Sjálfboðaliðar bjóða upp á námsaðstoð

redcrossHafið er nýtt verkefni hjá Mosfellsbæjardeild Rauða krossins þar sem boðið er upp á námsaðstoð fyrir börn í 3.-6. bekk. Sjálfboðaliðar munu aðstoða börnin við heimanám og skólaverkefni. Andrúmsloftið verður létt og afslappað þar sem hver og einn fer á eigin hraða. „Ég hef áður tekið þátt í svona verkefni í Grafar­vogi sem gekk mjög vel,“ segir Signý Björg Laxdal sjálfboðaliði. „Mig langar að skapa svipað umhverfi hér í mínum heimabæ og um leiða vekja athygli á starfi Rauða krossins í Mosfellsbæ. Ég er búin að fá nokkra samnemendur mína í HÍ til að mæta vikulega. Við tökum vel á móti krökkum og foreldrum í Þverholti 7 á mánudögum kl. 15-17. Tilvalið fyrir börn með námsörðugleika eða hafa íslensku sem annað tungumál. Nú eða bara þá sem vilja klára lærdóminn snemma í vikunni,“ segir Signý.

Hentu

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Það er gott fyrir mann að hætta að gera það sem tekur frá manni orku og gera í staðinn það sem gefur manni orku. Því meiri orku sem maður hefur sjálfur, því meir getur maður gefið af sér. Hlutir geta líka tekið frá manni orku. Dýrir hlutir, fínir hlutir, hlutir með sögu, hlutir sem mann langar í, hlutir, hlutir sem mega ekki skemmast, hlutir sem mega ekki týnast. Dæmi: fíni spegillinn frá ömmu, iPhone 6 (bráðum 7), finnski vasinn, rétti hjólabúningurinn, dúnúlpan, fellihýsið og leðurstígvélin. Listinn er ótæmandi og mismunandi eftir lífstíl hvers og eins.

Alveg eins og það er frelsandi að losa sig úr orkutæmandi verkefnum er ótrúlega gott fyrir sálina að losa sig við alla þessa hluti. Hlutunum fylgja áhyggjur og óþarfa vesen. Áhyggjur skapa stress. Stress hefur bein áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Því meira stress, því meira álag á líkamann. Þar af leiðandi er borðleggjandi að því færri hluti sem maður á og því færri hluti sem mann langar í, því betri er líkamleg heilsa manns. Mitt markmið, og ég er mjög nálægt því í dag, er að eiga svo fáa hluti sem mér er ekki sama um að ég geti pakkað þeim í stóran bakpoka. Það sem skiptir mig máli er að vera með fjölskyldunni og öðru góðu fólki, gera það sem ég elska að gera og reyna að hvetja aðra til þess að bæta líf sitt, láta drauma rætast.

Ég skora á þig að taka til í dótinu þínu. Losa þig við alla orkukrefjandi hluti, líka stóra spegilinn sem þú erfðir frá ömmu, henni er pottþétt sama þótt þú leyfir öðrum að njóta hlutanna hennar. Prófaðu svo að gera lista yfir þá hluti sem þú myndir setja í 60 lítra bakpoka, þá fáu hluti sem virkilega skipta þig máli.
Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. október 2015

Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar

Eva Bryndís og Hólmfríður Dögg með viðurkenninguna.

Eva Bryndís og Hólmfríður Dögg með viðurkenninguna.

Búsetukjarninn í Þverholti 19 hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2015.

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur föstudaginn 18. september og var yfirskrift dagsins 100 ára afmæli kosninga­réttar kvenna. Dagskrá fór fram í hátíðarsal Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Hápunktur dagsins var þegar jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar 2015 var veitt.
Viðurkenningin er veitt þeim einstaklingi, stofnun, félagasamtökum eða fyrirtæki sem hefur staðið sig best í að framfylgja jafnréttislögum og/eða Evrópusátt­málanum um jafna stöðu kvenna og karla í sveitar­félögum og héruðum og/eða jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.

Leita sérstaklega að hæfum körlum
Í ár hlýtur búsetukjarninn í Þverholti 19 jafnréttisviðurkenninguna fyrir að vinna markvisst að því að hafa jöfn kynjahlutföll í starfsmannahópnum.
Það er Hólmfríður Dögg Einarsdóttir sem veitir búsetukjarnanum forstöðu en hún hefur lagt sig sérstaklega fram við að auglýsa eftir og leita að hæfum karlmönnum til starfa. Nú er svo komið að jöfn kynjahlutföll hafa verið í starfsmannahópi búsetukjarnans í Þverholti síðastliðið eitt og hálft ár og því ber að fagna.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja forstöðumenn hjá Mosfellsbæ áfram til góðra verka í tengslum við jafnréttismál.

Einar eldar með börnunum á Reykjakoti

Einar Hreinn matráður ásamt börnum á leikskólanum

Einar Hreinn matráður ásamt börnum á leikskólanum

Stofnanir Mosfellsbæjar taka þátt í heilsueflandi samfélagi.

„Heilsueflandi samfélag er verðugt verkefni fyrir bæjarfélag og gefur ótrúlega mörg tækifæri fyrir íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar,“ segir Ingunn Stefánsdóttir leikskólakennari á Reykjakoti.
„Margt er mjög vel gert í bænum og fróðlegt að heyra af öllu því góða starfi sem fer fram í stofnunum Mosfellsbæjar. Ennfremur er stuðningur og vilji til góðra verka frá stjórnsýslu bæjarins sem er sérlega mikilvægt í allri vinnu. Hér verður aðeins fjallað um fyrsta áhersluþáttinn í verkefninu en það er matur og næring.“

Áhersla á hreint mataræði
„Í leikskólanum Reykjakoti er mikið borðað, talað og hugsað um mat. Matarilmur berst daglega um hverfið og gefur falleg fyrirheit um daglegt brauð og hádegismat. Maturinn er unninn frá grunni úr fersku hráefni og allt sem hægt er keypt í heimabyggð. Mikil áhersla er lögð á hreint mataræði sem eldað er og bakað á staðnum. Þannig verður lítið um aukefni í matnum og öll innihaldsefni eru þekkt.“
Síðustu ár hafa leikskólabörnin notið góðs af visku og færni Jóhönnu B. Magnúsdóttur eða „ömmu náttúru“ við ræktun grænmetis í matjurtagarði skólans og skilar sú vinna sér í sneisafullum beðum af girnilegu grænmeti. Nú er uppskerutími og börnin taka upp grænmetið og borða það hrátt eða færa Einari matráði sem nýtir það í eldhúsi Reykjakots.
„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir börnin og í framhaldi kviknaði hugmynd að nýju þróunarverkefni sem er hafið í skólanum. Verkefnið er unnið í anda Jamie Oliver sem hefur um árabil unnið að breytingum skólamáltíða í Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu.“
Verkefnið kallast Kitchen Garden Project og er ætlað að kenna börnum frá leikskólaaldri um ræktun, matreiðslu og næringu í von um að bæta langtímamatarvenjur þeirra, heilsu og lífsgæði. Einar hefur fengið ráðgjöf frá teymi Jamie Olivers sem og hrós fyrir hversu vel unnið er að matarmenningu barna Reykjakots. Einar fær litla hópa í eldhúsið til sín vikulega þar sem hann kennir börnunum matreiðslu og matarfróðleik í anda Jamie Olivers.

Spennandi verkefni
„Til stuðnings verkefninu er ennfremur litið til fræðimanna sem benda á að börn fæðast ekki með getu til að velja næringarríka fæðu heldur eru matarvenjur lærðar með reynslu og menntun. Því er brýnt að kenna börnum frá unga aldri að hollur matur nærir líkamann og það er skemmtilegt að gera tilraunir í eldhúsinu. Ótrúlega fjölbreytt upplifun getur orðið við matargerð og fá börnin til dæmis að smakka alls konar krydd og grænmeti. Þetta er afar spennandi og verður gaman að fylgja þessu verkefni eftir,“ segir Ingunn Stefánsdóttir.

Kjúklingarnir orðnir að kalkúnum

Þrándur Gíslason er kominn aftur heim eftir tveggja ára útlegð á Akureyri.

Hér má sjá Þránd frelsa geirvörtuna.

Hér má sjá Þránd frelsa geirvörtuna.

Hvernig er að vera kominn aftur í Mosó?
Það er alveg yndislegt, alveg hrikalega gott. Við fjölskyldan erum búin að koma okkur vel fyrir í Kardi­mommubænum í Þverholti, við hliðina á Einari Scheving. Ég er Kasper, Jesper og hann er Jónatan. Svo er Fiddi þarna líka, hann er bæjarfógetinn eða í raun löggan í blokkinni. Það er gott að fíla sig velkominn á ný.

Verður ekki barátta um línustöðuna í vetur?
Jú, það verður samblanda af baráttu og samstöðu. Það er bara jákvætt og allir í góðum fíling. Af því sem ég hef séð og kynnst Einari Andra þjálfara þá er hann mjög flinkur í að finna öllum hlutverk, þannig að ég hef engar áhyggjur.

Ertu hjátrúafullur?
Nei, voða lítið. Mig langaði alltaf að vera með eitthvað spes. En ég er alltaf að skipta um númer og nærbuxur.

Hvernig er stemningin í liðinu?
Stemningin er mjög góð. Við erum búnir að taka nokkra æfingaleiki og erum að koma ferskir úr æfingaferð að norðan.
Kjúklingarnir eru orðnir að kalkúnum, orðnir svaðaleg stykki og mikið hungur í þeim. Rosa gott fyrir allt yngriflokkastarfið að vera með unga og öfluga handboltamenn með hjartað á réttum stað.
Ég hef fulla trú á því að Mosó sé aftur að fara standa undir nafni sem handboltabær. Það er orðið tímabært. Það verður stuð og stemming á pöllunum. Nú mæta allir með hrossabresti og þokulúðra og gera allt vitlaust í íþróttahúsinu í vetur.

Síðasti vetur var skemmtilegur, hvernig verður þessi?
Hann verður góður, nú bætum við bara ennþá meira í. Ágætt að bæta aðeins í þessa reynslu sem vantaði upp á þarna á lokasprettinum í vor.

Hver er besti handboltamaður allra tíma?
Róbert Sighvatsson, hann er legend.

Sérstakt aukablað um meistaraflokk karla í handknattleik fylgdi með Mosfellingi 10. september.
Næsti heimaleikur fer fram að Varmá laugardaginn 19. september kl. 16:00. Afturelding – Akureyri.

Kristín Þorkelsdóttir sýnir í Listasalnum

Mynd af Salóme systur Kristínar og ber titilinn Forseti alþingis.

Mynd af Salóme systur Kristínar og ber titilinn Forseti alþingis.

Þann 18. september kl. 17 opnar sýning á verkum eftir Kristínu Þorkels­dóttur í Listasal Mosfellsbæjar. Á sýningunni sem ber yfirskriftina ÁSÝND samferðafólks á lífsfleyinu er sjónum fyrst og fremst beint að portrettverkum Kristínar. Sýningin spannar allt frá eldri teikningum að nýjum verkum og einnig verða til sýnis skissubækur, dagbækur og vinnuteikningar. Kristín á langan feril að baki bæði sem grafískur hönnuður og sem myndlistarmaður. Eftir Kristínu liggur umfangsmikið safn grafískrar hönnunar og má þar nefna hönnun hennar á íslenskum peningaseðlum og íslenska vegabréfinu. Auk þess hefur Kristín hannað fjöldann allan af vöruumbúðum, bókakápum og merkjum. Hún teiknaði merki Mosfellsbæjar árið 1968, það er tilvísun í sögnina um silfur Egils. Sýningin stendur til 10. október. Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir. Meðfylgjandi mynd er af Salóme systur Kristínar og ber titilinn Forseti alþingis.

Ný heimasíða í loftið

Mynd frá árinu 2005 þegar Hilmar tekur við Mosfellingi og Karl Tómasson stofnandi blaðsins stígur til hliðar.

Mynd frá árinu 2005 þegar Hilmar tekur við keflinu af Karli Tómassyni stofnanda blaðsins.

Bæjarblaðið Mosfellingur er 13 ára í dag, 13. september. Blaðið kemur út á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í öll hús í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjós. Mosfellingur er frítt, frjálst og óháð bæjarblað sem flytur jákvæðar og skemmtilegar fréttir af því helsta í Mosfellsbæ og næsta nágrenni.

Stofnandi blaðsins er Karl  Tómasson og stýrði hann blaðinu fyrstu þrjú árin. Áður hafði Karl unnið að blöðum eins og Mosfellsblaðinu og Sveitunga. Síðastliðin 10 ár hefur  Hilmar Gunnarsson ritstýrt Mosfellingi en hann tók við keflinu á haustdögum 2005.

