Er brjálað að gera?

Aldís Stefánsdóttir

Það var ótrúlega vel heppnað að gera þessa spurningu að hálfgerðum brandara í auglýsingum frá Virk. Húmor getur haft mikil áhrif á daglegt líf okkar í hinum ýmsu aðstæðum, hvernig við eigum samskipti við aðra og hvernig okkur líður í krefjandi umhverfi.
En ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að ég var að velta fyrir mér hvað ég ætti að skrifa um í bæjarblaðið okkar að þessu sinni. Hvað er búið að vera í gangi síðustu vikur? Alls konar verkefni í fræðslumálunum og svo eru það úrgangsmálin, atvinnumálin og menningarmálin að ég nefni nú ekki íþrótta- og tómstundamálin. Maður minn hvað þetta er allt mikilvægt og spennandi.

Úrgangsmál eru loftslagsmál
Nýleg umfjöllun um úrgangsmál hefur líklega vakið athygli margra. Þetta er góð og tímabær umræða. Í allri stefnumótun, áætlunum og góðum fyrirætlunum í loftslagsmálum þá eru úrgangsmál mikilvægur þáttur.
Til að setja hlutina í samhengi þá nam kolefnislosun vegna urðunar Sorpu í Álfsnesi um 2% af heildarlosun Íslands á árinu 2021. Það jafngildir útblæstri frá 45 þúsund bifreiðum. Sem betur fer hefur löggjöfin í þessum málum tekið miklum breytingum og núna um áramótin tóku gildi ný lög sem krefja okkur um miklar breytingar. Þar er meðal annars búið að banna urðun á lífrænum úrgangi.
Það hefur þau áhrif að við þurfum að hefja flokkun á heimilisúrgangi og ég veit að margir Mosfellingar eru löngu tilbúnir í það. Nýjar tunnur eru væntanlegar á hvert heimili með vorinu.

Fjárfesting í innviðum er nauðsynleg
Það sem við þurfum núna eru raunhæfar og metnaðarfullar áætlanir um það hvernig úrgangsmálum verður háttað á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar á landinu öllu, til framtíðar. Þar stendur upp á okkur stjórnmálafólk bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
Það er orðið bráðnauðsynlegt að ráðast í mikilvæga innviðauppbyggingu til að standa með sóma að þessum málum. Stór skref hafa verið stigin með byggingu á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi (GAJA) og fyrir liggur að hefja útflutning á brennanlegum úrgangi síðar á þessu ári. Stóru verkefnin fram undan eru meðal annars að þroska umræðuna um sorpbrennslu hérlendis og að finna nýjan urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið.

Hefjumst handa
Okkur er ekkert að vanbúnaði. Við þurfum að veita þessum málaflokki tíma og athygli og að sjálfsögðu munum við koma að umræðunni um fjármagn. En eins og staðan er núna þá er ekki í boði að gera ekki neitt.
Stjórn Sorpu er skipuð kjörnum fulltrúum úr öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er metnaðarfullur hópur sem hefur fullan hug á því að leggja sitt af mörkum bæði þegar kemur að mótun stefnu í úrgangsmálum og innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
Þannig að til að svara spurningunni, jú það er bara brjálað að gera.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar
í Mosfellsbæ og stjórnarkona í Sorpu