Grænn Mosfellsbær í fremstu röð

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Í Mosfellsbæ hefur íbúafjölgun orðið hvað mest á meðal allra sveitarfélaga á landinu enda kostirnir við að búa í Mosfellsbæ augljósir.
Hér er gott að ala upp börn því Mosfellsbær heldur vel utan um börnin sín. Hér eru framúrskarandi leik- og grunnskólar, fjölbreytt og gott íþrótta – og tómstundastarf og síðast en ekki síst mikil tenging við náttúruna.
Fólk sem flytur í Mosó veit að hér svífur sveita­rómantíkin yfir vötnum í þessu heimilislega samfélagi þar sem nær allir þekkjast. Bærinn hefur í áraraðir verið meðal þeirra sveitarfélaga sem mælast í könnunum með mesta ánægju íbúa og hefur þessi hraða íbúafjölgun ekkert dregið úr ánægjunni.

Blómstrandi mannlíf
Með þéttingu byggðar á miðbæjarsvæði og í nýjum miðbæjargarði vonumst við til þess að geta laðað til okkar veitingahús og fleiri fyrirtæki því blómstrandi mannlíf, íbúafjölgun, fjölgun fyrirtækja og bætt þjónusta haldast í hendur. Mosfellsbær er grænn bær í sókn sem vill fá til sín fyrirtæki sem veðja á græna nýsköpun og þjónustu.
Framtíðartækifærin felast í sterkri tengingu við náttúruna og er Mosfellsbær þar fremstur í flokki sveitarfélaga hvað þau tækifæri varðar. Tækifæri í sjálfbærri matvælaframleiðslu eru hér allt í kringum okkur og er draumurinn að hér verði öflugur bændamarkaður í bland við matarupplifun, jafnvel í mathöll sem enga á sér líka. Matarupplifun í bland við menningu og listir er eftirsóknarverð upplifun fyrir alla fjölskylduna.

Græna byltingin er hafin
Vitað er að tækniþróun og COVID-19 hafa breytt hugmyndum okkar um það hvar störfin eiga að vera staðsett. Í dag skiptir fjarskiptasambandið meira máli en staðsetning starfsins. Tæknibyltingin fæðir af sér nýsköpun og leiðir okkur á nýjar brautir til þess að sjá tækifæri í að nýta það sem náttúran gefur á sjálfbæran hátt.
Það er von okkar að fyrirtækjaeigendur og frumkvöðlar vilji taka þátt í að byggja upp öflugt hringrásarhagkerfi til framtíðar. Mosfellsbær er rétti staðurinn til að vinna, búa og njóta, allt á sama stað. Græna byltingin er hafin og er Mosfellsbær virkur þáttakandi í henni. Þetta styður umhverfisstefna og framtíðarsýn Mosfellsbæjar.

Komdu út að leika
Mosfellsbær og náttúran er stórt leiksvæði fyrir fólk á öllum aldri. Hér er allt til að njóta hreyfingar og öll aðstaða hin besta hvort sem fólk vil hlaupa, ganga eða synda í sundlaugum eða Hafravatni. Mosfellsbær vill verða miðja hjólreiðafólks sem hjólar frá Gróttu til Esjuróta. Við viljum bjóða til okkar hlaupurum, göngufólki og golfurum á öllum aldri til æfinga á fellum, völlum og opnum svæðum. Þetta smellpassar inn í nútímafjölskylduna því lífsstíll fólks hefur breyst mikið á fáum árum og hefur græna byltingin haft sitt að segja en einnig leit fólks að afþreyingu á tímum heimsfaraldurs.
Rafmagnsbílar, hjólastígar, góðar almenningssamgöngur ásamt styrkingu hringrásarhagkerfisins eru hluti af verndun umhverfis og eftirsóknarverður lífsstíll fyrir nútíma fólk. Mosfellsbær vill verða í forystu í þessum flokki og verða fyrsta val fólks sem kýs heilsusamlegan og nútímalegan lífsstíl. Þetta er m.a. mín framtíðarsýn og býð ég mig fram til að leiða Mosfellsbæ áfram til forystu.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Lista- og menningarfélag Mosfellinga

Davíð Ólafsson

Menning er hluti af hinu daglega lífi og skilgreiningar á menningu eru margar og jafnvel ólíkar.
Menning er mjög vítt hugtak sem tekur til nær allra þátta samfélagsins. Í okkar huga er menning þeir þættir sem einkenna samfélag okkar.

Hér í Mosfellsbæ eru margir kórar þar sem fólk kemur saman og syngur, hér eru göngu- og hlaupahópa, hópar eldri og yngri sem hittast, lesa, prjóna eða föndra saman. Starfandi félagasamtök eru mörg og ólík og hér búa og starfa margir og ólíkir listamenn og þessir hópar einkenna Mosfellsbæ.

Hópur Mosfellinga hefur áhuga á stofnun Lista- og menningarfélags Mosfellinga.
En áður en við stofnum félagið viljum við fá ykkur með okkur til að móta tilgang og hlutverk félagsins. Til að byrja með ætlum við að vera með hugarflugsfund fimmtudaginn 20. janúar og í framhaldi er fyrirhugaður stofnfundur félagsins þann 02.02.2022. Upplýsingar um staðsetningu hugarflugsfundarins verða í næsta Mosfellingi.

Okkar hugmynd með Lista- og menningarfélaginu, sem er ópólitískt, er að efla menningar- og listastarfsemi í Mosfellsbæ og stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi bæjarins.
Kæru Mosfellingar við vonum að þið takið vel í þessa tillögu okkar og verðið með í að efla til muna lista- og menningarlíf okkar Mosfellinga í Mosfellsbæ.

Davíð Ólafsson

Mosfellsbær – uppbygging á miðbæjarsvæði

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er ört stækkandi sveitarfélag enda eftirsóknarverður búsetukostur fyrir margra hluta sakir.
Byggðakjarnar sveitarfélagsins eru skipulagðir með það að leiðarljósi að auðvelda aðgengi íbúanna að hvers kyns þjónustu og áhersla lögð á fjölbreytt búsetuform. Uppbyggingin mun halda áfram jafnt og þétt á komandi árum, meðal annars í miðbæ Mosfellsbæjar sem er í uppbyggingu og er að taka á sig skýrari mynd.
Til þess að skapa gott fjölbreytt miðbæjarlíf þarf að vera til staðar öflug og fjölbreytt verslun, þjónustufyrirtæki auk íbúðarhúsnæðis og fallegt umhverfi sem laðar að sér íbúa og gesti bæjarins.

Almenningsgarður í miðbæ Mosfellsbæjar
Í miðbæ Mosfellsbæjar er samkvæmt gildandi deiliskipulagi gert ráð fyrir 5.000 fermetra svæði í Bjarkarholti í miðbæ Mosfellsbæjar fyrir almenningsgarð sem hugsaður er sem grænt svæði til útivistar og upplifunar fyrir íbúa Mosfellsbæjar og gesti þeirra. Ásýnd svæðisins er ætlað að verða aðlaðandi og spennandi kostur til að njóta samveru í fallegu umhverfi. Samþykkt var nýlega í bæjarráði að efna til opinnar hugmyndasamkeppni í janúar á næsta ári um miðbæjargarðinn. Samkeppnisferlið mun taka nokkrar vikur og er áætlað að kynna niðurstöður úr samkeppninni á sumardaginn fyrsta eða 21. apríl 2022.

Bryndís Brynjarsdóttir

Í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir garðinn er gert ráð fyrir byggingu og útisvæði fyrir veitingasölu/kaffihús. Þessi garður verður frábær viðbót við miðbæ Mosfellsbæjar og tilvalinn vettvangur fyrir íbúa og gesti þeirra til að njóta útiveru og hreyfingar í fallegu og lifandi miðbæjarumhverfi. Hugmyndasamkeppninni er ætlað að kalla fram skapandi og skemmtilegar hugmyndir um útfærslur garðsins.

Áframhaldandi uppbygging við Bjarkarholt
Uppbygging húsnæðis í miðbænum við Bjarkarholt heldur áfram og ber þar hæst að nefna fyrirhugaða byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara sem tengjast munu núverandi byggingum og þeirri starfsemi sem fyrir er á Hlaðhömrum. Auk þjónustuíbúðanna verður einnig byggt rými fyrir félagsþjónustu eldri borgara í Mosfellsbæ. Eldri borgurum fjölgar og þessi viðbót er því kærkomin og mun hún auka þjónustuna til muna fyrir þennan aldurshóp í Mosfellsbæ.

Uppbygging á fleiri svæðum á miðsvæði Mosfellsbæjar
Á miðbæjarsvæði Mosfellsbæjar er einnig fyrirhuguð áframhaldandi uppbygging í Sunnukrika. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum og að skrifstofur eða íbúðir verði á efri hæðum eins og þekkist í Sunnukrika 3 sem búið er að byggja. Einnig mun Mosfellsbær úthluta lóðum á næstu misserum í landi Hamraborgar fyrir neðan Olís þjónustustöðina. Þar er verið að þétta byggð og á því svæði verða byggð tvö fjölbýlishús auk einbýlis- og raðhúsa.
Að lokum ber að nefna að samningar um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra milli ríkis og Mosfellsbæjar eru í vinnslu og kveða þeir á um að byggð verði 44 ný rými við hjúkrunarheimilið og leysa þau úr brýnni þörf fyrir fleiri slík rými. Það er ljóst að uppbygging á miðsvæði Mosfellsbæjar mun halda áfram af krafti næstu misseri sem tryggir fallegan, lifandi og skemmtilegan miðbæ með fjölbreyttri þjónustu, og fallegu umhverfi með miðbæjargarðinn sem hjarta svæðisins.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varaformaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.

Jólakveðja frá Framsókn

Halla Karen Kristjánsdóttir

Hógværð, mildi og mannúð
Dýrmætustu gjafirnar
sem þú getur gefið
eru falleg orð og gjörðir
samúð og fyrirgefning
þakklæti, skilningur
viðurkenning og kærleikur

Steinunn Valdimarsdóttir

Kæru Mosfellingar
Lífið er dýrmæt gjöf. Hver dagur hefur sín ævintýri. Enginn dagur er eins, sumir eru mjög venjulegir, aðrir kannski smá öfugsnúnir og erfiðir og enn aðrir spennandi með fullt af skemmtilegum uppákomum. En allir þessir dagar eru lífið okkar og móta okkur. Við þurfum þó alltaf að vera að minna okkur á að staldra aðeins við, njóta lífsins og muna eftir smáu atriðunum. Vöndum líka alla framkomu og hvað við segjum við aðra sem og okkur sjálf. Umhyggja og hlýleg orð geta skipt sköpum. Hafið það sem allra best núna, í gær, á morgun, um jólin og bara alltaf.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla, hamingju og hreysti á nýju ári.

Með jólakveðju, Framsókn í Mosfellsbæ.

Halla Karen Kristjánsdóttir formaður

Vetrarsólhvörf

Bjarki Bjarnason

Þessi dægrin liggur sól lægst á lofti, skammdegið er mikið en um leið er eitt fullvíst: „Dagarnir lengjast og dimman flýr í sjó“ svo vitnað sé í þekkt vorkvæði. Orðið „sólhvörf“ getur bæði merkt þau tímamót þegar daginn tekur að lengja og stytta, hvorttveggja minnir okkur á hverfulleika lífsins og hringrás tímans. Jól og áramót eru einmitt sá tími þegar við lítum í senn til ársins sem er á förum og þess nýja sem mætir okkur.
Árið sem kveður brátt hefur verið einstakt fyrir margra hluta sakir, heimsfaraldur geisar enn og aldrei mikilvægara en núna að gæta hvert að öðru og okkur sjálfum. Íslenskt samfélag hefur borið gæfu til að bregðast skjótt við breyttum sviðsmyndum sem blasa sífellt við okkur. Oft þarf að taka íþyngjandi og umdeildar ákvarðanir fyrir ýmsar starfsstéttir og almenna borgara sem hafa sýnt mikla þrautseigju og sveigjanleika í baráttunni við hinn skæða vágest.
Á þessu miklu óvissutímum hefur Mosfellsbær lagt allt kapp á að skila hallalausum rekstri og um leið að verja grunnþjónustuna við íbúa. Sá mannauður sem Mosfellsbær býr yfir hefur skipt sköpum við þessar óvenjulegu aðstæður og starfsfólk bæjarins hefur þurft að endurskipuleggja starfshætti sína.

Bryndís Brynjarsdóttir

Náttúruöflin létu líka að sér kveða á árinu 2021 og „hin rámu regindjúp“ létu rækilega í sér heyra. Nú er gosinu í Geldingadölum „formlega“ lokið en um leið vitum við að jörðin okkar sefur aldrei – aldrei alveg – og minnir okkur á að það er skylda okkar allra að hlúa betur að móður Jörð, já miklu betur.
Kæru Mosfellingar. Vetrarsólhvörf eru nýgengin hjá, hækkandi sól blasir við. Við viljum þakka bæjarbúum góð samskipti á árinu sem kveður senn og óskum ykkur öllum gleðilegra friðarjóla og farsældar á nýju ári.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi V-lista.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi V-lista.

Konur eru líka öflugar

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Undirbúningur sjálfstæðismanna til sveitastjórnarkosninga í vor eru nú í fullum gangi. Margir ólíkir einstaklingar með ólíkar skoðanir gefa kost á sér sem mér finnst mjög jákvætt því það leiðir til fjölbreyttra hugmynda um hvernig hægt sé að gera Mosfellsbæ að betri bæ til að búa í, þótt gott sé að búa þar í dag og óvíða betra.

Ég hef alltaf haft áhuga á bæjarmálum, hef í fjögur ár verið varaformaður Umhverfisnefndar fyrir Mosfellsbæ á þessu kjörtímabil, þessi tími hefur verið lærdómsríkur og bara eflt minn áhuga á að taka áframhaldandi þátt með því að gefa aftur kost á mér fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Ég hélt að ég hefði ekki nægjanlega reynslu eða þekkingu að starfa í bæjarmálum en það lærist hvernig stjórnsýslan virkar og þau sem reyndari eru hafa verið mjög hjálpsöm. Það er nefnilega með okkur konurnar að við erum oft sjálfar duglegastar að draga úr okkur kjarkinn og höldum að við séum ekki nægilega hæfar.

Við þurfum ekki að kunna allt eða hafa þekkingu á öllu til að taka áskorunum heldur lærum við af öðrum reynsluboltum sem hafa starfað á þessum vettvangi, mér finnst að við konur ættum að vera duglegri að ögra okkur sjálfum og sýna hver annari meiri stuðning í daglegu lífi, hvort sem það er innan veggja heimilisins, í vinnu eða komandi kosningum.

Við getum gert bæinn okkar enn betri, bæ sem fólk vill búa í til frambúðar og það er svo sannarlega gott að búa í Mosfellsbæ. Hér er frábært að ala upp börnin sín og einnig fyrir börn að alast upp, fullyrðir dreifbýlistúttan ég, Kristín Ýr, sem naut þess að alast upp í litlu þorpi út á landi. Mér finnst Mosfellsbær einmitt vera eins og lítill bær út á landi, stutt er í náttúruna, frábærar gönguleiðir, frábært íþróttastarf fyrir alla og nánd við nágrannana. Nú hvet ég allar konur til að velta þessum hlutum fyrir sér, skrá sig í flokkinn og flykkjast á kjörstað og sýna í verki að við konur getum líka gert gagn, við sjáum oft hlutina í öðru ljósi, við erum kröftugar, við erum sannar, þó svo að ég geri ekki lítið úr karlmönnunum sem starfa í bæjarmálunum hér.

Það er mín skoðun að konur ættu að fá meira vægi í stjórnmálum almennt. Ég tók ákvörðun fyrir nokkuð mörgum árum að ég ætla aldrei að hallmæla öðrum konum, ég ætla að ögra sjálfri mér, hafa þor til að taka ákvarðanir, þor til framkvæmda, kynnast nýju fólki og taka fólki eins og það er og mynda mér skoðanir um fólk þegar ég hef kynnst því en halda samt sem áður áfram að vera ég sjálf.
Ég er nefnilega mamma, eiginkona, vinkona og mig langar að geta gert gagn í bæjarmálum hér í Mosfellsbæ. Þess vegna býð ég mig fram í þriðja sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn þann 5. febrúar næstkomandi.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Jólakveðja

Anna Sigríður Guðnadóttir

Bæjarstjórn er nú komin í jólafrí og lítið að frétta úr bæjarpólitíkinni. Búið að afgreiða fjárhagsáætlun og komin tími á jólaundirbúning og jólagleði.
Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar í maí og ef að líkum lætur færist fjör og líf í bæjarmálin og stjórnmálaumræðu þegar kemur fram á nýja árið. Það eru mörg verkefnin sem sinna þarf í sveitarstjórn og margs konar stefnumótun sem þarf að fara fram eða endurskoða.
Skólamálin eru og eiga alltaf að vera efst á baugi enda leggur það starf sem þar er unnið grunninn að framtíð og farsæld unga fólksins okkar. Getur við gert betur í skólamálum? Já, það teljum við. Við þurfum að leggja aukna áherslu á að búa vel að skólunum okkar og gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla það faglega starf sem þar er unnið. Getum við gert betur í fjölskyldumálum? Já, það teljum sannarlega. Við þurfum að búa betur að þeim sem eiga undir högg að sækja, við þurfum að fjölga félagslegum íbúðum til að standast samanburð við nágrannasveitarfélög okkar og við þurfum að sinna betur eldri borgurum. Getum við gert betur í skipulagsmálum? Já, það teljum við. Við verðum að gæta þess að jafnvægi haldist í uppbyggingu bæjarins okkar, að ímyndin um sveit í bæ glatist ekki. Getum við gert betur í umhverfismálum? Já, sannarlega getum við það, t.d. með því að leggja áherslu á loftslagsmál sem eru mikilvægustu mál framtíðarinnar. Getum við gert betur í íþrótta- og tómstundamálum, menningarmálum, lýðræðis- og mannréttindamálum? Já, við getum það.

Ólafur Ingi Óskarsson

Við eigum að gera betur í öllum þessum málaflokkum. Efla faglegt starf nefnda bæjarins og efla tækifæri bæjarbúa til þátttöku í stefnumótun og samtali um framþróun í bæjarmálunum. Alla þessa þætti þarf að ræða í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
En núna er tími til að njóta samveru og helgi jólanna. Vonandi auðnast okkur öllum að halda gleðileg jól með fjölskyldu og vinum óáreitt af veiruskömminni. Bestu óskir um gleðiríka jólahátíð.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Jólagjöfin í ár

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er sá árstími þar sem margir eru að brjóta heilann um hvað skuli gefa í jólagjafir. Slíkt getur stundum verið þrautin þyngri þar sem mörg okkar eiga nóg af alls konar.
Fæstir vilja hvorki gefa né fá óþarfa og þá er bara að leggja höfuðið í bleyti.

Loftslagsvænar jólagjafir
Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um náttúruvernd og loftslagsmálin ber oft á góma. Fyrir síðustu jól kom loftslagshópur Landverndar með margar snilldarhugmyndir að loftslagsvænum jólagjöfum.
Það er t.d. hægt að gefa eitthvað matarkyns eins og heimagert konfekt, sultur, smákökur, uppskrift og allt sem í hana þarf o.fl. List eða handverk á alltaf við, s.s. eitthvað prjónað eða heklað, ljóð og/eða lag, teikning, málverk o.s.frv. Upplifun og samvera er að sjálfsögðu á listanum ásamt áskriftum að blöðum, menningarkortum o.fl.
Þeir sem vilja kynna sér hugmyndir þessa hóps geta kíkt í á þessa slóð á vefsíðu Landverndar: https://landvernd.is/grasrot-loftslagsvaenar-jolagjafir/

Samvera í jólapakkann
Því ekki að gefa samveru í jólagjöf? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að það að eiga í góðum félagslegum samskiptum sé einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að lifa löngu, heilbrigðu og gleðiríku lífi. Slíkt rímar sannarlega við orðatiltækið um að maður sé manns gaman! Hægt er að gefa alls kyns samveru, miseinfalda og í öllum verðflokkum.
Hvernig væri t.d. að bjóða í mat, kaffi eða/og göngu, brydda upp á spilakvöldi, heimsækja safn, elda eða baka saman, fara í ísbíltúr eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug?
Þeir sem vilja fara alla leið geta líka gefið samverudagatal sem nær til lengri tíma, jafnvel fram til næstu jóla. Hægt væri t.d. að fara í göngutúr í janúar, hafa spilakvöld í febrúar, kaffiboð í mars o.s.frv. Ég get allavega lofað ykkur því að hvers kyns samvera mun alltaf slá í gegn!

Þegar fólk hefur verið spurt hvað sé það allra besta við jólin þá eru langsamlega flestir sammála um að það sé einfaldlega samveran með fólkinu sem stendur þeim næst. Góður matur, stemmingin, kærleikurinn, gleðin og þakklætið sem einkennir þessa hátíð ljóss og friðar koma þarna einnig við sögu.

