Hey þú, hættu að skemma og eyðileggja!

Ásgeir Sveinsson

Skemmdarverk og eyðilegging er alltaf leiðinleg og það fara mjög miklir peningar á hverju ári í viðgerðir eftir þessi ömurlegu skemmdarverk.
Nýjasta afleiðingin af skemmdaverkum í Mosó, okkar frábærar bæjarfélagi, er nú sú að búið er að loka Kósí Kjarna sem var mjög flottur og naut mikilla vinsælda.
Húsgögn og annað sem var búið að setja þarna upp hefur ítrekað verið eyðilagt og því þurfti að fjarlægja þetta flotta umhverfi, sem var ein af frábærum hugmyndum úr Okkar Mosó.
Því miður hefur margt annað verið skemmt í Mosó. Síðasta sumar var t.d skorið á nýja ærslabelginn okkar í Ævintýragarðinum sem var mjög dýrt að að gera við, glerstrætóskýlið í Háholti hefur verið brotið og bramlað ítrekað og mörg fleiri dæmi má nefna þar sem framin hafa verið skemmdarverk sem kosta Mosfellsbæ margar milljónir á ári.
Það er alveg glatað að þetta sé staðan í okkar flotta bæ og við getum og viljum fækka þessum skemmdum og þeim kostnaði sem þeim fylgir.

Hættið þessu rugli
Þið sem eruð að gera þetta, eruð þið ekki til í að hugsa aðeins um hvað þetta er glötuð hegðun og hvaða leiðindi þetta hefur í för með sér? Nýtið endilega tímann ykkar í eitthvað annað uppbyggilegra og skemmtilegra.
Þessar skemmdir sem þið valdið kosta margar milljónir á ári, mill­jónir sem við viljum og ættum að nota í að gera bæinn okkar skemmtilegri og flottari. Til dæmis að framkvæma fleiri geggjaðar tillögur úr Okkar Mosó, auk þess sem við gætum notað peningana í alls konar nýjar og skemmtilegar framkvæmdir fyrir alla aldurshópa í bænum okkar.

Hvað getum við gert?
Við Mosfellingar erum þekktir fyrir að geta gert nánast hvað sem er og nú tökum við höndum saman og förum í herferð til að útrýma þessu rugli í bænum okkar.
Nú virkjum við alla sem okkur dettur í hug í fræðslu og umræðu um þessi mál, foreldra- og skólasamfélag, íþróttafélögin, krakkana í félagsmiðstöðvum, vinahópinn okkar, fjölskyldurnar o.fl. Við ákveðum hér og nú að þetta sé ekki í boði og við stöndum saman öll sem eitt um að uppræta svona framkomu.

Hverjir eru að skemma og eyðileggja?
Ef þú veist hverjir það eru sem eru að skemma fyrir okkur íbúum Mosó, taktu þá umræðuna við þá og segðu þeim að þetta er alls ekki „kúl“. Ef þeir skilja það ekki, láttu þá vita og þá verður talað við þessa aðila og reynt að fá þá til að skilja að við viljum nota peninga okkar Mosfellinga í eitthvað annað og skemmtilegra en að gera við skemmdir eftir þá.
Þetta eru væntanlega mjög fáir einstaklingar sem standa á bakvið flestar þessar skemmdir og ef við öll leggjumst á eitt að hjálpa til við að stoppa þetta rugl er ég viss um um þessir aðilar hætti þessu.
Með sameiginlegu átaki náum við að stoppa þessa hegðun sem skilar engu nema leiðindum og miklum kostnaði fyrir okkur og bæinn okkar.

Ásgeir Sveinsson