Hvernig er heilsugæslan mín og hver passar upp á heilsu mína?

Una María Óskarsdóttir

Nú þegar vonandi fer að líða að því að við Íslendingar getum farið að lifa eðlilegra lífi, hugsa ég til margs sem kófið hefur haft í för með sér.
Að mörgu leyti höfum við Íslendingar haft það gott og betra en aðrar þjóðir. Margt mætti þó gagnrýna eins og hæga viðspyrnu við efnahagsvanda þjóðarinnar, lélegt aðstreymi bóluefnis og lítil sem engin viðbrögð við versandi líðan og heilsu fólks. Hér hafa skólar verið opnir, enda þekkjast síður dæmi um mikil alvarleg veikindi barna vegna veirunnar. Sömu sögu er ekki að segja t.d. frá Bandaríkjunum þar sem barnafjölskyldur hafa tekið sig upp og flutt á milli fylkja í þeim eina tilgangi að börnin þeirra kæmust í skóla og fengju menntun eftir árs lokun.
Þrátt fyrir minni takmarkanir hér á landi en víða í mörgum öðrum löndum, þá er hér vaxandi atvinnuleysi og fólk býr við einsemd og vanlíðan sem sumt má skrifa á afleiðingar kóvids. Bæði eldra fólk og yngra hefur einangrað sig og forðast samneyti við aðra. Það leiðir hugann að því hvort þetta fólk leiti síður til læknis en þeir sem svo er ekki ástatt um?
Hvernig er aðgengi að læknum og þjónustu hjá heilsugæslunni í heimabyggð? Heilsugæslan í Mosfellsbæ heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er nú komin í nýtt húsnæði. Því miður hafa þær sögur gengið að löng bið hafi verið eftir tíma hjá lækni. Það leiddi án efa til þess að einhverjir skráðu sig á aðrar heilsugæslustöðvar sem ekki eru í heimabyggð. Má þar nefna Höfða í Reykjavík eða í Urðarhvarfi í Kópavogi. Kenni fólk sér meins er bið óboðleg og skaðleg. Vonandi verða breytingar til batnaðar og ber að fagna nýrri heilsugæslustöð við Sunnukrika í Mosfellsbæ.
Mér virðist blasa við að endurskipuleggja þurfi heilbrigðisþjónustuna að einhverju leyti þar sem búast má við að þegar kófinu slotar muni fleiri þurfa þjónustu og einnig sérhæfðari þjónustu. Heilsugæslan er skilgreind sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þar vill fólk geta fengið þjónustu síns læknis eða sinna lækna og myndi án efa auka líkurnar á því að rétt greining fengist sem fyrst.
Það er einnig umhugsunarvert hvort inn í kerfið eigi ekki að vera innbyggt ríkara eftirlit/eftirfylgni með sjúklingum en nú virðist raunin. Ef einstaklingur fer t.d. í uppskurð þar sem mein er fjarlægt, væri þá ekki eðlilegt að honum yrði fylgt eftir næstu árin ef einhverjar líkur væru á upptöku meinsins? Auðvitað eigum við sjálf að fylgjast með heilsu okkar eins vel og við getum. Leita aðstoðar fyrr en seinna enda skilar það betri andlegri og líkamlegri heilsu. Það er eðlileg krafa að aðgengi að þjónustu heilbrigðisstarfsfólks sé gott, vel sé hlustað á sjúkrasöguna og að bið eftir sérfræðilækningum verði ekki til skaða.

Una María Óskarsdóttir
uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur
varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi