Skólarnir okkar

Anna Sigríður Guðnadóttir

Fáir efast um það að skólarnir okkar í Mosfellsbæ, leikskólar og grunnskólar, séu þær stofnanir bæjarins sem snerta líf barna okkar mest. Hafa áhrif á uppvöxt og þroska, félagslega færni og velferð í víðum skilningi.
Ég birti greinina „Farsæll grunnskóli“ í Mosfellingi í febrúar síðastliðnum og ég skrifa aftur núna um skólana því ég tel að málefni barnanna okkar séu mikilvægustu málefni sem sveitarstjórnarfólk stendur frammi fyrir að sinna. Starfið sem unnið er innan þessara stofnana leggur grunninn í lífi barnanna okkar. Skólarnir auka jöfnuð í samfélaginu því þar mætast börn á jafnræðisgrundvelli. Þar eiga börnin að fá þá þjónustu sem þau þurfa til að rækta hæfileika sína og blómstra. En fá börnin þá þjónustu sem þau þurfa?
Það er alveg ljóst að starfsfólk skólanna gerir sitt allra besta til að styðja börnin til þroska en því miður hefur vantað úrræði inn í skólana svo mæta megi börnunum þar sem þau eru stödd. Kennarar eru settir í þá stöðu að bera ábyrgð á menntun og velferð barnanna en fá ekki þann sérfræðistuðning sem þarf og er nauðsynlegur.
Ef við grípum ekki börnin þegar þau þurfa á stuðningi að halda getur aðstoðin orðið mun kostnaðarsamari fyrir samfélagið á fullorðinsárum þeirra. Sveitarstjórnarmenn eiga alltaf að horfa langt fram í tímann og það á ekki síst við þegar við fjöllum um aðbúnað barna.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið en oft hefur borið á skilningsleysi í umræðunni á því fagstarfi sem þar fer fram. Mannekla sem sífellt berast fréttir af víða um land, hefur á stundum orðið til þess að umræðan um skólastigið hefur hverfst um gæsluhlutverk leikskólans. Leikskólinn er hvort tveggja í senn, skóli og gæsla. Hluta dagsins er unnið samkvæmt námsskrá og síðan tekur frjáls leikur við undir umsjón starfsfólks en börnin eru náttúrulega að læra allan daginn. Snemmtæk íhlutun varðandi málþroska er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfi leikskóla þar sem sjónum er beint að því að börn fái þá aðstoð sem þarf til að koma í veg fyrir að vandi ágerist.
Í leikskólunum okkar fer fram metnaðarfullt starf en það er nauðsynlegt að styrkja umgjörð þeirra sem skólastofnana, auka stuðning til símenntunar og til að sækja sér menntun í leikskólakennarafræðum. Samkvæmt lögum um menntun og hæfni kennara eiga 2/3 hlutar stöðugilda í leikskólum að vera mannaðar með kennurum. Því fer víðs fjarri að það hlutfall náist.
Ég lýk þessum skrifum með tveimur áherslupunktum úr kosningastefnuská Samfylkingarinnar og hvet kjósendur til að kjósa út frá hagsmunum barna og kynna sér stefnumál okkar á sammos.is

Fjölbreyttari sérfræðiþekkingu inn í skólana
Við viljum ráða sérfræðinga með mismunandi fagþekkingu inn í teymi sem þjónustar skóla bæjarins.

Gjaldfrjáls leikskóli – fyrsta skólastigið
Við stefnum að gjaldfrjálsum leikskóla með það markmið að sá tími sem ætlaður er í skipulagt, faglegt skólastarf samkvæmt námsskrá verði gjaldfrjáls.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi,
skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar