Græn svæði fyrir alla

Stefanía Ragnarsdóttir

Eitt sterkasta einkenni og aðdráttarafl Mosfellsbæjar er náttúran sem umlykur byggðina. Fellin, heiðin og hafið.
Í bænum sjálfum eru það svo þessi litlu grænu svæði sem gefa mikið. Lækir, móar, stallar og skógar. Það eru heilmikið forréttindi að hafa aðgang að þessum grænu svæðum og þau hafa mikil áhrif á íbúana sem tengjast þeim allir á sinn hátt.

Til að tryggja vistvænar samgöngur, aðgengi fyrir alla og heilnæmt umhverfi þarf að horfa á grænu svæðin, bæði í stóru samhengi og smáu. Að ár séu verndaðar frá upptökum að ósum og að aðgengi að grænum svæðum sé mögulegt fyrir allar kynslóðir og hreyfigetu.
Það er lykilatriði fyrir umhverfið og þar af leiðandi loftslagið að græn svæði séu til í sinni náttúrulegustu mynd, bæði á stórum og smáum skala. Þau skapa lífið á jörðinni eins og við þekkjum það í dag, framleiða hreint loft, hreint vatn og aðstæður fyrir matvælaframleiðslu.
Grænu svæðin móta hversdaginn, hvort sem það er hlaupatúr meðfram sjónum, ganga með barnavagn á stígum milli trjáa og leikvalla eða bara eitt augnablik þegar litið er út um eldhúsgluggann og veður dagsins gefur útsýninu nýjan blæ.
Grænu svæðin sem við njótum alla daga þarf að vernda til framtíðar og eitt besta verkfærið sem við eigum til þess er náttúruvernd. Með skipulagðri vernd gefum við svæðunum framtíð og tryggjum að náttúran umlyki ekki bara bæinn heldur eigi sér líka heimili í þéttbýlinu.
Vinstri græn vilja fjölskylduvænt, réttlátt og umhverfisvænt samfélag. Verndun grænna svæða er í senn loftslagsaðgerð og einn lykillinn að þeirri framtíð.

Stefanía Ragnarsdóttir skipar 11. sæti
V-listans í kosningunum 14. maí.