Að þessu sögðu þá óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og vonum að þið njótið þeirra vel í faðmi þeirra sem ykkur þykir vænst um.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Eilíf hækkun launa íslensku elítunnar – Æðstu embættismannanna

Sveinn Óskar Sigurðsson

Á ensku talað um „conflict of interest,“ þ.e. þegar atvik valda því hagsmunir aðila rekast á. Einn aðilinn getur verið sá sem hefur umboðið (e. agent) og hinn umboðsveitandinn (e. principal). Það kann að vera að hagræðing sé því að veita einhverjum umboð. Hvað getur gerst þegar umboðsveitandinn er ekki viðstaddur, farið er út fyrir umboðið og svik eru í tafli?
Í dómum sem hafa fallið frá hruni íslenska fjármálakerfisins, sem skall á 2008, hefur verið dæmt í umboðssvikamálum. Þá hafa fallið dómar sem varða refsingu ef sá sem umboðið hafði, umboðsþeginn, fór út fyrir umboðið. Með störfum margra er fólgið umboð, þ.e. stöðuumboð. Einnig eru menn með umboð í tengslum við störf sín, sbr. störf lögmanna, starfsmanna í stjórnkerfinu sem innan fjármálakerfisins og víðar.
Í kosningum veitum við kjörnum fulltrúum umboð. Þá er um að ræða pólitískt umboð og leggja stjórnmálamenn og flokkar fram stefnu sína fyrir hverjar kosningar og eru svo dæmdir af verkum sínum síðar í næstu kosningum. Þar sæta stjórnmálamenn sinni pólitísku ábyrgð. Margir ákveða reyndar að þeirra staða sé orðin það veik að þeir ákveða fyrir fram að yfirgefa pólitíska sviðið og tilkynna í tíma að þeir bjóði sig ekki aftur fram.
Þegar kjörnir fulltrúar eru ráðnir til starfa stöðu sinnar vegna, þ.e. þegar þeir ná meirihluta, eru þeir orðnir hluti stjórnkerfisins, þ.e. framkvæmdastjórnar í sveitarfélögum eða innan framkvæmdavaldsins, ráðherrar. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga, oft nefndir bæjarstjórar, eru þá orðnir bæði stjórnmálamenn og starfsmenn, þ.e. embættismenn. Vandinn við slíkt fyrirkomulag hefur m.a. leitt til þess að félagar þeirra, sem síðar vænta þess að ná sömu vegsemd, eru þeir hinir sömu og samþykkja ráðningarsamning viðkomandi bæjarstjóra. Þar eru laun oft mjög há og eins og fyrir hrun fjármálakerfisins er það réttlætt með því að annan eins snilling sé ekki að finna í bæjarfélaginu, nú eða í landinu.
Einnig er fullyrt að viðkomandi sæti svo mikilli ábyrgð að háu launin réttlæti það, eftir atvikum kaupréttir og önnur vildarkjör. Einhverjir sækjast eftir að fá einhvern í starfið sem hentar, einhvern sem spilar með. Í upphafi þessa kjörtímabils í Mosfellsbæ samdi meirihlutinn við bæjarstjórann um laun sem eru miðuð við laun ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Hvað hékk á spýtunni?
Á kjörtímabili sitjandi sveitarstjórna á Íslandi í dag féllu brott lög um kjararáð. Laun ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu hækkuðu skömmu síðar, og þar með bæjarstjórans í Mosfellsbæ, um sem nemur 114.510 krónur eftir áramótin 2019 og 2020 og fóru þá í 1.932.203 á mánuði. Varð forseta lýðveldisins þá svo um að hann ákvað að afþakka hækkun sína en um það má lesa í frétt í Fréttablaðinu 8. apríl 2020.
Talnakönnun gaf út skýrslu fyrir Félag forstöðumanna ríkisstofnana, sem birt var í mars sl. Þar kom fram að launaþróun ráðuneytisstjóra hefur hækkað umtalsvert umfram forstöðumenn og nokkuð umfram launavísitölu. Sjá má samkvæmt þessu að skattgreiðendur eru að hanna hér á landi nýja elítu embættismanna og kjósa yfir sig kostnað ár frá ári. En sæta þessir aðilar ábyrgð?
Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins 24. ágúst sl. er fullyrt að laun bæjarstjórans í Mosfellsbæ séu komin í um eða yfir 2.141.000,- krónur á mánuði. Regluleg mánaðarlaun, skv. Hagstofu Íslands, námu árið 2020 um kr. 480 til 749 þúsund, regluleg laun í fullu starfi að meðaltali um kr. 670 þúsundum.
Umboðsvandinn leynist víða og veldur skattgreiðendum tjóni ár eftir ár þar sem frændhygli, vinavæðing og undirlægjuháttur óbætanlegu tjóni. Breytum þessu í næstu kosningum.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Kjósum rétt á komandi ári.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ

Sá elsti og virtasti

Kjartan Helgi Ólafsson

Kæru Mosfellingar. Nú hefur Framsóknarflokkurinn legið í dvala hér í bænum okkar svo árum skiptir sem er afar miður fyrir okkar bæjarfélag.
Það fer nefnilega ekkert á milli mála að grunngildi flokksins, sem skilað hafa þjóðinni þessum mikla árangri á landsvísu, hafa átt undir högg að sækja hér í Mosfellsbæ.

Þetta sést bersýnilega á morgnana þegar umferðarteppan er hvað mest, þar sem flest allir flykkjast í Reykjavík eða nærumhverfi til að sækja atvinnu. Erfitt hefur reynst fyrir ungt fólk að setjast hér að vegna skorts á húsnæði fyrir fyrstu kaupendur. Lítil fjölbreytni er í atvinnustarfsemi. Stórar ákvarðanir hafa verið teknar í tráss við vilja lykilaðila. Framtíðarsýn skortir í skipulagsmálum. Hér er einfaldlega tækifæri til að gera betur.

