Nýr leikskóli í Helgafellshverfi

Lovísa Jónsdóttir

Í síðustu viku var tekin ákvörðun í bæjarráði Mosfellsbæjar um að fela umhverfissviði að fara í útboð á byggingu nýs leikskóla í Helgafelli.
Er þessi ákvörðun tekin í framhaldi af því að endurskoðun hönnunar leiksskólans, með það að markmiði að lækka áætlaðan byggingakostnað, skilaði tilætluðum árangri. Þar með er ljóst árangurinn af vinnu starfshóps um uppbyggingu leikskóla í Mosfellsbæ hefur skilað bæjarbúum að minnsta kosti 15% sparnaði við verkefnið.
Ef við hefðum haldið áfram með byggingu leikskólans, með óbreyttum teikningum, eins og bæjarfulltrúar D lista hafa ítrekað kallað eftir síðan að ákvörðun um stofnun starfshópsins var tekin í október 2022, hefði ekki reynst mögulegt að ná þessum sparnaði.

Lóðaval
Endurskoðunin leiddi jafnframt í ljós að í fyrri kostnaðaráætlunum vegna byggingar leikskólans var ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna jarðvegsframkvæmda á erfiðri lóð. Þrátt fyrir það var tekin ákvörðun um halda áfram undirbúningi byggingarinnar og ljúka hönnun án þess að uppfærð kostnaðaráætlun hafi verið lögð fyrir bæjarráð, jafnvel þó að bent hafi verið á að kostnaður vegna lóðarvalsins yrði umtalsverður.
Aðrar lóðir fyrir leikskóla, sem ekki eru jafn erfiðar til uppbyggingar, voru mögulegar og hefði verkefnið ekki verið komið á lokastig þegar nýr meirihluti tók við völdum í júní 2022 er alveg víst að önnur lóð hefði verið valin.
Vinna starfshópsins skilar því, auk beins sparnaðar af þessu ákveðna verkefni, að verkferlar við kostnaðaráætlanir verða endurskoðaðir. Mikilvægt er að kostnaðarmat sé reglulega uppfært og lagt fyrir bæjarráð.

Betri aðstæður á markaði
Til viðbótar við þá lækkun byggingarkostnaðar sem náðst hefur eru í dag mun betri aðstæður á útboðsmarkaði fyrir sveitarfélög en voru í haust, þegar jafnvel engin tilboð bárust í verk eða þau voru vel yfir áætlunum. Við erum því vongóð um að ásættanleg tilboð berist.
Þrátt fyrir að byggingarvísitala hafi hækkað um tæp 5% þá hefur annar kostnaður, svo sem verð á stáli, lækkað. Það er alrangt sem haldið hefur verið fram að þeir rétt rúmu 5 mánuðir sem voru teknir til þess endurskoða hönnun og kostnað við byggingu leikskólans hafi leitt til þess að kostnaðurinn við byggingu hans verði mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Sú verðbólga sem er nú í landinu var til staðar í haust og ljóst að fjármagnskostnaður myndi vaxa hvort sem hafist var handa í haust eða núna á vormánuðum. Þá lá einnig fyrir að laun myndu hækka enda kjarasamningar lausir. Hækkun af þessum völdum skýrist því ekki af endurskoðunartímanum.

Góð reynsla til framtíðar
Á heildina litið er því árangurinn af vinnu starfshópsins óumdeilanlegur. Hvort sem það er lækkaður byggingarkostnaður, bættir verkferlar til framtíðar eða þau verðmætu gögn og upplýsingar sem var safnað saman við vinnuna þá er ljóst að undir stjórn núverandi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar verður vandaður undirbúningur, gagnsæi og eftirfylgni leiðarstef í allri frekari uppbyggingu.

Lovísa Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi Viðreisnar