FMOS: Alltaf á tánum

Björk Margrétardóttir

Í FMOS leggjum við metnað í að þróa kennsluhætti og námsefni reglulega. Námið í FMOS er verkefnamiðað leiðsagnarnám, sem þýðir að nemendur fá leiðsögn eftir hvert verkefni og hluti af námi nemenda felst í því að tileinka sér leiðsögnina, sem leiðir þá áfram skref fyrir skref í átt að framförum (e. feed forward).
Til að leiðsagnarnám sé árangursríkt er nauðsynlegt að virðing og traust ríki á milli nemenda og kennara. Við í FMOS lítum á góð samskipti við nemendur sem órjúfanlegan hluta af leiðsagnarnáminu og leggjum mikla áherslu á umræður og samtal á milli kennara og nemenda.

Starfendarannsókn
Á haustönn 2022 unnu enskukennararnir Björk og Helena María, ásamt Þorbjörgu Lilju íslenskukennara, að starfendarannsókn sem bar heitið Leiðsagnarnám og markviss úrvinnsla nemenda. Tilgangur

Helena María
Smáradóttir

rannsóknarinnar var að skoða hvernig nemendur í þriðja þreps áföngum nýttu leiðsögn frá kennara til að taka framförum í ensku og íslensku. Í rannsókninni var lögð áhersla á aukið samtal á milli kennara og nemenda, munnlega og skriflega úrvinnslu leiðsagnar og nemendur látnir halda ferilmöppu.

Framkvæmdin
Kennari og nemendur hittust þrisvar sinnum yfir önnina í einstaklingsviðtölum þar sem rætt var heildstætt um námsframvindu hvers og eins nemanda, styrkleika hans og hvar væri sóknarfæri. Lagt var upp með heiðarleg og hvetjandi samskipti. Jafnframt voru nemendur beðnir um að leggja mat á hversu vel leiðsögn nýttist þeim og hvers konar leiðsögn skilaði sér best til þeirra.
Lögð var áhersla á að setja leiðsögnina fram á sem fjölbreyttastan máta, þ.e. skriflega, munnlega, í upptökum, í myndböndum, með aðstoð gervigreindarforrita og síðast en ekki síst í samtölum. Lögð var fyrir könnun í lok áfanganna þar sem nemendur áttu að meta gagnsemi hverrar leiðsagnarleiðar fyrir sig.

Þorbjörg Lilja Þórsdóttir

Niðurstaðan
Niðurstaðan var áhugaverð en í ljós kom að nemendur vildu fá hnitmiðaðar skriflegar umsagnir þegar gæði verkefna þeirra voru mikil og leiðsögnin því eðli málsins samkvæmt stutt. Þegar um heimildaverkefni var að ræða þótti nemendum gagnlegt að fá send stutt myndbönd þar sem kennarinn notaði forritið Turnitin til að leiða nemendur áfram varðandi næstu skref í heimildavinnunni.
Öllum þóttu einstaklingsviðtölin afar gagnleg – bæði nemendum og ekki síður kennurunum, sem fannst viðtölin gefa aukið tækifæri til að sníða nálgun verkefna í samráði við nemandann. Þar að auki fengum við kennararnir aukna innsýn inn í það hvers konar verkefni höfðuðu til nemenda og hvers vegna. Gagnsemi þessarar rannsóknar var gríðarmikil og höfum við nú þegar tekið mið af niðurstöðum úr könnunum til að bæta leiðsagnaraðferðir okkar. Þess má til gamans geta að litaglaðir kennararnir hafa jafnframt tileinkað sér litakóðaðar skriflegar leiðsagnir, nemendum til einföldunar.

Næstu skref …
Við erum hvergi nærri fullnuma í leiðsagnarnámsfræðunum en einsetjum okkur að fylgjast með nýjungum í fræðunum, sem og alhliða tækninýjungum sem geta nýst í námi.
Næsta áskorun okkar er að finna leið til að nýta okkur gervigreindarforrit til gagns og framfara. Sú vinna er þegar byrjuð hjá okkur í FMOS og við hlökkum til að takast á við það verkefni af virðingu og einlægum áhuga.

Björk Margrétardóttir, Helena María Smáradóttir og Þorbjörg Lilja Þórsdóttir.
Höfundar eru framhaldsskólakennarar við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.