Menning í mars komin til að vera

Hrafnhildur Gísladóttir

Við sem höfum nú starfað saman í menningar og lýðræðisnefnd í tæpt ár erum einstaklega þakklát fyrir þann heiður sem það er að vinna með þennan mikilvæga málaflokk sem snertir alla íbúa bæjarins.
Gott menningarlíf eflir bæjarbraginn og það er okkur í nefndinni mikilvægt að bæjarbúar hafi tækifæri til að koma saman og njóta lista og menningar í sínum heimabæ.

Síðastliðinn mánuð hefur nýtt verkefni menningar- og lýðræðisnefndar verið í gangi sem gekk undir nafninu Menning í mars. Við nefndarfólk tókum okkur saman og fengum aðila til að vera með stóra og smáa viðburði af ýmsum toga. Einnig gátu þeir sem það vildu skráð sig og sína viðburði sem settir voru inn á viðburðadagatal Mosfellsbæjar.
Haldnir voru tónleikar, opið hús hjá listafólki, söngur og sund, tónleikar Listaskóla Mosfellsbæjar og sögukvöld í Hlégarði svo eitthvað sé nefnt. Viljum við þakka öllum þeim sem komu að því að halda viðburði og taka þátt í að gera menningarlíf bæjarins sýnilegt.
Við hlökkum mikið til að halda áfram að þróa þennan viðburð með bæjarbúum og efla menningarlíf í Mosfellsbæ.

Sérstaklega viljum við þakka öllum þeim sem komu í Hlégarð á sögukvöldið sem var lokaliður í dagskrá Menningar í mars. Að sjá allan þann fjölda fólks sem kom saman vegna áhuga á sögu sveitarinnar okkar og hlusta á sögur frá sveitungum, fékk mosfellska hjartað til að slá hraðar.
Við erum svo lánsöm að fá að búa í sveit í borg og held ég að allir sem mættu á þennan einstaka viðburð í félagsheimilinu okkar Hlégarði geti tekið undir að þetta var stórkostlegt kvöld og vonandi ekki það síðasta. Það að geta tekið þátt í menningarviðburðum í sínum heimabæ er einn af hornsteinum góðs mannlífs og við í nefndinni höfum metnað til að koma því góða starfi sem á sér stað í Mosfellsbæ á framfæri. Menning í mars er því komin til að vera.

Fyrir hönd menningar- og lýðræðisnefndar
Hrafnhildur Gísladóttir formaður