Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir

mosoanægja

Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 93% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir.
Mosfellsbær er því enn eitt árið með ánægðustu íbúana í samanburði við önnur sveitarfélög og með hæstu einkunn. Þetta kemur fram í árlegri könnun Capacent þar sem mælt var viðhorf til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.

Flestir ánægðir með íþróttaaðstöðu – fæstir við þjónustu við fatlað fólk
Alls eru 83% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 80%. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 77% mjög eða frekar ánægðir.
Niðurstöður sýna að ánægja í Mosfellsbæ er í eða yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum sem spurt er um. Einn af helstu styrkleikum Mosfellsbæjar miðað við önnur sveitarfélög síðustu ár hefur verið ánægja íbúa með skipulagsmál og svo er einnig nú. Þegar spurt er um þjónustu við eldri borgara er ánægja í Mosfellsbæ einnig talsvert yfir landsmeðaltali enda hefur aðbúnaður vegna þeirra þjónustu í Mosfellsbæ verið stórbættur á síðustu misserum.

Vilja gera betur í sorphirðu
Viðhorf til þjónustu í tengslum við sorphirðu versnar marktækt á milli ára og stendur til að skoða það mál sérstaklega, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ. Þar gæti spilað inn í að könnunin var gerð í nóvember og desember en þá eykst þörfin fyrir sorphirðu talsvert ásamt því að veður og færð gera framkvæmd sorphirðunnar erfiðari, sérstaklega á dreifbýlli svæðum sveitarfélagsins. Einnig er eftirspurn eftir því að flokka sorp að aukast og sveitarfélagið hyggst leita leiða til að koma á móts við þá eftirspurn.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist afar ánægður með útkomuna. „Það er gaman að enn eitt árið mælast Mosfellingar með ánægðustu íbúum landsins. Ég er afar stoltur af niðurstöðunni í heild og sérstaklega varðandi þjónustu við eldri borgara.
Hins vegar leggjum við metnað okkar í að viðhalda ánægju íbúa í öllum málaflokkum og ég hef sérstakan áhuga á að skoða viðhorf fólks varðandi þjónustu við barnafjölskyldur. Í Mosfellsbæ býr mikið af ungu fjölskyldufólki og við leggjum mikla áherslu á að veita þeim hópi framúrskarandi þjónustu hvort sem það snýr að leikskóla eða skólamálum, íþróttum eða tómstundum.“
Heildarúrtak í könnuninni er yfir 12 þúsund manns og þar af fengust svör frá 316 einstaklingum úr Mosfellsbæ.

Niðurstöður könnunarinnar í heild sinni er hægt að kynna sér á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.