Niðurstaða ársreiknings 2022

Lovísa Jónsdóttir

Það var ljóst þegar nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar tók við í Mosfellsbæ að fjárhagsstaða bæjarins væri ekki sú besta. Miklar lántökur síðustu ára taka í og hafa eðlilega mikil áhrif á möguleika okkar til frekari uppbyggingar.
Sjálfur rekstur bæjarins hefur verið ágætur, það er að segja veltufé frá rekstri hefur verið jákvætt sem segir okkur að rekstur í þeirri mynd sem hann hefur verið stendur undir sér. Áskorunin í núverandi umhverfi er hins vegar skuldastaða bæjarins. Lán bæjarfélagsins eru verðtryggð og ljóst að þegar verðbólga er í hæstu hæðum þá hefur það mikil áhrif.
Lífið heldur samt áfram þrátt fyrir verðbólgu og verkefnin sem verður að takast á við halda áfram að skjóta upp kollinum.

Stóru verkefnin geta ekki beðið
Stuttu eftir að nýr meirihluti tók við lá 6 mánaða uppgjör fyrir, hallinn af rekstri fyrstu 6 mánaða ársins var 940 milljónir króna. Sú niðurstaða var 500 m.kr. lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og þar vó þyngst aukinn fjármagnskostnaður um 396 m.kr.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Eins og fyrr segir þá hefur svona staða óneitanlega mikil áhrif á möguleikana til frekari uppbyggingar en sum verkefni eins og mygluskemmdir spyrja ekki að því hvernig rekstrarumhverfið er en það hefur til dæmis reynst vera risastórt verkefni á síðustu mánuðum að hreinsa og endurbyggja í Kvíslarskóla.
Neðri hæðin í skólanum var hreinlega gerð fokheld og þegar framkvæmdum verður lokið þá verður búið að endurbyggja alfarið fyrstu hæð skólans. Þetta er fjárfesting sem á árinu 2022 var 441 milljón króna dýrari en áætlað hafði verið í viðhald skólans.

Verðbólgudraugurinn
Eins og við vitum öll þá hefur verðbólgan ekki hjaðnað á síðari hluta ársins, þvert á móti jókst hún síðustu mánuði ársins.
Það kom því ekki á óvart að rekstrarniðurstaða ársins 2022 yrði mun lakari en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir. Hins vegar er það ábyrgri fjármálastjórn að þakka að hallinn varð ekki meiri en raun ber vitni.
Í lok árs var niðurstaðan neikvæð um 898 milljónir en þar af eru 797 milljónir áfallnar verðbætur vegna hærri verðbólgu en spár gerðu ráð fyrir.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Framtíðin
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu fyrir árið en það er alveg ljóst að Mosfellsbær, eins og önnur sveitarfélög, á allt undir því að tök náist á verðbólgunni svo unnt verði að ná tilætlaðri niðurstöðu.

Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar