Líf í bæinn

Kristján Erling Jónsson

Nú þegar Hlégarður hefur verið opnaður á ný getum við loksins farið að nota aðstöðuna til að njóta lista og menningar sem í boði er í bænum.
Það er mikil söngmenning í bænum okkar. Við erum rík af kórum og ekki síður listafólki sem bæði er búið að gera garðinn frægan eða er að gera tónlist og skapa alls konar list
Hvernig væri að opna Hlégarð nokkra daga í mánuði og gefa fólki færi á að nýta húsið sem vettvang til að koma sér á framfæri? Það væri hægt að bjóða kórum upp á að hafa opnar æfingar, halda sýningar listafólks eða aðra sköpun.
Þessir viðburðir yrðu opnir fyrir Mosfellinga og aðra gesti. Nú nýverið var stofnað lista- og menningarfélag Mosfellinga sem er ætlað að sameina listamenn og gera meira úr menningu bæjarins. Aðgangseyrir að viðburðum gæti verið hóflegur og runnið til þessa nýja og mikilvæga félags.
Ég get sagt út frá sjálfum mér sem meðlim í Karlakór Kjalnesinga og Stormsveitinni að ég væri meira en til í að fá að koma fram og syngja án gjalds en styrkja gott málefni í staðinn, og ég held ég tali fyrir munn margra því fyrir okkur er það allra skemmtilegasta að koma fram fyrir áheyrendur.

Kristján Erling Jónsson
skipar 7. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar