Tillögu um greiðslu á húsaleigu vegna Karla í skúrum hafnað

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Þann 5. apríl 2018 var haldinn opinn íbúafundur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ um stefnumótandi áherslur íbúa varðandi málefni eldri íbúa í Mosfellsbæ. Þátttakendur voru um 110 talsins.
Það kom líklega fyrst fram á prenti hér í Mosó það sem síðar varð að átaksverkefninu frá Rauða krossinum, Karlar í skúrum, en það sem fram kom á íbúafundinum var einmitt mikilvægi þess að ,,virkja karlana í kjallaranum“ eins og það var orðað þá!

Verkefnið Karlar í skúrum sækir fyrirmynd sína til Ástralíu og Írlands og hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun verkefnisins hér á landi, sem síðan varð að veruleika í Mosfellsbæ í nóvember 2020.
Tilgangur starfsins er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum.

Karlar í skúrum er opið fyrir alla karlmenn og gefur þeim stað og stund til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir sjálfir ákveða. Þar skiptast þeir á þekkingu og gefa til samfélagsins í leiðinni.
Markmið verkefnisins var að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karlmanna er í fyrirrúmi, þar sem þeir halda sér við líkamlega, andlega og félagslega.

Mosfellsbær hefur frá upphafi styrkt verkefnið meðal annars með því að greiða fyrir húsaleigu en eftir að upphaflegi samningurinn rann út hafa karlarnir sjálfir þurft að greiða húsaleiguna.
Við í D-listanum komum með þá tillögu til fjárhagsáætlunar að Mosfellsbær myndi áfram greiða húsaleigu fyrir þetta frábæra verkefni. Meirihlutinn ákvað á fundi bæjarráðs nr. 1556 að koma með tillögu um að nýta ágóðahlutagreiðslu frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands til að styrkja verkefnið Karlar í skúrum og Heilsa og hugur (Heilsa og hugur er verkefni sem var sett á laggirnar á síðasta kjörtímabili af þáverandi meirihluta).
Styrkurinn hljóðar upp á 782.000 kr. en við í D-listanum komum með málsmeðferðartillögu um að þessi styrkur færi ekki til greiðslu húsaleigu heldur til tækja- og vélakaupa og/eða námskeiðshalda og að Mosfellsbær héldi áfram að greiða húsaleigu að fullu fyrir þetta mikilvæga verkefni.
Þeirri tillögu var alfarið hafnað af B-,C- & S-lista meirihlutans, og munu því Karlar í skúrum áfram greiða húsaleigu sem nemur kr. 120.000 á mánuði, að frátöldum fyrrnefndum styrk.

Rúnar Bragi Guðlaugsson
Bæjarfulltrúi

Það er betra að vera unglingur í bæ en í borg

Guðrún Helgadóttir

Ég vil vekja athygli á hversu gott það er að vera unglingur í bæ en ekki í borg. Það geri ég vegna væntanlegra aðgerða Reykjavíkurborgar í niðurskurði á opnunartíma félagsmiðstöðva, sem er aðför að barna- og unglingavelferð.
Við í stjórn SAMFÉS – samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi gagnrýnum þetta harðlega ásamt öllum þeim sem koma að þessum vettvangi.
Unglingar í Mosfellsbæ eru einstaklega heppnir þegar kemur að félagsmiðstöðvarstarfi. Hvergi á landinu er jafn mikill opnunartími félagsmiðstöðva. Mosfellsbær býður upp á þetta mikla starf til að tryggja að börn og unglingar hafi samastað í öruggu umhverfi þar sem bæði fer fram formlegt og óformlegt frístundastarf. Þar er hægt að tryggja mikilvægt samstarf barna/unglinga, skóla, foreldra og félagsmiðstöðva.

Það sem Mosfellsbær býður upp á umfram flest, ef ekki öll, bæjarfélög er heilsdagsopnun félagsmiðstöðva. Nú hugsa eflaust margir um hvers vegna félagsmiðstöð sé að opna klukkan 9:00 á morgnana þegar börnin eiga að vera í skóla? Í hugum margra er félagsmiðstöðin geymslustaður fyrir unglinga eftir skóla og fram á kvöld. Þar sem unglingarnir eru best geymdir til að drepa tímann.
Ég hitti reglulega fyrrum unglinga sem koma til að þakka fyrir að starfsmenn Bólsins voru alltaf til staðar og benda á að Bólið bjargaði þeim á svo margan hátt. Oft eru þetta unglingar sem pössuðu ekki inn í ramma skólans eða voru ekki svo heppnir að búa við hin fullkomnu skilyrði heima fyrir. Hver sem ástæðan var, þá áttu þeir öruggt athvarf í Bólinu.

Það sem félagsmiðstöðvarstarf snýst um er að vinna með einstaklinga og hópa á jafnréttisgrundvelli. Án stífra ramma en alltaf með virðingu að leiðarljósi. Félagsmiðstöðin er staður þar sem unglingar geta komið og opnað sig, tjáð tilfinningar, áhyggjur og sorgir. Staður þar sem er hlustað er á þá og ef á þarf að halda, staður þar sem starfsmenn koma erfiðum málum í rétt ferli, þannig að hægt sé að tryggja velferð og öryggi barna og unglinga. Staður þar sem starfsfólk er vinir, en á sama tíma fagfólk sem getur gripið inn í óæskilega hegðun. Starfsmenn sem eru vinir en þekkja mörk og heilbrigð samskipti og geta miðlað því áfram til unglinganna. Starfsmenn sem eru vinir, en eru ófeimnir við að nálgast erfið umræðuefni sem unglingurinn er ekki tilbúinn til að ræða við foreldra/aðstandendur.
Það sem gerist á daginn í félagsmiðstöðinni er að unglingarnir koma til okkar í frímínútum, í eyðum, í félagsfærni eða þeir koma í þau valfög sem við kennum. Valfögin eru alls konar. Þar má nefna kynfræðslu, fatahönnun, félagsfærni og félagslega styrkingu. Auk þess þá tökum við alla bekki unglingadeildanna til okkar í fræðslu tengda fræðsluherferðum okkar.

Til að koma aftur að upphafspunktinum, þá er ég svo þakklát fyrir langtímasýn stjórnenda Mosfellsbæjar. Með niðurskurði á þessum vettvangi er verið að kasta krónum til að spara aura. Ráðuneytin eru meðvituð um að staða barna og unglinga eftir heimsfaraldur er ekki eins og við óskum okkur. Til að bregðast við, þá sit ég ásamt öðrum sem vinna að málefnum barna og unglinga í ótal vinnuhópum á vegum ráðuneytanna um hvernig megi bregðast við þessari þróun sem er meðal annars aukin áhættuhegðun, kvíði og félagsleg einangrun. Þrátt fyrir þetta þá ætlar Reykjavíkurborg að skera niður fjárveitingu, sem er með öllu óskiljanlegt.

Því vil ég enn og aftur þakka fyrir að stjórnendur Mosfellsbæjar sjái og meti það góða og mikilvæga starf sem félagsmiðstöðvar sinna. Þó svo enn sé vinna fram undan við að koma starfseminni á þann stað sem okkar börn og unglingar eiga skilið, þá er Mosfellsbær orðinn það bæjarfélag sem horft er til á þessum vettvangi.
Hrós til Mosfellsbæjar – ég er þakklát fyrir að unglingarnir mínir fái að alast upp í bæjarfélagi sem er tilbúið að styrkja undirstöðuna, sem er unga fólkið okkar.

Virðingarfyllst,
Guðrún Helgadóttir
Forstöðumaður Bólsins

Ert þú á löglegum hraða?

Ásgeir Sveinsson

Skipulagsnefnd fundar aðra hverja viku og hefur nefndin fundað aukalega í ár vegna endurskoðunar aðalskipulags. Endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar er langt komin og er áformað að vinnunni ljúki fyrri hluta næsta árs.
Nefndinni hafa borist þónokkur erindi er tengjast endurskoðun aðalskipulagsins og er mögulegt að sjá þessi erindi í fundargerðum nefndarinnar.
Skipulagsnefnd berast erindi er varða til dæmis breytingar á deili- og/eða aðalskipulagi Mosfellsbæjar, en þar sem nefndin er einnig umferðarnefnd, koma málefni er tengjast umferðarmálum í Mosfellsbæ einnig til nefndarinnar. Á fundi skipulagsnefndar í nóvember sl. kom fram samantekt um hraðamælingar lögreglunnar hér í Mosfellsbæ, sem framkvæmdar voru fyrr á árinu. Niðurstöður þessara hraðamælinga voru því miður ekki góðar. Hraðamælingar fóru fram á 12 stöðum hér í bænum og kom í ljós að 7-38% ökumanna óku of hratt, mismunandi eftir götum og hverfum. Á einum stað þar sem hámarkshraði er 70 km/klst. var til dæmis ekið á allt að 124 km hraða. Þetta er því miður of hátt hlutfall og of mikill umferðarhraði. Við hvetjum alla bæjarbúa til að virða umferðarhraða og umferðarreglur í bænum okkar því við verðum að sýna gott fordæmi, sérstaklega nú í skammdeginu.

Helga Jóhannesdóttir

Meðal verkefna sem eru í vinnslu og undirbúningi hjá skipulagsnefnd má nefna deiliskipulag 6. áfanga Helgafellshverfis, deiliskipulagsbreytingar við Bjarkarholt og miðbæjargarð, skipulag Borgarlínu og umferðar í miðbæ Mosfellsbæjar, umferðaröryggisáætlun fyrir bæinn, uppbyggingu á athafnasvæði Blikastaðalands, uppbyggingu Hamraborgar við Langatanga og 5. áfanga Helgafellshverfis.
Í nýsamþykktri samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar hafa skipulagsfulltrúa nú verið fengnar víðtækari heimildir en áður til afgreiðslu erinda sem berast, sem er mjög jákvætt og mun stuðla að enn betri og skilvirkari þjónustu við bæjarbúa.

Ásgeir Sveinsson og Helga Jóhannesdóttir,
bæjar­fulltrúar D-lista og fulltrúar í skipulagsnefnd

Hlégarður – næstu skref

Franklín Ernir Kristjánsson

Fyrsti fundur menningar- og lýðræðisnefndar var haldinn 15. nóvember sl. en nefndin hét áður menningar- og nýsköpunarnefnd.
Hin nýja nefnd fer með menningar- og lýðræðismál og á meðal annars að gera tillögur til bæjarstjórnar um menningarmál, um stefnu í lýðræðismálum, hafa eftirlit með starfsemi stofnana sem vinna að menningarmálum og fleira.
Á fyrsta fundi nefndarinnar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að farið yrði í framkvæmdir á sviði Hlégarðs og því breytt þannig að hljóðburður þar sé það góður, að hægt sé að bjóða upp á ólíka tónlistar- og menningarstarfsemi í húsinu. Einnig var lagt til að skoðað verði að setja fellistúku sem hægt væri að nýta fyrir viðburði í húsinu. Þessum tillögum var synjað með þremur atkvæðum meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar.

Helga Möller

Tillögur þessar voru lagðar fram þar sem það er mat okkar og margra annarra, að Hlégarð sé hægt að nýta mun betur og meira en nú er gert, og að húsið bjóði upp á mikla möguleika í þágu allra bæjarbúa og gesta. Fyrstu skrefin að okkar mati í þeirri vinnu eru að laga sviðið í húsinu og aðstöðu í sætum til að taka á móti gestum.
Samkvæmt bókun meirihlutans liggur ekki fyrir hvaða starfsemi húsið á að hýsa, né hver á að sjá um reksturinn. Stefnumótum stendur nú yfir varðandi þessi mál og bíðum við spennt eftir niðurstöðu þeirra stefnumótunarvinnu.

Franklín Ernir Kristjánsson og Helga Möller
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og lýðræðisnefnd

Uppbygging leikskóla í Mosfellsbæ

Aldís Stefánsdóttir

Síðustu vikur hefur verið að störfum starfshópur um uppbyggingu leikskóla í Mosfellsbæ. Tilurð hópsins má rekja til þess að nauðsynlegt þótti að rýna betur í áætlanir sveitarfélagsins um byggingu annars leikskóla í Helgafellslandi.
Frá því að upphaflegar áætlanir voru settar fram um mitt síðasta ár hefur kostnaður við byggingu skólans aukist um 56% bæði vegna verðlagshækkana og einnig vegna kostnaðar við að byggja á óhentugri lóð. Heildarkostnaður hefur verið áætlaður um 1900 milljónir en það er án búnaðar. Þessa kostnaðaráætlun þarf að endurskoða í heild sinni. Það væri óábyrgt af núverandi meirihluta að gera það ekki og gefa sér ekki tíma til að ræða hvort þetta sé besta leiðin fyrir Mosfellsbæ.
Á sama tíma og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja drífa í þessu og bjóða út bygginguna eru önnur sveitarfélög að fá engin tilboð eða tilboð sem eru langt umfram kostnaðaráætlun í sambærilegar byggingar. Tímasetningin á því að bjóða út slíkt verk hefur því verið einstaklega óhentug þar sem mikil þensla er á byggingamarkaði. Við sjáum það líka á öðrum verkefnum en eins og komið hefur fram þá bárust engin tilboð í þjónustubyggingu við Varmá í vor.

Niðurstaða
Niðurstaða starfshópsins er að það sé vissulega heppilegast að byggja annan leikskóla í Helgafellslandi. Það geti þó ekki verið fyrir opinn tékka. Við verðum að setja okkur raunhæf markmið og ná byggingarkostnaði niður. Það er hægt að gera með ýmsum hætti og einn af þeim þáttum sem hefur áhrif eru tímasetningar. Bæði hvenær boðið er út og hvaða tímarammi er á verkinu sjálfu. Því meira sem við flýtum okkur því hærri kostnaður.
Niðurstaða hópsins er einnig sú að Mosfellsbær geti áfram stækkað leikskólastarfsemi sína og tekið á móti þeim fjölda barna sem þurfa pláss á allra næstu árum þó að leikskólinn verði ekki byggður alveg strax. Kostnaðurinn við það verður alltaf réttlætanlegur og aðstaðan nýtt til framtíðar.

Áframhaldandi góð þjónusta
Mosfellsbæ hefur vegnað vel að takast á við aukinn fjölda leikskólabarna á síðustu árum og náð að bæta þjónustuna við ung börn á sama tíma og bærinn stækkar. Nýr meirihluti mun taka við keflinu og halda uppbyggingunni áfram. Það er þó mikilvægt að gæta að því að rekstur leikskóla snýst ekki bara um húsnæði. Starfsumhverfið í leikskólum og „vinnudagur“ leikskólabarna er eitthvað sem við sem samfélag þurfum að ræða og takast á við. Það er mikilvægt í þessu samhengi að muna að eitt hentar ekki öllum þegar kemur að þjónustu við ung börn og fjölskyldur þeirra og fjölbreytni er mikilvæg. Stórar einingar, litlar einingar, dagforeldrar, einkareknir skólar og jafnvel heimgreiðslur til foreldra ættu allt að vera leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum.
Undirrituð þakkar öllum sem að vinnunni komu en í hópnum voru fulltrúar frá meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn ásamt starfsfólki Mosfellsbæjar. Það var gagnlegt að taka samtalið í þessu ferli og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs þar sem raddir allra fá að heyrast og viðhöfð eru lýðræðisleg vinnubrögð.

Aldís Stefánsdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknar

Verður áfram best að búa í Mosó?

Jana Katrín Knútsdóttir

Á dögunum fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar. Að mörgu leyti er hún skynsamleg og góð enda byggð á góðum grunni stefnumótunar og vinnu undanfarinna ára.
Það er þó áhyggjuefni þegar brýnum framkvæmdum er skotið á frest. Samkvæmt áætlun er tveggja ára seinkun á uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá auk þess sem leikskólinn sem rísa átti í Helgafelli hefur verið settur á bið og óvíst hvert framhaldið verður. Hvort tveggja eru þetta framkvæmdir sem ráðast átti í strax á þessu ári og vera langt komnar á því næsta.
Athygli vekur að á meðan uppbygging nýja leikskólans hefur verið stöðvuð á að leggja 225 milljónir í bráðabrigðalausn á leikskólaplássum.

Ásgeir Sveinsson

Þá munu Mosfellingar nú búa við einna hæstu álögur og gjöld sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hugsanlega að frátöldum Reykvíkingum. Fasteignagjöld munu nefnilega hækka svo að um munar þó svo að fréttatilkynning frá meirihluta í bæjarstjórn hafi gefið annað í skyn. Sú tilkynning hljóðaði nefnilega upp á að fasteignaskattar muni lækka. Þar var í sjálfu sér ekki farið með rangt mál. Fasteignaskattar lækka vissulega lítillega. Þessi lækkun hefur þó afar takmörkuð áhrif til lækkunar á fasteignagjöldum sem í reynd munu því hækka um að minnsta kosti 15% og það munar um minna þegar horft er til umtalsverðra hækkana á

fasteignamati ásamt síauknum útgjöldum heimilanna. Til viðbótar verður útsvar hækkað í það hámark sem lög heimila.
Það má velta fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að hækka álögur og gjöld á íbúa eingöngu vegna þess að lög gefa kost á því? Væri ef til vill nærtækara að taka pólitíska ákvörðun um að keyra af stað þau verkefni sem fram undan eru og geta verið veigamiklir tekjustofnar á komandi árum í stað þess að sækja tekjurnar beint í vasa bæjarbúa?
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram alls 9 tillögur til breytinga á fjárhagsáætlun. Þær tillögur miða m.a. að því að lækka álögur og gjöld á íbúa, flýta framkvæmdum að Varmá ásamt leikskólanum í Helgafelli.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Jafnframt að leggja áherslu á úthlutun lóða í 5. áfanga Helgafellshverfis og í Hamraborg, sem til stóð að gera á þessu ári með tilheyrandi tekjum fyrir sveitarfélagið.
Að lokum má svo leiða hugann að því hvort þessi framsetning á upplýsingum er varða lækkanir á fasteignasköttum sé í samræmi við þær áherslur sem boðaðar voru í málefnasamningi nýs meirihluta, um heiðarleika og gagnsæi.

Verður áfram best að búa í Mosó?

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins,
Jana Katrín Knútsdóttir
Ásgeir Sveinsson
Rúnar Bragi Guðlaugsson

Helga Jóhannesdóttir

Helga Jóhannesdóttir

Bætt þjónusta og framtíðarsýn í fjárhagsáætlun

Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur nú lagt fram sína fyrstu fjárhagsáætlun og ber hún merki um nýjar áherslur.
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er snúið þessi misserin m.a. vegna hárrar verðbólgu og afleiðinga innrásar Rússa inn í Úkraínu. Misjafnt er hvernig sveitarfélög taka á aðstæðum.
Sum hver hafa ákveðið að fara í niðurskurð, uppsagnir og skerðingu á þjónustu til að mæta áskorununum. Við höfum ákveðið að fara ekki þá leið.

Bætt þjónusta
Mikilvægi skólaþjónustunnar er óumdeilt og styrking hennar tímabær. Það ætlum við að gera og fyrstu skrefin verða tekin á næsta ári með ráðningu sérfræðings. Við hleypum líka krafti í vinnu við innleiðingu farsældarlaga sem krefjast nýrra vinnubragða og tökum upp þráðinn við innleiðingu hugmyndafræði barnvæns samfélags. Þessum áföngum verður ekki náð nema að bæta þjónustu við börn.

Fjármagn til velferðarþjónustu hækkar um tæplega hálfan milljarð milli ára. Þar má nefna fjölgun NPA samninga og búsetuúrræða, aukningu skammtímavistunar fatlaðra barna, eflingu Úlfsins og styrkingu í ráðgjöf við börn og fjölskyldur.
Við bætum heimaþjónustu og gerum ráð fyrir stóraukningu á félagslegu innliti til þeirra samborgara okkar sem þá þjónustu þurfa. Við festum í sessi betri matarþjónustu með heimsendingu matar um helgar.

Mosfellsbær er að fara inn í tímabil mikillar uppbyggingar og til að sú uppbygging gangi vel fyrir sig er nauðsynlegt að styrkja innviði stjórnsýslunnar. Reyndar er sú styrking löngu tímabær. Aukið verður við stöðugildi inni á umhverfissviði og ráðinn verður lögfræðingur.
Þessar breytingar eru bráðnauðsynlegar svo allur undirbúningur og vinna við skipulagsmál nýrra uppbyggingarsvæða verði marviss og að stjórnsýsla bæjarins hafi getu til að takast á við þau stóru viðfangsefni. Þessi mikla uppbygging mun skila bæjarsjóði auknum tekjum í framtíðinni og þar af leiðandi mikilvægt að setja hana í forgang.

Framkvæmdir
Við erum að leggja fram mjög metnaðarfulla fjárfestingaráætlun með skýra sýn um uppbyggingu til framtíðar. Strax á næsta ári eru fyrirhugaðar miklar framkvæmdir. Má þar sérstaklega nefna framkvæmdir vegna nýrra lagna í óbrotnu landi á fyrirhuguðu athafnasvæði í landi Blikastaða. Hér er um stóra fjárfestingu að ræða fyrir sveitarfélagið en jafnframt nauðsynlegan þátt í undirbúningi að byggingu þess hverfis sem mun í framtíðinni auka tekjur sveitarfélagsins og skapa ný atvinnutækifæri fyrir Mosfellinga.
Viðhaldsverkefni sveitarfélagsins eru fjölmörg í fjárhagsáætluninni. Í Mosfellsbæ hefur byggst upp viðhaldsskuld í áranna rás og vill meirihlutinn vinna markvisst á henni. Í viðhaldi viljum við ganga alla leið og gott dæmi þar um er Kvíslarskóli. Að sönnu eru fjárhæðirnar sem áætlaðar eru í viðhald og endurbætur þess skóla háar en meirihlutinn vill ljúka verkinu, ekki taka smábúta hér og þar.

Gott samfélag
Við viljum fjárfesta í fólki. Það er stöðugt ákall eftir meiri og betri þjónustu sveitarfélaga og viljum við svara því kalli innan þess ramma sem ábyrg fjármálastjórn veitir okkur. Að reka gott samfélag þar sem hugað er að þörfum allra og pláss er fyrir okkur öll kostar.
Fjármagn til rekstrarins verður að koma úr þeim reglulegu tekjustofnum sem við höfum yfir að ráða. Þannig mun þessi meirihluti nálgast fjármálastjórn sveitarfélagsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar.

Nú kemur þetta hjá okkur!

Erla Edvardsdóttir

Ég hef verið iðkandi, þjálfari, foreldri og sjálfboðaliði í Aftureldingu frá því ég flutti í Mosfellsbæ.
Á þessum tíma, sem spannar nú nokkra áratugi, hef ég upplifað alls konar, eins og gerist og gengur innan íþróttafélaga. En það sem stendur upp úr fyrir mig er allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst.
Að starfa fyrir og í kringum klúbbinn er ofboðslega gefandi en það getur líka verið erfitt. Sérstaklega þegar maður upplifir að hlutirnir gangi ekki eins og maður hafði haft væntingar um, viðhald og uppbygging sé ekki í takt við þarfir félagsins á hverjum tíma sem leiðir af sér alls konar erfiðleika á borð við ófullnægjandi aðstöðu, yfirfullar deildir og biðlista, erfiðleika þegar kemur að því að halda í og laða að góða þjálfara og leikmenn, og síðast en ekki síst, halda í og fjölga sjálfboðaliðum, sem vinna gríðarlega óeigingjarnt og algjörlega ómetanlegt starf í þágu félagsins.

Á næstu árum stendur til að fara í mikla uppbyggingu að Varmá. Strax á næsta ári fær Afturelding langþráða aðstöðu fyrir styrktarþjálfun í takti við nútímaþarfir íþróttafólks. Á næsta ári verður líka hafist handa við að uppfæra vellina þar sem meðal annars verður skipt um gervigras og vökvunarbúnaður settur upp og ráðist í gagngera endurnýjun á aðalvellinum okkar sem er löngu tímabært.
Þjónustubyggingin er á dagskrá eins og ákveðið hefur verið og stefnt að því að hún verði byggð á kjörtímabilinu.
Á næstu dögum verður skipaður starfshópur á vegum Mosfellsbæjar sem hefur það hlutverk að leggja fram fullbúna, tímasetta tillögu að framtíðarskipulagi Varmársvæðisins.
Í þeirri vinnu þarf að taka tillit til hagsmuna og ábendinga allra þeirra sem starfa á svæðinu og umgangast það. Til dæmis Aftureldingar, almennings sem umgengst svæðið sem sitt íþrótta- og útivistarsvæði, grunnskólakennara og grunnskólanema og annarra sem starfa á svæðinu.
Lögð verður áhersla á að hópurinn skili niðurstöðum á skýran og myndrænan hátt. Þessi vinna mun þó ekki hafa áhrif á þau verkefni sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í eins og endurnýjun valla og nýja þjónustubyggingu.

Ég veit og skynja að það er komin þreyta í hópinn og skil það svo vel. Á sama tíma hef ég aldrei verið eins vongóð og spennt fyrir því sem koma skal að Varmá.
Aftureldingarfólk hefur sýnt það og sannað að í því býr seigla, leikgleði og framsýni. Við þurfum á öllu okkar góða fólki að halda og saman sköpum við betra samfélag sem styður við börnin okkar og gefur okkur sjálfum ánægjuna af því að hafa tekið þátt í uppbyggingunni.

Virðingarfyllst,
Erla Edvardsdóttir, formaður íþrótta-og tómstundanefndar.

 

Útsvar og fasteignagjöld

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar segir að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans.
Það er ánægjulegt að hægt sé að standa við þessa lækkun án þess að þurfa að skera niður í þjónustu við bæjarbúa heldur þvert á móti að geta svarað kalli um aukna grunnþjónustu og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Við fyrri umfjöllun um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram breytingartillögu um óbreytt útsvar og lækkun álagningar fasteignagjalda þannig að raunhækkun verði ekki umfram vísitölu.
Rétt er að taka fram að hér er um nýja nálgun að ræða sem aldrei hefur verið notuð í Mosfellsbæ. Breytingartillagan myndi þýða 147 milljóna kr. lægri tekjur sveitarfélagsins og til að mæta þessari lækkun leggja þau til að áætlaðar tekjur af byggingarrétti verði hækkaðar.

Fasteignagjöld

Lovísa Jónsdóttir

Í fjárhagsáætlun sem farið hefur í gegnum fyrri umræðu var, við ákvörðun um álagningarprósentur fasteignagjalda, stuðst við sömu aðferð og notuð hefur verið undanfarin ár. Heildarálagning lækkar úr 0,684% í 0,660%.
En hvað þýða breyttar álagningarprósentur fyrir íbúa? Fyrir íbúðarhúsnæði með fasteignamat árið 2023 upp á 99.350.000 kr., og hækkun á fasteignamati frá 2022 um 32,37%, þá hækka fasteignagjöld samtals um 1.657 kr. á mánuði umfram verðlag.
Við viljum ekki gera lítið úr því að þessi hækkun getur verið áskorun fyrir þá tekjulægri en við viljum vekja athygli á því að afslættir Mosfellsbæjar af fasteignagjöldum til eldri borgara og öryrkja eru með þeim hæstu sem veittir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Útsvar
Útsvarið er í fjárhagsáætluninni hækkað upp í löglegt hámark eða 14,52%. Það hefur verið helsta gagnrýni ríkisins í samningaviðræðum um tekjustofna sveitarfélaga að á sama tíma og sveitarfélögin eru að óska eftir auknum framlögum frá ríkinu til þess að standa undir lögbundinni þjónustu þá séu sveitarfélögin ekki að fullnýta tekjustofna sína.
Fyrir Mosfellsbæ er mjög mikilvægt að unnt verði að semja við ríkið um hækkun tekjustofna, sérstaklega því að við viljum geta staðið að því með sóma að veita fötluðum íbúum þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Áhrif á íbúa
Hækkun á útsvarinu þýðir samtals tekjuaukningu upp á 26 milljónir kr. á árinu 2023 eða að meðaltali hækkun um 250 kr. á mánuði fyrir hvern útsvarsgreiðanda.

Ábyrg fjármálastjórn
Í ábyrgri fjármálastjórn sveitarfélags er mikilvægt að tryggja að tekjur af rekstri sveitarfélagsins standi undir kostnaði við þá þjónustu sem sveitarfélög veita enda er hún ótímabundin. Þar af leiðandi þarf að tryggja að veiting þjónustunnar sé ekki háð því að einskiptistekjur, eins og tekjur af byggingarrétti, skili sér til sveitarfélagsins.

Þær tekjur sem sveitarfélagið fær samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun gera okkur kleift að bæta þjónustu við börn, fatlaða og eldra fólk ásamt því að styrkja stjórnsýslu bæjarins svo hægt verði að standa undir þeim stóru verkefnum sem fram undan eru. Eins er hugað að því að dreifa byrðunum af fyrirhugaðri uppbyggingu bæjarins, bæði á núverandi íbúa og íbúa framtíðarinnar, með því að einskiptistekjur eins og af byggingarrétti séu nýttar í þessa uppbyggingu.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Aðstöðuleysi Aftureldingar

Birna Kristín Jónsdóttir

Ég er í grunninn frekari bjartsýn og jákvæð manneskja sem ég held að hafi komið sér afar vel í starfi mínu sem formaður Aftureldingar en það verður samt að viðurkennast að það verður erfiðara og erfiðara með tímanum.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sl. vor voru væntingar keyrðar upp úr öllu valdi og þar spilar enginn flokkur frítt. Flestir ef ekki allir flokkar vildu allt fyrir okkur gera og lofuðu að bæta aðstöðu iðkenda Aftureldingar.
Nú hafa verið lögð fram drög að fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar næstu fjögur árin. Vonbrigðin eru gríðarleg svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Árið 2019 á 110 ára afmæli Aftureldingar gaf Mosfellsbær okkur það að gjöf að þarfagreina svæðið og aðstöðuna að Varmá.
Eftir mikla vinnu við þarfagreiningar var niðurstaðan sú að byrja á því að reisa langþráða þjónustubyggingu. Þjónustubygging nýtist öllu félaginu mjög vel. Hún myndi rúma það sem okkur vantar hvað sárast:
• Vel búnir búningsklefar og aðstaða fyrir sjúkraþjálfara
• Aðstaða til styrktarþjálfunar fyrir Aftureldingu
• Félagsaðstaða sem sárvantar
• Aðstaða fyrir þjálfara sem er engin í dag

Eins og flestir vita átti að vera byrjað á þessari byggingu en engin tilboð bárust sem þá gáfu fólki færi á að stækka hana sem allir eru ánægðir með. Við fulltrúar Aftureldingar vorum kölluð á fund um miðjan júní þar sem fullyrt var að þetta verkefni myndi ekki tefjast lengur en um ár, við gátum alveg lifað með því þar sem við sáum að það mundi bætast við búningsklefa og rýmið til styrktarþjálfunar stækka svo eitthvað sé nefnt. En frestunin verður greinilega töluvert lengri miðað við framlagða áætlun.
Við erum orðin langþreytt á að bíða eftir tímasettri framtíðarsýn Mosfellsbæjar sem margsinnis hefur verið kallað eftir. Jú, vissulega hljómar það vel að á kjörtímabilinu eru á dagskrá tveir gervigrasvellir, fullbyggð stúka og þjónustubygging. Það sem verra er að aðeins áætlun næsta árs er bindandi og miðað við hvernig verkefni hverfa út af áætlunum þá er erfitt að trúa því og treysta að verkefnin munu raungerast. Ég er því hóflega bjartsýn en vona það besta.
Við í Aftureldingu sjáum okkur því knúin til að boða til opins fundar um aðstöðumálin okkar til þess að freista þess að opna augu fólks fyrir því hvernig raunstaðan er, á sama tíma gefst kjörnum fulltrúum tækifæri á að útskýra betur fyrir okkar félagsmönnum þeirra framtíðarsýn.
Auðvitað er þessi aðstöðuvandi ekki til kominn á stuttum tíma og við gerum okkur grein fyrir að það tekur tíma að vinda ofan af verkefninu en betur má ef duga skal.
Áfram Afturelding.

Birna Kristín Jónsdóttir,
Formaður Aftureldingar

Aldursvænt samfélag

Halla Karen Kristjánsdóttir

Í hvernig samfélagi viljum við búa? Sennilega viljum við öll búa í samfélagi þar sem við upplifum að við séum virt að verðleikum og að þörfum okkar sé mætt þar sem við erum stödd hverju sinni.
Meðalaldur landsmanna fer hækkandi og það er fagnaðarefni. Fjölgun eldri borgara kallar á aukinn fjölbreytileika í þjónustu fyrir þann hóp og mikilvægt er að hafa í huga að eitt hentar ekki öllum.
Það er mjög mikilvægt að einstaklingar sem komnir eru á eftirlaun upplifi að þeir séu enn virkir þátttakendur í samfélaginu hvort sem það er í félagslegu, hagrænu eða menningarlegu tilliti. Einnig að þeim standi til boða stuðningur, örvun og þjálfun svo hreyfigeta verði eins og best verður á kosið og andlega hliðin blómstri.

Í bæjarfélaginu okkar er nú þegar verið að gera marga góða hluti eins og allt það öfluga starf eldri borgara sem fer fram hjá FAMOS ber glöggt vitni um. Mosfellsbær býður einnig þeim sem þess þurfa upp á stuðningsþjónustu sem aðstoðar fólk við daglegt líf og heimsendingu á mat.
Ekki má heldur gleyma að fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf er í boði fyrir eldri borgara hér í bæ. Þá er við hæfi að minna hér á frístundaávísun fyrir eldri borgara og hvetja til þess að eldri bæjarbúar nýti sér hana.

Ólafur Ingi Óskarsson

Að mörgu að hyggja
Við í Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn viljum þó gera enn betur og ætlum okkur að gera það. Einn grunnþáttur í því að gera betur er að við ætlum að efla starfsemi öldungaráðs þannig að það geti betur sinnt sínu skilgreinda, lögbundna hlutverki.
Verkefni öldungaráðs eru nefnilega mjög mikilvæg og margskonar eins og t.d. að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra, að samhæfa þjónustu við aldraða og gera tillögur til bæjarstjórnar og annarra um öldrunarþjónustu. Einnig á öldungaráð að leitast við að tryggja að aldraðir fái þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.
Til þess að öldungaráðið geti sinnt sínum skyldum eins vel og unnt er þá er það okkar skoðun að gera þurfi vandaða þjónustukönnun meðal eldri borgara Mosfellsbæjar til þess að greina stöðuna og hvað megi bæta til að byggja upp og gera Mosfellsbæ að aldursvænum bæ.
Já, það er að mörgu að hyggja og mörg verkefni fram undan. Nú í upphafi fyrsta vetrar nýs meirihluta er ánægjulegt að greina frá því að nú er loksins boðið upp á heimsendan mat um helgar eins og alla aðra daga.
Þá hafa verið gerðar skipulagsbreytingar hjá Eir sem er framkvæmdaaðili stuðningsþjónustu fyrir Mosfellsbæ sem bæta eiga þá þjónustu sem veitt er.

Þetta eru einungis fyrstu skrefin í þeirri vegferð sem mörkuð er í samstarfssamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar. Það er mikilvægt að vera virkur í lífinu, eiga kost á öflugum tækifærum til heilsueflingar, virkrar samfélagsþátttöku, finna til virðingar og það sé hlustað á mann. Það eykur lífsgæðin til muna.
Við lifum einu sinni og því þurfum við að vanda okkur og minna á að samfélagið okkar er betra með alla sem hraustasta, virkasta og glaðasta innanborðs.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs
Ólafur Ingi Óskarsson, formaður fjölskyldunefndar

Að reka sveitarfélag

Aldís Stefánsdóttir

Á síðustu vikum hefur sveitarstjórnarfólk af öllu landinu komið saman til að fjalla um rekstur og málefni sveitarfélaga.
Í lok september var haldið Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og í október var fjármálaráðstefna.
Það er mjög gagnlegt fyrir fólk sem kemur að því að stýra þessum mikilvægu innviðum um allt land að hittast og bera saman bækur sínar. Bæði kjörnir fulltrúar og bæjar- og sveitarstjórar. Áskoranirnar eru miklar en það sést best á því að sveitarfélögum sem uppfylla ekki lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur fjölgað um helming nú í kjölfar heimsfaraldursins. Mosfellsbær er sem betur fer ekki í þeim hópi.
Hluti af skýringunum á þessum rekstrarerfiðleikum er flutningur á málaflokki fatlaðs fólks til sveitarfélaga fyrir um 10 árum. Síðan þá hefur þjónustan þróast í samræmi við breytingar á lögum og verið verið nútímavædd og kostnaðurinn að sama skapi aukist mikið án aukningar á mótframlagi frá ríkinu. Breyting á þjónustu skýrir líka aukinn kostnað í fleiri málaflokkum. Þar er hægt að nefna leikskólamál. Kostnaður sveitarfélaga vegna leikskóla eru um 60 milljarðar króna á landsvísu.
Á síðustu áratugum hafa sveitarfélög byggt upp leikskóla sem standast nútímakröfur þar sem vistunartími hefur verið lengdur bæði með tilliti til aldurs barna og einnig með tilliti til lengdar á vistunartíma. Nú heyrir það til undantekninga ef börn eru ekki komin á leikskóla á öðru aldursári og að þau dvelji þar að minnsta kosti í átta tíma á dag. Hluti af skýringunni á erfiðum rekstri sveitafélaga er líka mikil fólksfjölgun og fjárfestingarþörf sem fylgir henni. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda fjölgað um rúmlega 30 þúsund á síðustu 10 árum.

Ég er með þessum skrifum ekki að leggja til neina töfralausn á rekstri sveitarfélaga. Því miður. Heldur er ég frekar að deila þeim upplýsingum sem liggja fyrir og hugleiðingum þeim tengdum. Mér finnst mikilvægt að þau sem taka að sér að taka ákvarðanir um rekstur okkar sameiginlegu sjóða upplýsi um það hvernig gengur og af hverju ekki er hægt að gera allt fyrir alla strax.
En ég er hinsvegar bjartsýn á að okkur muni áfram farnast vel hér í Mosfellsbæ við það krefjandi verkefni að takast á við mikla fjölgun íbúa á sama tíma og við nútímavæðum og bætum þjónustuna.
Það þýðir að við þurfum að vera skynsöm og forgangsraða með tilliti til fjárfestingargetu hverju sinni. Það þýðir líka að við þurfum að leggja áherslu á stefnumótun þannig að við vitum hvert við erum að fara og með samtalinu finnum við út úr því hvernig á að komast þangað.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Lífrænn úrgangur er auðlind

Brynja Guðmundsdóttir

Mosfellingar bíða eflaust spenntir eftir að innleiðing á samræmdu úrgangsflokkunarkerfi höfuðborgar­svæðisins líti dagsins ljós og verði að veruleika. En hingað til hefur ekki verið samræmi milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum.
Lagt er til að almenn sorphirða muni skiptast í lífrænan eldhúsúrgang, blandað heimilissorp, pappír/pappa og plast. Fyrir okkur Mosfellinga er viðbótarflokkun á lífrænum úrgangi mikið framfaraskref.
Hingað til hefur lífrænn úrgangur verið urðaður með blönduðu heimilissorpi en við niðurbrot á lífrænum úrgangi myndast metangas sem við urðun fer óbeislað út í andrúmsloftið, en þess má geta að metan er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.
Megnið af heimilissorpi sem endar í gráu tunnunni er lífrænn úrgangur og með því að meðhöndla lífræna hlutann rétt, spörum við útblástur og drögum verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ein afurð vinnslunnar er afar næringarríkur jarðvegsbætir sem notaður er við uppgræðslu landsins og skógrækt sem bindur einnig koltvísýring. Flokkunin hefur ekki einungis mikinn umhverfisávinning heldur verður til í ferlinu hágæða eldsneyti, metan, sem hægt er að nota í ýmsum tilgangi.
Vonandi verður flokkun á lífrænum úrgangi hluti af venjum heimila sem allra fyrst, því það er til mikils að vinna.
Það er allra hagur að skerða ekki möguleika komandi kynslóða og með þessum greinaskrifum vil ég hvetja heimili bæjarins til dáða í að minnka framleiðslu á sorpi og flokka rétt, því það þarf bara vilja og getu til að bæta við nýjum og góðum venjum.
Enginn getur allt en allir geta eitthvað!

Brynja Guðmundsdóttir
Áhugamanneskja um umhverfismál

Leiruvogurinn okkar

Úrsúla Jünemann

Loksins er búið að friðlýsa Leiruvoginn. Það var kominn tími til. Þvílík gersemi og útivistarpardís sem við eigum rétt fyrir framan nefið á okkur.
Alveg sama hvort þér finnst gaman að ganga, skokka, hjóla, vera á hestbaki eða spila golf, þetta svæði býður upp á marga möguleika. Áhugamenn í náttúruskoðun geta unað sér vel: Þetta er með bestu fuglaskoðunarsvæðum á landinu og leirurnar bjóða farfuglum, umferðafuglum og staðfuglum ríkulegt fæðuframboð. Selir halda sig sunnarlega í voginum og er gaman að fylgjast með þeim.
Fjörunar eru fjölbreyttar, þangklappir, hrúðurkarlar, margskonar skeljar og svo má lengi telja. Fjórar ár renna í voginn: Leirvogsá, Kaldakvísl, Varmá og Úlfarsá og hver þeirra hefur sín sérkenni.
En hvað þýðir svona friðlýsing? Er þetta alvara eða einungis sýndarmennska? Við Mosfellingar eigum að vera núna á varðbergi gagnvart áætlun um Sundarbrautina og hvernig hún á að vera hönnuð. Ódýrasta lausnin virðist vera að þrengja verulega að voginum og byggja brúna sem stysta. Þrengingar yfir firði hafa ekki alltaf reynst vel og hvaða áhrif þeir hafa á lífríkið. Hæst í minni er mér þegar brú var gerð yfir Kolgrafarfjörðinn á Snæfellsnesi. Í ljós kom að út- og innstreymi sjávar var ófullnægjandi þannig að súrefnismettun í firðinum var ekki nóg. Þannig drápust stórar torfur af síld og strandmengun var skelfileg.
Ódýrasta lausnin er ekki alltaf best þegar horft er til þeirra verðmæta sem gætu glatast. Leiruvogurinn mun örugglega taka miklum breytingum með fyrirhuguðum þrengingum og brú.
Framburðurinn sem árnar koma með mun væntanlega safnast fyrir við þessar þrengingar við brúna og innri vogurinn mun grynnast. Að ekki sé talað um hávaða- og sjónmengun.
Við hér í þessum fallegu útivistarbæ eigum að gera allt sem er hægt að gera til að vernda þessa paradís sem við eigum við bæjardyrnar. Möguleikinn er fyrir hendi að setja Sundabraut í göng og hlífa þannig fallega Leiruvoginum okkar. Það væri þess virði.

Úrsúla Jünemann

Framtíðarsýn í atvinnumálum

Sævar Birgisson

Á yfirstandandi ári náði Mosfellsbær þeim merka áfanga að komast yfir 13 þúsund manns í íbúafjölda, sem er merkilegur áfangi.
Sér í lagi ef við spólum rúma tvo áratugi aftur í tímann eða í kringum aldamót, þá voru íbúar rétt um 6 þúsund. Á þeim tíma voru Leirvogstungu- og Helgafellshverfin enn fjarlægur draumur, sama má segja um Krikahverfið. Eini grunnskóli bæjarins var þá Varmárskóli og aðeins ein almenningssundlaug, okkar kæra Varmárlaug.
Á árinu 1999 leit Atvinnu- og ferðamálastefna fyrir Mosfellsbæ dagsins ljós, var hún gerð til fjögurra ára eða til ársins 2003, með yfirskriftina „Mosfellsbær – heit sveit með sögu“. Síðan hefur heilmikið vatn runnið til sjávar og Mosfellsbær tekið á sig gjörbreytta mynd, með rúmlega tvöfalt fleiri íbúa.
Það er því hægt að fullyrða að Mosfellsbær er sveitarfélag í miklum vexti, ef áætlanir ganga eftir þá mun vöxturinn áfram vera með svipuðum hraða næstu árin. Í dag stöndum við frammi fyrir því að mikil uppbygging á nýju hverfi mun hefjast innan skamms á Blikastaðalandinu. Eins og kynnt hefur verið þá verða fyrstu húsin sem rísa í Blikastaðalandinu á atvinnusvæði sem verður umfangsmeira en við eigum almennt að venjast í Mosfellsbæ. Nú er því lag að móta framtíðarsýn fyrir atvinnu- og nýsköpun í Mosfellsbæ til að skapa það umhverfi sem okkur hugnast helst í þeim málum til framtíðar. Með tilkomu nýrrar atvinnu- og nýsköpunarnefndar þá verða þau verkefni tekin föstum tökum og meðal fyrstu verkefna nefndarinnar verður að leiða vinnu við heildar atvinnu- og nýsköpunarstefnu fyrir Mosfellsbæ.
Þetta er einstakt tækifæri á tímum mikilla breytinga. Tæknibreytingar, umhverfismál, almenningssamgöngur, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar hafa haft og munu hafa áhrif á það hvernig fólk kýs að búa og starfa. Við eigum kost á því í þessari vinnu að velta fyrir okkur hvernig samfélag við viljum skapa. Hvað er það í okkar nærumhverfi sem skiptir okkur mestu máli? Hvernig mun Mosfellsbær líta út eftir önnur 20 ár og hvaða áherslur verða hjá íbúum þess tíma?
Í dag er fjöldi fyrirtækja með starfsemi í Mosfellsbæ og þurfum við að hlúa vel að þeim. Vissulega er litið á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnusvæði, en Mosfellsbær hefur fulla burði til að styrkja sína stöðu sína enn frekar sem eftirsóknarverður kostur fyrir fyrirtæki til að reka starfsemi sína. Tækifærin eru til staðar, það er okkar að stuðla að því að búa til farveg sem ýtir enn frekar undir nýsköpun og framtakssemi.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi