Korpa – gömul afbökun?

Guðjón Jensson

Í Morgunblaðinu þann 29.3.2023 er sagt frá undirbúningi að nýju hverfi syðst í landi Blikastaða. Þetta nýja hverfi er nefnt Korputún.
Mér þykir þetta heiti alveg ótækt enda mun ábyggilega vera til heppilegra örnefni í landi Blikastaða en að sækja það til Reykjavíkur.
Orðið Korpúlfsstaðaá og stytting í Korpu mun ábyggilega ekki vera gamalt í málinu, líklegast tengt umsvifum Thor Jensen á Korpúlfsstöðum. Úlfarsá hét áin fyrrum alveg frá upptökum í Hafravatni og til ósa þar sem hún rennur í Leiruvog. Áin á ekki að vera kennd við Korpúlfsstaði fremur en Blikastaði enda rennur hún síðasta spölinn á mörkum þessara gömlu bújarða.

Mér þótti ástæða til að skoða betur þetta mál. Fyrst kannaði ég örnefnaskrá Blikastaða sem Magnús Guðmundsson sagnfræðingur og skjalavörður tók saman fyrir rúmum 30 árum: nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/24867
Á síðu 7 í þessari örnefnaskrá segir að Emil Rokstad hafi fyrstur manna nefnt neðri hluta Úlfarsár Korpu og er Guðmundur Þorláksson (1894-1994) bóndi í Seljabrekku borinn fyrir þessum upplýsingum. Í gamallri grein í Tímanum 31.10.1969 segir Guðmundur: „nafnbreyting sem oft heyrist nú, er Korpa í stað Úlfarsá. Fyrir 40-50 árum var þetta nafn ekki til. Áin hét Úlfarsá eins og hún mun hafa heitið til forna. En í daglegu tali var hún oft kennd við suma bæina, sem áttu land að henni og þó einkum Korpúlfsstaði og Lambhaga. Kunnust mun hún hafa verið sem Korpúlfsstaðaá enda lá þjóðvegurinn yfir hana fram hjá Korpúlfsstöðum og fyrir landi þeirrar jarðar og Blikastaða, var laxveiðin mest og beztu stangveiðistaðirnir. Einnig má á það benda að land Korpúlfsstaða er lengst meðfram ánni, þeirra jarða sem að henni liggja. Þetta Korpunafn mun þannig til komið, að norskur maður, Emil Rokstad, hafði laxveiðina í ánni á leigu yfir langan tíma og af hans vörum heyrði ég Korpu nafnið fyrst, líklega þótt það þægilegra í framburði. Líka má vera að þetta hafi verið eins konar gælunafn hjá honum, því að hann tók miklu ástfóstri við ána og undi þar löngum.“
Heimild: timarit.is/files/64638401
Texti undirritaður GÞ sem er Guðmundur Þorláksson en var fæddur á Korpúlfsstöðum.
Ætli þurfi nánar að grennslast fyrir um þetta Korpu örnefni? Það er væntanlega ekki mikið eldra en aldargamalt. Guðmundur var mikill fróðleiksmaður og ritaði Jón M. Guðmundsson á Reykjum minningagrein um Guðmund látinn sem vert er að vísa til: timarit.is/files/58426187

Eigum við að láta styttingu á heiti Korpúlfsstaðaár/Úlfarsár ráða nafngift á heilu hverfi? Væri ekki nær að kenna það við eitthvað annað örnefni sem er nær eins og Hamrahlíð?

Hvað segja Mosfellingar?
Er bæjarstjórn Mosfellsbæjar með grein þessari hvött til að skoða betur þetta mál.

Staddur á Heilsuhælinu í Hveragerði
Guðjón Jensson tómstundablaðamaður
og eldri borgari – arnartangi43@gmail.com