Við erum öll áhrifavaldar!

Ólöf Kristín Sívertsen

Flestallt sem við segjum og gerum hefur áhrif á okkur sjálf og einnig þá sem eru í kringum okkur. Því er mikilvægt að við vöndum framkomu okkar, verum meðvituð í samskiptum og gleymum því aldrei að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Reynum að forðast það eftir fremsta megni að dæma fólk því við vitum nefnilega sjaldnast alla söguna.

Félagsleg tengsl
Margar rannsóknir hafa verið gerðar í því skyni að finna út hvers vegna sumir lifa lengur og betur en aðrir. Má þar m.a. nefna hin svokölluðu „Bláu svæði“ (e. Blue Zones) í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa íbúa virðast haldast í hendur. Sýnt hefur verið fram á að þar spili félagsleg tengsl hreinlega stærsta hlutverkið. Þetta hafa íslenskar rannsóknir einnig sýnt okkur, þ.e. að góð félagsleg tengsl, gæði sambands við fjölskyldu og vini og samvera foreldra og barna segi best til um hamingju.

Samskiptahæfni
Góð samskipti eru lykill að jákvæðum tengslum sem gera lífið innihaldsríkara og gleðilegra. Samskiptafærni okkar er því mjög mikilvæg þegar kemur að uppeldi, ástarsamböndum, samstarfi ýmiss konar og hreinlega öllu því sem snýr að mannlegum tengslum. Við verðum að geta sett okkur í spor annarra, hugsað á lausnamiðaðan hátt, rökrætt á málefnalegum grunni, leyst ágreining á farsælan hátt og miðlað málum. Forðumst hegðun, viðmót og orð sem við myndum ekki vilja verða fyrir sjálf.

Samskiptaboðorðin
Samskipti geta verið alls konar, þau geta t.d. verið gefandi, nærandi, eflandi, slítandi, óútreiknanleg, niðurbrjótandi, meiðandi, ástrík og þakklát. Hvernig sem þau eru þá hafa þau mikil áhrif á líf okkar, hvernig okkur líður og jafnvel hvernig okkur farnast í lífinu. Samskiptaboðorðin eru runnin undan rifjum Aðalbjargar Stefaníu, á Heilsustofnun NLFÍ, og er þeim ætlað að efla þekkingu almennings á nærandi og eflandi samskiptum. Boðorðin eru þessi:
1) Horfa – náðu blíðu augnsambandi til að skapa traust og áhuga.
2) Heilsa – heilsaðu og brostu með augunum. Slíkt sýnir umhyggju, eflir sjálfstraust og öryggiskennd.
3) Hlusta – notaðu virka hlustun og lestu ekki eingöngu í orðin heldur líka hegðun og líkamstjáningu. Sýndu einlægan áhuga og virðingu.
4) Hljóma – notaðu hlýlegan tón og blæbrigði, slíkt eykur sjálfsvirðingu og vellíðan.
5) Hrósa – hrósaðu einlæglega til að styrkja jákvæða hegðun.
6) Hjálpa – vertu til staðar þegar fólk þarfnast þín, slíkt sýnir umhyggju og byggir upp gagnkvæmt traust, vellíðan og öryggi.
Komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Verum jákvæðir áhrifavaldar í eigin lífi og annarra og látum gott af okkur leiða, ávinningurinn er okkar allra!

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