Við í unga armi Framsóknar fáum ekki betur séð en að rótgróin stefnumál elsta og virtasta flokksins eigi töluvert erindi hér, ­þ.e.a.s. skynsöm byggðastefna og bættar samgöngur, metnaðarfull atvinnusköpun og loks virkt samráð.

Leifur Ingi Eysteinsson

Til þess að stuðla að atvinnusköpun verða svo auðvitað að vera til staðar skilyrði svo einkaframtakið geti fært út kvíarnar, í þeim efnum eru uppi mörg tækifæri til að gera betur með ýmsum ívilnunum til að laða að fyrirtæki.

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í nýafstöðnum kosningum á landsvísu og við ætlum okkur að sjálfsögðu að fylgja fast á eftir í komandi sveitarstjórnarkosningum. Nú er undir okkur bæjarbúum komið að tryggja veru sáttasemjarans í miðjunni hér í Mosfellsbæ.

Kjartan Helgi Ólafsson og Leifur Ingi Eysteinsson.
Höfundar eru ungir Framsóknarmenn og stjórnarmenn í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar

Nokkur orð um fjárhagsáætlun og kaffisopa

Anna Sigríður Guðnadóttir

Fjárhagslegt umhverfi sveitarfélaganna hefur einkennst af mikilli óvissu undanfarin 2 ár af orsökum sem við öll þekkjum.
Á covid-tímum varð reksturinn vandasamari og tekjur lækkuðu. En eins og fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2022 sýnir þá er fjárhagur sveitarfélagsins að komast á betra ról fyrr en menn töldu að væri mögulegt í upphafi faraldurs, tekjufallið er að skila sér hraðar til baka og tekjur að nálgast það sem var fyrir faraldur. Mosfellingum heldur áfram að fjölga og þar með skila sér auknar tekjur í kassann. En fjölgun íbúa fylgir líka aukin þjónustuþörf. Auðvitað er ýmislegt gott að finna í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem allir flokkar í bæjarstjórn geta skrifað undir. En fjárhagsáætlunin er ekki unnin í samstarfi og þ.a.l. hafa flokkar í minnihluta ekki tækifæri til að koma sínum áherslu­atriðum að.

Tíu dropa útsvarslækkun til heimabrúks
Áherslur í fjárhagsáætlun endurspegla pólitíska afstöðu þeirra stjórnmálaflokka sem hana leggja fram, þ.e. Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Lækkun útsvarsprósentu um 0,04 prósentustig frá leyfilegu hámarki er pólitísk aðgerð til að tikka í box skattalækkana hjá Sjálfstæðisflokknum og VG töltir með. Eins og við Samfylkingarfólk höfum margoft bent á skiptir þessi lækkun í raun engu máli fyrir einstaka útsvarsgreiðendur. Þannig heldur útsvarsgreiðandi sem er með 500.000 krónur á mánuði eftir aukalega 200 krónum sem duga fyrir kaffibolla á bensínstöðinni. Bæjarbúinn með 2.000.000 á mánuði getur farið í bakaríið og fengið sér kaffi og með því. Þetta smellpassar við hugmyndafræði sjálfstæðismanna.

Ólafur Ingi Óskarsson

Meirihlutinn ákveður nú sjötta árið í röð að innheimta ekki fullt útsvar. Árið 2022 þýðir það 24 milljónum minna í kassann. Lauslega reiknað eru það ríflega 100 milljónir sem meirihlutinn hefur afþakkað inn í rekstur bæjarins á þessum árum. Í ljósi þess að ábati einstakra útsvarsgreiðenda er lítill sem enginn telur Samfylkingin að í stækkandi sveitarfélagi hefði verið skynsamlegra og til ábata fyrir samfélagið í heild að nýta þessa fjármuni í brýn verkefni s.s. aukinn stuðning og sérfræðiþjónustu innan skólakerfisins, aukinn kraft í umhverfis- og loftslagsmálin eða til að auka stuðning við þau sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi, svo einhver dæmi séu nefnd.
Sveitarfélögin í landinu halda því fram með réttu að ríkið hafi ekki látið fylgja nægilega fjármuni með flutningi verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna. Má þar nefna grunnskólann og málefni fatlaðs fólks. Reyndar hefur komið fram í umræðunni að 9 milljarða vanti inn í málflokk fatlaðs fólks frá ríkisvaldinu. Á það er bent að tekjumöguleikar sveitarfélaganna séu mun takmarkaðri en ríkisvaldsins enda geta sveitarfélög ekki ákveðið nýja skatta eins og ríkið. Þannig séu sveitarfélögin að nýta fjármuni sem ættu að fara í annað til að halda upp lögbundinni þjónustu í þessum málaflokkum. Á móti þessum rökum hafa heyrst, m.a. frá framámönnum í ríkisstjórn Sjálfstæðismanna, VG og Framsóknar, að það sé holur hljómur í kröfum sveitarfélaganna um aukin fjárframlög þegar sveitarfélögin fullnýti ekki útsvarsheimildina. Við tökum undir þá skoðun framámanna ríkisstjórnarinnar því þegar öllu er á botninn hvolft þá koma fjármunir til þessara mikilvægu samfélagsverkefna alltaf af sköttum borgaranna.
Lækkun útsvars um 0,04 prósentustig er sýndarmennska í heimabyggð sem flækir málin í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Eigum við ekki öll rétt á að vera eins og við erum, eins ólík og okkur var ætlað að vera!

