Þjónusta við aldraða

Ólafur Ingi Óskarsson

Umræðan um skort á hjúkrunarrýmum hefur verið fyrirferðarmikil á undanförnum misserum og árum og þá einkum í tengslum við fráflæðisvanda Landspítalans. Það er dýrt úrræði að fólk sem lokið hefur sjúkrahússmeðferð dvelji á spítala og teppi háþróuð og dýr legurými.
Bæði þessi úrræði, sjúkrahús og hjúkrunarheimili, eru á ábyrgð og í umsjón ríkisins. Það vekur furðu að ríkisstjórnin sem að minnsta kosti í orði kveðnu gefur sig út fyrir hagkvæmni í rekstri geri ekki það augljósa þ.e. að fjölga hjúkrunarrýmum.

Hlutverk sveitarfélaga
Sveitarfélög geta líka komið að lausn þessa vanda og jafnvel seinkað því að fólk þurfi að flytja á hjúkrunarheimili. Þau geta boðið upp á valkosti í sinni þjónustu sem í raun flestir sem komnir eru á efri ár geta valið um. Einn möguleiki er að öldruðum sé gert kleift að búa og lifa á sínu heimili, eins lengi og kostur er, með þeim stuðningi sem þarf til og hentar hverjum og einum. Það er reyndar lögbundið hlutverk sveitarfélaga að annast þessa þjónustu og vissulega gera sveitarfélög það, en þó hvert með sínum hætti.

Elín Árnadóttir

Með því að bæta í og auka gæði stuðningsþjónustu sveitarfélaga með fjölbreyttum úrræðum og samfelldri þjónustu getum við seinkað verulega innlögnum á hjúkrunarheimili og þar með dregið úr kostnaði samfélagsins. Fyrir utan lægri kostnað þá stuðlar bætt stuðningsþjónusta að því að aldraðir hafi val og geti búið lengur í því húsnæði sem þeir helst kjósa.

Samþætt þjónusta
Til að aldraðir hafi þetta val er mjög mikilvægt að þjónustan sem í boði er, og er grundvöllur þess að aldraðir geti nýtt sér valfrelsi, sé samþætt undir einni stjórn. Hér í Mosfellsbæ er þessi þjónusta, stuðningsþjónusta og heilbrigðisþjónusta, á hendi þriggja aðila. Til að bæta þjónustu við aldraða Mosfellinga í heimahúsum svo þeir hafi raunverulegt val um búsetu og til auka yfirsýn og skilvirkni er samþætting nauðsynleg. Þessu ætlum við jafnaðarmenn breyta og stuðla þar með að aukinni farsæld þeirra sem þjónustunnar njóta.

Það þurfti jafnaðarmenn í ríkisstjórn á sínum tíma til þess að hjúkrunarheimili risi í Mosfellsbæ og það þarf jafnaðarmenn í meirihluta í bæjarstjórnar Mosfellsbæjar til þess að bæta þjónustu við eldri borgara í bænum.

Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna. Settu X við S á kjördag.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Elín Árnadóttir, skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar