Einhverfugreining og hvað svo?

Olga Kristrún Ingólfsdóttir

Sonur minn fékk greiningu á einhverfu hjá Ráðgjafa og greiningarstöðinni í desember 2019.
Þetta var um þriggja ára ferli sem svo sannarlega tók á, ekki síst fyrir son okkar. En við erum virkilega þakklát fyrir það að skólinn hans, Krikaskóli, var ekki að bíða eftir greiningunni áður en hann gat brugðist við heldur tók á móti hans þörfum eins best og hægt var.
En svo kom greiningin og hvað breyttist? Var einhver hjá Mosfellsbæ sem hafði samband við okkur foreldrana og upplýsti okkur um hvaða réttindi sonur okkar og við höfðum? Eða færi yfir hans mál og skoðaði hvort sonur okkar væri í einhverju tómstundastarfi? En félagsleg örvun er gríðarlega mikilvæg fyrir einhverf börn.
Það var því miður ekki svo, það hefur engin hjá Mosfellsbæ haft samband og farið yfir með okkur hvaða réttindi hann ætti rétt á og hvernig við getum snúið okkur í þeim málaflokki. Heldur höfum við þurft að hafa fyrir því sjálf og enn í dag vitum við ekki hvort að við séum að fullnýta okkur þau réttindi sem sonur okkar á rétt á því það er engin sem segir okkur það og aðgengi upplýsinga er mjög ábótavant a.m.k eru þau ekki sýnileg.

Ég vil taka það fram að samskipti og þjónusta starfsfólks Mosfellsbæjar er til fyrirmyndar og það eru allir að gera sitt besta en það er augljóst að verkferlar í þessum málaflokki eru ekki skýrir.
Þessu þarf að breyta og ég sé fyrir mér að það væri umboðsmaður fatlaðs fólks sem færi yfir þennan málaflokk og væri í nánu samstarfi við einstaklinginn og fjölskyldu hans svo farið væri yfir hans mál með það að markmiði að styðja við, efla og styrkja til sjálfstæðs lífs. Með þessu fyrirkomulagi væru verkferlar skilvirkari og skýrt hver réttindi barnsins eru.

Olga Kristrún Ingólfsdóttir
Höfundur skipar 5. sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