Það er best að búa í Mosfellsbæ!

Guðmundur Hreinsson

Ekki alls fyrir löngu þá barst mér skoðanakönnun sem fjallaði um upplifun mína á því hvernig mér fyndist að búa á þeim stað sem ég bý. Að mínu mati þá var ekki erfitt að svara þeim spurningunum öllum í þá veru að hvergi á jarðríki er betra að búa en í Mosfellsbæ.
En eftir á að hyggja þá fékk ég bakþanka vegna þess að marg oft hef ég orðið var við það að pólítíkusar bæjarins veifi þessari skoðannakönnun sem merki um eigið ágæti og afrek og þess vegna vil ég hér með koma því á framfæri að það er ekki vegna þeirra afreka sem ég svaraði þessari skoðanakönnun eins og ég gerði eða að það er hvergi betra að búa en í Mosfellsbæ. Ég tala svo nú ekki um umhverfið og náttúruna!

Ég bý í þeim hluta Mosfellsbæjar sem oft er kallað olnbogabarn Mosfellsbæjar eða í Mosfellsdal. Nafnið dregur sennilega taum af því að við erum oftast síðust í röðinni þegar kemur að ýmsum framkvæmdum á vegum bæjarins og drífa ekki öll þau gæði sem bærinn veitir bæjarbúum upp í Mosfellsdal einhverra hluta vegna.
Af mörgu er hægt að taka hvað þetta varðar og töluvert misræmi sem er á milli Mosdælinga og annara bæjarbúa og má t.d. nefna að til stóð að leggja ljósleiðara um allt bæjarfélagið og var sá samstarfssamningur undirritaður fyrir nokkrum árum í votta viðurvist og smellt mynd af virtum bæjarpólitíkusum og forstjórum og birt hér í þessu ágæta blaði.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun þá var Mosfellsdalur síðastur í röðinni. Þegar kom svo að Mosfellsdal þá kom babb í bátinn. Fyrirtækið Míla var ekki tilbúið að leggja ljósleiðara um Mosfellsdal vegna þess að það þótti ekki hagkvæmt og ekki bissness fyrir fyrirtækið þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar að það skyldi leggja ljósleiðara um allt bæjarfélagið og viljayfirlýsingu þar um. Var brugðið á það ráð að sækja um dreifbýlisstyrk til Fjarskiptasjóðs til að fjármagna verkefnið í ljósi átaksins „Ísland ljóstengt“. Fékkst styrkur sem miðast af því að þeir sem ekki hafa kost á því að tengjast ljósneti gætu fengið styrk.

Efla verkfræðistofa var fengin í það að skipuleggja verkefnið og komast að því hverjir væru styrktarhæfir og hverjir ekki. Virðist vera að þeirra vinna hafi verið fólgin í því að fara inn á heimasíðu Mílu og slá inn heimilisföngum hverjir gætu hugsanlega tengst ljósneti og hverjir ekki og niðurstaða fengin samkvæmt því með frekar óvísindalegum niðurstöðum.
Niðurstaða bæjarfélagsins var sú að þeir sem væru styrktarhæfir greiddu 125 þúsund og óstyrktarhæfir greiddu 375 þúsund krónur til að fá ljósleiðara. Míla mátti svo sjálft velja eftir eigin geðþótta úr þau heimili sem gátu fengið tengingu á lægra gjaldinu burt séð hvort styrkur fengist eða ekki. Nú spyrja margir af hverju ættu íbúar Mosfellsdals að greiða eitthvað umfram aðra sérstaklega í ljósi þess að allir aðrir íbúar greiddu ekki neitt, en svona er nú að vera olnbogabarn Mosfellsbæjar.

Mikil áhersla var lögð á það af hálfu íbúafélagsins Víghóls að bæjarfélagið sem hafði yfirumsjón og var ábyrgðaraðili að framkvæmdinni framkvæmdi þetta allt í nánu samstarfi við íbúa og íbúasamtökin. Ekki er hægt að segja að það hafi verið gert með nokkrum hætti og allar ákvarðanir teknar í reykfylltu bakherbergi og svo að lokum tilkynnt hvernig þetta ætti allt saman að vera.
Það sjá það allir að hér er ekki um opið og sanngjarnt ferli að ræða og samkvæmt skoðanakönnun sem íbúafélagið gerði á meðal íbúa þá hefðu þeir sjálfir kosið, af því á annað borð væri gjaldtaka, að þá yrði hún jöfn og sama greiðsla sem öll heimili greiddu jafnt.
Einnig vildi fólk að Mílu hefði ekki verið gefið opið leyfi að bjóða eftir eigin geðþótta betri kjör á tengingu til einstakra heimila. Þetta endurspeglar heilbrigðan hugsunarhátt hjá íbúum Mosfellsdals sem er að skipting á einhverjum gæðum skuli skipt með jöfnum og réttlátum hætti á milli allra íbúa dalsins.

Eins og ferlið var framkvæmt þá er það allt mjög ámælisvert og allt til þess fallið að skapa sundrung á meðal íbúa. Hið gagnstæða gerðist hins vegar sem var að þetta þjappaði fólki frekar saman í því að fordæma svona vinnubrögð og munum við leggja mikla áherslu á í framtíðinni að allar ákvarðanatökur verði gerðar í sátt og í samvinnu við íbúa í gegnum íbúasamtökin.
Já, gott fólk! Það er þess vegna sem það er best að búa í Mosfellsbæ. Það er vegna þess að íbúar Mosfellsdals- og bæjar er gott og réttlátt fólk og niðurstöður allra kannana um hvar best er að búa hefa bara alls ekkert með bæjaryfirvöld eða pólitíkusa að gera.

Guðmundur Hreinsson
Greinarhöfundur situr í stjórn Víghóls íbúasamtaka Mosfellsdals.