Stöndum saman

Örvar Jóhannsson

Mosfellsbær er eitt af 11 sveitarfélögum sem nú þegar hafa skrifað undir þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og fleiri sveitarfélög eru á leiðinni.
Það er okkar samfélagslega ábyrgð að hjálpa til og taka á móti fólki á flótta. Þetta er allt fólk sem á sína sögu, vonir og þrár eins og allir aðrir um að geta lifað góðu og hamingjusömu lífi. Það hefur sýnt sig að margt af flóttafólkinu sem við hér á Íslandi höfum tekið á móti kemst auðveldlega inn á vinnumarkaðinn. Þau þrá að vinna fyrir sér og vinna að því hörðum höndum að skila til baka góðri vinnu til þess að efla samfélagið okkar og efnahagslíf. Einnig skapa þau og búa til auðugra mannlíf hér á landi því í fjölmenningarsamfélagi skapast mörg ný tækifæri.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að.

Ólafur Ingi Óskarsson

Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þ.m.t. íslenskunámi.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti á dögunum að taka á móti allt að 80 manns og er það þó ekki þannig að þessi hópur komi allur á sama tíma, síður en svo. Það er að sjálfsögðu að mörgu að hyggja og eru húsnæðis- og skólamálin helsta áskorunin. Við munum kappkosta við að huga vel að fólkinu sem kemur til okkar sem og öðrum Mosfellingum. Þetta verkefni verður samvinnuverkefni allra í Mosfellsbæ.
Í samningunum milli ríkis og þeirra sveitarfélaga sem sýna samfélagslega ábyrgð og taka á móti flóttafólki er skýrt kveðið á um það að sveitarfélögin fái greiddan kostnað með fjölskyldunum fyrstu tvö árin. Þar að auki munu koma til sérstakar greiðslur með grunn- og leikskólabörnum auk þess sem Mosfellsbær mun fá framlög sem koma til með að standa undir kostnaði við stöðu verkefnastjóra fyrsta árið en minnka aðeins á árunum á eftir. Þessi verkefnastjóri mun halda vel utan um þennan hóp.
Eins og kunnugt er þá kemur mikill fjöldi flóttamanna til landsins í dag sem kemur jafnt til Mosfellsbæjar hvort sem sveitarfélagið gerir slíkan samning eða ekki. Með því að taka þátt í verkefninu er verið að tryggja það að sveitarfélagið fái fjárframlög frá ríkinu til að standa undir kostnaði.
Við sem samfélag ætlum að sýna styrk okkar í að standa saman og sýna að allir skipti máli.

Örvar Jóhannsson bæjarfulltrúi og Ólafur Ingi Óskarsson formaður velferðarnefndar.