Listir og menning

Bjarki Bjarnason

Hvað er LOMM?
Listir og menningarlíf auðga tilveru okkar allra, hvort sem um er að ræða hreint glens og grín eða viðfangsefni um hinstu rök tilverunnar.
Í Mosfellsbæ eru mörg félög og einstaklingar sem sinna menningu og listum: fjöldi söngkóra, leikfélag, myndlistarfólk, tónlistarfólk, rithöfundar og fleiri.
Í vetur stofnaði listafólk og áhugafólk um menningarlíf félag hér í bæ sem heitir „Lista- og menningarfélag Mosfellsbæjar“ – skammstafað LOMM. Dagsetning fundarins hljómar skemmtilega: 22.2.2022 og einhver hafði á orði: „Með slíka dagsetningu að vopni getur þetta ekki klikkað!“
Á stofnfundinum spunnust meðal annars samræður um þá umgjörð sem Mosfellsbær skapar gagngert fyrir lista- og menningarlíf innan sveitarfélagsins. Hér á eftir verður fjallað stuttlega um þá hlið málsins.

Hlégarður
Félagsheimilið Hlégarður, sem var vígt árið 1951, hefur lengi verið miðstöð menningar- og félagslífs í Mosfellssveit. Síðustu árin hefur það verið ljóst að ráðast þyrfti í umfangsmiklar viðgerðir og endurbætur á húsinu svo það geti risið undir blómlegri starfsemi. Húsinu var lokað á meðan framkvæmdir stóðu yfir en núna er jarðhæðin tilbúin til notkunar og um síðustu helgi hélt GDRN, einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar, tónleika í húsinu. Á næstu árum verður ráðist í endurbætur á efri hæð hússins.

Bryndís Brynjarsdóttir

Hlégarður á sér merkilega sögu og er vel í sveit sett í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Eftir endurbæturnar aukast möguleikarnir á nýtingu hússins að miklum mun, það verður eitt ef verkefnum bæjarstjórnar á næsta kjörtímabili að taka ákvörðun um hvernig notkun hússins og rekstrarformi þess verður háttað.

Menningarhús í miðbænum
Þegar unnið var að skipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar á sínum tíma var ætlunin að byggja kirkju og menningarhús á lóð sem er við miðbæjartorgið. Efnt var til verðlaunasamkeppni um það verkefni og niðurstöður kunngjörðar árið 2009. Samkvæmt þeim var meðal annars gert ráð fyrir kirkju, sýningarsal og bóksafni á lóðinni.
Nú hafa mál þróast þannig að ljóst er að ekki verður byggð kirkja á þessum stað. Þess vegna opnast nýir möguleikar á nýtingu lóðarinnar sem er skilgreind fyrir menningarstarfsemi.

Stefna V-listans
Mosfellsbær hefur alla burði til þess að styrkja stöðu sína í lista- og menningarlífi höfuðborgarsvæðisins. Við teljum að það sé verkefni bæjaryfirvalda að móta metnaðarfulla umgjörð utan um hinar ýmsu listgreinar og menningarstarfsemi í bænum.
Í stefnuskrá V-listans fyrir komandi kosningar er lagt til að ráðist verði í heildarskoðun á nýtingu á þeim mannvirkjum sem ætluð eru fyrir lista- og menningarlíf hér í sveitarfélaginu. Einnig viljum við að teknar verði upplýstar ákvarðanir um hvaða byggingar muni rísa á lóðinni í miðbænum sem nefnd var hér að ofan.

Bjarki Bjarnason skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí
Bryndís Brynjarsdóttir skipar 4. sæti listans