Íþróttahús við Helgafellsskóla

Margrét Gróa Björnsdóttir

Ég starfa sem stuðningsfulltrúi við Helgafellsskóla. Meðal þeirra verkefna sem ég sinni er að fara ein með um 40 nemendur í rútu tvisvar sinnum í viku niður að Varmá í íþróttatíma.
Ferðin tekur okkur 80-85 mínútur frá því við förum frá Helgafellsskóla og þar til við komum til baka. Íþróttatíminn er 40 mínútur og það fara aðrar 40 mínútur í ferðir. Það hlýtur að vera eitthvað skakkt í þessu! Auk tímans sem þessi ferðalög taka þá er þetta mjög stressandi og kvíðavaldandi fyrir nemendur.
Á teikningum Helgafellsskóla er gert ráð fyrir íþróttahúsi en mér skilst að ekki sé enn búið að taka endanlega ákvörðun um hvenær það verði byggt. Við stuðningsfulltrúar sem störfum við Helgafellsskóla skorum á stjórn bæjarins að setja íþróttahús við Helgafellsskóla í algeran forgang.
Helgafellsskóli er ört stækkandi skóli í vaxandi íbúahverfi og er gert ráð fyrir um 450 nemendum í skólanum á næsta skólaári og því finnst okkur brýnt að drifið verði í því að setja íþróttahúsið á fjárhagsáætlun hið fyrsta.

Fyrir hönd stuðningsfulltrúa í Helgafellsskóla
Margrét Gróa Björnsdóttir