Almenningssamgöngur og skipulagsmál

Ómar Ingþórsson

Í ört vaxandi bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ vegur mikilvægi góðra almenningssamgangna þyngra með hverju árinu.
Mörg okkar hafa e.t.v. ekki mikinn áhuga á þessum málum enda hefur einkabílinn þjónað okkur vel þar sem leiðarkerfi strætó hefur verið stopult og ekki fallið að okkar þörfum. Hvers vegna er þetta yfir höfuð eitthvað sem skiptir okkur máli? Hér verðum við hins vegar aðeins að staldra við og spyrja okkur hverjar eru og hverjar munu okkar þarfir verða á komandi árum. Sérstaklega þegar við vitum að þensla gatnakerfisins verður ekki endalaus, að þungi umferðar mun aukast með tilheyrandi biðtíma, að boðaðar eru nýjar álögur á einkabílinn svo ekki sé talað um allan þann aukna kostnað og umhverfisáhrif sem af þessari þróun hefur hlotist.

Almenningssamgöngur og skipulagsmál eru og ættu að vera samtengd mál þar sem gott skipulag getur auðveldað flæði á milli íbúðahverfa og samtímis gert tengingar greiðfærari og hagkvæmari. Við gerum okkur grein fyrir að margt er hægt að bæta í Mosfellsbæ, þetta er í raun þroskaferli.
Ný hverfi hafa byggst upp stakstæð með lélegum tengingum inn í leiðakerfi strætó. Þetta þekkjum við frá fyrstu árum Leirvogstung- og Helgafellshverfis. Hins vegar hefði þetta ekki þurft að vera svona í upphafi því við skipulagningu nýrra íbúðahverfa skyldi ætíð horfa til þess hvernig samgöngur eru við önnur hverfi og hvernig almenningssamgöngur þróast næstu áratugina. Það er mun óhagstæðara að huga að þessum hlutum þegar þeir eru komnir í öngstræti og gera breytingar eftir á. En hvað þarf til?

Innanbæjarstrætó
Í fyrsta lagi þarf að tryggja tíðar samgöngur frá Reykjavík og til Mosfellsbæjar þar sem endastöðin er samgöngumiðstöð í miðbæ Mosfellsbæjar, kjarnastöð. Þessari kjarnastöð þarf að finna stað en hún er ekki nógu vel skilgreind í dag. Í öðru lagi þarf síðan að koma innanbæjarstrætó sem myndi ganga ákveðna innanbæjarleið frá kjarnastöðinni og tengja saman ólík íbúðahverfi innan bæjarins. Innanbæjarstrætó myndi t.d. stuðla að öruggari og auðveldari samgöngum yngri kynslóðanna milli skóla og íþróttasvæða. Hann væri límið sem myndi tengja saman íbúðahverfi bæjarins og draga úr þörf fyrir hið eilífa foreldraskutl.

Hringrásarskipulag
Við verðum að byggja upp almenningssamgöngur þannig að þær séu hugsaðar sem hringrás innan bæjarins, eins konar hringrásarskipulag sem tengir ólík íbúðahverfi, gerir flæðið milli þeirra auðveldara og samfélagið samheldnara, öruggara og umhverfisvænna. Við verðum líka að minna okkur á að Mosfellsbær er ekki úthverfi Reykjavíkur, þar sem almenningssamgöngur taki bara mið af því að komast til borgarinnar, heldur miklu fremur sjálfstætt hverfi á höfuðborgarsvæðinu með okkar eigin forsendur, þarfir og óskir um þjónustu innan okkar hverfis.
Við getum orðið mun sjálfbærari með tímanum ef við tökum ákvörðun um að verða það. Almenningssamgöngur innan bæjarins eru því mikilvægur stefnumótandi skipulagsþáttur í sjálfbærni bæjarins, sérstaklega þegar vitað er að Mosfellsbær mun meira en tvöfaldast á næstu 20 árum og mörg ný skólahverfi líta dagsins ljós.

Samfylkingin vill beita sér fyrir nýrri nálgun í skipulagi, framsýnni og sjálfbærri fyrir framtíðina.

Ómar Ingþórsson, skipar 3ja sæti framboðslista Samfylkingarinnar