„Blaðið vex og dafnar með hverju árinu,“ segir Hilmar Gunnarsson. „Skemmtilegast er að fá viðbrögð bæjarbúa sem virðast njóta þess að fá innansveitarfréttirnar beint í æð. Það heldur okkur gangandi sem að blaðinu starfa. Ég er með gott fólk með mér í liði sem á sinn þátt í velgengni blaðsins og ber þar að nefna hjónin Önnu Ólöfu og Ragga Óla sem eru alltaf boðin og búin, Ruth Örnólfs sem sér um drottningarviðtölin og svo er það Inga Vals sem er okkar villupúki.“
„Það er vel við hæfi að opna nýja heimasíðu á þessum fallega degi. Markmiðið er að setja á vefinn helstu fréttir og greinar úr blaðinu þannig að fólk geti deilt með umheiminum. Auðvitað verður pappírsútgáfan áfram númer eitt, tvö og þrjú og er nýjustu blöðunum hægt að fletta hér á síðunni. Með tilkomu Facebook og annarra samfélagsmiðla er æ eftirsóknarverðara að deila fréttum og skemmtilegu efni þannig að þetta er okkar liður í að verða við því.

Að lokum langar mig að þakka Sindra vini mínum fyrir að koma þessari heimasíðu í loftið og vonandi að þið njótið vel,“ segir Hilmar.

Næsti Mosfellingur kemur út fimmtudaginn 1. október og er skilafrestur efnis og auglýsinga til kl. 12 mánudaginn 28. september.
Netfang blaðsins er mosfellingur@mosfellingur.is

 

 

Bylting í þekkingu á CrossFit

Hrönn Svansdóttir. Mynd/Ruth

Hrönn Svansdóttir.
Mynd/Ruth

Hrönn Svansdóttir framkvæmdastjóri CrossFit Reykjavíkur hvetur alla til að mæta hverju augnabliki með jákvæðu hugarfari.

CrossFit Reykjavík var stofnað í árslok 2009 í 27 fm bílskúr í Mosfellsbæ. Mikil bylting hefur orðið í þekkingu á CrossFit á Íslandi og ötulum iðkendum fjölgar stöðugt. Árið 2010 var stöðin því stækkuð og flutt um set.
Framkvæmdastjóri Lesa meira

Hættu

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég hef ekki tíma. Hvað hefur þú oft notað þessa afsökun? Ég hef notað hana alltof oft. En ég er að bæta mig, forgangsraða tíma mínum betur. Til þess að gera hluti sem gefa manni orku, þarf maður að taka aðra hluti út í staðinn. Annars lendir maður í vítahring tímastjórnunar­brjálæðis, svefnleysis og stress. Þegar maður hættir að gera hluti sem draga úr manni kraft og stela frá manni orku, galopnast nýjar gáttir. Gáttir sem maður nýtir í að gera spennandi, skemmtilega og nærandi hluti. Ef þér líður vel í því sem þú ert að gera, lætur þú öðrum í kringum þig líða vel. Og öfugt. En hverju áttu að hætta? Því sem tekur frá þér orku. Sestu niður og gerðu lista. Hættu svo einum hlut í einum og njóttu þess að hafa meiri tíma og orku.

Hér eru nokkrir hlutir sem ég hef hætt að gera. Listinn er alls ekki tæmandi, ég á nóg eftir! Lesa DV.is, kaupa Moggann, fara á óspennandi fótboltaleiki, horfa á fréttir og flesta sjónvarpsþætti, borða of mikið í einu, hafa samviskubit yfir einhverju sem öðrum finnst að ég eigi að gera – en geri ekki, fá tölvupóst og FB skilaboð í símann og mæta á óþarfa fundi. Bara þessi fáu atriði gefa mér 12-14 glænýja klukkutíma á viku sem ég get notað í að gera hluti sem gefa mér orku. Vinnan er oftast nefnd sem orsök þreytu og tímaleysis. Ef þú ert í vinnu sem tekur alla þína orku, hættu. Finndu þér nýja vinnu eða skapaðu þér þína eigin tekjustrauma. Ekki vera þræll. Ég hef hætt í nokkrum vinnum sem tóku meira frá mér en þær gáfu mér. Það krefst trúar á sjálfan sig að taka stökkið, en tilfinningin að taka ábyrgð á eigin tíma, vellíðan og þar með heilsu er yndisleg.
Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. september 2015

Þjóðarsáttmáli um læsi

Sáttmálanum komið fyrir í Íslandslíkani.

Sáttmálanum komið fyrir í Íslandslíkani.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ undirrituðu á dögunum Þjóðarsáttmála um læsi.
Undirritunin, sem fór fram á Gljúfrasteini, skuldbindur ríkið og sveitarfélagið til að vinna að því með öllum tiltækum ráðum að ná settu markmiði um læsi.
Markmiðið er að öll börn sem hafa til þess getu, lesi sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Ráðherra lagði þó áherslu á að það væru áfram skólastjórnendur sem veldu þær aðferðir sem þeim þykja vænlegar til árangurs á hverjum stað.
Á myndinni má sjá fulltrúa Mosfellsbæjar, Kjósarhrepps og Heimilis og skóla ásamt ráðherra og börnum með Íslandslíkan sem varðveitir eintak af agnarsmáum samningi sem hvert sveitarfélag staðfestir vegna sáttmálans.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot af Ingó Veðurguð taka lagið „Gott að lesa“.
Hér er hægt að fylgjast með Mosfellingi á Instagram.

 

Það er gott að lesa. Átak í læsi hrint af stað á Gljúfrasteini í dag.

A video posted by Mosfellingur (@mosfellingur) on

Nýtt bifreiðaverkstæði við Völuteig

Össi við bifreiðaverkstæðið sitt

Össi við bifreiðaverkstæðið sitt

Örn Þórisson Kjærnested opnaði nýverið Bifreiðaverkstæði Össa að Völuteig 27, þar sem hann býður upp á allar almennar bílaviðgerðir.
„Ég opnaði verkstæðið í sumar, þetta fer vel af stað hjá mér og verkefnin og kúnnahópurinn fjölbreyttur og skemmtilegur,“ segir Össi.
„Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla þá varð Borgarholtsskóli fyrir valinu. Ég skráði mig í bifvélavélavirkjun og hef verið með algjöra bíladellu síðan. Þegar ég úrskrifaðist úr Borgó fór ég í framhaldinu í Tækniskólann þar sem ég tók meistarann og útskrifaðist þaðan árið 2010.“
„Ég er búinn að vinna við fagið síðan ég kláraði námið en langaði svo að gera eitthvað nýtt og opna mitt eigið verkstæði. Það er náttúrlega langbest að vera í Mosó og því kom ekkert annað til greina en að finna hentugt húsnæði hér,“ segir Össi og hlær.
Allar frekari upplýsingar um verkstæðið má finna Facebook eða í síma 537-0230.

Fjölnota innkaupapoki á hvert heimili

Bæjarráð hefur samþykkt að verða við erindi Heilsuvinjar Mosfellsbæjar um framleiðslu og dreifingu fjölnota innkaupapoka á öll heimili í Mosfellsbæ. Ákveðið hefur verið að pokunum verði dreift helgina eftir dag íslenskrar náttúru þann 16. september næstkomandi. Með pokunum fara heilsueflandi skilaboð frá Landlæknisembættinu sem Lesa meira

Umhverfisviðurkenningar veittar

Matthildur í Litlikrika 25.

Matthildur í Litlikrika 25.

Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar fyrir árið 2015 voru afhentar við hátíðlega athöfn á bæjarhátíð Mosfellsbæjar „Í túninu heima“ um liðna helgi.

Hjónin Matthildur Elín Björnsdóttir og Karl Þór Baldvinsson hljóta viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel hannaðan garð að Litlakrika 25. Garðinn hafa þau byggt upp frá grunni á skömmum tíma og er umhirða til mikillar fyrirmyndar.

Helgi Ólafsson að Hvammi, Réttarhvoli 15, hlýtur viðurkenningu fyrir einstök ræktunarstörf og góða umhirðu um áratugaskeið. Helgi hefur ræktað stóran og fallegan garð sem státar af fjölbreyttum gróðri sem er sérlega vel við haldið.

Alls bárust um 10 tilnefningar að þessu sinni og sá umhverfisnefnd Mosfellsbæjar um að heimsækja þau svæði sem tilnefnd voru og velja úr tilnefningum.

Leikfélagið heiðrað í annað sinn sem bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Félagar úr Leikfélagi Mosfellssveitar.

Félagar úr Leikfélagi Mosfellssveitar.

Frábært leikár hjá Leikfélagi Mosfellssveitar þar sem Ronja ræningjadóttir sló í gegn.

Leikfélag Mosfellssveitar hefur verið útnefnt sem bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2015.
Leikfélagið hefur verið starfrækt síðan 8. nóvember 1976 og hefur sett svip sinn á menningarlíf í sveitarfélaginu Lesa meira