstaklinga.
Það sem unglingarnir eiga sameiginlegt hjá okkur er að vera kurteisir og vel upp aldir. Þeir bera oftast virðingu fyrir skoðunum annarra og vilja þá líka fá þá virðingu til baka.
Við fullorðna fólkið getum lært mikið af þessum aldurshópi því í þeirra augum er ekkert ómögulegt og þeir eru ávallt tilbúnir að læra eitthvað nýtt eða horfa á málin frá fleiri sjónarhornum. Þeir eru hæfileikaríkir og jákvæðir, en þurfa að fá tækifæri. Tækifæri til að gera vel, en líka tækifæri til að misstíga sig og fá aðstoð við að standa aftur á fætur.
Við viljum með þessum skrifum skora á bæjarbúa að mæta unglingunum okkar með opnum huga og jákvæðni. Þeir eiga það svo sannalega skilið. Hjálpumst að við að styrkja þá og styðja þannig að leiðin inn í fullorðinsárin verði auðveld og ánægjuleg.

Fyrir hönd starfsmanna Bólsins og unglinganna okkar,
Guðrún Helgadóttir, forstöðumaður Bólsins.