Hálfa leið eða alla leið?

Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag og hefur verið leiðandi í þróun verkefnisins sem hefur verið innleitt víða um land.
Framsókn í Mosfellsbæ vill leggja áherslu á áframhaldandi forystu, innleiðingu og rekstur verkefnisins og þannig setja lýðheilsu í forgrunn við alla ákvarðanatöku á vegum bæjarins. Við viljum ekki láta staðar numið við fallegt plagg heldur þarf að fylgja því eftir með fjármagni og aðgerðum.
Íþrótta- og tómstundastarf hefur verið og verður mál málanna næstu árin. Af hverju ? Jú það eru allir orðnir sammála um hversu mikið gildi heilbrigt íþróttastarf og tómstundir eru. Í samfélagi þar sem er mikill hraði og áreiti verður sífellt mikilvægara að leita leiða til að spyrna gegn streitu, kvíða og vanlíðan með öflugu framboði af leiðum til hreyfingar og samveru.
Framsókn í Mosfellsbæ vill hugsa stórt. Við viljum búa til sameiginlega framtíðarsýn og vinna markvisst að því að hún verði að veruleika.

Við höfum allt til þess að vera fyrirmyndar Heilsubærinn Mosfellsbær og það á að vera eftirsóknarvert að vera hér bæði fyrir íbúa og gesti. Bærinn okkar á að vera í fremstu röð þegar kemur að heilsueflingu fyrir alla.
Mosfellsbær nýtur gríðarlegra forréttinda. Hér er ósnortin náttúra í bakgarðinum, fjöll, dalir, lækir og vötn. Ein af perlum okkar er Varmársvæðið sem er allsherjar íþrótta og útivistaparadís. En það er ekki nóg að vera með íþróttaaðstöðu, það þarf að hlúa að henni og sinna viðhaldi. Þegar kemur að framkvæmdum þarf að hugsa stórt og uppbygging íþróttamannvirkja á að vera metnaðarfull og þannig úr garði gerð að hún svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram til framtíðar. Þannig verður hagur allra bæjarbúa hafður í fyrirrúmi.

Hvað er það sem nærir þig?
Jú svörin eru væntanlega eins misjöfn og þau eru mörg. Því það sem nærir þig, nærir ekkert endilega aðra. Það er eins með börnin okkar og okkur sjálf það hafa ekki allir áhuga á sömu íþróttagreininni eða bara að æfa íþróttir yfir höfuð. Sumir finna hjartað slá hjá Aftureldingu, aðrir brenna fyrir jaðaríþróttum enn aðrir velja að fara í tómstundir eins og t.d. skáta, vera í tónlistaskólanum eða í kórstarfi.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að stofnað verði til samráðsvettvangs allra þeirra sem koma að hreyfingu og tómstundum hjá bæjarfélaginu. Vegna þess að það er mikilvægt að auka samtalið og samvinnuna. Þannig aukum við líkurnar á því að forsvarsmenn félaga verði frekar meðvitaðir um hvað er helst á dagskrá í bænum og geti hjálpast að við að efla kynningu á því góða starfi sem fer fram hér í bæjarfélaginu okkar. Því öll erum við að vinna að sama markmiðinu sem er að efla einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega.

Öflug sókn í íþrótta og tómstundastarfi er besta forvörn sem við getum veitt börnunum okkar. Við foreldrarnir sem og afar og ömmur megum samt ekki gleyma hlutverki okkar. Við erum fyrirmyndir. Eins og málshátturinn segir: „Það sem þú gerir hljómar svo hátt að það sem þú segir heyrist ekki.“

Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