Sjálfboðaliðinn

Birna Kristín Jónsdóttir

Íþróttafélag eins og Afturelding sem er líklega stærsti vinnustaður bæjarins fyrir utan Mosfellsbæ sjálfan er rekið að langmestu leyti af sjálfboðaliðum.
Félagið er með tvo starfsmenn á skrifstofunni, framkvæmdastjóra og íþróttafulltrúa sem sjá um allan daglegan rekstur og faglegt íþróttastarf.
Það vantar alltaf góða sjálfboðaliða og það verður að viðurkennast að það verður alltaf erfiðara og erfiðara að fá fólk til starfsins. Það er staðreynd að það er mikil ábyrgð að taka að sér sjálfboðaliðastarf, við viljum allt fyrir íþróttafélagið okkar gera og oftar en ekki erum við komin í þá stöðu að vera að taka á köflum mjög óvinsælar ákvarðanir og stundum spyr ég mig hvers vegna í ósköpunum ég er að þessu.
Oftar en ekki fer stór hluti frítímans í að hafa áhyggjur af einhverju ráðinu eða deildinni. En svo koma tímabil sem eru svo gefandi og uppskeran er svo sæt að það eru þessi augnablik sem gera þetta allt þess virði og oft eftir erfiða fundi þá þarf ekki nema einn sætan sigur og lífið er aftur dásamlegt. Fyrir utan það hvað maður kynnist mikið af frábæru fólki.
Nú stöndum við frammi fyrir því að þurfa að manna meistaraflokksráð kvenna í knattspyrnu og það verður fundur á mánudaginn kemur í Vallarhúsinu. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að halda úti góðu starfi í meistaraflokkunum okkar til þess að yngri iðkendur hafi fyrirmyndirnar til þess að líta til. Ég hvet ykkur sem eruð með stelpur í yngri flokkum að kíkja við af því að tíminn líður hratt og stelpur í 3. og 4. flokki eru steinsnar frá meistaraflokki.
Ég lofa ykkur því að þetta er krefjandi, erfitt á köflum en langoftast er þetta bara skemmtilegt og gefandi starf í góðum félagsskap.
Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir
Formaður Aftureldingar