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Í litlu þorpi úti á landi þar sem ég er alin upp þá vorum við krakkarnir reglulega minntir á að kurteisi kostar ekkert. Einnig að taka tillit til annarra, þótt ólík séum.
Mér þótti þetta ægileg klisja þegar mamma mín sagði þetta við mig, en eftir að ég varð eldri þá skildi ég meininguna og hef alltaf lagt mig fram um að fara eftir þessu því eitt af höfuðgildum í mínu lífi er að koma vel fram við aðra og sýna þeim kurteisi, hlýju og kærleika.

Allir eiga rétt á að vera nákvæmlega eins og þeir eru og eiga að fá að blómstra á sínum forsendum. Sýnum öðru fólki virðingu, því fjölbreytileikinn geri okkur betri. Við verðum sterkara samfélag og betri bær fyrir vikið.

Hvers vegna eru sumir þannig að þeir þurfa alltaf að gera lítið úr öðrum og bera ekki virðingu fyrir fólki sem er ekki eins og þeir sjálfir? Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt viðhorfi okkar til annarra. Við eigum ekki að vera neikvæð heldur taka fólki eins og það er og sýna öllum virðingu og hlýju.

Erum við ekki á rangri braut ef okkur finnst við vera yfir aðra hafin og vera klárari en aðrir? Sýnum öðrum kærleika og tillitsemi því allt er þetta ákvörðun okkar sjálfra, hvernig við ætlum að koma fram, hvernig ætlum við að hafa daginn okkar, góðan, jákvæðan og skemmtilegan eða leiðinlegan, neikvæðan og fúlan.
Ef við reynum að horfa jákvæðum augum á það sem dagurinn ber í skauti sér og ákveðum að við ætlum að vera hamingjusöm þá mun dagurinn sannarlega verða betri.

Mig langar að vekja athygli á þessu þar sem mér finnst fólk of oft sýna öðrum óvirðingu, jafnvel niðurlægingu og skrifa ljóta hluti án þess að hugsa um hvaða afleiðingar það getur haft. Sýnum frekar öðrum tillitsemi og kurteisi. Reynum að sýna kærleika og brosa til ókunnugra því „bros getur dimmu í dagsljós breytt“.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Framsókn til framtíðar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Kæri sveitungi, eins og flestum íbúum Mosfellsbæjar er kunnugt þá verða sveitarstjórnarkosningar þann 14. maí 2022.
Spennandi tími er fram undan og hægt að hafa góð og mikil áhrif. Við framsóknarfólk ætlum okkur að sjálfsögðu að mæta sterk til leiks og höfum nú þegar hafið kosningaundirbúning. Það er tilhlökkun í okkar fólki og kominn tími til aðgerða og sóknar og gera góðan bæ enn betri.
Þann 17. ágúst sl. var haldinn aðalfundur Framsóknarfélags Mosfellsbæjar og ný stjórn kosin:
Stjórnin er þannig skipuð: Halla Karen Kristjánsdóttir formaður, Þorbjörg Sólbjartsdóttir varaformaður, Örvar Jóhannsson ritari, Kjartan Helgi Ólafsson gjaldkeri og Leifur Ingi Eysteinsson meðstjórnandi. Varamenn: Eygló Harðardóttir og Sigurður E. Vilhelmsson.
Á félagsfundi okkar 10. nóvember sl. var svo tekin ákvörðun um að við röðun á framboðslista okkar fyrir kosningarnar í vor verði notast við uppstillingu. Á fundinum var einnig skipuð uppstillingarnefnd sem þegar hefur tekið til starfa og er það Ævar Sigdórsson sem leiðir starf nefndarinnar.
Við viljum hvetja alla sem hafa áhuga á að koma á fundi hjá okkur, mæta í gönguferðir eða taka þátt í starfinu með okkur á einn eða annan hátt, til að láta sjá sig á auglýstum viðburðum eða hafa samband við okkur til að tryggja að raddir sem flestra heyrist.
Þín rödd er mikilvæg og þú skiptir máli fyrir bæjarfélagið. Það er okkur mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við ykkur bæjarbúa.
Við erum traust og heiðarleg, ætlum að vera með gleðina í fyrirrúmi og látum hana drífa verkin áfram og heilbrigða skynsemi ráða ferðinni.

Framsóknarkveðja
Halla Karen Kristjánsdóttir formaður

Jólaskógurinn í Hamrahlíð

Björn Traustason

Jólatrjáasalan í Hamrahlíð við Vesturlandsveg hefst laugardaginn 11. desember klukkan 13:00.
Jólasveinar munu mæta á svæðið og verður því fjör í Jólaskóginum í Hamrahlíðinni. Bæjarstjórinn mun höggva fyrst tréð auk þess sem Mosfellskórinn syngur nokkur lög. Jólatrjáasalan er fyrir löngu orðinn fastur liður í undirbúningi jólanna hjá mörgum íbúum Mosfellsbæjar og nærsveitunga. Það er skemmtileg hefð að skunda í skóginn og velja sér fallegt tré.
Oft er það nú þannig að því meiri vinna og tími sem fer í að velja tréð, því meiri merkingu hefur það í stofunni. Í Hamrahlíðinni er nægt úrval af blágreni, sitkagreni og stafafuru sem verður vinsælla jólatré með hverju árinu sem líður. Hvetjum við því sem flesta að mæta í fjallið og skoða úrvalið í skóginum. Einnig er í boði að velja sér tré úr rjóðrinu þar sem eru tré sem hafa verið felld úr skógum félagsins.

Með kaupum á jólatrjám er stutt við starf Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, en mest af starfsemi félagsins er unnið í sjálfboðavinnu. Hluti af ágóða jólatrjáasölunnar er nýttur til að gróðursetja allt að 30 tré fyrir hvert selt tré. Með kaupum á mosfellskum jólatrjám er því verið að stuðla að aukinni skógrækt innan Mosfellsbæjar.
Hluti af þessum trjám eru gróðursett milli annarra trjáa og vaxa því upp í skjóli, og hluti gróðursettur í ný svæði sem auka þar með flatarmál skóga innan sveitarfélagsins. Þessar gróðursetningar gefa af sér útivistarskóga, viðarnytjar og framtíðarjólatré. Með hverju seldu jólatré er því margþættur ávinningur svo ekki sé minnst á kolefnisbindingu með trjágróðri. Búast má við að af þessum 30 trjám sem gróðursett eru fyrir hvert selt tré, muni 15 halda áfram vexti og þar með binda kolefni næstu áratugina. Hin 15 trén munu ýmist deyja í æsku, verða nýtt sem grisjunarviður eða verða að framtíðarjólatrjám.
Jólaskógurinn er því sjálfbær, það bætast fleiri tré við en eru tekin út. Þetta er einnig í takti við nýjustu áherslur ríkisstjórnarinnar um aukna skógrækt til að ná markmiðum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Það þurfa allir að taka höndum saman til að ná þessu markmiði. Þar skiptir auðvitað mestu að við drögum sem mest úr losun.
Kaup á íslenskum jólatrjám eru góð leið til að taka þátt í bindingu á móti losun. Það sem skiptir þó mestu máli er að þið getið mætt til okkar í jólatrjáasöluna í Hamrahlíðina og valið ykkur jólatré úr skóginum eða rjóðrinu og notið svo jólanna við furu- eða greniilminn. Gleðilega aðventu.

Björn Traustason
Formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Frá því Covid-19 skall á með öllum þeim ósköpum sem því hefur fylgt hefur skapast umræða í þjóðfélaginu um að heimilisofbeldi hafi aukist mikið og tilkynningum til barnaverndar fjölgað.
Heilu fréttatímarnir voru undirlagðir og mikið gekk á á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum, en þar var þó aðallega verið að vísa til fjölgunar í öðrum sveitarfélögum því á sama tíma í Mosfellsbæ sáum við ekki merkjandi aukningu í þessum sömu tilkynningum.
Við byrjuðum að fjalla sérstaklega um þessi mál á fundum okkar í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, upplýsingum var safnað fyrir nefndina og fékk málið heitið „Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs“. Þessi skýrsla var fyrst lögð fram á 293. fundi fjölskyldunefndar 19. maí 2020. Þar var ekki að sjá sýnilega aukningu í þeim málefnum sem fjallað hafði verið um í fréttum. Á fundi nefndarinnar nr. 292 sem haldinn var 17. mars var farið yfir mál sviðsins vegna Covid-19 áhrifa og tryggt að allir skjólstæðingar Mosfellsbæjar fengju nauðsynlega þjónustu og gerðar yrðu ráðstafanir til að tryggja bæði starfsmönnum og notendum þjónustu fyllsta öryggi vegna aðstæðna. Það tókst og eiga starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar hrós skilið fyrir góðan undirbúning og skipulag.

Síðan fyrsta skýrslan var lögð fram í maí 2020 höfum við á hverjum fundi nefndarinnar lagt hana fram og við fylgst með og rýnt í þær upplýsingar sem liggja fyrir hverju sinni. Starfsmenn fjölskyldusviðs hafa á sama tíma unnið ötullega að því að hlúa að þeim einstaklingum og fjölskyldum sem um er fjallað.

Það sem er einna ánægjulegast að segja frá er að þrátt fyrir fjölgun samþykktra umsókna um fjárhagsaðstoð milli áranna 2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 þurfi um 24% færri einstaklingar fjárhagsaðstoð. Það er frábært þegar fólk kemst aftur út á vinnumarkaðinn eftir alls konar áföll. Á sama tíma sjáum við að atvinnulausir Mosfellingar eru óðum að nálgast 2019 tölurnar en áður en Covid-19 skall á var þegar byrjað að halla undan fæti á vinnumarkaðinum og Mosfellingar fengu sinn skerf af því eins og aðrir. Þegar mest var voru 569 Mosfellingar á atvinnuleysisskrá, í mars 2021, en voru í september 2021 komnir niður í 297. Fæstir atvinnulausir Mosfellingar voru 124 í janúar 2019 og má því segja að enn er töluvert í land.

Varðandi tilkynningar til barnaverndar hefur verið ákveðin fylgni milli íbúafjölgunar og tilkynninga og þrátt fyrir að um 12% aukning hafi verið milli 2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 verði aukning um 5%. Á sama tíma stefnir í að tilkynningum um heimilisofbeldi fækki um 22% milli áranna 2020-2021 sem er gott.
Ég minni á að á heimasíðu Mosfellsbæjar á mos.is er gulmerktur hnappur „Ég er barn og hef áhyggjur“. Þar geta börn sent inn tilkynningu ef þau þekkja einhvern sem þarf á aðstoð að halda og komið ábendingum til starfsmanna barnaverndar þar sem fullum trúnaði er heitið. Allar þær upplýsingar sem hafa komið fram hér að ofan eru aðgengilegar á heimasíðu Mosfellsbæjar, mos.is, undir fundargerðum fjölskyldunefndar og hvet ég íbúa að kynna sér þær.
Ég óska öllum Mosfellingum gleðilegrar hátíðar, árs og friðar og förum varlega um jólin í faðmi okkar nánustu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson
bæjarfulltrúi og formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar