Vinalegt raunsæi

Dagný Kristinsdóttir

Umræðuefni Kveiks í síðustu viku var helgað málefni sem hefur verið til umræðu meðal bæjarbúa og í stjórnsýslunni árum saman, það er urðunarsvæðið á Álfsnesi.
Í þættinum kom meðal annars fram að samkvæmt eigendasamkomulagi sem nú er í gildi eigi að loka urðunarsvæðinu í lok þessa árs. Jafnframt kom fram að nýr staður hafi ekki verið fundinn. Þessi fréttaflutningur er ekki nýr og á ekki að koma okkur Mosfellingum á óvart enda hafa fulltrúar Vina Mosfellsbæjar ítrekað bent á þetta undanfarin ár.
Fyrir okkur Mosfellinga þurfa eftirfarandi atriði að vera á hreinu. Álfsnes sem urðunarstaður er ekki að fara neitt. Þetta er eins og þaulsetinn gestur í partýi sem við getum ekki hent út. Þá er tvennt í stöðunni; að pirra sig á honum eða búa þannig um hnútana að viðveran sé þolanleg. Við erum í þeirri stöðu núna. Þegar nýr urðunarstaður finnst tekur 3-5 ár að undirbúa hann til notkunar. Það að ekki sé búið að finna nýjan stað þýðir ósköp einfaldlega að ekki verður hægt að hætta urðun á svæðinu í lok þessa árs. Þá þarf að horfa til skynsamari leiða og hvað sé raunhæft að gera. Það er að sætta okkur við nærveru þaulsetna gestsins og gera hana eins bærilega fyrir okkur og hægt er, á meðan unnið er að varanlegri úrlausn mála. Eitt það brýnasta sem vinna þarf með er lyktarmengunin en það er sjálfsagður réttur okkar Mosfellinga, og ekki síst þeirra sem búa í Leirvogstungu og á öðrum nærliggjandi svæðum, að neikvæð áhrif frá urðunarstaðnum séu í lágmarki. Lyktarmengun kemur úr meðhöndlun á lífrænum úrgangi á urðunarstað og til þess að lykt verði sem minnst þarf að vinna úrganginn innanhúss og sleppa urðun. Fram kom í Kveik að gas- og jarðgerðarstöðin Gaja sé rekin á fullum afköstum og því liggur beinast við að ganga þurfi rösklega í það verk að skapa leiðir til að lífrænn úrgangur sé allur unninn hjá Gaju eða öðrum jarðgerðarstöðvum. Því þurfum við að ganga úr skugga um það að stjórn Sorpu hafi stækkun Gaju á teikniborðinu eða aðrar færar leiðir sem verða klárar fyrir lok árs. Það er forgangsatriði þessa árs.

Dagný Kristinsdóttir
Oddviti Vina Mosfellsbæjar