Mosó, stórasti bærinn!

Ragnar Bjarni Zoëga

Það er gott og eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ eins og við öll vitum. Samkvæmt könnunum eru íbúar hér með þeim ánægðustu á landinu sem er ekkert nýtt fyrir okkur sem höfum búið hér lengi. Það er nefnilega alvitað að það er best að búa í Mosfellsbæ, þar sem sveit og borg sameinast í hina fullkomnu blöndu sveitar og byggðar.
Í Mosó eru góðir skólar og mjög flott íþrótta- og tómstundalíf og frábært að alast hér upp. Mosfellsbær er gæðasamfélag sem við í meirihlutanum höfum unnið í að þróa og skapa undanfarin ár og við viljum halda því áfram.
Við viljum líka halda áfram að vera snjöll og framsýn og ætlum að opna FabLab smiðju og viljum líka koma á fót Þróunar- og nýsköpunarsetri sem gefur endalausa möguleika fyrir ungt fólk til að taka þátt í þróun og nýsköpun. Staður þar sem ungt fólk kemur hugmyndum sínum á framfæri.

Við í Sjálfstæðisflokknum ætlum áfram að stuðla að því að boðið verði upp á fjölbreytt húsnæði fyrir alla aldurshópa í nýjum hverfum bæjarins. Mismunandi stærðir og skipulag á íbúðum henta ólíkum hópum af fólki. Með því að auka úrval og framboð á fjölbreyttari íbúðum viljum við passa að allir sem eru að leita að heimili í Mosfellsbæ geti fundið eitthvað sem hentar fyrir sig. Fyrir ungt fólk og ungar fjölskyldur er það spennandi valkostur að geta eignast sína fyrstu íbúð hér í Mosfellsbæ.

Þóra Björg

Áherslur Sjálfstæðisflokksins eru að stuðla að því að boðið verði áfram upp á fjölbreytta og fjölskylduvæna byggð, fjölbreytta möguleika á húsnæði fyrir alla og allar fjölskyldustærðir allt frá einstaklingsíbúðum til stærri eigna fyrir stórar fjölskyldur.
Við viljum byggja upp stóra og fjölbreytta byggð á Blikastaðalandi. Blikastaðalandið er tilvalið svæði til að bjóða upp á fjölbreytt úrval af húsnæði fyrir bæði núverandi og verðandi Mosfellinga.

Ekki má gleyma þeim sem byggðu upp þetta samfélag og er Mosfellsbær með forystu Sjálfstæðisflokksins búinn að gera samning um uppbyggingu á íbúðum í Bjarkarholti fyrir eldri borgara í samstarfi við Eir. Þar munu rísa öryggis- og þjónustuíbúðir sem munu tengjast við núverandi byggingar auk þess sem húsnæði fyrir félagsstarf mun aukast mjög mikið. Þessar viðbætur tryggja það að bærinn geti mætt þörfum þessa ört stækkandi hóps enn betur.

Íbúafjöldi Mosfellsbæjar hefur frá árinu 2004 til dagsins í dag tvöfaldast og frá 2011 hefur aukningin verið 50%. Það mætti þá kannski segja að Mosfellingurinn og fyrrverandi forsetafrú hafi haft rétt fyrir sér þegar hún sagði að Mosfellsbær væri stórasti bærinn eða eitthvað í þá áttina.

Ragnar Bjarni Zoëga og Þóra Björg frambjóðendur á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 14. maí